05. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Embætti landlæknis 18. pistill. Milliverkanir og frábendingar lyfja

Útilokað er að læknar geti munað allar milliverkanir og frábendingar lyfja nema hugsanlega fyrir örfá lyf sem þeir ávísa að staðaldri. Þar að auki geta fæðubótarefni og vissar matvörur milliverkað við lyf og áfengi milliverkar vissulega við fjölda lyfja. Ef leitarorðin „drug interactions“ eru slegin inn í Google Scholar koma upp 1,6 milljónir vefsíðna þannig að úr vöndu er að ráða. Einfaldast er oftast að fletta þessu upp í Sérlyfjaskrá þar sem allt það helsta er að finna en einnig eru á netinu sérhæfðar síður og hjálpartæki; sjá til dæmis http://www.medicinkombination.dk/

Frábendingar eru tvenns konar, algerar og afstæðar en langflestar eru afstæðar. Milliverkanir eru tvenns eðlis, áhrif á lyfjahvörf eða lyfhrif. Þegar um er að ræða fjöllyfjanotkun geta milliverkanir skapað verulega hættu fyrir sjúklinginn eða hindrað að tilætlaður árangur náist af meðferðinni. Til að tryggja hámarksöryggi fyrir sjúklinginn verður að gefa sér tíma til að kanna hugsanlegar frábendingar og milliverkanir hverju sinni. Hér eru dæmi.

Örvandi lyf

Lyfin sem hér um ræðir eru aðallega metýlfenídat og amfetamín. Þessi lyf hækka blóðþrýsting og auka hjartsláttartíðni sem stundum getur skapað hættu. Samtímis meðferð með MAO-hemlum geta þau valdið háþrýstingskreppu og ber að forðast slíkar lyfjablöndur. Almennt séð þarf að gæta sérstakrar varúðar við meðferð með örvandi lyfjum hjá sjúklingum með hjarta- og æðasjúkdóma. Sama gildir um sjúklinga með geðsjúkdóma eins og geðrof, oflæti, geðhvörf, kvíða og fleira. Helst ætti ekki að gefa sjúklingum með fíkn eða fíknisögu örvandi lyf en ef það er talið nauðsynlegt þurfa þeir að vera undir sérstöku eftirliti.

Metýlfenídat getur hamlað umbrotum kúmarínsegavarnalyfja sem getur leitt til blæðinga. Lyfið getur sennilega líka hamlað umbrotum flogaveikilyfja og þunglyndislyfja. Lyf með slævandi verkun eins og svefnlyf, róandi lyf, kvíðastillandi lyf og ópíóíðar draga úr verkunum örvandi lyfja og örvandi lyf geta valdið svefntruflunum og kvíða sem aftur kallar á lyf með slævandi verkun; örvandi lyf og slævandi ætti þess vegna helst ekki að gefa saman. Ef sjúklingur á örvandi lyfi á erfitt með svefn er oft besta leiðin að minnka skammta eða gefa lyfið fyrr að deginum.

Áfengi getur aukið hættu á aukaverkunum og sjúklingar á örvandi lyfjum ættu að forðast áfengi. Talsverður fjöldi einstaklinga er að fá ávísað ýmsum lyfjum sem milliverka við örvandi lyf, sjá töflu I.

Tafla I. Fjöldi einstaklinga sem fékk örvandi lyf og önnur tiltekin lyf í marsmánuði 2017.

  svefn- og róandi lyf róandi og kvíða­stillandi
ópíóíðar

pregabalín
samtals á örvandi lyfjum
örvandi   lyf         468            303   208       47           4114


Eins og taflan sýnir fengu yfir 10% þeirra sem voru á örvandi lyfjum jafnfram svefn- og róandi lyf en samhliða notkun þessara lyfja er óheppileg.

Sterk verkjalyf (ópíóíðar)

Ópíóíðar koma við sögu í stórum hluta lyfjadauðsfalla hér á landi eins og í nágrannalöndunum. Í mörgum þessara dauðsfalla koma einnig við sögu áfengi, svefnlyf og róandi lyf. Ein hættulegasta aukaverkun ópíóíða er öndunarbæling og svefnlyf og róandi lyf auka þá hættu og áfengi eykur verkanir ópíóíða, svefnlyfja og róandi lyfja. Þess vegna má segja að þessi blanda, það er ópíóíðar, svefnlyf, róandi lyf og áfengi sé einhver hættulegasta blanda lyfja og áfengis sem um getur. Forðast ber að gefa þessi lyf saman og vara ætti sjúklinga sem taka stóra lyfjaskammta við áfengi.
Hugtakið ópíóíðar nær til allra lyfja sem tengjast sömu viðtökum og morfín og öll þessi lyf hafa svipaðar verkanir og aukaverkanir. Því er enginn teljandi munur á þessum lyfjum að því er varðar hætturnar sem hér hafa verið raktar. Rétt er samt að nefna að munur er á verkunarlengd mismunandi ópíóíða sem getur þurft að taka tillit til; til dæmis þarf að gefa oftar lyf með stuttan verkunartíma sem getur flýtt fyrir myndun þols og fíknar. Stundum vill gleymast að lyf eins og kódein, tramadól og oxýkódon eru eins og hverjir aðrir ópíóíðar með svipaðar aukaverkanir. Almennt er talið óæskilegt að sami einstaklingur taki mismunandi ópíóíða á sama tíma.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica