07/08. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Ferð öldungadeildar LÍ til Færeyja í maí 2015. Hörður Þorleifsson

Hér birtist stytt frásögn Harðar Þorleifssonar af ferðinni. Frásögnina í heild ásamt ferðavísum og myndum er að  finna á vefsíðu Öldungadeildar.

Fararstjóri var Magnús Jónsson sagnfræðingur og ferðafélagar hans voru 33.


Úr siglingu við Vestmannabjörg. Ljósm. Hörður Þorleifsson.

Flogið var frá Reykjavík upp úr hádegi 18. maí og lent á Vogey eftir 68 mínútur. Þar beið langferðabíll sem var með okkur þessa daga. Fyrst var ekið að fallegri kirkju í Sandavogi nálægt flugvellinum. Í kór hennar er rúnasteinn er fannst árið 1917. Á hann er letrað: Torkil Onundarson eystmaður ur Rogalandi bygdi henda stað fyrst. Rétt hjá er minnisvarði um prestinn og málvísindamanninn Hammershaimb sem fæddur var 1819 í Steig í Sandavogi. Hann er talinn höfundur hins færeyska ritmáls. Hótel Færeyjar í Þórshöfn var gististaður okkar. Náðum við þangað um fimmleytið.

Árla næsta dag var haldið norður Straumey að vestanverðu til bæjarins Kvívíkur. Þar voru grafnar upp rústir frá víkingaöld. Þar er fjós með þremur básum, stór skáli með eldstæði og fleira.  

Frá Kvívík héldum við til Vestmanna, mun stærri bæjar er liggur norðar. Þar fórum við í bát að skoða Vestmannabjörgin. Sigldum meðfram þeim við talsverðan öldugang. Ferðin tók tvær klukkustundir. Í Vestmanna tourist centre fengum við súpu og skoðuðum víkingasafn í sama húsi. Þar eru sagðar og sýndar glefsur úr Færeyingasögu. Gengum við um sögusviðið innan um vaxmyndir sem sýndu hroða þess tíma.  

Nú var haldið austur með norðurströnd Kollafjarðar að sjávarþorpinu Hvalvík. Þaðan er vegur norður til Saksun. Í norðanverð Vestmannabjörg klýfur sig smáfjörður inn í lón og upp af því er þessi litla byggð. Skoðuðum byggðasafn í gömlu prestssetri, Dúvugarði. Þarna er einnig gömul kirkja. Hér er kyrrðin rofin af tjaldinum, einkennisfugli Færeyja. Komið var heim á hótel fyrir kvöldverð.

Næsta morgun var ekið inn í miðbæ Þórshafnar. Jörleifur nokkur Kúrberg leiddi okkur um hina gömlu og litríku byggð á Tinganesi. Þar eru mörg stór og rauðmáluð hús með tjörguðum kjallara. Stjórn Færeyja hefur aðsetur þarna. Einnig eru þar mörg smáhýsi sem hýst hafa ýmsa starfsemi.

Að lokinni þessari yfirferð var dagurinn frjáls til klukkan 17.30. Þá var haldið til Kirkjubæjar. Kóngsbóndinn
Jóhannes Patursson tók á móti okkur úti en kona hans í bæjardyrum. Kvöldverður góður var framreiddur í reykstofunni og þjónuðu móðir bóndans og tveir synir hans til borðs. Ein platan í matborðinu þarna á sína sögu. Fyrir löngu fórst skip þar nærri og þessa plötu rak á land. Ungur skipverji hafði komist á plötuna og hélt sér þar dauðahaldi og bjargaðist. Að loknum kvöldverðinum var okkur fylgt inn á heimilið og boðið kaffi.

Fjórða daginn var haldið til Austureyjar yfir brú. Haldið var norður með vesturströnd Austureyjar að bænum Eiði og þaðan austuryfir eyjuna. Stansað var og teknar myndir af risanum og kellingunni sem ætluðu að draga Færeyjar til Íslands en urðu að sjódröngum. Ekið var sunnan við Slættaratind, hæsta fjall Færeyja. Austar á eyjunni sést niður á þorpið Funning við Funningsfjörð. Leiðin liggur nú norður að Gjógv, fallegri gjá inn frá sjónum. Þarna er lítil en snotur byggð og snæddum við þarna hádegisverð.


Þrándur í Götu. „Upp á kant“ sem forðum. Ljósm. Hörður Þorleifsson.

Síðan var ekið suður með Funningsfirði að botni Skálafjarðar og svo austur  að Syðrugötu. Á milli hennar og Norðragötu er Götugjógv. Þar er fögur, nýleg kirkja sem þjónar allri Götubyggðinni. Aftan við kórinn er stór, steindur gluggi eftir Trónd Patursson frá Kirkjubæ og glerlistaverk eftir hann eru á veggljósum. Frá kirkjunni héldum við til Norðragötu. Þar er skemmtileg stytta. Út frá lóðréttri, slípaðri steinplötu sem eyjarnar eru teiknaðar á stendur Þrándur í Götu láréttur. Leiðsögumaðurinn Árant Hansen, sýndi okkur gamlan bústað sem kallast Blásastova. Þar eru lokrekkjur er virðast ótrúlega litlar. Handan götunnar er gamla kirkjan sem er, líkt og flestar eldri kirkjur í Færeyjum, tjörguð svört og gluggar, dyrastafir og turnþök hvítmáluð. Árant söng þar sálm sem hann sagði venju að syngja þar og þekktum við hann að heiman. Okkur var vísað inn í gamlan kjallara. Þar er talið að Þrándur í Götu hafi búið og eru tveir sívalir Þrándarsteinar taldir úr vegghleðslu frá hans tíð. Lítið sjóminjasafn var þar í næsta húsi og var einn merkilegasti hluturinn mælistöng með merkingar hvernig ætti að skera grindhval til úthlutunar.

Föstudaginn 22. maí var svo haldið heim á leið og lent á Reykjavíkurflugvelli kl. 13. Ferðin gekk vel í alla staði og fararstjórinn Magnús Jónsson stóð sig vel í leiðsögninni.

 

Fögur kirkja í Götugjá,

glerlist skreytir veggi.

Norður-götu er gott að sjá,

gleður Þrándur seggi.


Hann þar stendur styrkum á

stalli og lárétt hallar.

Hann er kominn fornöld frá,

frægð um eyjar kallar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica