03. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Leit að blóði í hægðum eða ristilspeglun - Svar við svari landlæknis

Við undirritaðir skrifuðum bréf til Læknablaðsins sem birtist í tólfta og síðasta tölublaði þess 2016. Í bréfinu var einnig vísað í ítarlegri grein á nolta.is. Viðbrögð hafa nú borist frá Embætti landlæknis.1 Þar er sagt meðal annars að í bréfi okkar höfum við „mælt gegn stefnu íslenskra heilbrigðisyfirvalda” en hún er að það skuli leitað að blóði í hægðum.

Af þessu tilefni viljum við árétta að bréf okkar var hugsað sem innlegg í umræðu. Það var álit okkar að greinargerðin frá Krabbameinsfélagi Íslands frá 2015, sem stefna íslenskra heilbrigðisyfirvalda byggði meðal annars á, hefði ekki fengið eðlilega faglega umfjöllun. Von okkar var að með bréfinu gætum við fengið þá sem hafa þekkingu á málefninu til að tjá sig málefnalega og með rökum. Varnarræða Embættis landlæknis kom okkur á óvart og hefðum við frekar þegið málefnalegt svar frá sérfræðingum Embættisins.

Í svarinu frá Embætti landlæknis er rakið hver stefna íslenskra heilbrigðisyfirvalda er og að stefnan sé byggð á nefndarstörfum frá 2001 og 2008 og greinargerð frá Krabbameinsfélagi Íslands frá 2015. Einnig er vísað í leiðbeiningar Evrópusambandsins frá 2010 og Kanada 2016 sem báðar ráðleggja leit að blóði í hægðum.

Undirritaðir tóku báðir þátt í gerð skimunarleiðbeininga frá 2001 og Ásgeir Theodórs var í ráðgjafahópi heilbrigðisráðherra 2008. Fulltrúar Embættis landlæknis vísa til þessara tveggja skýrslna til rökstuðnings fyrir því að skima með leit að blóði í hægðum. Skýrslurnar voru báðar samdar eftir bestu vitund þeirra sem tóku þátt og byggðust niðurstöður á þeirri þekkingu sem þá lá fyrir.

Í skýrslu Krabbameinsfélagi Íslands frá 2015 er komist að þeirri niðurstöðu að heppilegast sé að skima með leit að blóði í hægðum (FIT) og þar kemur einnig fram það álit að það sé ekki nægur mannafli á Íslandi til þess að gera skimun með ristilspeglunum. Leit að blóði í hægðum lækkar dánartíðni um 14% en hefur ekki áhrif á nýgengi. Í samantekt á fjórum stórum slembirannsóknum á stuttum ristilspeglunum kom í ljós að skimun með stuttum ristilspeglunum lækkaði dánartíðni vegna krabbameins í ristli og endaþarmi um 28% og nýgengi um 18%. Löng ristilspeglun er að minnsta kosti jafngóð stuttri ristilspeglun til skimunar en fjöldi rannsókna bendi til þess að löng ristilspeglun lækki dánartíðni um 70% og nýgengi um eða yfir 50%. Það er ekki til nein framskyggn slembirannsókn sem sýnir gagnsemi FIT.

Á Íslandi eru gerðar rúmlega 11.000 ristilspeglanir á ári og um 25-30% eru gerðar á einstaklingum sem eru einkennalausir og yfir 50 ára. Með ristilspeglanaskráningu og góðu skipulagi ristilspeglana er nú til staðar sá mannafli sem þarf til þess að hefja ristilspeglunarskimun strax.

FIT þarf að endurtaka annað hvert ár og þegar upp verður staðið má áætla að búið verði að ristilspegla 40% af hópnum eftir 10 ár. Koma munu fram um það bil 30 ný tilfelli af krabbameini í ristli eða endaþarmi árlega vegna skimunarinnar með leit að blóði í hægðum. Þessi tilfelli þurfa meðferð sem er dýr og leggst kostnaðurinn við skimunarkostnað. Það er í dag ekki ljóst hvort til er aðstaða eða mannskapur til þess að sinna þessari meðferð. Embætti landlæknis hefur ekki sýnt fram á að leit að blóði í hægðum sé ódýrari eða umfangsminni aðferð en ristilspeglunarskimun.

Því hefur verið haldið fram að ristil-speglun sé hættuleg rannsókn. Í þeim stóru rannsóknum sem hafa verið gerðar á ristilspeglunarskimun er tíðni holgötunar, blæðinga og blóðþrýstingsfalls mjög lág og dánartíðni er engin. Við leit að blóði í hægðum er ætlast til að þeir sem eru jákvæðir séu ristilspeglaðir. Þeir sem hafa blóð í hægðum eru þeir einstaklingar sem eru í mestri hættu að fá fylgikvilla af ristilspeglun, þessi áhætta er því tekin hvor aðferðin sem er valin.

Í svari landlæknis er sagt að ristilspeglunarskimun sé rannsóknarstarfsemi sem byggir á tilgátu, en að leit að blóði í hægðum sé framkvæmd byggð á rannsóknum. Það hefur verið ítrekað í öllum leiðbeiningum að það er nauðsynlegt að setja skimanir upp eins og rannsókn til þess að geta dregið ályktanir af niðurstöðum. Það er líka víða farið fram á að ný skimunarverkefni séu sett upp þannig að þau skili nýrri þekkingu.

Það væri dapurlegt ef heilbrigðisyfirvöld veldu aðferð sem er búið að sýna í stórum og áreiðanlegum rannsóknum að gerir lítið gagn. Með ristilspeglunarskimun væri hægt að minnka sjúkdómsbyrði aldraðra einstaklinga og spara stórfé í heilbrigðisþjónustunni í framtíðinni. Ristil-speglun allra við 55 ára aldurinn, þar sem allir ristilsepar eru fjarlægðir og síðan ristilspeglunareftirlit með þeim sem hafa aukna áhættu mun valda gjörbyltingu hvað varðar þetta krabbamein.

Við undirritaðir álítum að það eigi að hefja strax skimun með fullum ristilspeglunum.

Það er einlæg von okkar að aðrir komi nú fram og tjái sig málefnalega um skimun eftir krabbameini í ristli og endaþarmi.

Heimild

1. Jakobsson B, Briem H. Svar vegna bréfs um skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Læknablaðið 2017; 103: 44-5.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica