12. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Lengi man til lítilla stunda

Í síðasta hluta læknisfræði var okkur gert að lesa ameríska bók í handlæknisfræði   er var kennd við Christopher nokkurn.

Ekki laðaðist ég að þeirri bók. Keypti hana að vísu og blaðaði eitthvað í henni fyrir tíma, en las aðallega breska bók, A Short Practice of Surgery eftir Bailey og Love. Hamilton Bailey var í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Hann skrifaði einnig Physical Signs in Clinical Surgery sem var ómetanleg varðandi klíník. Það sem einkum olli ímigust mínum á Christopher held ég að hafi verið beinbrotakafli bókarinnar. Í inngangi hans stóð semsé að óþarft væri að lýsa einkennum beinbrota þar eð tæpast væri til það krummaskuð að ekki væri einfalt að fá röntgenmynd. Þó renndi ég yfir kaflann eins og síðar kemur í ljós.

Beinbrotakaflann í bók Bailey og Love skrifaði John Charnley sem mun fyrstur hafa hannað nothæfan gervilið í mjöðm. Hann lýsti einkennum beinbrots á einfaldan hátt: „Pain, deformity and loss of function“, með áherslu á hið síðasttalda og þótti mér það heldur gagnlegra en snautleg lýsing Cristophers. Allur kafli Charnleys var svo eftir því, skýr og aðgengilegur.

Ég lauk kandídatsprófi í febrúarbyrjun 1961 og var kandídat á handlæknisdeild Landspítala frá febrúar til ágústloka það ár. Um sumarið kom til afleysingastarfa á deildinni kírúrg sem hafði verið um nokkurt árabil við framhaldsnám og störf í Svíþjóð, Lundi eða Gautaborg minnir mig. Fyrsta daginn hans á deildinni skyldi hann aðstoða prófessor Snorra Hallgrímsson við kviðarholsaðgerð og var ég einnig með til að halda í haka. Strax er við, ég og sá nýi, vorum að þvo okkur þótti mér maðurinn óvenju viðbragðssnöggur. Í þann tíð þvoðum við okkur með litlum handsápum. Skyndilega sá ég að sápan skrapp eldsnöggt upp úr hendi hans upp í um höfuðhæð. Hann brá svo snöggt við að hann greip hana á uppleiðinni. Og jafnsnöggur var hann að klippa og hnýta fyrir Snorra í aðgerðinni og fannst mér Snorra jafnvel þykja nóg um.

Snorra hefur sýnilega litist svo á að óhætt væri að láta nýliðann operera á eigin spýtur því daginn eftir var honum falið að taka gallblöðru. Ég var honum til aðstoðar og reyndist maðurinn ekki handseinni við aðgerðina heldur en við að grípa sápuna. Ég man að Snorri gekk inn og horfði um stund yfir öxl læknisins og spurði síðan: „Hvað hefur þú tekið margar gallblöðrur?“ Læknirinn leit eldsnöggt við og svaraði: „Ætli það séu ekki um hundrað.“ Snorri snerist á hæli og gekk út.

Víkur nú sögunni að Christopher.

Einn daginn þegar við vorum saman á vaktinni, afleysingalæknirinn og ég, var komið með konu inn á deildina. Hún hafði verið farþegi í framsæti Volks-wagen-rúgbrauðs sem hafði lent í árekstri með þeim afleiðingum að konan lenti með hægra hné í mælaborði rúgbrauðsins. Þetta var að sjálfsögðu fyrir tíma bílbelta. Þegar hún kom til okkar var hún með hægra læri innroterað og máttum við lítt hreyfa fótinn sakir eymsla og stirðleika í mjöðminni. Læknirinn sendi konuna snarlega niður á Röntgen og bað um mynd í Lauensteinstellingu, það er með lærið útroterað og aðeins flecterað. Ekki reyndist unnt að taka slíka mynd því mjöðmin var föst í innrotatio og varð ekki hnikað að konunni vakandi. Allt um það sýndi myndin að mjöðmin var luxeruð aftur á við. Læknirinn hélt áfram að heimta mynd í Lauensteinstellingu án árangurs. Lauk svo að hann varð að láta sér það lynda.  

Konan var nú undirbúin undir aðgerð og flutt inn á skurðstofu og svæfð. Ekki gerði læknirinn sig líklegan til aðgerða heldur gekk um gólf, fór ýmist inn á skrifstofu læknanna eða fram á gang.

Mig fór að gruna að hann hefði líklega aldrei séð slíkt tilfelli, en ég mundi að hafa séð þessu lýst í Christopher og að ég hafði séð í bókinni mynd af því hvernig slíku liðhlaupi skyldi reponerað. Eintak af bókinni var uppi í hillu á kandídatsherberginu. Ég sótti bókina, fletti upp á myndinni og lagði bókina á borðshornið í læknaskrifstofunni. Ekki leið á löngu þar til læknirinn skálmaði inn. Rak hann augun í bókina, leit snöggt á myndina, gekk orðalaust rakleiðis inn á aðgerðarstofuna og reponeraði liðhlaupinu eins og hann hefði aldrei gert annað.

Konunni heilsaðist vel, en aldrei minntist læknirinn á þetta atvik við mig.

Vigfús MagnússonÞetta vefsvæði byggir á Eplica