10. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Húmor og vinnugleði einkenna Vilhjálm Rafnsson - af málþingi honum til heiðurs sjötugum

Vinir og velunnarar Vilhjálms Rafnssonar prófessors í lýðheilsufræðum og fyrrverandi ritstjóra Læknablaðsins efndu til málþings á dögunum í tilefni af sjötugsafmæli hans og starfslokum við Háskóla Íslands.


Vilhjálmur Rafnsson í hópi vina og velunnara á málþingi honum til heiðurs.

Málþingið var haldið í sal Þjóðminjasafnsins og var þétt setinn bekkurinn og fjölbreytt dagskrá í boði, með fræðilegu efni í bland í við léttara efni og spaug. Fundarstjóri var Andri Steinþór Björnsson og hélt hann röggsamlega utan um málþingið og gætti þess vandlega að enginn ræðumanna færi yfir tilskilin tímamörk. Var gerður góður rómur að fundarstjórninni.

Af þessu tilefni kom einnig út bók til heiðurs Vilhjálmi undir titlinum Af lífi og í hana rita ýmsir samstarfsmenn, vinir og fjölskyldumeðlimir greinar um fræðasvið er Vilhjálmur hefur tengst og starfað við, einnig frásagnir af áhugamálum og ferðalögum og upprifjun barna hans á uppvexti undir handleiðslu hans. Erindin sem flutt voru á málþinginu er öll að finna í bókinni auk nokkurra greina til viðbótar og er það allt hin fróðlegasta lesning.

Dætur Vilhjálms, Þrúður og Linda, fluttu hugleiðingu um æsku sína og skreyttu með myndum úr fjölskyldualbúminu. Þar var dregin upp persónuleg mynd af Vilhjálmi en sýndi vel að samhliða löngu námi og erilsömu starfi hefur fjölskyldan ávallt skipað mikilvægan sess í lífi hans.

Guðmundur Þorgeirsson flutti fróðlegt erindi undir yfirskriftinni Yfirlit um æðaþel og hlutverk þess í æðasjúkdómum og síðan tók Tómas Zoëga við og ræddi um geðrannsóknir og sakhæfi. Reynir Tómas Geirsson tíundaði merkt framlag Vilhjálms til fræðilegra skrifa í hlutverki hans sem ritstjóri Læknablaðsins um 12 ára skeið og Haraldur Briem ræddi framlag Vilhjálms til lýðheilsufræða og hversu stóran þátt hann átti í að stofna Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Unnur Anna Valdimarsdóttir forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum ræddi um faraldsfræðilegar rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum ögurstunda í lífi fólks á heilsufar þess. Slíkar ögurstundir geta til að mynda verið ástvinamissir, alvarleg sjúkdómsgreining og veikindi, hamfarir og ofbeldi. Unnur nefndi erindi sitt Þegar einn faraldsfræðingur hittir annan og lýsti af mikilli hlýju móttökunum sem hún fékk hjá Vilhjálmi þegar hún hóf störf við Háskóla Íslands. „Vilhjálmur tók á móti mér með sínu góðlátlega og virðulega yfirbragði, húmor og stjórnlausri vinnugleði. […] Við Villi urðum semsagt vinir og hófum þar með órjúfanlega akademíska sambúð. […] Við kenndum saman, ræddum og leystum fræðilegar og akademískar flækjur og unnum hlið við hlið að framþróun vísindanna.“

Pétur Pétursson flutti gagnmerkan fyrirlestur um húmor og sagði hann skiptast í tvo meginþætti, áreitnishúmor og spektarhúmor, og munurinn væri fólginn í því að í fyrra tilfellinu væri hlegið að öðrum en í því síðara væri hlegið með öðrum. Óttar Guðmundsson tók við skemmtikeflinu af Pétri og rifjaði upp heimsókn Vilhjálms til sín á námsárum í Stokkhólmi er Vilhjálmur hrópaði í dyrasíma tilvitnun í Illuga Ásmundsson í Grettissögu: „Knýr Hösmagi hurð, bróðir.“ Óttar ræddi tengsl sín og Vilhjálms við ýmsa kappa Íslendingasagna og kvaðst eftir mikla yfirlegu og rannsóknir vera kominn að þeirri niðurstöðu að Vilhjálmur væri líkastur þeim bræðrum Gretti og Illuga Ásmundsonum en ekki síður hrútnum Hösmaga, þeim er Grettir átti, en hrúturinn sá var vitur skepna sem, með orðum Óttars, knýr í sífellu dyra, rekinn áfram af forvitni og þrá eftir hinu óþekkta. Þannig nálguðust fyrirlesarar merkt vísinda- og rannsóknastarf Vilhjálms Rafnssonar úr ýmsum áttum en komust þó að einni og sömu niðurstöðu. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica