03. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Framandi og forvitnilegt en eingöngu vinnustaður - segir Bjarni Valtýsson sem starfar á King Faisal Specialist Hospital í Riyadh í Sádi-Arabíu

Bjarni Valtýsson svæfingalæknir hefur um nærri 5 ára skeið starfað á einu þekktasta sjúkrahúsi hins arabíska heims og lýsir þeirri reynslu sem forvitnilegri og framandi en segir þetta vera fyrst og fremst vinnustað en ekki heimili, kostirnir séu margir en ýmsu verði einnig að fórna.


Bjarni Valtýsson hefur starfað í fimm ár á spítala konungsins í Sádi-Arabíu.

Hvernig kom þetta til í upphafi?

„Það er nú löng saga að segja frá því en í sem stystu máli er hún þannig að við höfðum verið búsett erlendis talsvert lengi, þrjú ár í Svíþjóð og síðan 10 ár í Bandaríkjunum. Það blundaði þó alltaf í okkur að flytja heim til Íslands og við létum verða af því árið 1999. Ég réði mig til starfa á gamla Landspítalanum en þá var þó sameining sjúkrahúsanna rétt handan við hornið. Ég er reyndar alinn upp á Landspítalanum í tvennum skilningi, heimsótti föður minn oft hér á árum áður, var þar sem deildarlæknir í sérnámi og starfaði þar síðan sem sérfræðingur í nokkur ár.“

Hér verður að skjóta því inn að faðir Bjarna, Valtýr Bjarnason, var fyrsti yfirlæknir svæfinga á Landspítalanum og frumkvöðull í þeirri grein.

Landspítalinn olli vonbrigðum

„Ég hafði og hef margvíslegar taugar til Landspítalans. En ég fór semsagt til að ljúka sérnámi í svæfinga- og gjörgæslulækningum í Uppsölum í Svíþjóð.  Bauðst síðan sérfræðings- og prófessorsstaða við Háskólasjúkrahúsið í Madison í Wisconsin sem ég gegndi þar til við ákváðum að flytja heim. Kollegar mínir í Madison skilja ekki enn hvers vegna við fórum til Íslands, því við höfðum það gott þar og leið vel. En heim komum við 1999 og ég hóf störf á Landspítalanum og fyrsta kastið var maður í sæluvímu en það bráði smám saman af manni. Ég fór í rauninni fljótlega að skoða möguleikana á að fara aftur til starfa úti en það er ekki hlaupið að því að rífa fjölskylduna upp á nokkurra ára fresti og flytjast á milli landa. Við hjónin eigum fjögur börn sem sum voru á þessum tíma komin á unglingsaldur og það kom aldrei til mála að flytja þau aftur. Ég var talsvert á ferðinni næstu árin, leysti af á sjúkrahúsum í Danmörku og víðar. Satt að segja varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum með starf mitt á Landspítalanum, ég hafði um margra ára skeið lagt mig eftir sérhæfingu og rannsóknum í verkjameðferð og sinnti því meðal annars á verkjadeild háskólasjúkrahússins í Madison. Ég batt því vonir við að geta komið á þverfaglegri verkjadeild á Landspítala með verkjateyminu sem þar var til staðar en við mættum litlum skilningi að mínu áliti. Um þetta mál allt saman gæti ég haldið langa tölu en það hefur engan tilgang. Vandamálið í hnotskurn er að þegar maður er starfandi læknir með mikla klínískar skyldur hefur maður engan tíma til að hanga á hurðinni hjá stjórnendum spítalans en það virtist eina leiðin til að hafa eitthvað fram. Á endanum gafst ég hreinlega upp á þessu og fór af Landspítalanum og starfaði í Orkuhúsinu og síðar einnig á Handlæknastöðinni í Glæsibæ. Í Orkuhúsinu var ég að stórum hluta með verkjameðferð en það er ekki sérlega árangursríkt að vera einn í slíku, ef vel á að vera þarf þetta að vera unnið af þverfaglegu teymi. Síðan gerðist það að vinur okkar Halldór Benediktsson röntgenlæknir sagði mér frá því að hann væri búinn að ráða sig til Sádi-Arabíu og þetta var árið 2010. Ég hafði áhuga á að reyna þetta og sendi þeim starfsferilsskrá mína. Nokkrum vikum síðar hringdi Peter Kimme yfirlæknir svæfingadeildarinnar á King Faisal Specialist Hospital í Riyadh í mig og bauð mér að koma og skoða aðstæður. Þá fór þetta allt saman af stað.“

Konungsfjölskyldan kallar

Bjarni lýsir ráðningarferlinu sem löngu og ströngu og Sádi-Arabar gefi engan afslátt af skriffinnsku og pappírsvinnu.

„Maður verður bara að ganga að því möglunarlaust því það þýðir ekkert að deila við Sádi-Araba um þessi atriði. Í fyrsta lagi verða allir pappírar að vera skotheldir, lækningaleyfi, sérfræðiviðurkenning og þvíumlíkt; síðan þarf að fara í ýmsar blóðprufur og svo framvegis. Þetta ferli tekur 3-5 mánuði. Síðan er manni boðið að kynna sér aðstæður í fjórar vikur, en þá eru þeir um leið að ganga úr skugga um hvort þeir vilji ráða mann eða ekki. Ef báðir aðilar eru sáttir er boðið upp á samning, til eins árs. Þeir bjóða aldrei lengri samning en hann endurnýjar sig sjálfkrafa ef hvorugur segir honum upp með þriggja mánaða fyrirvara.“

Er þetta jafn konunglegur spítali og nafnið bendir til?

„Já, það má eiginlega segja það. Spítalinn var opnaður árið 1975 fyrir Faisal konung og fjölskyldu hans eða ættbálkinn öllu heldur því um er að ræða 10.000 manns eða svo sem tilheyra ættinni. Spítalinn þjónar þeim en um leið þjónar hann almenningi á ákveðnum sérhæfðum sviðum og er líklega þekktastur fyrir ákveðnar sérhæfum sviðum, krabbameinsskurðlækningar, bæklunarskurðlækningar, hjartaskurðlækningar og líffæraflutninga og er í rauninni stærsta miðstöð slíkra aðgerða í Mið-Austurlöndum og mjög hátt skrifaður á heimsvísu í hjarta- og lifrar-ígræðslum.“

Þegar talað er um almenningsspítala í Sádi-Arabíu segir Bjarni að hafa verði í huga að stjórnkerfið er allt annað en við þekkjum. „Þetta er einfaldlega einræðisríki þar sem konungurinn er einvaldur, en í kringum sig hefur hann marga ráðgjafa og fjölmörg ráðuneyti. Heilbrigðisþjónusta er frí fyrir alla Sáda svo og menntakerfið. Spítalanum er stjórnað af heilbrigðisráðuneyti landsins en sjúklingahópnum er skipt upp í þrjá meginhluta. Í fyrsta lagi er konungsfjölskyldan og allir henni tengdir. Þeim verður að sinna orðalaust hvort sem er að nóttu eða degi. Síðan er starfsfólk spítalans sem telur um 11.000 manns. Þegar fjölskyldur þeirra eru taldar með er líklega óhætt að þrefalda þessa tölu. Þriðji hópurinn er Sádarnir sjálfir sem koma á spítalann eftir tilvísun frá ráðuneytinu. Það heyrir til undantekninga ef öðrum en Sádum, það er sádi-arabískum ríkisborgurum, er vísað á spítalann.“

Það segir sig sjálft að spítalinn er gríðarstór og Bjarni segir að miklar framkvæmdir séu við nýbyggingar, þrjár stórar deildir séu í byggingu og mikil umsvif. „Þetta er spítali Salmans ríkjandi konungs og því er mikil áhersla lögð á að hann sé í fararbroddi hvað varðar tækni og þekkingu. Fyrri konungur hafði annan spítala og þannig ganga hlutirnir einfaldlega fyrir sig þarna niður frá.“

Stýrir sérhæfðri verkjameðferð

„Lengi framan af var spítalinn algjörlega rekinn af Bandaríkjamönnum og mannaður með læknum frá Vesturlöndum. Undanfarin ár hefur verið lögð aukin áhersla á að stjórnendur spítalans séu Sádar, þeir kalla þetta að sádísera yfirstjórnina en læknahópurinn er mjög alþjóðlegur. Við erum rúmlega 100 sérfræðilæknar í svæfingadeildinni svo það gefur nokkra hugmynd um umfangið. Ég var upphaflega ráðinn á svæfingadeildina en þeir vissu af sérhæfingu minni í meðferð langvinnra verkja svo ég fór fljótlega að leysa af á verkjadeildinni. Eftir tvö ár í svæfingunum var ég farinn að hugsa mér til hreyfings. Þá var mér hins vegar boðið að taka að mér þessa verkjadeild, endurskipuleggja hana og koma í betra horf, en ýmsum vandamálum þurfti að taka á. Þetta var fyrir tveimur og hálfu ári. Deildin heyrir undir svæfingadeildina og eitt af markmiðum okkar er að losa okkur undan þeirri millistjórnun því við eigum ekki nema að litlu leyti samleið með svæfingunni og það skapar rekstrarleg vandkvæði að vera undir svona stórri deild. Ég er bjartsýnn á að það takist að gera verkjadeildina að sjálfstæðri einingu. Þetta er lítil deild með 8 sérfræðinga í fjórum stöðugildum og við erum að sjá tæplega 5000 sjúklinga á ári, gerum yfir 1100 deyfingar og 180 aðgerðir á skurðstofu. Á síðasta ári hófum við svokallað „out-reach program“ þar sem við förum á fjögur fjölmennustu svæði í konungsríkinu og höfum klíník fyrir okkar sjúklinga þar á tveggja mánaða fresti. Á þessu ári munum við byrja með fjarlækningar (virtual clinic), en yfir 20 slíkar stöðvar eru á vegum King Faisal sjúkrahússins vítt og breitt um landið. Við sinnum líka konungsfjölskyldunni og þeim sem henni tengjast og segja má að í innsta kjarna hennar séu um 300-400 manns. Langflesta sjáum við á sérstakri klín-ík sem er eingöngu fyrir þennan hóp, en það kemur þó fyrir að við þurfum að fara í vitjanir í hallirnar. Yfirleitt er hringt og sagt hvenær VIP-sjúklingarnir muni koma, það kemur örsjaldan fyrir að þeir komi fyrirvaralaust. Og svo er stundum hringt og óskað eftir lækni strax og þá er betra að henda öllu frá sér og hlaupa af stað. Maður getur sagt nei en það er ekki vel séð.“

Er mikill munur á því að vinna á þessum spítala og á þeim spítölum þar sem þú hefur starfað á Vesturlöndum?

„Munurinn er merkilega lítill. Samstarfsfólk mitt er af ýmsu þjóðerni, bæði Sádar og fólk af mörgu öðru þjóðerni. Þetta er allt mjög þægilegt fólk og vinnumenningin er að miklu leyti svipuð því sem maður hefur vanist annars staðar. Hið sama verður hins vegar ekki sagt um sádi-arabískt samfélag. Það er gerólíkt því sem við þekkjum. Við sem komum frá Vesturlöndum njótum þó mun betri aðstæðna en þeir sem koma annars staðar frá. Við höfum eins konar VIP-stöðu í þessu samfélagi og það hefur til dæmis aldrei gerst að ég hafi verið stoppaður og beðinn um skilríki á eftirlitsstöðvum sem eru víða í borginni. Slíkum stöðvum hefur fjölgað eftir að nýi kóngurinn tók við en hann er mun herskárri en sá sem fyrir var. Við búum síðan á lokuðu svæði þannig að samskipti okkar við Sádana fyrir utan vinnu eru mjög takmörkuð. Flestir þeirra sem við hjónin umgöngumst eru Vesturlandabúar, en Skandínavarnir og Íslendingarnir sem þarna eru halda talsvert mikið hópinn. Þetta heitir Palm Villa Compound og þarna var gamall döðluakur Faisal konungs. Við erum 5 íslenskir læknar sem störfum á þessum spítala, Einar Þórhallsson meltingarlæknir, Atli Eyjólfsson hjartaskurðlæknir, Halldór Benediktsson röntgenlæknir og Stefán Kristjánsson röntgenlæknir ásamt mér, allir á svipuðum aldri og með svipaða reynslu. Við erum fjögur skólasystkin úr læknadeild Háskóla Íslands sem erum í Sádi, Atli, Már Kristjánsson smitsjúkdómalæknir sem starfar í Dammam nokkuð fyrir austan Riyadh og Sigurveig Sigurðardóttir barnalæknir sem er gift Lárusi Ásgeirssyni verkfræðingi sem stýrir risastóru kjúklingabúi Almarai í Riyadh. Eiginkonurnar dvelja venjulega hjá okkur í lengri eða skemmri tíma. Einnig eru nokkrir Íslendingar til viðbótar hér í Riyadh. Þetta er því töluverður hópur.“

Erfitt fyrir konur að búa þarna

„Konur eiga talsvert undir högg að sækja í þessu samfélagi og vestrænar konur eiga erfitt með að sætta sig við það. Það hefur gerst að Dóra kona mín hefur fengið athugasemdir í verslunum eða á götum úti af því að hún er ekki með slæðu. Ferðafrelsi kvenna eru settar skorður með því að þær mega ekki keyra bíl eða vera á reiðhjóli, þær verða að fara allra ferða í leigubíl eða ráða sér bílstjóra ef eiginmennirnir eru ekki til staðar. Það er ekki hægt að komast hjá því. Það eru síðan ýmsir staðir í borginni sem eru vafasamir fyrir vestrænt fólk að láta sjá sig á. Þangað förum við einfaldlega ekki. Og sannleikurinn er sá að við hjónin förum alltaf úr landinu þegar ég á frí. Við eyðum ekki frídögum í Sádi. En það er ýmislegt hægt að gera sér til dægrastyttingar, sundlaugar, líkamsrækt og tennis og svo er mjög góð aðstaða til að spila golf. Þarna eru engin leikhús, tónleikahús eða neitt af því tagi en veitingastaðir eru fjölmargir og misgóðir eins og gengur. Svo eru margir markaðir og kringlur sem gaman er að rölta um en fyrst og fremst er Sádi vinnustaður og mjög góður sem slíkur. Fríin eru góð, en fyrir utan 54 daga á ári sem kalla má sumarfrí eru ráðstefnu- og viðskiptaferðaleyfi en ég geri talsvert af því að sækja ráðstefnur og fundi víða um heim í nafni deildarinnar og spítalans. Spítalinn greiðir eina ferð á ári til heimalandsins en ferðalagið til Íslands tekur hátt í sólarhring svo við höfum haft þá reglu að koma tvisvar á ári og stoppa þá lengur í hvert sinn.“

Og hvernig eru svo kjörin?

„Ég skrifaði undir yfirlýsingu í upphafi um að ég myndi ekki ræða launakjör við einn eða neinn og það gerum við aldrei. Þetta er skemmtileg vinna og gaman að hafa fengið tækifæri til að gera það sem hugur minn hefur staðið til í mjög langan tíma. Einnig er gaman að reyna eitthvað framandi og nýtt. En auðvitað væri maður ekki að þessu ef launin væru ekki ásættanleg. Því um leið og þetta er skemmtilegt, forvitnilegt og framandi er þetta ákveðin fórn. Það er fórn að vera fjarri fjölskyldu og vinum svo eitthvað verður að koma í staðinn til að það sé þess virði. Við höfum þarna stórt og gott einbýlishús til umráða og það er fullbúið húsgögnum. Við eigum í rauninni ekkert þarna svo ef þær aðstæður kæmu upp gætum við pakkað í eina tösku og farið fyrirvaralaust. Þetta er vinnustaður, ekki heimili.“ Þetta vefsvæði byggir á Eplica