07/08. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

„Brýnt að hefja framkvæmdir við nýjan spítala“ segir Reynir Arngrímsson nýkjörinn formaður Læknaráðs Landspítala

„Líklega hefur aldrei reynt eins mikið á heilbrigðiskerfið og núna og stóra spurningin sem blasir við okkur er hvernig á að viðhalda því,“ segir Reynir og bætir því við að yfirlýstur vilji stórs meirihluta almennings sé að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera. „Um það er ekki ágreiningur en hnífurinn stendur þó engu að síður í kúnni hvað varðar opinbera fjármögnun.“


„Húsnæði Landspítalans er engan veginn samboðið því hlutverki sem stofnuninni er
ætlað að gegna,“ segir Reynir Arngrímsson nýkjörinn formaður Læknaráðs Landspítala.


„Læknaráð Landspítalans er skipað öllum fastráðnum læknum stofnunarinnar. Læknaráðið kýs sér síðan stjórn sem fer með mál ráðsins á milli ársfunda þess. Ráðinu er ætlað það hlutverk að vera stjórn spítalans ráðgefandi um uppbyggingu spítalans og skipulag læknisþjónustunnar. Þetta getur gerst á tvennan hátt.Annars vegar með því að framkvæmdastjórn spítalans getur leitað álits ráðsins vegna skipulagsmála, bygginga, lækninga og annars sem stjórnin telur að gagnlegt sé að fá álit Læknaráðsins um. Hins vegar getur læknaráðið líka haft frumkvæði að ályktunum um öll þessi mál og í rauninni hvaða mál sem er sem snerta spítalann sérstaklega eða heilbrigðismál almennt,” segir Reynir og bendir á þessu til áréttingar að núverandi skipurit spítalans, skiptingar í svið og undirsvið lækninga, hafi verið unnið í nánu samráði við Læknaráðið. „Það er reyndar orðið tímabært að endurskoða það skipulag,“ bætir hann við.

Stöðunefnd og fræðslunefnd

Mikilvægur hluti af starfi Læknaráðsins felst í starfi stöðunefndar sem fer yfir og metur allar starfsumsóknir sérfræðilækna á spítalanum. „Það er heilmikið starf sem fylgir þessari nefnd þar sem allar umsóknir fara í gegnum hæfnismat sem stöðunefndin gerir.

Þá er einnig starfandi fræðslunefnd á vegum ráðsins sem skipuleggur fyrirlestra og fræðslufundi fyrir lækna og það starf hefur verið mjög blómlegt undanfarin ár.“

Hann segir Læknaráðið geta beitt frumkvæði sínu meira og leggur sérstaka áherslu á að mannauðsmál spítalans hafi verið í brennidepli í vetur og vor og þó Læknaráðið standi utan við kjaradeilur og taki ekki beinlínis afstöðu til þeirra sé augljóst að mönnun á sjúkrahúsinu sé háð þeim kjörum sem starfsfólki bjóðast á hverjum tíma.

„Við þurfum að leggja áherslu á að laða ungt og hæfileikaríkt fólk að spítalanum og geta boðið ásættanleg kjör og starfsaðstöðu. Til að svo megi verða þarf auðvitað fjármagn og Læknaráðið gæti beitt sér af meiri þunga gagnvart fjárveitingavaldinu og bent á nauðsyn þess að tryggja stofnuninni nauðsynlega fjármuni til rekstrar og uppbyggingar.“

Reynir segir að vissulega hafi ýmislegt breyst í innra skipulagi spítalans á þeim áratugum sem liðnir eru frá stofnun og Læknaráðið hafi eflaust haft meiri áhrif á árum áður en það hefur í dag. „Það hefur verið bent á að starfshlutfall skrifstofustjóra Læknaráðsins hefur verið minnkað um helming og nú skipta formaður og framkvæmdastjóri Læknaráðsins á milli sín einni stöðu. Stjórn Landspítalans hefur einnig breyst verulega frá því sem áður var á meðan skipan og hlutverk Læknaráðins hefur haldist óbreytt. Ég held satt að segja að árekstrar á milli þessara aðila séu að miklu leyti úr sögunni og að stjórn Landspítalans og Læknaráðið hafi unnið mjög vel saman undanfarin ár. Ég á ekki von á öðru en að það haldi áfram. “

Hann nefnir í þessu sambandi nýgerðan kjarasamning Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands við ríkið og þó kjaramál séu viðfang stéttarfélaga lækna hafi Læknaráðið aðkomu að útfærslu þeirra innan stofnunarinnar, hvað varðar starfslýsingar og vinnufyrirkomulag.

Þess má geta að auk Læknaráðs er starfandi Hjúkrunarráð Landspítalans og er það stjórn spítalans til ráðgjafar um málefni hjúkrunar. „Þessi tvö ráð gætu eflaust haft meira samráð sín á milli um ýmis mál en stjórn spítalans hefur litið svo á að umsagnarhlutverk ráðanna sé skýrt aðgreint, hvað varðar hjúkrun annars vegar og lækningar hins vegar.“

Hann segir mikilvægi  beggja þessara ráða við framtíðar stefnumótun Landspítalans vera algjörlega ótvírætt. „Framkvæmdastjórn spítalans hlýtur að leita til beggja ráðanna um stefnumótun til framtíðar og samhliða því ættu ráðin að taka upp samstarf um mótun tillagna á þessu sviði. Öll hugsun um hjúkrun og lækningar hefur tekið róttækum breytingum frá sem áður var og samstarf um stefnumótun ætti að endurspegla þá teymisvinnu og samstarf sem þegar er staðreynd í daglegu starfi á spítalanum.“

Húsnæðismál og kennsluhlutverk

Einna mikilvægast varðandi framtíð Landspítalans eru húsnæðismálin. Reynir segir að mjög brýnt sé að hefja framkvæmdir við nýja byggingu hið fyrsta. „Það munar hreinlega um hvert ár, að ekki sé sagt mánuð, sem þetta mál dregst,“ segir hann og bætir við að Læknaráðið þurfi að taka skýra afstöðu í þessu máli hið fyrsta og innbyrðis ágreiningur læknanna um staðsetningu og hönnun verði að víkja fyrir hinum stærri hagsmunum. „Læknaráðið hefur ályktað um húsnæðismálin í gegnum árin en ágreiningur hefur verið uppi sem dregið hefur úr þunga þeirra ályktana.“

Reynir dregur enga dul á þá skoðun sína að húsnæði Landspítala sé algjörlega óviðunandi og engan veginn samboðið því hlutverki sem stofnuninni er ætlað að gegna. „Það er viðvarandi ástand að deildir séu yfirfullar og gjörgæslan og fleiri deildir springa í hverjum inflú-ensufaraldri. Þegar kemur að því að móta stefnu spítalans í húsnæðismálum á sjúklingurinn að sjálfsögðu að vera í fyrsta sæti. Þar er tvennt sem skiptir mestu máli: skipulag húsnæðisins og hraði framkvæmdanna. Við getum ekki leyft okkur að bíða lengur með að hefja framkvæmdir. Þetta hefur verið á dagskrá allt frá árinu 2003 og löngu tímabært að hefja verkið.”

Þá er ónefnt hlutverk Landspítalans sem háskóla- og rannsóknasjúkrahúss og Reynir segir ekki hægt að tala um húsnæðismál Landspítalans án þess að hugað sé samhliða að uppbyggingu aðstöðu til kennslu í heilbrigðisgreinum. „Það er óneitanlega mikill kostur þegar þetta er allt skoðað í samhengi að byggingar séu á sama svæðinu. Það má ekki gleymast í þessu samhengi að á hverju ári eru 1500-1700 nemendur í heilbrigðisgreinum að stunda nám innan Landspítala. Aðstaða fyrir nemendur hefur aldrei verið góð á Landspítalanum en með fjölgun nemenda á síðustu árum hefur hún versnað. “

Ekki verður hjá því komist að spyrja nýkjörinn formann Læknaráðs Landspítalans að því hver sé skoðun hans á lagasetningu ríkistjórnarinnar á verkfall hjúkrunarfræðinga og Bandalags háskólamanna á dögunum. „Það eru mikil vonbrigði að sett hafi verið lög á verkföllin í stað þess að ná samningum við þessar stéttir. Læknaráð Landspítalans er alveg einhuga í þeirri afstöðu sinni að öllum starfsmönnum spítalans séu tryggð sanngjörn laun og í samræmi við þeirra menntun og sérhæfingu. Þannig erum við sammála þeirri grundvallarkröfu sem sett var fram í þessari kjarabaráttu, að menntun sé metin til sanngjarnra launa, þó Læknaráðið hafi hvorki forsendur né umboð til að taka afstöðu til kröfugerða einstakra stéttarfélaga. Það á heldur ekki að vera vandamál árið 2015 að launajafnrétti kvenna og karla sé ekki til staðar og að svokallaðar kvennastéttir þurfi að berjast harðar fyrir launum sínum en karlastéttir. Gleymum því ekki að um 80% af starfsmönnum Landspítalans eru konur og ójafnrétti til launa er okkur ekki samboðið í dag,“ segir Reynir Argrímsson að lokum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica