03. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Starfa við það sem er hjartanu nær - rætt við unglæknana Rósu B. Þórólfsdóttur og Arnar Jan Jónsson

Tveir unglæknar, Rósa B. Þórólfsdóttir og Arnar Jan Jónsson, voru meðal þeirra sem verðlaunaðir voru fyrir framúrskarandi vísindaerindi á þingi Félags íslenskra lyflækna sem fór fram í desember síðastliðnum. Erindi Rósu var valið besta erindi unglæknis á þinginu, en það heitir „Mislestursstökkbreyting í PLEC-geni eykur áhættu á gáttatifi“. Erindi Arnars nefndist „Algengi langvinns nýrnasjúkdóms áætlað út frá reiknuðum gaukulsíunarhraða: Lýðgrunduð rannsókn“. Blaðamaður hitti unglæknana á fallegum vorviðrisdegi á vinnustöðum þeirra; Rósu hjá Íslenskri erfðagreiningu og Arnar Jan á Hjartagátt Landspítalans við Hringbraut. 

 

                                   
            Rósa er alsæl með vinnustaðinn sinn                   Arnar Jan fyrir utan Hjartagáttina,
            og þar sem þar fer fram.                                         þar sem hann er deildarlæknir.                                                                                                                                                                                                                                                            

Rósa hefur verið í fullu starfi hjá Íslenskri erfðagreiningu í eitt ár og er aðallega að vinna á hjarta- og æðasjúkdómadeildinni þar. Stefnan er að Rósa skrái sig í doktorsnám með þá vinnu sem hún er núna í. „Vinnan snýst aðallega um erfðir gáttatifs, eins og efni greinarinnar minnar sem ég fjallaði um á vísindaþinginu fyrr í vetur. Svo er ég líka í verkefnum um erfðir hjartagalla og hjartavöðvakvilla en ég tengi mig við ýmis verkefni hérna. Það er mjög skemmtlegt að vera læknir hérna upp á að fá að taka þátt í alls kyns spennandi hlutum,“ segir Rósa og bætir við að mjög fjölbreyttar rannsóknir séu stundaðar hjá Íslenskri erfðagreiningu og að vinnustaðurinn sé afar skemmtilegur.

Forréttindi að starfa hér

Rósa viðurkennir að í sínu starfi þarna fáist hún við aðra hluti en flestir unglæknar, sem séu aðallega í klíník á sjúkrahúsum eða heilbrigðisstofnunum. „Ég er bara í rannsóknum og er mjög þakklát fyrir að fá að vera hér. Hér starfar afar margt mjög klárt fólk sem ég gert lært af og það eru forréttindi að fá að vinna með öll þessi gögn hérna sem Íslendingar hafa séð til þess að eru eins góð og raun ber vitni.“

Situr við tölvu og pælir

Eins og áður segir stefnir Rósa á doktorsnám og er á byrjunarstigi með að móta það. Hún er þó ákveðin í að hluti af því verði greinin hennar um erfðir gáttatifs. „Hjarta- og æðasjúkdómar eru eitthvað sem mér hefur alltaf fundist spennandi vðfangsefni. Það var samt eitthvað sem ég í raun álpaðist inn í.“ Eftir fjórða árið í náminu byrjaði hún í rannsóknarvinnu með Karli Andersen hjartalækni og fleirum hjá Hjartavernd. „Það leiddi mig svolítið inn á þessa braut að pæla í slíkum sjúkdómum. En það sem ég vann mest við í klíník var á geðdeild Landspítalans. Það er einnig eitthvað sem mér hefur alltaf þótt spennandi og hér hjá Íslenskri erfðagreiningu eru meðal annars rannsóknir á geðsjúkdómum.“ Að sögn Rósu hefur hún alltaf haft sérstakan áhuga á rannsóknum síðan hún hóf nám og það eigi vel við hana að starfa í því umhverfi þar sem hún er núna, sitjandi við tölvu og pælandi í hlutunum. „Ég efast um að margir læknanemar á spítölum segi að þeir sakni þess að sitja við tölvu og vinna en það varð raunin með mig. Mig langar líka að læra meiri tölfræði og aðferðafræði, hef mikinn áhuga á því.“ 

Fjölskyldan stækkar í sumar

Fjölskylduaðstæður Rósu eru að hluta til ástæðan fyrir því að hún starfar hjá ÍE en ekki til dæmis á Landspítala. „Mér finnst þetta henta betur fjölskyldulífi. Ég á tveggja ára son og annað barn er á leiðinni í sumar. Okkur manninum mínum hefur fundist erfitt að vera bæði í fullri vinnu á spítalanum á vöktum. Við ákváðum að gera það ekki. Það er áskorun að samræma vinnu og heimilislíf þegar maður er á þessum aldri,“ segir Rósa, en eiginmaður hennar, Júlíus Kristjánsson, lauk sama námi og hún og starfar sem deildarlæknir á barnadeildinni. „Hann er mjög ánægður þar og stefnir í sérnám í barnalækningum. Það blasir því við hjá okkur að flytja út og við horfum til Svíþjóðar eins og margir aðrir. Maður fær á tilfinninguna að það gæti hentað fjölskyldulífi vel. Bróðir minn og mágkona eru líka í sérnámi þar. Það vill oft verða að heilu fjölskyldurnar velja sama fag. Foreldrar mínir og tengdaforeldrar eru þó ekki læknar en við eigum bæði systkini sem eru það,“ segir Rósa.  

Dýrmæt og góð reynsla

Arnar Jan er deildarlæknir á lyflækningasviði og er á fyrsta ári í því prógrammi. „Nákvæmlega núna er ég að vinna sem deildarlæknir á hjartagáttinni. Mér líkar það mjög vel, sérstaklega að fást við krefjandi vandamál og skemmtilegt er að fást við bráðatilfelli. Ég verð hér út febrúar,“ segir hann. Að því loknu mun Arnar Jan fara í fæðingarorlof í mars og fram á haust. Eðlilega mun föðurhlutverkið þá eiga hug hans nánast allan, verandi með tvö ung börn.

Mjög gott prógramm

Arnar Jan segir prógrammið á lyflækningasviði vera mjög gott og búið sé að byggja það vel upp. „Það er mjög vel stutt við þá deildarlækna sem eru í því. Bæði í tengslum við klíníska vinnu, námstækifæri og rannsóknir.“ Dæmigerður vinnudagur hjá deildarlæknum á hjartagátt hefjist á morgunfundi á hjartadeildinni þar sem farið er yfir sjúklinga sem lögðust inn á deildina sólarhringinn á undan og síðan yfir tilfelli næturinnar. Eftir morgunfundinn hefjist vinna á hjartagáttinni og þar séu yfirleitt tveir til þrír deildarlæknar í dagvinnu þegar mest er og sérfræðingur í hjartalækningum að auki, en á nóttunni sé einn deildarlæknir.

Kennsluglaðir sérfræðingar

„Þetta er bráðamóttaka svo álagið er mismikið en yfirleitt er nóg að gera. Vinnan felst aðallega í að taka á móti og greina vandamál einstaklinga sem koma á hjartagáttina ásamt því að taka á móti fólki í hjartastoppi.“ Einnig framkvæmi deildarlæknar áreynslupróf undir leiðsögn sérfræðinga. „Vandamálin eru fjölbreytt og skemmtileg að glíma við og fólk á öllum aldri sem leitar hingað þótt flestir séu nú yfir fimmtugt. Samvinna með hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum er töluverð, sem gerir vinnuna skemmtilegri að mínu mati. Þarna er einnig nóg af námstækifærum og sérfræðingarnir eru kennsluglaðir og mjög reiðubúnir að fara yfir tilfellin.“

Einsleitar samræður við matarborðið

Meðfram starfinu á hjartagáttinni er Arnar Jan í doktorsnámi og rannsóknin sem hann kynnti á lyflækningaþinginu er hluti af því. „Ég byrjaði í doktorsnáminu á sjötta ári í læknisfræðinni og hef ákveðið að taka það meðfram þessu prógrammi. Ég mæli með því að gera það. Það er bæði gaman að vera í klínískri vinnu og rannsóknum. Það gefur manni víðari sýn á þetta allt saman, vel stutt við það eins og ég nefndi áðan og þetta er mjög dýrmæt og góð reynsla.“ Arnar Jan og eiginkona hans, Gunnhildur Vala Hannesdóttir, búa á Seltjarnarnesi og hún er einnig læknir. „Það eru ekki mjög fjölbreyttar samræður við matarborðið, get ég sagt þér,“ segir Arnar Jan hlæjandi og bætir við að lokum: „Frúin er deildarlæknir eins og ég og ætlar í kvensjúkdómalækningar og fæðingar.“

SaveÞetta vefsvæði byggir á Eplica