11. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Allir ráðherrar voru sammála í grundvallaratriðum segir Páll Sigurðsson læknir og fyrrverandi ráðuneytisstjóri

Páll var ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu og stendur á níræðu nú í haust, nánar tiltekið þann 9. nóvember. Páll býr ásamt konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur geðlækni við Ásholtið í Reykjavík og þó sjónin sé nokkuð farin að daprast er minnið óbrigðult og margs að minnast frá langri ævi.


„Það sem situr eftir er þó sú staðreynd að þrátt fyrir að ráðherrarnir væru margir og úr flestum flokkum
voru þeir í grundvallaratriðum sammála um hlutverk og mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar,“ segir Páll
Sigurðsson læknir og fyrrum ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu.

Páll tók við embætti ráðuneytistjóra í nýstofnuðu heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti árið 1970 og gegndi því starfi í aldarfjórðung undir stjórn 10 ráðherra ólíkra ríkisstjórna. Hann rekur þennan tíma nákvæmlega í bók sinni Heilsa og velferð. Þættir úr sögu heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins 1970-1995, sem kom út árið 1999 og er merkileg og mikilvæg heimild um íslenska heilbrigðissögu á seinni hluta síðustu aldar.

Páll stundaði sérnám í bæklunarskurðlækningum og embættislækningum og starfaði í Gautaborg, á slysavarðstofu og Landakotsspítala áður en hann réðst til ráðuneytisins, auk þess sem hann var tryggingayfirlæknir hjá Tryggingastofnun ríkisins 1960-1970. Þá gegndi hann á starfsferli sínum fjölda trúnaðarstarfa á sviði heilbrigðismála.


Með 1100 manna samlag

„Ég lauk prófi frá læknadeild á miðjum vetri í janúar 1952 vegna þess að ég flýtti mér í náminu, var fimm og hálft ár að ljúka því en þá var læknanámið 7 ár. Ég var síðan kandídatsárið á Landakotsspítala og fór síðan í febrúar 1953 til Ortopedisk Klinik í Gautaborg í bæklunarlækningar undir handleiðslu Erik Severin. Snorri Hallgrímsson hafði útvegað mér þetta pláss. Ég var þarna í tvö og hálft ár og hálft ár til viðbótar á annarri bæklunardeild, Vanföreanstalten í Hälsingborg. Eftir þetta ætlaði ég í almennar skurðlækningar og sótti um stöðu sem auglýst var á Landspítalanum. Ég fékk hana ekki en í kjölfarið fékk ég bréf frá Sigurði Sigurðssyni sem þá var berklayfirlæknir og síðar landlæknir, um að opnuð hefði verið slysavarðstofa við Heilsuverndarstöðina og Haukur Kristjánsson hefði verið ráðinn yfirlæknir. En hann veiktist af mænusótt og Sigurður spurði hvort ég vildi ekki sækja um starf þar. Ég sagði sem var að ég ætti eftir að gegna héraðsskyldunni en Sigurður sagði að ég fengi lækningaleyfið án þess af því að það vantaði sárlega mann til að gegna þessari stöðu. Við fluttum þá heim í lok febrúar 1956. Ég fékk lækningaleyfið og sérfræðileyfi í bæklunarskurðlækningum um leið og var yfirlæknir á slysavarðstofunni þar til Haukur kom til baka um haustið. Slysavarðstofan var þá til húsa í tveimur herbergjum í austurenda Heilsuverndarstöðvarinnar. Haukur var fatlaður eftir veikindi sín og gat ekki tekið fullar vaktir. Ég var því áfram á slysavarðstofunni til ársins 1960. Strax um haustið 1956 þegar Bjarni Jónsson yfirlæknir fór til Kaupmannahafnar til að kynna sér heilaskurðlækningar vantaði bæklunarskurðlækni á Landakotspítalann. Mínir sjúklingar á slysavarðstofunni voru oft sendir á Landakot en þar var enginn bæklunarskurðlæknir eftir að Bjarni fór, svo ég fór að vinna þar líka án þess að spyrja kóng né prest. Það sagði enginn neitt við því enda þekkti ég systurnar ágætlega frá kandídatsárinu mínu og þær vildu gjarnan hafa mig. Þar var ég síðan í 14 ár. Ég opnaði fljótlega stofu í Reykjavík eins og allir læknar gerðu á þeim tíma og sinnti heimilislækningum eftir að ég var búinn á slysavarðstofunni. Þetta voru langir vinnudagar en föstu launin á sjúkrahúsunum voru svo lág að það var ekki nokkur leið að lifa á þeim. Ég var með 1100 manna samlag sem heimilislæknir í mörg ár.“

 

Ráðuneytisstjóri en ekki landlæknir

Páll lýsir fyrir mér hvernig hálfgerð tilviljun varð til þess að hann fékk fyrst nasasjón af embættislækningum. „Eftir þrjú ár á slysavarðstofunni langaði mig að komast út aftur og fá meiri þjálfun í handaskurðlækningum. Ég samdi við Vilmund Jónsson landlækni um að Oddur Árnason sem þá hafði lært taugaskurðlækningar í Gautaborg myndi leysa mig af í nokkra mánuði. Þetta varð úr en Vilmundur bauð mér jafnframt styrk til fararinnar ef ég myndi einnig kynna mér fyrirkomulag slysa- og sjúkratrygginga í Svíþjóð. Mig munaði um styrkinn og samþykkti þetta. Ég var svo einn mánuð í Stokkhólmi til kynna mér hvernig læknar störfuðu að slysa- og sjúkratryggingum auk þess sem ég fékk þjálfun í handaskurðlækningum í Gautaborg. Þaðan fór ég til Bretlands og var á bæklunarskurðdeild sjúkrahússins í Great Portland Street í London í 6 vikur. Ég hafði einnig lofað Vilmundi að sækja um stöðu tryggingayfirlæknis gegn því að ég fengi styrkinn. Staðan var auglýst og ég hafði satt að segja engan áhuga á henni en gerði það eingöngu til að standa við samkomulagið við Vilmund. Emil Jónsson sem þá var tryggingamálaráðherra skipaði mig svo í stöðuna eftir að tryggingaráð hafði mælt með mér og ég gat því ekki annað en tekið við henni. Ég talaði strax við Bjarna Jónsson og spurði hvort ég mætti ekki halda áfram á Landakoti þrátt fyrir þetta og hann féllst á það. Ég gegndi svo þessu embætti til ársins 1970. Þá hafði Sigurður Sigurðsson landlæknir hvatt mig til þess að fara út og kynna mér lýðheilsufræði. Hugmynd hans var að ég sækti um landlæknisembættið þegar hann léti af störfum. Ég fékk styrk frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og ég og fjölskyldan vorum í Bristol í Englandi veturinn 1969-1970 meðan ég sat á skólabekk í lýðheilsufræðum. Guðrún kona mín sem lokið hafði læknanámi nokkru fyrr notaði tímann til að kynna sér starf á geðdeildum sjúkrahúsa í Bristol og nágrenni og synir okkar tveir og dóttir settust einnig á skólabekk og það fór ágætlega um okkur þennan vetur.“

Það fór þó ekki þannig að Páll Sigurðsson yrði landlæknir heldur varð atburðarásin á annan veg. „Um vorið 1970 þegar ég er í prófum fæ ég bréf frá Eggerti Þorsteinssyni. Ég hafði kynnst honum nokkrum árum fyrr þegar hann 1962 fékk mig til að taka sæti á lista Alþýðuflokksins til borgarstjórnarkosninga  og ég lenti óvænt í borgarstjórn 1966 þegar Alþýðuflokkurinn bætti við sig manni. Eggert var þarna orðinn sjávarútvegsráðherra og með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands sem gengu í gildi 1. janúar 1970 var stofnað heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti og Eggert fór einnig með það. Hann bað mig að hitta sig í London og erindið var að spyrja hvort ég vildi taka að mér embætti ráðuneytisstjóra í hinu nýja ráðuneyti. Ég lofaði að skoða það, ákvað að sækja um embættið og var skipaður. Ég tók svo við embættinu þegar ég kom heim sumarið 1970. Ég lenti í hálfgerðum vandræðum þegar kom að því að ráða fólk í nýja ráðuneytið. Ekkert af því fólki sem sinnt hafði þessum málaflokkum í félagsmála- og dómsmálaráðuneytinu vildi skipta um ráðuneyti. Ég þurfti því að leita annað en var strax í upphafi mjög heppinn með starfsfólk. Það kom svo í ljós mjög fljótt að það var ekki nokkur leið fyrir mig að starfa sem læknir meðfram starfinu í ráðuneytinu. Ég varð að vera tiltækur hvenær sem ráðherrann þufti á að halda og því gat ég ekki bundið mig annars staðar á ákveðnum tímum. Oftast komu ráðherrarnir í ráðuneytið seinnipart dags þegar starfinu í þinginu var lokið og þá varð maður að vera til staðar. Guðrún fékk starf deildarlæknis á geðdeild Borgarspítalans eftir að við komum heim og lauk síðan sérnámi í geðlækningum. Hún varð fyrsta konan til að fá sérfræðileyfi í geðlækningum hér á landi í byrjun árs 1976.“


Páll ræðir við Matthías Bjarnason heilbrigðisráðherra í október 1977. Mynd: Hörður Vilhjálmsson /
Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Afnám tilvísanakerfisins var mikill skaði

„Það merkilega var að ég saknaði þess ekkert að hætta sem læknir og gerast embættismaður. Ég hafði reyndar ætlað mér að sækja um landlæknisembættið þegar Sigurður myndi hætta og þegar það losnaði 1973 var Magnús Kjartansson orðinn heilbrigðisráðherra. Hann spurði mig hvort ég vildi taka við landlæknisembættinu, en ég sagði nei, ég vildi heldur vera áfram í ráðuneytinu og byggja það upp. Mér fannst það meira spennandi verkefni.“

Samhliða þessu var í smíðum í heilbrigðisráðuneytinu frumvarp um heilbrigðisþjónustu og þar var meðal annars gert ráð fyrir því að landlæknisembættið yrði lagt niður. Þessi hugmynd mætti mikilli andstöðu bæði meðal samtaka lækna og þingmanna og var tekin út úr frumvarpinu þegar það kom til afgreiðslu þingsins. Frá þessu segir Páll ítarlega í bók sinni Heilsa og velferð fyrir þá sem vilja kynna sér atburðarásina nánar.

Páll segir að stærsta og merkasta verkefni heilbrigðisráðuneytisins hafi ótvírætt verið uppbygging heilsugæsluþjónustunnar eins og við þekkjum hana í dag. „Heilsugæslustöðvar voru ekki til áður heldur voru eingöngu héraðslæknar úti á landi og heimilislæknar í Reykjavík. Með nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu  frá 1973 var byrjað að byggja kerfið upp á landsvísu. Þetta er mjög gott kerfi og vel rekið en það vantar bara fleiri heimilislækna og fleiri heilsugæslustöðvar í Reykjavík. Það þyrfti að leggja miklu meiri áherslu á menntun heimilislækna en gert hefur verið. Annað mál sem olli miklum skaða var afnám tilvísanakerfisins í seinni ráðherratíð Matthíasar Bjarnasonar. Sighvatur Björgvinsson kom því svo á aftur en reglugerðin átti ekki að taka gildi fyrr en eftir að hann hætti sem ráðherra vorið 1995. Ingibjörg Pálmadóttir sem tók við ráðherraembættinu af honum lét það svo verða sitt fyrsta embættisverk að fella reglugerðina úr gildi. Ég hef enga trú á því að tilvísanakerfi verði komið á að nýju.“

 

Áhersla á uppbyggingu en ekki niðurskurð

Páll segir að árin í heilbrigðisráðuneytinu hafi verið skemmtileg en átakasöm á köflum. „Það var tekist hart á um ýmis verkefni. Bygging geðdeildar Landspítalans mætti mikilli andstöðu meðal lækna spítalans en þáverandi ráðherra Magnús Kjartansson lét það ekki á sig fá og nú eru þessar raddir löngu þagnaðar. Ég tel líka að sameining spítalanna í Reykjavík hafi verið illa útfærð og vandræðin stafa að miklu leyti af því að ekkert hefur verið byggt frá því starfsemin var sameinuð. Það var aldrei hugmyndin að reka einn spítala á mörgum stöðum. Það átti bara að vera tímabundið ástand en hefur núna viðgengist í 15 ár.“

Þegar ég bið Pál að draga saman reynslu sína af starfinu í heilbrigðisráðuneytinu segir hann það ekki auðvelt enda af mörgu að taka. „Það sem situr eftir er þó sú staðreynd að þrátt fyrir að ráðherrarnir væru margir og úr flestum flokkum voru þeir í grundvallaratriðum sammála um hlutverk og mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar. Megináherslan var ávallt lögð á uppbyggingu og þróun heilbrigðiskerfisins og á þessum árum var lagður sá grunnur sem enn er byggt á. Árið 1991 fengum við í heilbrigðisráðuneytinu í fyrsta sinn fyrirmæli um beinan niðurskurð útgjalda til heilbrigðismála. Vissulega hafði verið gætt að sparnaði á ýmsum póstum í kerfinu en beinn niðurskurður var óþekktur fram að þessu. Þróunin hefur síðan orðið á þann veg að einkarekstur hefur vaxið mjög. Margt af því er mjög vel gert en það þarf þó að hyggja að því að ekki verði hér til tvöfalt kerfi með tilheyrandi kostnaði og mismunun,“ segir Páll Sigurðsson að lokum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica