04. tbl. 103. árg. 2017

Ritstjórnargrein

Teymisvinna við greiningu lungnakrabbameins á Landspítala skilar árangri

Ólafur Baldursson ‚ lungnalæknir framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala

doi: 10.17992/lbl.2017.04.128
Röntgenmyndatökur af lungum má eflaust flokka með algengustu rannsóknum sem gerðar eru í heilbrigðisþjónustu. Tiltölulega algengt er að slík mynd sýni hnút í lunga og í kjölfar þess þarf meðhöndlandi læknir að varpa nánara ljósi á eðli þeirrar breytingar. Þá er afar brýnt að atburðarásin sé rökföst og fumlaus. Enn mikilvægara er að sjúklingar séu vel upplýstir og fái jafnóðum vandaðar útskýringar um hvert skref sem stigið er. Upplýsingar draga úr óvissu og kvíða meðal sjúklinga og spara tíma og orku allra sem eiga hlut að máli. Flestir vita að hnútur í lunga boðar ekki gott, spurningarnar hrannast upp í huga fólks og brýnt að ræða þær vel og vandlega strax í upphafi og viðurkenna þá óvissu sem er óhjákvæmileg þar til greining liggur fyrir. Margir sjúklingar lýsa óvissunni sem erfiðasta hluta þessarar vegferðar.

Því miður eru til dæmi um að eftirlit með hnútum í lungum hafi mistekist með tilheyrandi töf á greiningu. Einnig eru til dæmi um að sjúklingar kvarti um skort á upplýsingum við þessar aðstæður. Það er því ánægjulegt að lesa grein Hrannar Harðardóttur og félaga í þessu hefti Læknablaðsins sem lýsir þróun á metnaðarfullu greiningarferli fyrir sjúklinga með hnúta í lungum. Um er að ræða kerfisbundna samvinnu sérgreina sem gegna lykilhlutverki í greiningu og meðferð lungnakrabbameins. Höfundarnir beita vísindalegri nálgun á viðfangsefni sem er í senn fræðilega flókið og brýnt gæðamál. Niðurstöðurnar benda til þess að þjónusta við þennan hóp sjúklinga hafi batnað umtalsvert með þessum vinnubrögðum. Ekki var marktækur munur á lifun þeirra sjúklinga sem voru í ferlinu borið saman við þá sem voru utan þess þegar leiðrétt hafði verið fyrir mismunandi samsetningu hópanna, en greina mátti vissa tilhneigingu í þá átt. Áhugavert verður að sjá framhaldsrannsóknir hvað þetta varðar.

Sú aðferð sem höfundar lýsa við skipulagða greiningu sjúklinga með hnúta í lungum er í samræmi við vaxandi kröfur almennings um skjóta, örugga og upplýsta þjónustu. Niðurstöður greinarinnar eru ekki síður hvatning til þess að gera megi betur í þjónustu við aðra sjúklingahópa, með teymisvinnu og nýtingu meðferðarferla. Slíkir ferlar ættu að beina sjúklingum með tiltekna sjúkdóma í skipulegan farveg allt frá fyrstu samskiptum þeirra við heilbrigðiskerfið til þeirra síðustu. Með þessu má bæta þjónustu, draga úr óvissu og spara fjármuni.

Greinin er einnig tilefni til umhugsunar og umræðu um teymisvinnu og samvinnu lækna almennt, óháð þessu tiltekna viðfangsefni. Við læknar erum alin upp við áherslu á sjálfstæð vinnubrögð og ábyrgð hvers og eins á eigin verkum. Það er gott svo langt sem það nær, en hefur alvarlega fylgikvilla sem koma meðal annars fram í vissum eintrjáningshætti. Greiningar á alvarlegum atvikum sem sjúklingar verða fyrir á Landspítala og kvartanir sem berast frá sjúklingum varðandi þjónustuna, sýna svo ekki verður um villst að almenningur kallar eftir meiri og betri samvinnu milli lækna alls staðar í heilbrigðiskerfinu. Sjúklingar eiga rétt á að fá álit frá þeim sérfræðingum sem best þekkja til hverju sinni, óháð deildum, sviðum, vaktaskipulagi, kjarasamningum og öðrum þeim hindrunum af mannavöldum sem geta staðið í vegi fyrir samvinnu og öryggi sjúklinga. Álitinu þurfa nauðsynlega að fylgja mikil og vönduð samskipti við sjúklinga, milli lækna og síðast en ekki síst aukin samskipti og samvinna við aðrar heilbrigðisstéttir.

Framtak Hrannar og félaga er því ekki aðeins jákvætt fyrir þá sem greinast  með hnúta í lungum, heldur einnig þörf staðfesting á að samhentari læknastétt geti bætt verulega þjónustu við sjúklinga, öllum til hagsbóta. Þegar litið er til framtíðar er líklegt að hið vandaða starf teymisins verði jafnvel enn mikilvægara, ef kerfisbundin skimun gegn lungnakrabbameini verður að veruleika. Að auki munu tæknilausnir gerbreyta aðgangi fólks að eigin sjúkraskrá og þátttöku sjúklinga í samskiptum um niðurstöður myndrannsókna og vefjasýna, sem ætti að auðvelda þau flóknu samskipti sem vinna af þessu tagi gerir kröfu um.

Farsælt starf greiningarteymisins minnir okkur á nauðsyn þess að læknar sinni vísinda- og gæðastarfi af krafti og stundi markvissa teymisvinnu. Samtímis þurfum við að tileinka okkur nýjustu samskiptatækni þannig að vísindi, sköpun gagnreyndrar þekkingar og þjónusta haldist í hendur og vísi okkur veginn til framtíðar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica