12. tbl. 102. árg. 2016

Ritstjórnargrein

Kaflaskil

Engilbert Sigurðsson prófessor og yfirlæknir við geðsvið Landspítala‚ fráfarandi ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins

doi: 10.17992/lbl.2016.12.108

Við lifum á tímum örra breytinga. Jafnrétti og þekking færast þó ekki endilega fram á við eins og við höfum orðið vitni að í nýafstöðnum kosningum í Bandaríkjunum. Þegnar Bandaríkjanna hafa raunar búið við meiri ójöfnuð á ýmsum sviðum samfélagsins síðustu áratugi en íbúar ríkja Norður-Evrópu og svo er að sjá sem gjá hafi myndast þar milli íbúa í dreifbýli og íbúa í stórborgum. Stjórnvöldum vestra virðist hafa gengið illa að hlúa að þeirri trú að jöfn tækifæri bíði allra þegna á lífsgöngunni, óháð kynþætti og trú, og að þau starfi í þágu samfélagsins. Þar hafa nágrannar þeirra í Kanada og Norðurlöndin staðið sig betur.

Við Íslendingar vöknuðum flest við vondan draum að morgni 10. nóvember. Mörg okkar héldu raunar að okkur hlyti að vera að dreyma. Bandaríkjamenn höfðu kosið Donald Trump sem forseta, mann sem afneitar loftslagsbreytingum, virðir ekki helming mannkyns, grefur undan mikilvægi bólusetninga, þyrlar upp hatri í garð innflytjenda og minnihlutahópa og telur sjálfan sig að auki hafinn yfir lög og reglur. Orð slíkra loddara eru þó léttvæg, tilgangurinn helgar meðalið, og ferill þeirra lýsir best fyrir hvað þeir standa í raun. Allt er falt og svart er hvítt ef það hentar til að réttlæta viðskipti sem skila skammtímahagnaði. Hans bíður mikið verkefni og vandséð er að hann sé vandanum vaxinn. Dagana eftir kjörið dró Trump þó strax í land með sumar yfirlýsingar sínar, en þær tryggðu honum engu að síður mikla og ókeypis auglýsingu í fjölmiðlum vestra í kosningabaráttunni. Við slíkri þróun fjölmiðla, þar sem fjöldi innlita á netmiðlum trompa innihald og upplýsta umræðu, eigum við eins og  aðrar þjóðir ekkert annað svar en styðja enn frekar rannsóknir, öflugt menntakerfi og fræðslu almennings ef það er markmiðið að íbúar hafi jöfn tækifæri og menntunarstig þjóða sé aukið. Því er það forgangsmál að efla menntun ekki síður en heilbrigðisþjónustu hér á landi á næstu árum. Þar hallar mest á háskólastigið í samanburði við önnur lönd.1 Hagsmunir heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisvísinda eru samofnir og þræðirnir eru víða farnir að trosna.

Læknablaðið fagnaði 100 ára afmæli sínu 15. janúar 2015. Hundraðasti árgangur blaðsins var helgaður afmælinu. Blaðið hefur á síðustu árum endurskoðað leiðbeiningar fyrir höfunda, látið skanna inn alla eldri árganga á Þjóðarbókhlöðunni og vista á timarit.is og tekið upp alþjóðlegt rafrænt skráningarnúmer, DOI (digital object identifier), fyrir fræðigreinar og leiðara. Læknafélag Íslands færði okkur að gjöf ScholarOne ritstýringarforritið á 100 ára afmælinu. Blaðið er fjármagnað með auglýsingum og framlagi lækna og nemur framlagið nú 13,5% af árgjaldi hvers læknis til LÍ. Ritstjórn fundar einu sinni í mánuði með ritstjórnarfulltrúa og fer yfir stöðu þeirra fræðigreina sem liggja fyrir, velur efni til umfjöllunar með blaðamanni og ræðir hugmyndir að leiðurum. Tveir leiðarar og þrjár fræðigreinar birtast að jafnaði í hverju tölublaði auk viðtala og aðsends efnis. Daglegur rekstur er í höndum ritstjórnarfulltrúa og er það fullt starf. Védís Skarphéðinsdóttir hefur sinnt því með sóma um árabil og ávallt viljað veg blaðsins sem mestan þau ár sem ég hef setið í ritstjórn. Aðrir starfsmenn blaðsins eru í hlutastarfi. Þeir eru Hávar Sigurjónsson blaðamaður, Sævar Guðbjörnsson sem annast umbrot og Sigdís Þóra Sigþórsdóttir auglýsingastjóri og ritari. Útgáfustjórn Læknablaðsins er á hverjum tíma skipuð ritstjóra, formanni LÍ og formanni LR. Núverandi útgáfustjórn hefur verið blaðinu góður bakhjarl og fáir raunar skynjað betur mikilvægi þess fyrir íslenska lækna í gegnum árin en Þorbjörn Jónsson núverandi formaður LÍ.

Að mínu mati er rétt að skipta um ritstjóra á fjögurra til 6 ára fresti. Það hefur  verið afar ánægjulegt að vera ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins síðastliðin 6 ár og hafa nú setið í 11 ár alls í ritstjórn. Ánægjan felst í því að geta haft áhrif á þekkingu lækna og almennings og stuðlað að upplýstri umræðu um heilbrigðismál hér á landi. Læknanemar á 4.  til 6. námsári fá blaðið sent auk lækna og þar stíga margir sín fyrstu skref við ritun fræðigreina. Alþingismenn fá blaðið einnig á Alþingi og fjölmiðlar fylgjast jafnan vel með efni þess.

Ritstjórnin hefur verið skipuð 6 til 8 læknum úr ýmsum sérgreinum á síðasta áratug. Allir þessir læknar hafa sinnt hlutverki sínu af áhuga og virðingu og þakka ég þeim samstarfið og framlag þeirra til þekkingarsköpunar og umræðu um læknisfræði og heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Einnig þakka ég ritrýnum ómetanlegt framlag til blaðsins en án ritrýni er ekki hægt að gefa út fræðitímarit. Auk mín hverfur Tómas Guðbjartsson nú úr ritstjórn eftir hartnær 11 ára setu. Hann hefur á þeim tíma birt fleiri fræðigreinar í blaðinu en nokkur annar höfundur og mun vonandi ekki láta deigan síga á næstu árum fremur en hingað til. Formenn LÍ og LR hafa valið nýjan ritstjóra og ábyrgðarmann og var tillaga þeirra um Magnús Gottfreðsson samþykkt á fundi stjórnar LÍ hinn 7. nóvember síðastliðinn. Ég þakka Védísi Skarphéðinsdóttur og öðrum starfsmönnum blaðsins samstarfið í gegnum árin og óska þeim, nýjum ritstjóra og Læknablaðinu farsældar á komandi árum.

 

 

1. Benediktsson JB. Fjármögnun Háskóla Íslands. Læknablaðið 2016; 102: 479.
https://doi.org/10.17992/lbl.2016.11.104

PMid:27813485

 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica