07/08. tbl. 101. árg. 2015

Ritstjórnargrein

Frú Ragnheiður – skaðaminnkun í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson læknir og borgarstjóri Reykjavíkur

doi: 10.17992/lbl.2015.0708.34


Verkefnið „Frú Ragnheiður“ sem rekið er að frumkvæði Rauða krossins og sjálfboðaliða úr heilbrigðisstétt fékk nýlega Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar. Frú Ragnheiður er ekki bara áhugavert heiti heldur merkilegt starf sem fellur undir flokk skaðaminnkandi verkefna. Í stuttu máli gengur hugmyndafræði eða nálgun skaðminnkunar út á að draga úr skaðlegum afleiðingum lífsstíls eða hegðunar, óháð því hvort hún sé æskileg, leyfileg eða ólögleg. Lýðheilsufræðin hafa lengi fjallað um slíka þjónustu eða úrræði og er kynlíf unglinga ágætt dæmi. Á að veita fræðslu, dreifa smokkum og skrifa upp á pilluna fyrir unglinga og ólögráða börn fremur en að standa fast á boðum og bönnum? Svarið er já og reynslan sannar það.

Mikil umræða er um skaðaminnkandi nálgun þegar kemur að neyslu ólöglegra eiturlyfja og afleiðingum hennar. Og sýnist sitt hverjum. Frú Ragnheiður veitir utangarðsfólki og einstaklingum í virkri neyslu heilbrigðisþjónustu utan spítala og sprautufíklum aðgang að hreinum nálum svo dæmi sé tekið. Nálaskiptaþjónusta Frú Ragnheiðar sem var stofnað til árið 2009 er eina yfirlýsta skaðaminnkandi verkefnið sem starfrækt er í dag á sínu sviði. Verkefnið gengur út á að mæta einstaklingnum í þeim aðstæðum sem hann er, enda er engum neitað um þjónustu hjá Frú Ragnheiði. Þeir hópar sem sækja aðstoð til Frú Ragnheiðar eiga oft erfitt með að leita til almennrar heilsugæslu eða hirða ekki um það, en meðal skjólstæðinga verkefnisins eru heimilislausir, útigangsfólk og fíklar.   

Utangarðsfólk í Reykjavík telur á annað hundrað. Fíklar eru enn fleiri. Margir þeirra hafa nýtt sér aðstoð Frú Ragnheiðar en samhliða því hafa borgarverðirnir okkar, færanlegt þverfaglegt teymi félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðings og lögreglu, verið með nálaskiptiþjónustu auk þess sem hægt hefur verið að fá sömu þjónustu í Dagsetrinu svokallaða sem er afdrep heimilislauss fólks í vímuefnavanda og rekið er af Hjálpræðishernum.

Í starfsemi Frú Ragnheiðar er reynt að draga úr og lágmarka skaða sem getur orðið af hegðun og líferni þeirra sem nota þjónustuna. Þannig er hægt að draga úr skaðsemi lifnaðarhátta jaðarhópa, til dæmis sýkingum í sárum og útbreiðslu lifrarbólgu C og HIV, með því að auðvelda þeim aðgengi að sárameðferð, hreinum nálum og sprautum og almennri fræðslu um skaðaminnkun. Þannig er hægt með einföldum leiðbeiningum og fræðslu að draga verulega úr skaðsemi lifnaðarhátta. Um leið er dregið úr mögulegri þörf á mun dýrari úrræðum seinna meir fyrir heilbrigðiskerfið.

Frú Ragnheiður er rekin á sjálfboðaliðagrundvelli en þeir sem taka þátt eru margir hjúkrunarfræðingar eða hjúkrunarfræðinemar. Innan um standa svo vaktina félagsráðgjafar, vímuefnaráðgjafar, sálfræðingar og aðrir hæfir sjálfboðaliðar. Verkefnið er dýrmæt reynsla fyrir sjálfboðaliða sem taka þátt og skapar um leið tækifæri fyrir aukna samvinnu milli heilbrigðis- og velferðarkerfisins.

Reykjavíkurborg verðlaunaði þetta verðuga verkefni á dögunum, veitti því styrk sem gerir þeim betur kleift að sinna og þjónusta þennan mikilvæga en viðkvæma hóp sem á sér fáa talsmenn og eru sjaldnast með kröfugerð. Verkefnið hefur stuðlað að minnkandi fordómum og auknum skilningi gagnvart þessum jaðarhópum. Ekki bara úti í samfélaginu – heldur líka innan kerfis og meðal þeirra sem starfa í heilbrigðis- og velferðargeiranum. Að mínu mati er mikilvægt að ræða kosti og galla skaðaminnkandi úrræða og það er mikilvægt að meta áhrifin. Öll umræða um hugmyndafræði skaðaminnkunar er til bóta.

Það er of snemmt að slá neinu föstu um hvort tilkoma Frú Ragnheiðar hafi haft áhrif til að draga úr smiti og sýkingum gegnum notkun óhreinna sprautunála. Það er þó athyglisvert að í tölum sóttvarnarlæknis sést að eftir tvö ár þar sem töluverður fjöldi nýsmitaðra með HIV (10 og 13 einstaklingar eða um helmingur nýsmitaðra) hefur tala þeirra þar sem smit er rakið til eiturlyfjaneyslu aðeins verið einn einstaklingur síðustu tvö ár. Á sama árabili hefur smituðum af lifrarbólgu C í gegnum fíkniefnaneyslu á hverja 100.000 íbúa fækkað úr 52 í 12. Þetta eru í það minnsta áhugaverðar tölur sem þarf að greina betur.

Mannréttindaverðlaun Frú Ragnheiðar er ekki aðeins lýðheilsumál heldur endurspeglar líka mannvirðingu og viðurkenningu á því að við getum ekki litið fram hjá skaðlegri hegðun í samfélaginu. Þó ábyrgð einstaklinga á eigin lífi sé rík eru afleiðingar hegðunarinnar oft samfélagslegt úrlausnarefni. Við þurfum að horfast í augu við vandann og mæta honum þannig að við drögum úr áhrifum hans eins og kostur er. Hugmyndafræði skaðaminnkunar í vinnu með áfengis- og vímuefnaneytendum hefur stuðlað að vakningu og hugarfarsbreytingu víða innan félags- og heilbrigðiskerfisins. Skaðaminnkun getur verið farsæl nálgun í þjónustu við ákveðna jaðarhópa og auðveldar tengsl og samvinnu fagaðila og notenda. Þannig getur byggst upp traust sem aftur er forsenda varanlegra breytinga. Það er ánægjulegt að sjá hvernig góð verkefni geta orðið til með aðkomu ólíkra aðila þar sem markmiðin eru að draga markvisst úr hættu á smitsjúkdómum og þar sem saman fara mannúðarsjónarmið, hagnýt nálgun og heilbrigði.

landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item26206/HIV/Alnaemi-31-12-2014 – júní 2015.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica