05. tbl. 103. árg. 2017
Umræða og fréttir
Betra kandídatsár með nýrri reglugerð - segir Inga Sif Ólafsdóttir lungnalæknir og kennslustjóri kandídata á Landspítala
Enginn verður óbarinn biskup er oft sagt og það á við um fleiri stéttir en þá geistlegu. Þótt beinar líkamsmeiðingar séu kannski ekki lengur á námskrám gildir það um lækna að nám þeirra er bæði langt og strangt. Eftir 6 ára almennt læknanám tekur við eins árs starfsnám – kandídatsár er það kallað – og að því loknu hlýtur viðkomandi almennt lækningaleyfi. Þá er sérnámið eftir og það tekur mismörg ár, en sjaldan færri en fimm, oft talsvert fleiri.
En hvers vegna er verið að telja upp þessa sjálfsögðu hluti sem allir lesendur blaðsins þekkja út í þaula? Jú, það er gert vegna þess að eftir almennt læknanám er framhaldið komið undir eigi færri en þremur nefndum sem skipaðar eru af opinberum aðilum. Í nýrri reglugerð frá 2015 voru þessar nefndir skilgreindar og síðan hafa þær verið að endurskipuleggja og yfirfara þetta nám. Læknablaðið ætlar að kynna starf þeirra í þessu tölublaði og tveim næstu og við byrjum á byrjuninni.
Inga Sif gerir allt til reiðu fyrir læknakandídata og leggur þeim lífsreglurnar.
Kennum þeim að vera læknar
Inga Sif Ólafsdóttir lungnalæknir er formaður þeirrar nefndar sem heldur utan um starfsnám læknakandídata. Í spjalli við Læknablaðið sagði hún að nefndin hefði verið skipuð sumarið 2015 en þá hefði verið búið að ganga frá öllu varðandi starfsnám kandídata á komandi vetri. Nefndarmenn hófust þá handa við að undirbúa kandídatsárið 2016-2017 samkvæmt tilmælum reglugerðarinnar.
Reglugerðin lagði okkur í fyrsta lagi til það verkefni að búa til nýja marklýsingu fyrir starfsnámið. Við á Landspítala kynntum okkur hvernig farið er að í löndunum í kringum okkur og ákváðum að taka marklýsingu frá Bretlandi til fyrirmyndar. Við völdum hana frekar en norrænar marklýsingar vegna þess að okkur fannst hún nær þeim hugmyndum sem við höfðum um námið. Marklýsing okkar leggur áherslu á að kenna kandidötunum að starfa sem læknar, hefur fagmennsku og öryggi sjúklingsins að leiðarljósi og er með vel skilgreindar hæfnikröfur og lokamarkmið. Áherslan er á að læknirinn starfi með öðrum fagstéttum og eigi góð samskipti við sjúklingana, jafnframt því að kenna honum það sem þarf til að sinna daglegum læknastörfum, segir Inga Sif. Nefndin lagði til að þessi marklýsing gilti á landsvísu og heimilislæknar skrifuðu sérkafla. Reynir Tómas Geirsson aðstoðaði Ingu Sif við þýðingu marklýsingarinnar og var þetta fyrsta marklýsingin sem mats- og hæfisnefnd samþykkti.
Í öðru lagi felur reglugerðin nefndinni að skipuleggja starfsnámið sem „námsblokkakerfi í eitt ár í senn frá 15. júní ár hvert“ eins og þar segir. Hún á að auglýsa stöður námslækna og stýra ráðningarferli kandídatanna í samvinnu við þær heilbrigðisstofnanir sem viðurkenndar eru til að veita starfsnám. Nefndin hefur gert það sem henni er falið í reglugerðinni og ýmislegt fleira sem ekki er kveðið á um þar.
Mikil breyting frá fyrri tíð
Breytingin á starfsnáminu er mjög mikil. Þegar við komum að verki var ekkert sameiginlegt skipulag á milli stofnanna þegar kom að kandídatsárinu. Hver stofnun skipulagði námið hjá sér svo kandídatinn varð að púsla náminu saman sjálfur ef hann var á fleiri en einum stað. Það var heldur engin marklýsing til sem heitið gat, engar skilgreindar hæfniskröfur og matsblöð fá og ekki samræmd. Kerfið sem við höfum komið á er miklu heildstæðara og betra fyrir kandídatinn. Það er mikilvægt því þarna eiga í hlut ungir læknar sem við þurfum að hjálpa svo fyrstu skrefin í starfi verði jákvæð, segir Inga Sif.
Reglurnar kveða á um að klínískt starfsnám séu 12 mánuðir sem skiptast þannig: fjórir mánuðir á lyflækningadeild, tveir mánuðir á skurðdeild eða bráðamóttöku, fjórir mánuðir á heilsugæslu og tveggja mánaða klínísk vinna til viðbótar, má vera á fyrri deild eða einhverri annarri sem samþykktar hafa verið af mats- og hæfisnefnd.
Við ákváðum að koma á kynningardögum fyrir verðandi kandídata sem standa yfir í fjóra daga, heldur Inga Sif áfram. – Fyrsta daginn eru allir saman og það er farið í gegnum marklýsinguna og hvers er krafist af kandídatinum. Svo er fjallað um atvikaskráningar, stigun sjúklinga og forgangsröðun, erindi frá Félagi almennra lækna, kynning á Heilsugáttinni, Hreyfiseðlinum og Hvað er heilbrigt starfsumhverfi. Við látum þau ræða sín á milli í minni hópum um hvernig sé rétt að bregðast við óviðeigandi hegðun kandídats, ef það koma upp veikindi eða fíknivandamál hjá kandídat, ef tímastjórnun og mæting er í ólagi og hvert maður á að snúa sér ef það kemur kvörtun frá sjúklingi.
Annar dagurinn er skipulagður af heilsugæslunni og þá er rætt um hvað er að vera heilbrigður, áverkaskoðun, sýklalyfjaval, vottorðagerð, samtal við erfiða sjúklinginn, aukaverkanir lyfja og tilkynningar til Lyfjastofnanir.
Þriðja daginn er hluti hópsins hálfan daginn í tölvuveri og kynnir sér það fræðsluefni sem nefndin hefur útbúið og rafrænu kerfin sem þau þurfa að nota: Sögu, Heilsugáttina, Tímalínuna, Therapy, Vinnustundina og fleira. Þau kynna sér sýkingarvarnir, hvað er góður handþvottur, hvernig á að bregðast við einangrun og þess háttar.
Lokadaginn eru þau með nýbyrjuðum hjúkrunarfræðingum og stunda með þeim ýmsar stöðvaþjálfanir og æfingar. Þar er hermikennsla, SBAR-samskiptaleiðin er kynnt, vinnubrögð GÁT-teymisins á Landspítala, STREYMA stofugangur, sem og inngrip á borð við blóðprufur og blóðræktun, blóðgös, erfið þvagleggsuppsetning, ísetning á magassondu, uppsetning á æðaleggjum, örugga lyfjaávísun og fleira. Þarna hefst strax þverfaglegt samstarf með hjúkrunarfræðingum.
Fræðslufundir og rafræn skráning
Auk þessara kynningardaga skipuleggur menntadeild Landspítalans fræðslufundi sem haldnir eru vikulega meðan á kandídatsárinu stendur. Það er sent út í fjarvarpi svo það geta allir fylgst með því, hvar sem þeir eru í námi. Þessir fundir eru á vinnutíma, oftast hálfur annar tími í lok vinnudags, og þeim er skylt að taka þátt í að minnsta kosti 10 fundum sem eru í boði á námstímanum. Þá hefur nefndin einnig sett saman vinnuskjal um kandídat í vanda og hvernig á að hjálpa honum, segir Inga Sif.
Þegar blaðamaður spyr hvort hún sé ánægð með árangurinn af starfi nefnd-arinnar svarar hún því játandi.
Við erum komin með gott kandídatsár og það hefur batnað með tilkomu reglugerðarinnar og nefndarinnar sem heldur utan um það. Það eru miklir eldhugar með mér í nefndinni sem hafa unnið ötullega að úrbótum á kandídatsárinu. Ég er ánægð með það sem við erum búin að gera en auðvitað má alltaf bæta allt. Kandídatarnir tala um það í viðtölum að árið sé vel skipulagt. Svona nám verður aldrei fullmótað. Núna þurfum við að innleiða marklýsinguna betur í daglega vinnu kandídatanna. Í júní tökum við upp rafrænt skráningarkerfi sem mun gera okkur kleift að tengja matsblöðin við marklýsinguna sem vafalaust verður framfaraskref.
Í dag geta kandídatar verið að starfa á fjórum til 6 starfsstöðum á kandídatsárinu og þá getur verið erfitt að hafa yfirsýn yfir hvað þau eru að sýsla. Við erum að taka í gagnið skráningarkerfi sem nefnist ePortFolio, til að fylgjast með framgangi. Þar verða öll matsblöð færð inn og aðgengileg fyrir handleiðara.
Ef það koma upp vafamál sem varða hæfi kandídatanna á framkvæmdastjóri lækninga að koma með tillögur að úrlausnum en það er hann sem vottar að kandídat hafi lokið starfsnámi á fullnægjandi hátt á þeirri starfsstöð. Ef upp koma vafaatriði tekur nefndin afstöðu til þess. Að öðru leyti eru það kennslustjórarnir á starfsstöðvunum og handleiðarar kandídatanna sem og þeir sérfræðingar sem kandídatar vinna með sem hafa afskipti af þeim frá degi til dags. Á Landspítala eru tekin starfsmannaviðtöl við þau þegar árið er hálfnað og svo hitta þau handleiðara reglulega allt árið.
Kynnisferðir til útlanda
Starfsnámið er töluvert að umfangi því 60-90 kandídatar stunda nám á hverjum tíma. Inga Sif segir að þeim kunni að fjölga þar sem margir íslenskir læknanemar eru í námi erlendis. Okkur í nefndinni um kandídatsárið þykir fengur að fá þessa læknanema til Íslands á kandídatsár og fór hluti nefndarinnar eins og greint var frá í júníblaði Læknablaðsins í fyrra til Debrechen í Ungverjalandi. Við stefnum á að fara á næsta ári aftur til Debrechen en einnig til Martin í Slóvakíu en á báðum þessum stöðum eru íslenskir læknanemar við nám.
Ég held líka kynningarfundi bæði í janúar og í ágúst á hverju ári fyrir þá læknanema sem eru í verknámi hér á Íslandi. Við erum með flott kandídatsár og reynslan sem þau fá er ómetanleg fyrir unga lækna sem eru að stíga sín fyrstu spor. Þarna er hópur sem þarf að vita að við viljum fá þau á kandídatsárið, þau eru framtíðarstarfskraftar fyrir Ísland og við þurfum að sinna þeim til jafns við aðra. Við urðum þess líka vör að kollegar okkar á Norðurlöndunum voru að róa í þeim að koma til Danmerkur og Noregs. Við getum ekki setið afskiptalaus því það eru miklu meiri líkur á að læknir sem kemur hingað á kandídatsár komi aftur sem sérfræðingur, segir Inga Sif Ólafsdóttir að lokum.