10. tbl. 101. árg. 2015

Ritstjórnargrein

Verða ný lyf í boði fyrir sjúklinga árið 2016?

Gerður Gröndal lyf- og gigtarlæknir‚ Landspítala og Gunnar Bjarni Ragnarsson yfirlæknir lyflækninga krabbameina‚ Landspítala

doi: 10.17992/lbl.2015.10.43


Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016 liggur nú fyrir, fjárveitingin sem ætluð er til svokallaðra S-merktra lyfja er 6472 milljónir kr. miðað við 6488 milljónir kr. fyrir árið 2015. Í frumvarpinu lækkar framlagið sem nemur 210 milljónum króna milli ára vegna spár um gengisforsendur. Á móti kemur raunhækkun framlags um 3% frá fyrra ári, eða um 195 milljónir kr. til að mæta kostnaðarhækkun vegna magnaukningar. En mun þessi upphæð duga til þess að veita fullnægjandi lyfjameðferð fyrir sjúklinga á næsta ári?

Á undanförnum árum hafa orðið gríðarlegar framfarir í lyfjameðferð margra sjúkdóma, meðal annars krabbameina, blóðsjúkdóma, augnsjúkdóma og gigtarsjúkdóma. Óhætt er að halda því fram að dýr lyf séu notuð á varfærnislegan hátt hérlendis. Á Íslandi þarf klínískur sérfræðingur að sækja um meðferð með S-merktum lyfjum til lyfjanefndar Landspítala fyrir hvern og einn sjúkling. Oft er um að ræða langvarandi sjúkdóma sem kalla á meðferð árum saman og fylgst er með árangri meðferðarinnar með endurteknu árangursmati sem sent er til lyfjanefndar spítalans.

Svo dæmi séu tekin af notkun þessara lyfja þá hefur meðferð með nýju líftæknilyfjunum gerbreytt lífi fjölda gigtarsjúklinga, haldið þeim vinnufærum og bætt lífsgæði þeirra. Notkun þessara lyfja eykst árlega um um það bil 10% hjá þessum sjúklingahópi því sjúklingum fjölgar þar sem um langtímameðferð er að ræða. Fjöldi nýrra lyfja hefur verið þróaður og árangur lyfjameðferðar batnað. Þetta hefur orðið til þess að margir krabbameinssjúklingar geta vænst lengra og betra lífs þrátt fyrir að greinast með ólæknandi sjúkdóm. Ljóst er að kostnaður mun aukast vegna þessarar lyfjaþróunar. Ef ekki verður hægt að taka upp ný krabbameinslyf í takt við þróunina, er ljóst að þjónusta við krabbameinssjúklinga mun versna og lifun þeirra verða skemmri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Vegna takmarkaðra fjárheimilda hefur ekki verið unnt að innleiða mikilvæg lyf sem eru nú þegar í notkun á Norðurlöndunum. Árið 2014 voru einungis tekin upp fáein ný S-merkt lyf og á þessu ári er sömu sögu að segja, einungis örfá ný lyf hafa verið tekin í notkun, það er yfirleitt  þau lyf sem auka ekki kostnað og koma í staðinn fyrir önnur sambærileg lyf. Vegna fjárskorts eru fjöldatakmarkanir á einni ákveðinni viðurkenndri lyfjameðferð. Mörg ný lyf bíða innleiðingar en grundvallarreglan er sú að Landspítalinn óskar einungis eftir því að ríkið taki þátt í að greiða lyf sem hafa ótvírætt sannað gildi sitt í klínískum rannsóknum.

Hin Norðurlöndin eru almennt að fjölga þeim lyfjum sem sjúkrahúsin eru bæði fjárhagslega og faglega ábyrg fyrir. Hérlendis varð hins vegar sú breyting síðastliðið vor að öll umsýsla varðandi S-merkt lyf er ekki lengur einungis á hendi Landspítala, þar sem einnig má nú afgreiða þau S-merktu lyf sem notuð eru utan sjúkrahúsa í öllum apótekum. Það liggur einnig ljóst fyrir að Lyfjastofnun stefnir að því að leggja niður S-merkingu á mörgum þessara lyfja í nánustu framtíð. Eins og reglugerðir eru í dag má vænta að þessar breytingar geti leitt af sér kostnaðarauka án þess að lyfjameðferð aukist eða batni, meðal annars vegna hækkunar á álagningu þessara lyfja og fleiri þátta. Vissulega er þörf á að endurskoða flókna umsýslu lyfjamála af og til en við breytingar er einnig nauðsynlegt að vega og meta þann kostnað og ábata sem breytingar hafa í för með sér.

Það er áhyggjuefni ef lyfjameðferð sjúklinga með alvarlega sjúkdóma verður ekki sambærileg því sem tíðkast í löndum sem við kjósum að bera okkur saman við. Miðað við ofangreint frumvarp til fjárlaga er ljóst að svigrúm til upptöku nýrra lyfja verður áfram mjög takmarkað og hætta á að greiðsluþátttöku í gagnlegri lyfjameðferð sem eykur kostnað, verði hafnað.

Við nefndarmenn í lyfjanefnd Landspítala vonum að fjárveitingavaldið og heilbrigðisyfirvöld taki ofangreindar athugasemdir til greina og auki fjárveitingu til S-merktra lyfja fyrir árið 2016. Að öðrum kosti er ekki ljóst hvort hægt verður að halda lyfjameðferð sambærilegri við það sem tíðkast á Norðurlöndunum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica