11. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Upphaf glerhlaupsaðgerða á Íslandi

Glerhlaup augans (corpus vitreum) er tært og hlaupkennt og fyllir upp í  augað aftan við augastein. Glerhlaupið liggur framan af ævi upp að sjónhimnu og sjóntaugarósi. Við rof á auga, til dæmis við áverka eða skurðaðgerð, á glerhlaup það til að falla fram út á yfirborð augnkúlunnar. Við það getur orðið tog á sjónhimnu með ýmsum alvarlegum afleiðingum svo sem sjónhimnulosi. Hættan á framfalli glerhlaups var ástæða þess að glerhlaup augans var yfirlýst hættusvæði „ekki snerta“ þegar augnaðgerðir voru framkvæmdar allt fram á seinni helming síðustu aldar.


Fersk blæðing inn í glerhlaup. Sjónhimnulos í bakgrunni.

Aðgerðir á glerhlaupi eða í gegnum glerhlaup voru mikil framfaraspor þegar þær hófust í byrjun áttunda áratugar tuttugustu aldar. Til þess að gera augnlæknum kleift að framkvæma slíkar aðgerðir varð að þróa tækni þar sem hægt væri að notast við lokað kerfi til að augnþrýstingur héldist meðan á aðgerð stæði og engin hætta væri á framhlaupi glerhlaups. Áður en þessi tækni kom til hafði David Kasner á Bascom Palmer-sjúkrahúsinu í Flórída framkvæmt glerhlaupsaðgerðir á opnu auga open sky en þær aðgerðir voru hættulegar og báru takmarkaðan árangur.

Tveir augnlæknar í sitt hvorri heimsálfunni áttu stóran þátt í þróun lokaðrar tækni við glerhlaupsaðgerðir. Þessir augnlæknar voru Rudolf Klöti á háskólasjúkrahúsinu í Zürich og Robert Machemer á Bascom Palmer-sjúkrahúsinu í Flórída.

Klöti hóf þróun tækja til glerhlaupsaðgerða í samvinnu við fyrirtækið Oertli Instrumente AG árið 1965 en vegna anna við stjórnsýslu á árunum 1968 til 1970 kom hann hinu nýja tæki vitreous stripper ekki á markað fyrr en á árinu 1971. Í fyrstu var stuðst við einfalt innrennsli á vökva úr flösku inn í augað, en árið 1974 var fyrsta stjórntækið kynnt þar sem auðveldara var að hafa stjórn á inn- og útrennsli í auganu meðan á aðgerð stóð.

Hinum megin Atlantshafsins framkvæmdi Machemer tilraunir með aðgerðir inni í lokuðu auga. Hann notaði meðal annars hænuegg sem tilraunamódel heima í bílskúr. En 20. apríl 1970 gerði hann sína fyrstu glerhlaupsaðgerð í lokuðu auga þar sem þykkur blóðköggull var fjarlægður með vitreous cutter innan úr auga sykursýkisjúklings með góðum árangri. Sjón batnaði frá handarhreyfingu upp í 0,5.

Haustið 1982 var Alþjóða augnlæknaráðstefnan haldin í San Fransisco. Nokkrir íslenskir augnlæknar sóttu þingið, þar á meðal Guðmundur Björnsson prófessor. Hann heimsótti sýningarbás Oertli Instrumente AG og keypti þar nýjustu útgáfu af tæki þeirra til glerhlaupsaðgerða. Hann flutti það svo í farangri sínum heim á augndeild St. Jósefsspítala á Landakoti. Sama haust hófust þar aðgerðir inni í bakhluta auga.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica