11. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Ferð öldungadeildar til Skotlands og Orkneyja 20.-29. september 2016. Þórarinn E. Sveinsson

Texti og myndir: Þórarinn E. Sveinsson

Að morgni 20. dags septembermánaðar hittumst við 24 Íslendingar á flugvellinum í Glasgow-borg eftir vel heppnað morgunflug. Skotlands- og Orkneyjaferð hafin undir styrkri stjórn Magnúsar Jónssonar sagnfræðings. Fylgdi hann okkur út í milt haustveðrið að fararskjóta okkar næstu daga, nýjum rúmgóðum Man-langferðabíl. Eftir að hafa heilsað bílstjóra okkar Steve var haldið af stað í norðurátt á vit ævintýra. Söguferðin hafin.

Ekin var svokölluð vatnaleið, sú hin sama sem Hákon gamli sigldi með yfir 100 skip sín árið 1262, til þess að tryggja yfirráð Noregskonunga á svæðinu, en leiddi í reynd til þess að Norðmenn misstu öll ítök sín þar, á Suðureyjum og Mön, en héldu þeim þó áfram á Orkneyjum fram á 16. öld. Skýrði Magnús landnám norrænna manna á svæðinu um leið og hann fór yfir forsögu Skota. Áð var í þorpinu Luss við Loch Lomond og þar skoðaður rúmlega 1000 ára gamall norrænn grafsteinn.

Víkingaöldin er talin hafa staðið yfir í 283 ár, frá árinu 793, er víkingar gerðu árás á klaustrið í Lindisfarne á Norðimbralandi til árins 1066, er Haraldur harðráði féll við Stafnfurðubrú. Í sambandi við þetta tímabil fór Magnús yfir sögu Ólafs hvíta, herkonungs á Írlandi, eiginmanns Auðar djúpúðgu, og Þorsteins rauðs sonar þeirra, herkonungs á Skotlandi. Frá þeim og Eysteini föður Rögnvalds á Mæri eru komnir Orkneyjajarlar, en þáttur þeirra er jafnframt mikill í landnámi Íslands.

Á víkingaöld var herfang víkinganna ekki síst þrælataka. Herjuðu þeir í vesturátt til eyjanna og stranda Skotlands, Írlands og Englands, þar sem íbúar voru kristnir. Lærðist þeim fljótt hverjir voru hátíðisdagar kristninnar. Einfaldaði það þeim strandhöggið, tóku varnarlaust fólkið og fluttu það til þrælasölu, oft í Dyblinni á Írandi, sem þá var stærstur þrælamarkaður í Evrópu. Skýrir þrælataka og sala þessi að hluta til hve hratt Ísland byggðist við landnámið.

 

Eyjan Skye

Fyrstu nóttina var gist á hótelinu Lochalsh við eyjuna Skye, en hún var síðan heimsótt að morgni en jarðfræði hennar er einstök og finnst þar að sögn elsta berg jarðar. Er eyjan sögð hafa brotnað úr jaðri fleka er rak frá Suðurpólnum og strandaði við Skotlandsstrendur á meðan flekinn hafi haldið áfram og myndað meginland Norður-Ameríku. Á Skye eru staðanöfn mörg af norrænum uppruna eins og víða annars staðar á þessum slóðum. Við fall Haralds harðráða 1066 tók Guðröður krossfari gunnfána Haraldar, Landeyðuna, til varðveislu og geymdi æ síðan. Frá Guðröði eru komnar skoskar ættir, meðan annars Mac- Leod ættin (klan), en Leod er sama orðið og það íslenska, ljótur. Var kastali þeirrar ættar, Donvegan-kastali, heimsóttur en einn dýrgripa hans eru silkifánaslitur, sem talin eru vera hluti Landeyðunnar. Hafa slitrin verið aldursgreind og eru þau rúmlega 1000 ára gömul, er kemur heim og saman við sögu Haraldar harðráða, en hann hafði verið í liði Væringja í Miklagarði í 15 ár í kringum árið 1000. Þá kemur ættin MacDonald einnig víða við sögu, meðal annars á Skye, en þessar ættir báðar eru að hluta til norrænar. Þá var heimsóttur bústaður og legstaður Floru MacDonald, en hún vann það sér til frægðar að bjarga Bonnie Prince Charlie, er gerði tilkall til ensku krúnunnar. Eftir ósigur Skota gegn Englendingum við Culloden 1746 smyglaði hún honum úr landi dulbúnum sem þjónustustúlku hennar, fyrst til Skye og þaðan komst hann til Frakklands. Þá var byggðasafn á Skye skoðað er líkist í reynd mjög íslensku safni hvað tæki og tól varðar.

Á þriðja degi var ekið frá Skye til hafnarborgarinnar Thurso (Þórsár). Á leiðinni þangað yfir skosku Hálöndin var stoppað við Eilean Donan-kastala, sem er einskonar einkennismynd Skotlands. Athygli vakti hvað skógrækt var mikil á skosku heiðunum, er annars minntu mikið á íslensk heiðarlönd. Er komið var norður á Katanes breyttist ásýnd náttúrunnar, varla sjáanleg tré frekar en á Orkneyjum. Skógar hafa greinilega verið snemma ruddir og landið tekið til beitar og akuryrkju. Norrænir menn munu hafa hafið landnám sitt hér um 800, en fyrir var þjóðflokkurinn Piktar. Er þjóðflokkur þessi mikil ráðgáta, en hann er talinn hafa verið þriðjungur íbúa Skota á þeim tíma. Hafa þeir væntanlega verið kristnir eftir trúboð Kóllumkilla nokkrum öldum áður. Hverfur þjóðflokkur þessi úr sögunni eftir að norrænir menn settust hér að. Væntanlega hafa þeir verið írskir að uppruna og talað keltneska tungu. Er þeirra fyrst getið í heimildum á þriðju öld. Mynduðu þeir mörg lítil konungsríki, til dæmis á Orkneyjum, en höfuðkonungur þeirra sat í Inverness.

 

Herjuðu á Noreg

Eftir að víkingar settust að á eyjunum upp úr 800 herjuðu þeir þaðan á Noreg á sumrin, en höfðu vetrarsetu á eyjunum. Vegna þessa lagði Haraldur hárfagri í herför vestur með Rögnvaldi Mærajarli á síðari hluta 9. aldar, tók Hjaltland, Orkneyjar og Suðureyjar, allt vestur að Mön. Friðaði hann eyjarnar, en í sonarbætur fyrir Ívar, son Rögnvaldar, sem féll í leiðangrinum, gaf hann Rögnvaldi Orkneyjar og Hjaltland. Rögnvaldur gaf síðan Sigurði bróður sínum löndin. Varð hann þar eftir og þáði jarlstign af konungi.

Ketill flatnefur Bjarnarson var konungur á Suðureyjum og Mön í umboði Haraldar, en frá afkomendum þeirra Rögnvaldar og Ketils eru nær allir Orkneyjajarlar komnir. Börn þeirra önnur eins og Hrollaugur Rögnvaldsson og Auður djúpúðga, Björn austræni, Helgi bjóla, Jórunn mannvitsbrekka og Þórunn hyrna Ketilsbörn námu land á Íslandi og eru af þeim miklar ættir.

Á leiðinni til Thurso var nærst við Loch Ness, nutum fagurs umhverfis, en ekki sáum við skrímslið Nessie. Á Suðurlandi var Broch (borg, virki) of Carn Liath skoðuð, sem byggð mun hafa verið af Piktum um árið 0. Undruðumst við umfang byggingarinnar og hve vel hún hefur varðveist, en rústir þessar voru í reynd aðeins forsmekkur þess, sem beið okkar á Orkneyjum.

Í Thurso var gist á hótelinu St. Clair, en haldið þaðan með bílferjunni Pentalinn yfir Pentlandsfjörð til St. Margarets Hope á syðri Ronaldsey. Siglingin var þægileg, tók eina klukkustund. Þaðan var ekinn eins konar strandvegur til Hrosseyjar á varnargörðum sem byggðir höfðu verið milli aðlægra eyja til lokunar hluta Scapaflóa. Var það gert til að hindra aðgang þýskra kafbáta að breska flotanum, en það er önnur saga. Til þessa verks voru fengnir ítalskir stríðsfangar. Byggðu þeir samhliða sérkennilega fagurt guðshús úr tveimur braggabyggingum á eyjunni Lambey og er ekki hægt annað en að falla í stafi yfir þessari afurð heimsstyrjaldarinnar síðari. Frá Lambey var ekið yfir til Kirkjuvogs (Kirkwall), höfuðstaðar Orkneyja á Hrossey, þar sem dvalið var næstu fjóra daga.


Steinaldarþorpið í Skara Brae.

 

Orkneyjar

Það að ferðast um og skoða Orkneyjar er eins og að ganga um stórt opið safn einstakra minja. Ber þar hæst minjar frá forsögulegum tíma eins og hið stórkostlega grafhýsi Orkahaug (Maes Howe), er reistur var fyrir um 5000 árum og aðrar steinaldarminjar til dæmis „Ring of Brodgar“ og steinana á Steinnesi áður umluktir af gerði og síki, mögulega byggt í trúarlegum tilgangi, til samtengingar við látna ættingja. Frá sama tíma er steinald-arþorpið Skara Brae, en talið er að búið hafi verið í því í 600 ár frá 3100 til 2500 f. Kr. Þá mun þorpið hafa verið yfirgefið af óþekktum ástæðum en það síðan grafist í fjörusandinn. Lýsa rústirnar lífi steinald-arfólks er hætti hirðingjalífi og setti sig niður í skipulagt samfélag, er lagði stund á jarðyrkju og veiðar.

Á Orkneyjum hafa fundist um 120 virki en sérstaða þeirra er sú að í kringum borgina, sem var að líkindum íverustaður höfðingja flokksins, samkomustaður og virki, voru hús annarra íbúa. Eru borgir þessar flestar byggðar á annarri og fyrstu öld f. Kr. og er borgin við Gurness gott dæmi, en eins og áður er getið hverfa Piktarnir af leiksviðinu við landnám víkinganna upp úr 800.

Áhugi okkar ferðafélaganna var þó einkum bundinn við tímabil Orkneyjajarla og tengsl þeirra við sögur Íslendinga, allt frá Sigurði ríka Eysteinssyni til Jóns jarls Haraldssonar Maddaðarsonar, en Langlíf systir hans var heitkona Sæmundar Jónssonar í Odda. Er hér um að ræða 354 ára tímabil, frá 875-1231. Fylgdum við í fótspor jarlanna undir leiðsögn Magnúsar fararstjóra, en í þessu greinarkorni mun ég einkum staldra við þrjá þeirra, Sigurð Hlöðvisson, Þorfinn Sigurðsson og Magnús eyjajarl Erlendsson, son Þóru Sumarliðadóttur, en Síðu-Hallur var afi Óspaks, föður Sumarliða.

Sigurður jarl sat í Birgishéraði og ríkti frá 985 til 1014. Til hans leituðu brennumenn eftir að hafa brotið skip sitt við Orkneyjar. Þann sama vetur leitaði Sigtryggur, sonur Kornlaðar Írlandsdrottningar í Dyblinni, Sigurðar jarls og leitaði liðsinnis gegn Brjáni konungi á Írlandi. Í veislu í höll Sigurðar á jólum spurði Sigtryggur frétta frá Njálsbrennu. Gunnar Lambason hafði orð fyrir brennumönnum. Var það þá sem Kára mislíkaði orð Gunnars, hljóp til og hjó höfuð hans þannig að það hraut á borð Sigurðar jarls. Þorsteinn Síðu-Hallsson, hirðmaður Sigurðar og frændi, bað Kára þá griða, er jarl veitti.

Þorfinnur mikli Sigurðsson jarl, sonur Sigurðar Hlöðvissonar, ríkti frá 1020-1065. Var hann ríkastur Orkneyjajarla og sat áfram í Birgishéraði. Byggði hann þar höll og kirkju við Birgisey og mun hann hafa eignast sjö jarlsdæmi á Skotlandi, allar Suðureyjar og mikið ríki á Írlandi, auk Orkneyja. Var Birgishérað þá stjórnsetur eyjanna, bæði í veraldlegum og trúarlegum skilningi. Eftir Rómarferð á fund páfa lagði hann af herferðir, hélt heim „og lét gera þar Kristkirkju, dýrðlegt musteri.“ Var þar fyrst settur biskupsstóll í Orkneyjum. Varð Þor-finnur sóttdauður og jarðaður í þeirri Kristskirkju í Birgishéraði sem hann hafði gera látið.

Magnús helgi Erlendsson réði Orkneyjum með Hákoni Pálssyni frænda sínum árin 1103-1117, en áður höfðu feður þeirra Páll og Erlendur, synir Þorfinns mikla, sinnt jarldómi. Móðir Magnúsar var Þóra Sumarliðadóttir, er rakti ættir sínar til Síðu-Halls, eins og áður er getið. Stjórnuðu þeir frændur eyjunum saman og var friður góður í Orkneyjum meðan vinátta þeirra hélst. Menn í liði Hákonar spilltu sambandi þeirra með rógi og illmælgi er leiddi til óvináttu og yfirvofandi ófriðar. Vinir beggja gengu þá á milli og var boðað til sáttafundar á Egilsey í páskaviku árið 1117 og  skildu báðir jarlar mæta þar á tveim skipum, jafnliðmargir. Sveik Hákon skilmála þessa og mætti til eyjarinnar með miklu liði. Magnús jarl vildi ekki leggja líf manna sinna í hættu, bauð þeim að berjast ekki og gaf sig Hákoni frænda sínum á vald. Bað Magnús fyrir böðli sínum, en blóðvöllur hans „sem áður var mosóttur og grýttur varð að grænum velli er hann var veginn og sýndi Guð þar að hann var fyrir réttlæti veginn“. Eftir víg Magnúsar fór að bera á himnesku ljósi við gröf hans og greiddist úr erfiðum málum manna og veikindum ef heitið var á hann eða gröf hans heimsótt. Var lík Magnúsar flutt í Kristskirkju, er afi hans Þorfinnur hafði látið byggja í Birgishéraði, en nafni hennar var síðar breytt í kirkju  heilags Magnúsar. Auk höfuðkirkju Orkneyinga, sem hafin var bygging á 1137 í Kirkjuvogi af Rögnvaldi Kala jarli frænda hans, voru þrjár kirkjur á Orkneyjum helgaðar honum, 5 á Suðureyjum, tvær á Katanesi, ein í Færeyjum, 7 á Íslandi og þrjár á Englandi.

Nú var ekið til Thingvalla, lítils ferjustaðar á Hrossey og tekin þaðan ferja er sigldi til Hrólfseyjar, Vigur og síðan til Egilseyjar, en þangað var ferð okkar heitið. Heimsóttar voru rústir kirkju heilags Magnúsar á eyjunni, er byggð mun hafa verið um 1135, svo og minnismerki um Magnús, er reist var á blóðvelli hans. Þaðan var síðan haldið í skólahús eyjarinnar, þar sem notið var ríkulegra veitinga. Er skólinn nú lagður af sem slíkur, enda íbúar eyjarinnar aðeins 19, þar af einn á skólaaldri. Dvöldum við þarna í góðu yfirlæti og heyrðum sögu heilags Magnúsar, en eins og frændi hans Magnús Jónsson sagnfræðingur sagði, þá var „í falli hans sigurinn fólginn“. Síðan var Kirkjuvogur kvaddur og haldið yfir Pentlandsfjörð á ný yfir til Inverness, höfuðborgar skosku Hálandanna. Verslað var hjá Lailu Thomson í listasafni hennar að Hoxa, en Orkneyjar síðan kvaddar með söknuði. Á leiðinni ræddi Magnús fararstjóri um Norðurslóðaverslunina og átök Norðmanna og Orkneyinga um verslunina við Ísland. Urðu átök milli Oddaverja og Sturlunga varðandi verslunina en um árið 1200 var hún komin úr höndum Íslendinga. Sturlungar, sem þá voru ný valdaætt á Íslandi, voru hallir undir Norðmenn en Oddaverjar studdu Orkneyinga. Þessi átök áttu ekki hvað síst uppruna sinn í því hve Grænlandsverslunin var orðin ábatasöm.


Grafhýsið Orkahaugur (Maes Howe) er talið 5000 ára.

 

Ættfaðir Oddaverja

Á þessum árum var samband gott milli Oddaverja og Orkneyjajarla, enda Hrollaugur sonur Rögnvalds Mærajarls ættfaðir Oddaverja og ráðagerðir uppi um mægðir milli Sæmundar í Odda og Haralds jarls Maddaðarsonar. Samband þetta styrkir þá kenningu að Oddaverji hafi skrifað Orkneyingasögu og berast böndin að Páli Jónssyni Skálholtsbiskupi (1125-1211). Sé það rétt er að hluta til nánast um samtíma skráningu að ræða, en Jón og Davíð, synir Haraldar jarls Maddaðarsonar, ríktu saman til ársins 1214.

Á leiðinni yfir skosku heiðalöndin var áð á Culloden-heiði, þar sem her Hálendinga og Eyverja, leiddur af Bonnie Prince Charlie, beið ósigur fyrir her Englendinga árið 1745, er stjórnað var af hertoganum af Cumberland, bróður Georgs III Englandskonungs. Varð mannfall Skota gríðarlegt og leiddi ósigur þessi til frekari hreinsunar og niðurlægingar Hálendinga. Safnið  í Culloden, sem byggt hefur verið til minningar um orustu þessa, skoðað og farið þar yfir gang hennar. Er safn þetta mjög viðamikið og aðgengilegt.

Síðasta daginn var ekið frá Inverness til Edinborgar, heimsóttur kastali í Inverness, þar sem stytta af Floru MacDonald stendur. Á leiðinni rifjaði Magnús fararstjóri
upp sjálfstæðisbaráttu Skota.

Þakka ber ferðafélögum öllum og þá ekki síst Magnúsi Jónssyni sagnfræðingi fyrir frábæra fræðslu og fararstjórn, er gerir ferð þessa ógleymanlega. Án hans hefði ferð þessi aldrei verið farin.

Í ferðinni komumst við nær uppruna okkar því að Rögnvaldur á Mæri og Ketill flatnefur voru ekki aðeins ættfeður Orkneyjajarla heldur líka stórs hluta núlifandi Íslendinga. Til gamans má geta að undirritaður hefur skoðað ættir 6 ferðafélaga í Íslendingabók og eru þeir allir frá þeim komnir í 30. eða 31. lið.


Magnúsarkirkja í Kirkwall.

 

 
Rústir Magnúsarkirkju í Egilsey.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica