11. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Athugasemd

 Í Læknablaðinu10/2015 er greint frá Heila- og taugaskurðlæknafélagi Íslands í grein sem heitir Fortíð, nútíð og framtíð.

Ég vil gera svolitla athugasemd við það sem rætt er um fortíðina eða áður en taugaskurðlæknar fara að starfa á Borgarspítala.

Árið 1945 kom Bjarni Oddsson læknir til landsins eftir 10 ára dvöl í Danmörku. Hann hafði verið þar innilokaður vegna stríðsins. Hann starfaði strax sem skurðlæknir á Landakoti. Í Danmörku hafði hann aðallega verið að læra kvensjúkdóma- og fæðingarhjálp en hann var í tvö ár á taugaskurðlækningadeild í Kaupmannahöfn og hann skrifaði doktorsritgerð sína „Spinal meningioma“ árið 1947 við þá deild. Hann starfaði á Landakotsspítala til 1953 þegar hann fórst í bílslysi. Á þeim tíma komu allar heila- og taugaskurðlækningarnar í hans hlut.

Þegar ég var kandídat á Landakoti 1952 gerði hann að minnsta kosti tvær aðgerðir á heila á geðsjúklingum, eins og þá tíðkaðist.

Þegar Bjarni féll frá urðu vandamál með heilaslysin. Þau komu áfram á Landakot án þess að nokkur væri þar með reynslu. Þess vegna veitti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin Bjarna Jónssyni, sem þá starfaði sem bæklunarskurðlæknir á Landakoti, styrk til að fara til Kaupmannahafnar og vera þar í eitt ár til að læra meðferð höfuðslysa. Eftir að Bjarni kom heim frá Kaupmannahöfn haustið 1957 komu flestöll heilaslys á Landakot og hann annaðist meðferð þeirra þar til sérfræðingar í taugaskurðlækningum hófu störf á Borgarspítalanum.

Bjarni Jónsson var síðan valinn heiðursfélagi í Heila- og taugaskurðlækningafélagi Íslands árið 1998.Þetta vefsvæði byggir á Eplica