01. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Sérnám í skurðlækningum. Inngangur að frekara námi erlendis, segir Tómas Guðbjartsson

Hægt er að taka tvö ár af sérnámi í skurðlækningum við Landspítalann en íslenskir skurðlæknar sækja allir frekara sérnám til háskólasjúkrahúsa erlendis. Tómas Guðbjartsson prófessor og yfirlæknir á skurðsviði Landspítala er einn þeirra sem skipuleggur sérnámið á Landspítala ásamt Guðjóni Birgissyni skurðlækni sem einnig er yfirlæknir á skurðsviði spítalans.  

„Hingað til má segja að það tveggja ára prógramm sem við höfum boðið upp á hér á Landspítala
hafi ekki verið í of föstum skorðum, en það hefur þó að mínu mati gefist vel og námslæknar okkar
hafa undantekningarlaust fengið góðar námsstöður við bestu háskólasjúkrahús bæði austan hafs
og vestan,“ segir Tómas Guðbjartsson prófessor og yfirlæknir á skurðsviði Landspítala.

„Prógrammið í skurðlæknisfræði sem er í boði á Íslandi dekkar næstum allar sérgreinar skurðlæknisfræðinnar en nokkrar skurðgreinar hafa þó eigin sérnámsprógrömm sem eru sjálfstæð, eins og bæklunarskurðlækningar, háls-, nef- og eyrnaskurðlækningar og augnlækningar. Síðan eru kvennaskurðlækningar sem tengjast kvensjúkdóma- og fæðingarfræði. Undir hatti okkar Guðjóns eru þá hinar svokölluðu almennu skurðlækningar, sem taka til aðgerða á efra og neðra kviðarholi auk brjósta-, innkirtla- og áverkaskurðlækninga, þvagfæraskurðlækningar, æðaskurðlækningar, hjarta- og lungnaskurðlækningar, lýtalækninga og heila- og taugaskurðlækninga. Þetta eru allt viðamiklar undirsérgreinar svo á þessum tveimur árum sérnáms sem hér eru í boði býðst námslæknum að kynnast þessum greinum býsna vel og eru því betur í stakk búnir til þess að velja sér sérsvið útfrá því,“ segir Tómas Guðbjartsson.

Mikilvægt að vekja áhuga sem flestra

„Læknanemar fá heilt misseri í skurðlækningum á fjórða ári í námi sínu og þau eru hér á deildinni hálfan veturinn í tveimur hópum, í kringum 24 nemendur í hvorum. Þetta er ein af stærstu námsgreinunum í læknadeildinni og við leitumst við að kynna fyrir þeim sem flestar undirsérgreinar skurðlækninga á þessum vetri í náminu. Kosturinn við þetta fyrirkomulag er að þau fá innsýn í allflestar greinar skurðlækninga en aftur á móti er galli að þau staldra stutt við á hverri deild. Sem prófessor er ég alveg meðvitaður um að það er ekki nema einn af hverjum 10 læknanemum sem mun leggja skurðlækningar fyrir sig enda þótt einhverjir fleiri fari í sérgreinar þar sem skurðlækningar koma við sögu. Ég tel samt mikilvægt að vekja áhuga sem flestra læknanema á skurðlækningum og reyna um leið að lokka til okkar besta fólkið, nemendurna sem hafa styrkleika í klínísku starfi, rannsóknum og kennslu. Lengi vel hallaði á konur í skurðlækningum á Íslandi en það hefur sannarlega snúist við á seinustu árum og nú eru fleiri konur hjá okkur í sérnámi í skurðlækningum en karlar. Það á reyndar við um læknisfræði almennt. Við þurfum að búa þannig um hnúta að skurðlækningar séu jafn fýsilegar fyrir konur og karla, en til þess þarf starfið að vera nægilega sveigjanlegt til að við náum að krækja í besta fólkið. Í Bandaríkjunum og víðar er komin upp sú staða að færri sækja í skurðlækningar en áður og er það talið stafa af því að unga fólkinu finnst álagið of mikið, vinnutíminn of langur, meðal annars þannig að erfitt getur reynst að sameina eðlilegt fjölskyldulíf og starfið. Okkar námslæknar þurfa vissulega að vinna mikið og eru undir talsverðu álagi, sem ég tel þó vera innan marka. Ekki má heldur gleyma því að spennan og álagið er líka það sem margir sækjast eftir í þessari sérgrein og þetta eru þættir sem aldrei verða teknir í burtu.“

Mikilvægt og gott samstarf við svæfingadeild

Tómas nefnir að nýverið hafi verið gerðar breytingar á samsetningu kandídatsársins þar sem áður var skylda að taka tvo mánuði á skurðdeild. „Nú geta kandídatar valið að taka tvo mánuði á skurðdeild eða á bráðamóttöku, sem er nýmæli. Þetta tel ég ekki vera framfaraspor þó vissulega kynnist þeir kandídatar sem velja bráðadeildina ýmsum verkefnum sem tengjast skurðlækningum, eins og minni aðgerðum sem þar eru framkvæmdar. Það er þó alls ekki sama reynsla að mínu mati og að vinna á skurðdeild. Kandídatsárið er mikilvægt og þótt tveir mánuðir geti virst stuttur tími þá hefur þessi tími á skurðdeild reynst mikilvægur fyrir marga við ákvarðanatöku um áframhaldandi nám í skurðlækningum.“

Sérnámið í skurðlækningunum tekur yfir 24 mánuði sem er skipt upp þannig að 6 mánuðum er varið á svæfingadeild og síðan fara námslæknarnir á hinar ýmsu skurðdeildir og er 18 mánuðum skipt á milli þeirra. „Svæfingareynslan er mikilvægur hluti námsins en í skurðlæknanámi á Norðurlöndunum er yfirleitt gerð krafa um hálft ár á svæfingu, sem erlendis getur kostað langa bið fyrir námslækna. Reynsla á svæfingadeild er því mikilvægur hlekkur í náminu hér heima og við höfum átt mjög gott samstarf við svæfingadeild Landspítalans, sérstaklega Gísla H. Sigurðsson prófessor.“

Tómas leggur áherslu á að sérnámið hér heima í skurðlækningunum sé fyrst og fremst hugsað sem inngangur að frekara sérnámi erlendis. „Við krefjumst þess beinlínis af námslæknum okkar að þeir haldi til útlanda í frekara framhaldsnám eftir þessi tvö ár. Þetta teljum við mikilvægt til að tryggja gæði sérnámsins, sérstaklega þegar kemur að sérhæfðum aðgerðum og að kynna sér nýjustu tækni. Við höfum hingað til ekki talið okkur geta boðið lengra nám svo vel sé á þessu stigi, hugsanlega mætti þó ræða að lengja námið eitthvað og skipuleggja þannig heildstæðari fyrrihluta náms í skurðlækningum. Það er þó ekki komið lengra en á umræðustig og ég er frekar efins um að slík breyting væri til góðs.“

Námslæknastöður á Landspítalanum í skurðlækningum eru 16 og að sögn Tómasar hefur aðsókn verið mjög góð um margra ára skeið. „Það hefur verið samkeppni um þessar stöður og fólk hefur stundum þurft að bíða eftir að komast að, en sem betur fer höfum við getað komið til móts við flesta sem sækja til okkar. Síðan er misjafnt hvenær hver og einn byrjar og hann gengur síðan inn í ákveðna rútínu þar sem ákveðinn tími er skipulagður fyrirfram á hverri deild. Námslæknirinn getur hins vegar komið með óskir um að vera lengur á einni deild en annarri, sumir eru til dæmis þegar ákveðnir í því hvaða sérgrein skurðlækninga þeir ætla að leggja fyrir sig; aðrir vilja kynnast sem flestum undirsérgreinum og deildum áður en þeir taka ákvörðun. Guðjón Birgisson hefur í samráði við umsjónardeildarlækni haft umsjón með skipulagningunni og tímaskráningu námslæknanna á hverri deild.“

Fá tímann heima oftast metinn að fullu

Tómas segir alveg ljóst að framundan sé endurskipulagning skurðlæknanámsins á Íslandi. „Með nýrri reglugerð um sérnám í hinum ýmsu greinum læknisfræði sem tók gildi í vor eru gerðar meiri kröfur en áður um marklýsingar sérnámsins og innihald þess. Hingað til má segja að það tveggja ára prógramm sem við höfum boðið upp á hér á Landspítala hafi ekki verið í „of föstum“ skorðum, en það hefur þó að mínu mati gefist vel og námslæknar okkar hafa undantekningarlaust komist í mjög góðar námsstöður við bestu háskólasjúkrahús bæði austan hafs og vestan. Í Svíþjóð og Noregi hafa okkar námslæknar sem betur fer fengið tímann hér heima metinn til sérnáms, oftast að fullu, en í Bandaríkjunum þurfa allir að byrja á núlli, óháð því hvort eða hversu lengi þeir voru í vinnu sem námslæknar hér heima. Kosturinn við sérnámið hér er ótvírætt sá að námslæknarnir okkar fá meiri klíníska reynslu á þessum tveimur árum en býðst erlendis. Þeir fá snemma að taka þátt í ýmiss konar aðgerðum og framkvæma sumar þeirra sjálfir undir handleiðslu sérfræðings, en það leyfi ég mér að fullyrða að erfiðara er að næla sér í slíka reynslu á stærri sjúkrahúsum erlendis svo snemma í sérnáminu.

Þau standa því vel að vígi hvað klíníska reynslu varðar þegar komið er út í hinn stóra heim þar sem samkeppnin er miklu meiri og ýmsir aðrir þröskuldar sem þarf að takast á við eins og nýtt tungumál og mun formlegri samskipti milli námslæknis og sérfræðinga. Hér heima er kostur hvað boðleiðir eru stuttar og samskiptin á milli námslækna og sérfræðinga auðveld og óformleg.

Nú eru Svíarnir að herða á kröfum sínum svo við verðum að gyrða okkur í brók, sem er ágætt og fellur saman við kröfur nýju reglugerðarinnar hér heima. Ég nefni Svíþjóð sérstaklega því okkar námslæknar hafa sótt mest þangað þó margir séu í Noregi en Bandaríkin og England eru líka mikilvæg lönd fyrir sérnám íslenskra skurðlækna.“

Þurfum að bregðast við auknum kröfum

Námsfyrirkomulagið hér heima er að sögn Tómasar með þeim hætti að í hverri viku eru sérfræðingar með fyrirlestur sem einn námslæknir sér um að skipuleggja. „Þetta er fremur í formi umræðu um ákveðin tilfelli eða tegund aðgerðar fremur en hefðbundinn fyrirlestur. Þessi fræðsla hefur gengið mjög vel en námslæknarnir hafa einnig fengið að kenna læknanemum, kandídötum og hjúkrunarfræðinemum undir handleiðslu sérfræðings. Þetta hefur einnig gefist vel og er frábær reynsla fyrir námslæknana okkar. Þá leggjum við áherslu á að þeir sinni rannsóknum á þessum tveimur árum. Slík reynsla skiptir verulegu máli þegar kemur að því að sækja um námsstöður erlendis. Kröfurnar sem gerðar eru til námslækna eru sífellt að aukast og það verður sem betur fer sífellt algengara að læknanemar ljúki meistara- eða doktorsprófi samhliða almenna læknanáminu eða þegar þeir byrja í sérnáminu. Hér hjá okkur eru nokkrir námslæknanna í meistara- eða doktorsnámi og við hvetjum einnig áhugasama læknanema til þess að sinna rannsóknum við deildina.

Það sem ég tel brýnast að koma í fastari skorður er öflugra handleiðarakerfi, en þá fær hver námslæknir persónulega handleiðslu sérfræðings í gegnum allan námstímann þar sem framvindu hans í náminu er fylgt eftir og honum veittur stuðningur eftir því sem þörf er á. Þetta kerfi er við lýði en hefur ekki verið í nægilega föstum skorðum hjá okkur en til stendur að bæta úr því. Það má segja að við á skurðsviði Landspítala höfum komist upp með að hafa prógrammið frekar einfalt og ekki of fastskorðað þar sem það hefur hreinlega verið það vinsælt. En nú eru kröfurnar orðnar meiri, og samkeppnin harðari við aðrar sérgreinar eins og lyflæknisfræðina sem hefur endurskipulagt sérnámið sitt frá grunni. Og þá verðum við að bregðast við af fullum krafti,“ segir Tómas Guðbjartsson prófessor og yfirlæknir að endingu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica