06. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Að gera það sem maður kann ekki - er grunnurinn að starfi rithöfundarins og grænlensku heilbrigðiskerfi, segir skáldið og hjúkrunarfræðingurinn Kim Leine

Skáld eiga að vera idjót. Hlutverk þeirra er að spyrja spurninga, ekki svara þeim. Ef maður á svör við öllu er betra að gerast heimspekingur eða prófessor, segir dansk-norska skáldið Kim Leine sem sótti Ísland heim í byrjun maí og ræddi um líf sitt og starf, ekki síst bækurnar sex sem hann hefur gefið út. Áhugamenn um bókmenntir þekkja eflaust best skáldsöguna Spámennirnir í Botnleysufirði sem kom út árið 2012 og aflaði höfundi sínum bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið eftir. Tilvitnunin hér að ofan vísar hins vegar til fyrstu bókar Leine. Hún kom út fyrir réttum áratug og nefnist Kalak.


                
               Tveir góðir sagnamenn: Kim Leine ásamt útgefanda sínum Bjarna Harðarsyni í Norræna húsinu.


Blaðamaður Læknablaðsins hitti Leine skömmu áður en hann tróð upp í Norræna húsinu í byrjun maí og spurði hann út í það hvort draumur hans um að verða kalak hefði ræst.

– Þú segist á einum stað hafa reynt að verða kalak og þeir hafa aldrei neitt plan B.

– Nei, plan B er bara fyrir tapara!

– Tókst þér að verða kalak?

Nei, ekki alveg. Fyrst eftir að ég kom til Grænlands reyndi ég að tileinka mér siði innfæddra og þegar ég var á ferli innan um þá var stundum hrópað á eftir mér: kalak! Ég fór heim og fletti þessu upp í orðabók þar sem stóð að kalak þýddi ekta Grænlendingur. Vá, mér tókst að breyta sjálfsmyndinni, hugsaði ég. En svo rann upp fyrir mér að það sem stóð í orðabók útgefinni árið 1960 þýddi ekki endilega það sama á grænlensku götumáli hálfri öld síðar. Þegar ég kannaði málið betur fann ég út að kalak þýddi á nútímagrænlensku erkifífl eða bölvaður kjáni! Ég var sem sagt orðinn idjót og það er ég enn. Nú er ég nefnilega orðinn rithöfundur og þeir verða að vera idjót. Þeir vakna á hverjum degi til þess að gera það sem þeir kunna ekki. En þeir þurfa líka kjark til að spyrja spurninga. Það þurfti Grænlendinga til þess að benda mér á þetta, segir hann.

                                                                
                                                 Kápan af Spámönnunum, bókin er komin í kiljubrot.

Fimmtán ár á Grænlandi

Þeir sem hafa lesið Spámennina í Botnleysufirði og Kalak finnst eflaust ýmislegt kunnuglegt við aðalpersónuna í fyrrnefndu bókinni, prestinn Morten Falck. Hann elst upp í norsku smáþorpi og fer ungur í nám til Kaupmannahafnar. Þaðan fer hann svo til Grænlands og lendir þar í ýmsum hremmingum en endar svo aftur í Noregi. Þetta er nefnilega lífshlaup Kim Leine í grófum dráttum áður en rithöfundaferillinn hófst. Munurinn er aðallega sá að Leine lærði hjúkrun og ætlaði aldrei að verða trúboði. En er hann Dani eða Norðmaður?

Ég er danskur ríkisborgari, fæddur og uppalinn í Noregi. Mér finnst ég vera jafnmikill Norðmaður og Dani, ég skrifa á dönsku og þýði á norsku, segir hann.

Kalak er sjálfsævisöguleg bók og segir frá uppvexti drengsins í norsku smáþorpi. Móðir hans er norsk og fjölskyldan tilheyrir söfnuði Votta Jehóva. Faðirinn er danskur og er eflaust að einhverju leyti að flýja þau örlög sín að faðir hans, afi Kims, var dæmdur morðingi, myrti eljara sinn árið 1938. Um þann glæp er fjallað í annarri bók Kims, Valdemarsdag. En þegar Kim er enn á barnsaldri skilja foreldrar hans og faðir hans flytur heim til Danmerkur. Þegar Kim er kominn á unglingsaldur gefst hann upp á að selja Herópið og eltir föður sinn til Kaupmannahafnar, brýst út úr tvöfaldri einangrun eins og hann segir. Þá kemst hann að því að faðir hans er kominn út úr skápnum og býr með karlmanni. Og það sem verra er: Kim verður fyrir kynferðislegri misnotkun föðurins.

Kim lýkur prófi í hjúkrun, hefur sambúð með konu og saman flytja þau ásamt börnum sínum tveimur til Grænlands. Þar fer Kim að starfa á sjúkrahúsinu í Nuuk og reynir að falla inn í líf innfæddra. Nokkrum árum síðar flytur fjölskyldan svo á austurströnd Grænlands þar sem Kim starfar fyrst í smáþorpum sem eru svo mörg í Grænlandi en síðustu árin þar í landi býr fjölskyldan hins vegar í Tasiil-aq sem Íslendingar þekkja betur sem Angmassalik því þangað hefur Flugfélag Íslands lengi flogið með ferðamenn. Í þessum 2000 manna smábæ nær fortíðin smám saman að elta Kim uppi, hann fer að seilast í lyfjaskápinn og verður á endanum forfallinn fíkill, missir hjúkrunarréttindin og flýr til Noregs.

 

Þögnin og misnotkunin eru hjón

Eftir fyrstu bækurnar tvær segist Kim hafa verið orðinn leiður á sjálfum sér og ákvað að skrifa hreinan skáldskap.

Morten Falck er algerlega skálduð persóna. Hann er ekkert líkur mér en vandamálin – demónarnir sem ásækja hann eru að sumu leyti áþekk mínum. Ég nennti ekki að lýsa sjálfum mér enn einn ganginn heldur vildi búa til hreina skáldsagnapersónu. Það veitir mér aukið frelsi.

Fyrsta bókin kom út þegar Leine var 45 ára en það var ekki sú fyrsta sem hann skrifaði.

Ég skrifaði þrjár bækur sem ekki fengust útgefnar, þær voru ekki nógu góðar. Mig dreymdi lengi að verða rithöfundur en skorti alla menntun í það. Ég er menntaður hjúkrunarfræðingur og hef aldrei lært að vera rithöfundur. Það vantaði líka einhverja innri nauðsyn til að verða rithöfundur. Hún varð ekki til fyrr en ég var búinn að vera á Grænlandi og lenda þar í krísu með lyfjamisnotkun og fleiru. Þá nauðsyn hef ég reynt að rækta með mér og nýta við að skrifa skáldverk. Hún byggist á sársauka, því sem maður skammast sín fyrir og vill halda leyndu. Óttist maður að eitthvað fréttist er best að básúna því út yfir allan heiminn.

Þú skrifar um slíka upplifun í Kalak, var það ekki erfitt?

Nei, þvert á móti fylgdi því léttir því þögn og misnotkun eru hamingjusöm hjón. Ef þú rýfur þögnina hverfur misnotkunin líka. Hún lifir það ekki af að um hana sé rætt. Þögnin og misnotkunin eru gjarnan samansúrraðar og erfitt að losa um hnútana, en þegar það tekst fylgir því mikill léttir. Það getur hins vegar verið erfitt að komast á þann stað að geta það.

Þetta er þó ekki þannig að maður standi og hrópi yfir mannfjöldann. Maður situr einn við sína tölvu og skrifar og það er ekki svo erfitt.

Þegar ég var búinn sýndi ég fyrrverandi eiginkonu minni bókina, barnsmóður minni sem fór með mér til Grænlands. Hún las hana og sagði: Þetta er góð bók, þú átt að gefa hana út. Ég sýndi hana líka börnunum mínum. Svo fór hún í hendur forlagsins. Það var svo ekki fyrr en bókin var komin út sem ég þurfti að horfast í augu við fullt af fólki og ræða við það. Það kemst þó upp í vana.

 

Leiftrandi frásagnargleði

Þótt Kim geri góðlátlegt grín að kunnáttuleysi sínu fer enginn í grafgötur um að hann kann vel til verka. Stíllinn er áhrifamikill og frásagnargleðin heldur lesandanum föstum.

Já, ég elska góðar sögur og frásagnarhefðin er líka mjög sterk á Norðurlöndum. Það sem ég hugsa fyrst og fremst um er að sagan virki. Ég hef enga meðvitaða stefnu, hvorki pólitíska né bókmenntalega. Ég reyni að virkja frásagnargleðina og nauðsynina. Túlkunin kemur ekki til sögunnar fyrr en maður ferðast um og lætur taka við sig viðtöl. Þá reynir maður að rekja þræðina til baka: Hver var eiginlega meiningin með þessu? Það er ekki ljóst meðan maður er að skrifa, þá þarf sagan bara að fljóta fram sem eðlilegt sagnastreymi. Nái maður því felur sagan í sér einhvern sannleik, en hann getur maður fundið eftir á eins og lesandinn þarf að gera. Hann finnur kannski alls kyns sannindi í sögunni sem ekki hvörfluðu að mér þegar ég var að skrifa og sem ég ekki endilega sammála. En þegar lesandinn er komin með bókina í hendur er hún hans. Hún er ekki mín lengur. Lesandinn á sinn eigin sannleika og ég á ekki höfundarrétt á honum.

Krafturinn í veruleikanum á sér engan líka. Finni maður brot af veruleika og getur notað það er það mjög öflugt. Það snýst um að horfa á heiminn og hlusta á fólk og færa það inn í fagurbókmenntirnar í stað þess bara að finna upp á einhverju. Það virkar alltaf óekta, samansett. Það er meiri sannleiki í veruleikanum en í hausnum á mér. Málið er að hafa augun og eyrun opin fyrir honum. Aha, þetta get ég notað í bókina mína. Við það verður sagan trúverðugri, hún snertir fólk miklu frekar en eitthvað sem ég set saman í hausnum á mér, segir Kim.

 

Hefðin og blygðunin

Í Kalak kemur fram stéttamunur á spítalanum í Nuuk: dönsk menntuð yfirstétt og ómenntuð innfædd lágstétt.

Ég fór til Grænlands til þess að breyta sjálfsmyndinni. Ég tók til mín sjálfsmynd Grænlendinga, kynntist þeim, lærði að tala málið þeirra og borða matinn þeirra. Liður í því var að setjast við borðin í matsalnum þar sem Grænlendingarnir sátu. Þeim leist ekki alveg á mig og vildu hafa mig á réttum stað en ég leit á þetta sem lið í því að breyta sjálfsmynd minni og sýna þeim samstöðu. Mér leist ekkert á þennan aðskilnað. Danir og Grænlendingar umgengust ekki mikið og Danir lærðu ekki málið, báru það litla sem þeir notuðu vitlaust fram. Til dæmis kvenmannsnafn sem rétt fram borið merkir einfaldlega kona en varð í munni Dana að saur eða hægðum. Þeim var sagt þetta hvað eftir annað en þeim var alveg sama. Það er ekki af því þetta séu vondar manneskjur heldur er hefðin svo sterk og samkvæmt henni eru Grænlendingar með lægri stöðu en Danir hærri stöðu. Við þetta bætist einhver blygðun eða sektarkennd sem segir þeim að láta Grænlendingana í friði. Við skulum bara hafa þennan huggulega danska klúbb hérna megin í matsalnum. Það eru fordómar á báða bóga.

Samband á milli Íslendinga og Grænlendinga er ekki mikið, en myndin sem við fáum af grænlensku samfélagi er að þar ríki töluverð harka og grimmd, sjálfsvíg, morð og ofbeldi útbreitt og drykkjuskapur mikill.

Já, danska pressan hefur lagt sitt af mörkum til þess að móta þessa mynd af Grænlendingum. Vissulega eru félagsleg vandamál veruleg á Grænlandi, en rétt að hafa í huga að áfengisneysla á mann er minni á Grænlandi en í Danmörku. Drykkjumynstur Grænlendinga er hins vegar opinskárra. Þeir fara í vínbúðina og standa svo gjarnan fyrir utan hana og drekka áfengið sem þeir voru að kaupa. Þeir eru sýnilegir en læðast ekki heim með flöskuna og drekka hana fyrir framan sjónvarpið. Grænlendingar hafa ekki neina sektarkennd yfir því að drekka í allra augsýn. Þeir drekka minna en Danir en á óhollari hátt. Þetta má þó sjá víðar eins og í Norður-Noregi, segir Kim og blaðamanni verður hugsað aftur fyrir daga bjórþambsins hér á landi.

Þetta skapar vissulega ýmsan vanda, heldur Kim áfram. – Sifjaspell og ofbeldi er algengara á Grænlandi en í Danmörku en munurinn er alls ekki jafnmikill og ætla má af umfjöllun fjölmiðla. Þar er næstum ekkert fjallað um daglegt líf á Grænlandi nema um sé að ræða félagsleg vandamál svo þau verða margfalt umfangsmeiri í augum Dana en raunin er. Myndin af venjulegum Grænlendingi er því af drukknum manni þambandi af stút úti á götu en Danir sjá aldrei venjulegt fólk sem ýtir á undan sér barnavagni og er bláedrú. Á þessu eru Grænlendingar orðnir þreyttir og ég skil þá vel. Ég verð þó að játa á mig sök á að taka þátt í þessu. Þeir sem skrifa fagurbókmenntir eru oftast nær uppteknir af öfgunum en sýna þessu venjulega lífi sem fjöldinn lifir lítinn áhuga. Í síðustu bók minni, De søvnløse, reyndi ég að beina athyglinni að þessu venjulega lífi því þar er enginn verulega fullur og enginn drepur neinn eða sefur hjá.

 

Ómenntað fólk að störfum

Í þeirri bók segirðu frá atburðum á héraðssjúkrahúsi í bænum Tasiilaq á Austur--Grænlandi. Hér á Íslandi vefst það fyrir okkur að halda uppi nútímalegri heilbrigðisþjónustu í dreifbýlinu, en hvernig gengur það á Grænlandi?

Það hvílir á þeirri staðreynd að fólk sinnir hlutum sem það hefur ekki menntun til að sinna. Í litlu þorpunum prísa menn sig sæla ef þeir ná að ráða hjúkrunarfræðing. Ef það tekst, þarf hún eða hann einnig að sinna störfum læknis og tannlæknis, dýralæknis og geðlæknis, að ógleymdri félagsþjónustu. Þessi staða er þó ekki uppi í mörgum þorpum. Oftar er eini heilbrigðisstarfsmaðurinn umsjónarmaður lyfjadreifingar og hefur enga menntun. Á stöku stað hafa menn ljósmóður eða sjúkraliða. Þetta fólk hefur litla sem enga heilbrigðismenntun en býr þó yfir reynslu og þekkir vel til á stöðunum.

Að sjálfsögðu virkar þetta kerfi ekki vel. Margir verða veikir að nauðsynjalausu af því það er enginn læknir eða annar með sérþekkingu í kallfæri. Þegar fólk fær sjúkdóma sem krefjast sérhæfðrar meðferðar er lausnin oft sú að senda það til Reykjavíkur eða Kaupmannahafnar, í einhverjum tilvikum til Nuuk þar sem meðferðarúrræðum fer fjölgandi.

Í De søvnløse á ein aðalpersónan krabbameinssjúka eiginkonu sem er svo heppin að njóta læknisþjónustu í bænum Tasiilaq. En þannig er það ekki í litlu þorpunum, þar er enginn læknir, ekkert röntgen eða neitt annað sem þarf. Þess vegna deyja margir vegna þess að þeir fá ekki þá hjálp sem þeir þarfnast í tíma. Þessu varð ég oft vitni að í mínu starfi. Þessar ferðir til Reykjavíkur eða Kaupmannahafnar eru dýrar og krefjast þess að sjúklingnum fylgi læknir eða hjúkrunarfræðingur. Ég hef sjálfur tekið þátt í slíkum ferðum og upplifað að þær voru of langar og erfiðar fyrir sjúklinga sem dóu áður en þeir komust í meðferð.

Grænlendingar eru kannski vanir þessu, en gera þeir ekki kröfur um betri þjónustu?

Jú, þeir vilja vissulega betri þjónustu, en sérstaklega í litlu þorpunum er það útbreitt viðhorf að menn kvarta ekki heldur taka því með þakklæti sem þó er gert. Fara heim með panódíl og þakka fyrir, engin beiskja. En pillurnar duga skammt og eftir viku eru þeir komnir aftur því verkirnir hafa ekkert lagast. Þá fá þeir fleiri pillur og þannig líða vikur og mánuðir og allt í einu er orðið of seint að bregðast við.

Að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á viðhorf fólks. Mér fannst forlagahyggja mjög útbreidd meðal þeirra sem bjuggu í litlu þorpunum: Það þýðir ekkert að fást um þetta, svona er lífið bara! Loftslagið og veðrið hefur líka áhrif á þetta því oft háttar þannig til að það er ekki hægt að ferðast neitt vegna veðurs, jafnvel vikum saman. Þá er ekki gott að verða veikur eða lenda í fótbroti. Þetta þurftum við Danirnir líka að venja okkur við svo maður varð sjálfur dálítið forlagatrúar við að dvelja þarna.

Í Spámönnunum fá margir skyrbjúg sem einnig herjaði á Íslendinga og aðrar norðlægar þjóðir. Er hann ekki löngu liðin tíð?

Jú, og Grænlendingar voru að heita má lausir við hann. Þeir borðuðu meðal annars hrátt kjöt og selspik sem inniheldur c-vítamín sem hverfur við suðu. Svo átu þeir rabarbara, þang og fleiri jurtir og fengu þannig nóg af c-vítamíni. Það gerðu Danir hins vegar ekki, þeir átu danskan mat en án grænmetis og fengu margir skyrbjúg.

Lungnasjúkdómar eru hins vegar útbreiddir á Grænlandi og stafa af lélegu húsnæði. Helsta ástæða þess er að margir búa í húsnæði sem það hefur byggt sjálft. Ríkið veitir fólki stuðning til að koma sér upp húsnæði og sendir því ókeypis byggingarefni. Fólk fær sendan gám með byggingarefni og eins og gengur eru sumir góðir smiðir en aðrir ekki. Þess vegna búa margir í húsum sem halda hvorki vatni né vindi og eru full af sagga. Þess vegna eru lungnasjúkdómar og aðrir smitsjúkdómar svo útbreiddir sem raun ber vitni.

Við þetta bætist veðráttan sem oft er slæm. Í Nuuk er oft langvarandi þoka, stormar og rigningar en veðrið er allt öðruvísi á austurströndinni. Þar getur sumarið verið mjög gott með sólskin og stillur í fjóra mánuði, hitinn 10-15 gráður. En á veturna og fram á vor eru þrálátir stormar og mikil úrkoma, hitinn sveiflast í kringum frostmarkið sem veldur miklu álagi á húsin og bætir ekki úr skák þar sem illa er byggt.

 

Fleiri Spámenn væntanlegir

Ertu með eitthvað í gangi núna?

Já, ég er að skrifa framhaldið af Spámönnunum. Það verður þríleikur. Annað bindi verður þykkara en það fyrsta (sem er 500 síður) og þar er sögusviðið 60 árum fyrr en í því fyrsta. Árið 1728 var nýlendan Góðvon (Godthåb) stofnuð af trúboðanum Hans Egede. Dönum tókst að skapa algjört öngþveiti með aðgerðum sínum. Til dæmis tóku þeir 12 karlmenn úr Brimarhólmi og jafnmargar vændiskonur úr Spunahúsinu og gáfu þau saman í hjónaband. Það var dregið um það hver ætti að giftast hverjum. Svo voru þau sett um borð í Grænlandsfar og áttu að stofna danska nýlendu! Að sjálfsögðu gekk það ekki og innan við hálfu ári síðar lifðu bara tveir úr þessum hópi. Hans Egede er aðalpersónan í þessu bindi og við fylgjum honum fram til 1734 þegar hann flytur aftur til Danmerkur, sagði Kim Leine og það er ljóst að unnendur þessa dansk-norska skálds eiga á góðu von.Þetta vefsvæði byggir á Eplica