01. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Telja hluta kjarasamningsins vanefndan, segir Þorbjörn Jónsson

Nokkur óánægja er hjá læknum vegna vanefnda á hluta af nýgerðum kjarasamningi. Læknafélag Íslands hélt fjölmennan fund á dögunum þar sem farið var yfir málin. Þorbjörn Jónsson formaður sagði auðfundið að þungt hljóð væri í mörgum læknum.

Ágreiningsmálin eru einkum þrjú og hefur samninganefnd LÍ fundað með yfirstjórn Landspítala og samninganefnd ríkisins en Þorbjörn segir enn lítt hafa þokast í þeim samræðum. „Fyrsta málið, framkvæmd á bókun 4 og fylgiskjali 2, hefur dregist óhóflega vegna þess að undirbúningsvinna stofnana var ekki í samræmi við það sem lagt var upp með. Samninganefndirnar voru í haust sammála um að málið gæti ekki dregist öllu lengur og samninganefnd ríkisins ritaði bréf til heilbrigðisstofnana 10. nóvember þar sem þeim var gert að hefja útgreiðslu á fjármunum sem enn væru til ráðstöfunar samkvæmt bókun 4. Um næsta mál, breytingar á vöktum lækna á Landspítala,má segja að sums staðar tókst að koma í veg fyrir boðaðar breytingar eða breytingarnar verða með öðru sniði en tilkynnt hafði verið. Annars staðar ganga breytingar í gildi eins og Landspítali hafði boðað. Það er því engin ein regla sem gildir að þessu leyti. Læknafélagið gerði líka athugasemd við það að breytingatilkynningar hefðu borist læknum of seint til að vaktabreytingarnar gætu tekið gildi um næstu áramót. Sumir læknar eru með lengri uppsagnarfrest en þrjá mánuði og þarf að virða það. Loks má nefna að í haust kom upp nýr ágreiningur, um merkingu orðsins „launasumma“ í kjarasamningnum. Læknar hafa talið að „launasumma“ væri samheiti fyrir heildarlaun en af hálfu ríkisins hafa verið viðraðar aðrar skýringar. Læknafélagið hefur fundað með samninganefnd ríkisins og við munum hitta nefndina aftur fyrir jól til að reyna að fá niðurstöðu í málið,“ segir Þorbjörn að endingu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica