06. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Sérgrein. Frá formanni Félags íslenskra öldrunarlækna: Mikilvægt hlutverk öldrunarlækninga. Sigurbjörn Björnsson

Síðastliðið haust fagnaði Félag íslenskra öldrunarlækna 25 ára afmæli. Í félaginu eru læknar með sérfræðimenntun í lyf- og öldrunarlækningum og einnig þeir læknar sem starfa við öldrunarlækningar eða hafa þær sem áhugasvið. Félagar eru ríflega 40 en rúmur helmingur hefur sérfræðimenntun í greininni.   

Allt frá því að frumherjar öldrunarlækninga hér á landi hófu starfsemi í anda greinarinnar á sjöunda áratugnum hefur hún verið í stöðugri framþróun. Með stofnun öldrunarlækningadeildar Landspítala í Hátúni og síðar öldrunarlækningadeildar í B-álmu Borgarspítala voru stigin mikilvæg upphafsskref í uppbyggingu greinarinnar. Í upphafi var hlutverk öldrunardeilda við sjúkrahúsin langlega. Fljótlega þróaðist starfsemi þessara deilda í nútímalegt horf með greiningarvinnu, endurhæfingu og útskriftum í heimahús með stuðningi og í samstarfi við heimaþjónustu.  

Aðkoma að heilabilunarsjúklingum varð síðar annað hlutverk öldrunarlækna og hefur gríðarlegt verk verið unnið á þeim vettvangi. Í fyrstu með þjónustu á legudeildum, en síðar var stofnuð minnismóttaka til greiningar og stuðnings við heilabilunarsjúklinga og fjölskyldur þeirra. Uppbygging dagdeilda með virkri dagþjálfun hefur skipt sköpum fyrir þennan sjúklingahóp. Nú eru vel á annað hundrað pláss á dagdeildum á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem sinna heilabiluðum og hefur sú starfsemi stuðlað að lengri búsetu þessa hóps á eigin heimilum. Þessi uppbygging er gott dæmi um samstarf fagstétta og stjórnvalda þar sem verulegur árangur hefur náðst.  

Við sameiningu sjúkrahúsanna í Landspítala háskólasjúkrahús á sínum tíma varð til ein öflug öldrunarlækningadeild með endurhæfingardeildum á Landakoti og bráðaöldrunarlækningadeild í Fossvogi. Þar fer fram mikilvæg starfsemi sem þó hefur tekið talsverðum breytingum í áranna rás. Á tímabili var rekin líknardeild fyrir aldraðra á Landakoti sem var illu heilli aflögð í kjölfar hrunsins. Einnig var á tímabili rekin þjónusta í öldrunargeðlækningum sem var ákaflega mikilvæg fyrir skjólstæðingana en fékk ekki náð fyrir augum ráðamanna á þeim tíma og var því aflögð. Þannig hefur þjónusta öldrunarlækningadeildar lent í ýmsum boðaföllum en stendur þó styrk eftir.

Umtalsverð uppbygging hefur orðið á hjúkrunarheimilum í landinu þar sem öldrunarlæknar koma á mörgum stöðum að þjónustu, ýmist með beinni læknisþjónustu eða ráðgjöf. Á Akureyri eru þrír öldrunarlæknar starfandi sem hafa átt þátt í uppbyggingu greinarinnar þar, jafnt endurhæfingu, hjúkrunarheimilisþjónustu sem og vinnu með heilabilaða.

Öldrunarlækningadeild Landspítalans hefur öflug tengsl við læknadeild HÍ, þar sem öldrunarlæknar taka virkan þátt í kennslu læknanema. Öldrunarlækningadeildin er einnig hluti af kennsluprógrammi fyrir almenna lyflæknisfræði og allir sérnámslæknar í heimilislækningum sem koma á lyflækningasvið Landspítala eru 6-8 vikur á öldrunarlækningadeild.

Því ber að fagna að lífslíkur Íslendinga hafa aukist, en samfara hækkandi lífaldri fjölgar langvinnum sjúkdómum sem fólk lifir með, auk aldurstengdra breytinga sem verða í líkamanum og eru ekki flokkaðar sem sjúkdómar, svo sem aukinn stífleiki í æðakerfi, rýrnun á beinum og vöðvum, væg vitræn skerðing og hrumleiki. Við þurfum að viðurkenna að gamalt fólk er ekki bara eldra miðaldra fólk og það þarf aðra nálgun sem krefst teymisvinnu, bæði utan spítala sem innan.

Á Landspítala er nú í undirbúningi stofnun þverfaglegs öldrunarteymis fyrir bráðalegudeildir spítalans. Það er vel þekkt að fjölveikir aldraðir eru í aukinni hættu á neikvæðum afleiðingum sjúkrahúsvistar, svo sem færnisskerðingu, óráði, byltum og þrýstingssárum sem geta leitt til lengri legutíma, aukins kostnaðar og jafnvel hindrað að einstaklingar geti útskrifast heim á ný í sjálfstæða búsetu. Markmið teymisins er að finna þá sem leggjast inn á Landspítala og eru í mestri hættu á alvarlegum afleiðingum legu. Einfalt skimunartæki verður notað strax við innlögn sem finnur þá sem eru viðkvæmastir. Teymið fær vitneskju um innlögn þessa fólks og mun bjóðast til að framkvæma alhliða öldrunarmat til að kortleggja þarfir viðkomandi og veita ráðgjöf til lækna og hjúkrunarfólks sem miðar að því að viðhalda færni, sjálfstæði og vellíðan einstaklingsins, auk þess að draga úr hættu á neikvæðum afleiðingum legunnar.  

Framtíðin er björt og það er mikil gróska innan greinarinnar. Unnið er að því að öldrunarlæknar komi að greiningu og meðferð aldraðra sjúklinga allt frá fyrstu komu þeirra á Landspítala og þangað til þeir útskrifast heim. Þetta verður gert með aðkomu öldrunarlækna og hjúkrunarfræðinga með sérmenntun innan öldrunarfræða, strax á bráðamóttöku en þaðan verði skjólstæðingum okkar vísað í viðeigandi úrræði. Sumir munu þurfa á innlögn að halda og þá mun áðurnefnt öldrunarteymi fylgja þeim eftir, aðrir útskrifast heim en þurfa hugsanlega að koma í áframhaldandi greiningu og meðferð á göngudeild öldrunarlækna á Landakoti, og þriðji hópurinn getur að öllum líkindum farið til heimilislæknis. Lykillinn að því að þessi áform verði að veruleika er öflug teymisvinna og eru öldrunarlæknar tilbúnir til samvinnu við kollegana og aðrar fagstéttir til þess að af þeim verði.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica