03. tbl. 102. árg. 2016
Umræða og fréttir
Norrænu sjúkrahúsleikarnir í Reykjavík í sumar
Gera ráð fyrir 800 þátttakendum
Norrænu sjúkrahúsleikarnir verða haldnir hérlendis dagana 9.-14. júní í sumar. Hjördís Guðmundsdóttir verkefnastjóri leikanna á Íslandi segir að von sé á um 600 þátttakendum frá Norðurlöndunum og allt að 200 Íslendingum. Keppt er í 15 greinum íþrótta og íþróttasvæðið í Laugardal að miklu leyti lagt undir.
„Nú þegar eru rúmlega 500 keppendur skráðir og við reiknum með að endanleg tala verði í kringum
800 manns,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir verkefnastjóri Norrænu sjúkrahússleikanna 2016.
„Nú þegar eru rúmlega 500 keppendur skráðir og við reiknum með að endanleg tala verði í kringum 800 manns,“ segir Hjördís. „Við miðum við að skráningu ljúki þann 30. mars og eins alltaf eru Íslendingarnir seinir til. Ég vil endilega hvetja alla sem áhuga hafa til að skrá sig tímanlega.“
Blandað fótboltalið Landspítala í Lillehammer 2012.
Það kemur kannski einhverjum á óvart að Norrænu sjúkrahúsleikarnir hafa verið haldnir annað hvert ár allt frá árinu 1975 þó formleg samtök hafi ekki verið stofnuð um leikana fyrr en árið 1984. Fyrstu leikarnir voru haldnir í Kaupmannahöfn og hafa Danir haldið leikana alls 10 sinnum, Noregur og Svíþjóð 5 sinnum hvor og Ísland einu sinni, árið 2002. Hjördís segir þessa ójöfnu skiptingu stafa af því að löndin skiptast ekki á um að halda leikana heldur er sótt um að halda þá hverju sinni. „Það eru heilbrigðisstofnanirnar sem mynda samtökin sem sækja um að halda leikana og Landspítalinn sótti semsagt um þetta núna og því eru leikarnir haldnir hér. Við verðum vör við mikla eftirvæntingu hjá norrænu þátttakendunum eftir því að koma til Íslands enda er landið eitt vinsælasta ferðamannaland í heimi þessa dagana. Við pössuðum að panta hótelherbergi fyrir löngu síðan og því geta erlendir aðilar enn komist inn á hótel við Laugardalinn. En þetta lofar allt mjög góðu og við erum spennt að sjá hvernig til tekst.“
Landspítala strandblakkonur í Gautaborg 2014.
Keppnisgreinar í leikunum eru 15 alls, bæði hóp- og einstaklingsíþróttir. Keppt er í 5, 10 og 21 km hlaupi auk boðhlaups, golfs, handbolta, blaks, knattspyrnu, keilu, tennis, borðtennis, badminton, boule, skotfimi, pílukasts, bandí og fitness. Hjördís segir að liðin séu ýmist blönduð eða kynskipt og hvetur starfsmenn íslenskra heilbrigðisstofnana til að stofna lið og taka þátt. „Golfkeppnin er hluti af mótaröð Landspítalans sem ætti að vera hvatning til að taka þátt en rétt er að taka fram að allir geta verið með, það eru engin „lágmörk“ fyrir þátttöku. Flestir taka þátt ánægjunnar vegna og margir hafa verið með mörgum sinnum og hafa eignast góða vini í gegnum þátttöku í leikunum. Eitt af því sem margir hlakka til er lokahátíðin sem haldin verður í Laugardalshöllinni laugardagskvöldið 11. júní og sumir segjast aðallega vera með til að geta tekið þátt í veislunni. Það er líka rétt að undirstrika að allir starfsmenn heilbrigðisstofnana geta verið með, þetta er ekki eingöngu ætlað sérmenntuðu heilbrigðisstarfsfólki.“
Landspítala hlauparar í Gautaborg 2014.
Og þá er ekki annað eftir en að hvetja alla sem vettlingi geta valdið til að skrá sig og gera Norrænu sjúkrahúsleikana í Reykjavík 2016 að eftirminnilegu íþróttamóti og undirstrika með því mikilvægi hreyfingar og líkamsræktar.