10. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Sérgrein. Frá Heila- og taugaskurðlæknafélagi Íslands. Fortíð, nútíð og framtíð. Ingvar Hákon Ólafsson

Sérgreinin taugaskurðlækningar, öðru nafni heila- og taugaskurðlækningar, er að nafninu til ekki ýkja gömul. Borholur í höfuðkúpu voru gerðar fyrir hina ýmsu kvilla á tímum Grikkjaveldis. Bæði Hippókrates og Galen lýstu þeim aðgerðum. Greinin fór þó ekki að þróast að ráði fyrr en eftir aldamótin 1900. Án þess að halla á neinn eru flestir sammála um að Harvey Cushing frá Bandaríkjunum sé sá sem geti talist faðir sérgreinarinnar. Á sama tíma voru þó nokkrir aðrir frumkvöðlar í heiminum sem eiga stóran þátt í frumbernsku sérgreinarinnar.

Fyrstu íslensku læknarnir sem hlutu sérfræðiviðurkenningu í taugaskurðlækningum og voru frumkvöðlar á Íslandi voru Bjarni Hannesson og Kristinn R.G. Guðmundsson. Þeir hófu störf á Íslandi 1971. Fyrir þann tíma voru þó stöku skurðaðgerðir á höfði og mænugöngum gerðar á Íslandi. Þær voru þá framkvæmdar af almennum skurðlæknum o g bæklunarlæknum. Auk þess voru sjúklingar sendir  utan, fyrst og fremst til Kaupmannahafnar til skurðaðgerða á heila og mænugöngum. Heila- og taugaskurðdeildin á Íslandi var stofnuð 1. janúar 1982, á Borgarspítalanum (Landspítala Fossvogi). Hún hefur verið þar allar götur síðan. Kristinn og Bjarni störfuðu tveir til ársins 1987 en þá fjölgaði taugaskurðlæknum í þrjá og 1988 voru þeir orðnir fjórir. Síðan þá hafa þrír-fjórir taugaskurðlæknar starfað við deildina á Landspítala.

Þegar þetta er ritað eru þrír starfandi sérfræðingar á spítalanum en til stendur að ráða fjórða sérfræðinginn á næstu misserum. Starfsemi taugaskurðlækningadeildarinnar er öflug. Síðustu árin hafa verið framkvæmdar milli 700-800 skurðaðgerðir á deildinni á ári. Göngudeild heila og taugaskurðdeildar er rekin á Landspítala í Fossvogi og eru komur þangað um það bil 2500 á ári. Tveir aðrir sérfræðingar eru starfandi á Íslandi með sérfræðiviðurkenningu í taugaskurðlækningum. Þess má til gamans geta að fyrstu smásjáraðgerðir við brjósklos í lendhrygg (microdiscectomy) voru framkvæmdar á Íslandi 1982 og voru þar íslenskir taugaskurðlæknar fyrstir á Norðurlöndunum til að framkvæma þær á þann hátt.

Heila- og taugaskurðlæknafélag Íslands er aðili að Norðurlandafélagi heila- og taugaskurðlækna. Ársþing Norðurlandafélagsins hafa verið haldin fimm sinnum á Íslandi. Síðasta þing var haldið 2013 og var metþátttaka á því þingi enda dagskrá metnaðarfull og hefur Ísland mikið aðdráttarafl. 

Eins og í allri læknisfræði hafa orðið stórstígar framfarir í taugaskurðlækningum undanfarna áratugi. Þekking á sjúkdómum og meðferð þeirra hefur gjörbreyst til hins betra. Tækniframfarir við myndrannsóknir á heila og mænugöngum, gæði smásjáa, taugavaka (neuromonitor) og tilkoma staðsetningatækja (neuronavigation) hafa gert aðgerðir mun hættuminni og árangursríkari á taugakerfinu. Framþróunin heldur áfram og bendir allt til þess að til viðbótar við hefðbundnar aðgerðir verði hlutverk taugaskurðlækna að koma fyrir ögnum, efnum og frumum á rétta staði í taugakerfinu til að lagfæra virkni og breyta boðskiptum milli taugafruma í hinum ýmsu sjúkdómum sem herja á taugakerfið.

Við getum ekki kvartað undan nýliðun í okkar fagi. Hlutfallslega, miðað við stærð sérgreinarinnar, eru margir íslenskir taugaskurðlæknar erlendis sem eru með sérfræðiréttindi eða eru í námi í sérgreininni. Telst mér til að um það bil 20 starfandi íslenskir læknar séu sérfræðingar eða í námi í greininni. Eru Íslendingar bæði vestan- og austanhafs. Það kæmi því á óvart ef ekki takist að manna sérfræðistöður næsta áratuginn. Auðvitað dugir ekki fjöldinn heldur verður að vera eftirsóknarvert að starfa á Íslandi. Það hefur verið keppikefli þeirra sem starfa við taugaskurðlækningar á Íslandi að vekja áhuga læknanema og ungra lækna á sérgreininni. Á þann hátt hefur vel tekist til við að fá lækna til að sérmennta sig í taugaskurðlækningum. Framtíðin er björt og með nýjan Landspítala í sjónmáli eru spennandi tímar framundan í heila- og taugaskurðlækningum hér á landi.Þetta vefsvæði byggir á Eplica