07/08. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Heilbrigði í Farsótt!

Dagar gistiskýlisins á horni Þingholtsstrætis og Spítalastígs eru nú á enda. Spítalinn var byggður árið 1883 og dregur gatan nafn sitt af honum. Spítalarekstur hófst í Reykjavík árið 1866 þar sem nú er hús Hjálpræðishersins en síðar lét Sjúkrahúsfélag Reykjavíkur byggja sérstakan spítala. Þetta er elsta hús landsins sem er sérstaklega byggt sem spítali. Helgi Helgason tónskáld og trésmiður teiknaði húsið sem er hið reisulegasta og hefur ætíð þjónað vel þeirri starfsemi sem þar hefur verið. Auk spítalastarfseminnar var læknaskólinn þarna til húsa um árabil en þegar Landakotsspítali var byggður árið 1902 tók hann við hlutverki sem helsti spítali Reykjavíkur. Næstu árin var húsið notað til íbúðar en um 1920 var það tekið til heilbrigðisþjónustu á ný. Þar var útbúin aðstaða fyrir farsóttarsjúklinga og þá festist við húsið nafnið Farsótt. Það var einnig notað fyrir berklasjúklinga um tíma en á síðari árum var það gistiskýli fyrir þá sem hvergi áttu höfði sínu að halla.


Farsóttarhúsið, elsti spítali landsins, er í 101, hann stendur við Þingholtsstræti 29.

Nú stendur húsið autt en margir renna hýru auga til þess í gósentíð erlendra ferðamanna enda getur gott hús á góðum stað fært eiganda sínum ágætan arð. En ekki er allt gull sem glóir og til eru verðmæti sem gefa arð sem er ekki einvörðungu mældur í krónum eða evrum.

Tillaga mín er að koma á fót Heilbrigðisminjasetri í fyrsta spítala Reykjavíkur sem legði áherslu á þekkingu á heilbrigðismálum og stöðu heilbrigðismála á Íslandi á árunum ca. 1870-1930. Á þeim árum fjölgaði þjóðinni mikið, barnasjúkdómar urðu landlægir og hættu að vera drepsóttir, síðasta stóra drepsóttin gekk yfir (spænska veikin), holdsveiki og sullaveiki hurfu nær alveg, berklaveikin rénaði og þekking og skilningur á heilbrigðismálum jókst mikið. Nýjungar í læknisfræði komu til Íslands um aldamótin, læknismenntun batnaði, tekin var upp kennsla í hjúkrun og heilbrigðisstarfsmönnum fjölgaði. Hér var Reykjavík í fararbroddi.

Í húsinu væri hægt að hafa nokkur tæki og verkfæri sem voru notuð á þessum tíma og kynna málefni með veggspjöldum, brúðum af sjúkum einstaklingum, heilum og hálfum, og myndrænni framsetningu í tölvumyndum. Þá væri sjálfsagt að gjörnýta aðstöðuna þar sem líkskurður fór fram. Til að tryggja rekstur svona seturs þarf að vera hægt að kaupa minjagripi og vörur og þá væri ekki úr vegi að bjóða upp á kræsingar úr lyfjaskápnum, til dæmis te, lakkrís, ölkelduvatn og skarfakál. Einnig væri hægt að nota húsið fyrir fundi og skemmtanir og þaðan gætu legið gönguleiðir til heilsubótar og fræðslu um sögu heilbrigðismála, til dæmis út á Nes og inn á Klepp.

Hrakfarir lækningaminjasafns eru vel kunnar og ástæðulaust að þæfa það mál frekar. Þessi tillaga gæti að einhverju leyti leyst þann vanda, hafið spítalann til vegs og virðingar og gert mikilvægum þætti í íslenskri sögu skil. Heilbrigðisminjasetur í Farsóttarhúsinu er hvorki dýr né fráleit hugmynd heldur gæti hún orðið einföld og ódýr ráðstöfun. Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum er það viljinn til að gera vel sem skiptir máli.Þetta vefsvæði byggir á Eplica