12. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Frumkvöðull á sviði skipulags­mála og lýðheilsu - Endurútgáfa á riti Guðmundar Hannessonar um skipulagsmál

Guðmundur Hannesson (1866-1946)

Guðmund Hannesson

Í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá útkomu ritsins Um skipulag bæja eftir Guðmund Hannesson prófessor og lækni hafa Skipulagsstofnun ríkisins og Hið íslenska bókmenntafélag tekið höndum saman og endurútgefið ritið. Þá eru einnig af þessu tilefni gefnar út 5 ritgerðir sem nefnast Samtal við Guðmund Hannesson og eru eftir 6 höfunda og eru nokkurs konar aldarspegill þar sem hugmyndir Guðmundar eru skoðaðar með augum nútímans. Munu þær hafa staðist tímans tönn með ágætum. Læknablaðið ræddi við tvo höfundanna, þau Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur skipulagsstjóra sem einnig ritstýrði útgáfunni og Pétur Ármannsson arkitekt.

Ásdís Hlökk: Okkur á Skipulagsstofnun fannst full ástæða til að minnast þess með viðeigandi hætti að í ár eru hundrað ár liðin síðan ritið Um skipulag bæja eftir Guðmund Hannesson kom út. Þetta hefur reynst grundvallarrit í skipulagsmálum hér á Íslandi þó það sé ekki mikið að vöxtum og þrátt fyrir allar þær breytingar sem orðið hafa á samfélagi okkar hvað varðar búsetu og fleira þá er þetta rit enn í dag merkilega áhugaverð lesning sem á erindi við okkur. Við viljum því gjarnan að þetta verk lifi í hugum og vitund þeirra sem vinna að skipulagsmálum og vilja skilja sögulega þróun byggðar og skipulagsmála. Jafnframt vildum við samhliða þessari endurútgáfu birta sjónarmið samtíma okkar og fengum því nokkra valda aðila til að skrifa greinar sem töluðu jafnt til Guðmundar sem samtímans og tengja þannig saman fortíð og nútíð. Þetta eru því tvö rit sem gefin eru út saman, annars vegar rit Guðmundar og hins vegar safn 5 greina. Í fjórum þeirra eru tekin fyrir þau þemu sem Guðmundur fjallar um í riti sínu, en hans styrkur liggur ekki síst í því hve hann leit á skipulagsmál frá víðu sjónarhorni. Pétur H. Ármannsson fjallar um hönnun og húsagerðarlist, sjálf fjalla ég um form og þróun bæjanna, Dagur B. Eggertsson skrifar um lýðheilsumál tengd skipulagi og Salvör Jónsdóttir fjallar um efnahagslega og félagslega þætti skipulagsmála. Síðan skrifa hjónin Sigrún Magnúsdóttir og Páll Pétursson grein um lífsferil Guðmundar en hann var afabróðir Páls.

Óþreytandi að kynna sér nýjungar

Guðmundur var samtímamaður Guðjóns Samúelssonar fyrsta húsameistara ríkisins og ásamt fleirum lögðu þeir grunninn að skipulagi þéttbýlis á Íslandi á 20. öld.

Pétur: Kynslóð Guðmundar tekur Ísland útúr miðöldum og beint inn í nútímann á örfáum árum má segja. Hann er alinn upp í torfbæ í íslenskri sveit en er settur til mennta og nýtir það tækifæri vel og lærir læknisfræði í Kaupmannahöfn. Þar kemst hann í snertingu við nútímaborgina og ýmisleg heilbrigðisvandamál sem voru afleiðing af búsetu fólks. Þannig fæðist snemma með honum sú hugsun að allt ytra umhverfi, skipulag þéttbýlis og ástand húsnæðis sé mikilvægt lýðheilsu-mál. Þetta verður grunnurinn að hans áhuga á skipulagsmálum. Hann byrjar sinn læknisferil á Sauðárkróki og fer þaðan til Akureyrar og starfar við mjög frumstæðar aðstæður. Á einum stað segir hann að ekki geti orðið neinar framfarir í heilsufari landsmanna nema húsakostur sé bættur. Hann gerir sér manna best grein fyrir því að ekki var framtíð í áframhaldandi búsetu í torfbæjunum. Hann er einn af þeim sem leiðir Ísland inn í steinsteypuöldina. Hann beitir sér fyrir byggingu nýs sjúkrahúss á Akureyri og réði miklu um hönnun þess. Hann byggir sér einnig íbúðarhús á Akureyri og ræður þar miklu um gerð þess og útlit. Þetta var timburhús og hið fyrsta í svokölluðum sveitserstíl, í kjölfarið risu timburhús sem setja í dag svo mikinn svip á Akureyri, má nefna hús Menntaskólans og Samkomuhúsið sem glæsilegustu dæmin. Síðan flyst hann til Reykjavíkur og verður prófessor við læknadeild nýstofnaðs Háskóla Íslands. Þar gefst honum tækifæri til að sinna betur fræðslu um lýðheilsu og húsakost og skrifar bæði greinar og leiðbeinandi rit um þessi efni á næstu árum. Hann byggir sér hús á Hverfisgötu 12, á horni Hverfisgötu og Ingólfsstrætis, og nú úr steinsteypu, um það bil þegar steinsteypuöldin var að ganga í garð. Einangrun steinhúsa var honum mikið áhugamál enda var það eitt helsta vandamálið lengi framan af 20. öldinni hve köld þau voru. Það sem vekur mesta athygli við Guðmund og skrif hans er hversu yfirgripsmikil þekking hans hefur verið og hversu óþreytandi hann var að kynna sér allt það nýjasta sem var á döfinni í skipulagsmálum erlendis. Rit hans Um skipulag bæja var byggt á því allra nýjasta og framsæknasta í skipulagsmálum í löndunum í kringum okkur. Með þessu einhendir hann Íslandi beinlínis úr engu yfir í það allra nýjasta sem var á döfinni í hugmyndafræði skipulagsmála í Vestur-Evrópu. Styrkur Guðmundar var einnig fólginn í því hversu hagsýnn hann var og það er stórmerkilegt hversu vel honum tekst að laga þessar hugmyndir að íslenskum aðstæðum og gera þær framkvæmanlegar. Í skrifum hans endurspeglast fjölþætt reynsla og þekking; vísindaleg nákvæmni læknisins, verkleg reynsla húsasmiðsins, fegurðartilfinning arkitektsins, alþjóðleg sýn skipulagsfræðingins og svo umbótavilji stjórnmálamannsins en síðast en ekki síst hæfileiki kennarans til að miðla þekkingu sinni.


Áhrif Guðmundar eru meiri en flestra annarra á þessum vettvangi hér á landi og því er full ástæða til
að minnast þess með endurútgáfu þessa merka rits,“ segja þau Ásdís Hlökk Theodórsdóttir og Pétur
Ármannsson um Guðmund Hannesson.

Fóru um landið og skipulögðu kauptún og sjávarþorp

Er þetta ekki liðin tíð að einhver geti stigið fram með þessum hætti og haft skoðanir á svona mörgum faglegum málefnum? Verða menn ekki að vera sérfræðingar til að tekið sé mark á þeim í dag?

Ásdís Hlökk: Jú, þessi tími er liðinn en í því fámennissamfélagi sem Ísland var fyrir 100 árum verður hlutur svona hæfra og afkastamikilla einstaklinga svo stór.

Viðbrögð við riti Guðmundar voru mjög jákvæð. Sem dæmi þá liggja eftir ritdómar eftir bæði Guðjón Samúelsson og Rögnvald Ólafsson sem báðir hrósa ritinu. Guðmundur fær síðan ómetanlegt tækifæri til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að vera fenginn til að taka þátt í að semja fyrstu skipulagslögin sem eru samþykkt 1921 og er síðan skipaður í fyrstu skipulagsnefnd ríkisins ásamt Guðjóni Samúelssyni nýskipuðum húsameistara ríkisins og Geir Zoëga vegamálastjóra. Þeir fara um landið og skipuleggja kauptún og sjávarþorp þar sem hugmyndir Guðmundar eru lagðar til grundvallar. Auðvitað er svo misjafnt hversu mikið af tillögum þeirra urðu að veruleika enda breyttist samfélagið hratt á næstu áratugum og efnahagsástand réði miklu um uppbyggingu bæjanna. Í Reykjavík má sjá skýr merki um hugmyndir Guðmundar í þeim hverfum borgarinnar sem voru að byggjast upp á þessum árum. Má til dæmis nefna austasta hluta Þingholtanna og Vesturbæ norðan Hringbrautar. Annars staðar þar sem eldri byggð var fyrir og þeir félagar vildu breyta og fjarlægja eldri hús, urðu áhrifin víða minni. Þar má nefna Eyrina á Ísafirði þar sem þeir vildu fjarlægja hina óreglulegu timburhúsabyggð en af því varð aldrei og lítið byggt eftir þeirra tillögum.   

Skipulags- og samgöngumál hafa á undangenginni öld farið í gegnum ýmsar vendingar og oft með mikla áherslu á tæknileg atriði á kostnað fagurfræði og félagslegra og efnahagslegra þátta í þéttbýlissamfélaginu en Guðmundur lagði áherslu á samþættingu allra þessara þátta. Nú erum við í vissum skilningi komin aftur á upphafsreit að því leyti að skipulagsfræðingar og borgarhönnuðir hafa á síðustu árum og áratugum leitað í auknum mæli aftur til þeirra hugmynda sem settar voru fram um aldamótin 1900, til þeirra kenninga sem Guðmundur var frumkvöðull að því að kynna hér á landi.

Byggingareitur á Ísafirði

Byggingareitur á Ísafirði
Margar hugmynda Guðmundar náðu fram að ganga en hér lagði hann til
breytingu á skipulagi Eyrarinnar á Ísafirði. Ekki varð af þeim áætlunum og
timburhúsabyggðin á Eyrinni er enn á sínum stað.

Sá ekki fyrir uppgang einkabílsins

Pétur: Í hugmyndum sínum um lýðheilsu hugsaði Guðmundur ekki eingöngu um líkamlega heilsu borgaranna heldur einnig andlega vellíðan. Hann leggur því mikla áherslu á fagurfræði skipulags og bygginga þannig að fólki líði vel í almenningsrýmum borgarinnar. Það er einnig vert að geta þess að hugmyndir Guðmundar og Guðjóns vöktu töluverða athygli erlendis. Þeir fóru í fyrirlestraferðir þar sem þeir kynntu hugmyndir sínar og skipulagsforkólfar komu hingað erlendis frá og kynntu sér hvernig tillögur þeirra birtust í framkvæmd.

Ásdís Hlökk: Það má velta fyrir sér hvort til sé eitthvað sem kalla mætti íslenska bæjarmynd og ef hún er til, þá hve mikil áhrif hugmyndir Guðmundar Hannessonar og Guðjóns Samúelssonar hafa haft á hana. Þeir höfðu einstakt tækifæri til að móta hugmyndir okkar um skipulag íslensks þéttbýlis. Þótt áhrif þeirra séu víða skýr verða áhrif þeirra minni þegar frá líður vegna þess hversu miklar breytingar verða í samfélaginu um og upp úr miðri síðustu öld. Þeir sáu til dæmis ekki fyrir hversu stórt hlutverk einkabíllinn myndi hafa í skipulags- og samgöngumálum. Þannig sáu þeir fyrir sér Reykjavík byggjast upp innan Hringbrautar (nú Hringbraut og Snorrabraut) með járnbraut meðfram byggðarmörkum. Reykjavík líkt og margir íslenskir bæir gekk í gegnum mikla uppbyggingu á eftirstríðsárunum þar sem fyrirkomulag byggðar og samgöngulausnir í anda módernismans og bílmiðaðs skipulags eru mjög áberandi í bæjarmyndinni.

Pétur: Guðmundur náði engu að síður mjög miklu fram sem hugmyndafræðingur um skipulagsmál og lýðheilsu, bæði sem höfundur þessa rits, sem einn aðalhöfunda fyrstu skipulagslaganna og síðan með setu sinni í nær tvo áratugi í skipulagsnefnd ríkisins.

Ásdís Hlökk: Áhrif Guðmundar eru meiri en flestra annarra á þessum vettvangi hér á landi og því er full ástæða til að minnast þess með endurútgáfu þessa merka rits.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica