06. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Ný marklýsing kandídatsársins á Landspítala. Inga Sif Ólafsdóttir lyf- og lungnalæknir kennslustjóri kandídata

Samkvæmt hinni nýju reglugerð um lækningaleyfi er ákvæðum um starfsnám til almenns lækningaleyfis (kandídatsár) breytt þannig að nú er gerð krafa um að minnsta kosti fjóra mánuði á lyflækningadeild, tvo mánuði á skurðdeild og/eða bráðadeild, og fjóra mánuði á heilsugæslu. Gert er ráð fyrir að breytingar þessar muni taka allt að eitt ár áður en þær verða að fullu virkar en á Landspítala hefur verið unnið markvisst að marklýsingu kandídatsársins.


Inga Sif Ólafsdóttir lyf- og lungnalæknir hefur sinnt starfi kennslustjóra kandídata frá október 2014. Síðan þá hefur hún, ásamt Sigrúnu Ingimarsdóttur skrifstofustjóra á menntasviði Landspítala, unnið ötullega að úrbótum á kandídatsárinu með hliðsjón af breytingum í nýju reglugerðinni. Að sögn Ingu Sifjar eru þær breytingar helstar að samin hefur verið marklýsing sem hefur fagmennsku og góða starfshætti lækna í öndvegi.

„Annar meginþáttur marklýsingarinnar er Kandídatinn sem fagmaður og námslæknir. Þar er tekið á fagmennsku, samskiptum og samtalsfærni við sjúklinga, öryggis- og gæðamálum, siðfræðilegum og lagalegum atriðum, kennslu og þjálfun, og því hvernig kandídat stuðlar að og viðheldur góðum starfsháttum lækna.

Hinn meginþátturinn er Kandídatinn sem öruggur og afkastamikill læknir og þar er farið í góða læknisþjónustu, meðhöndlun bráðveikra sjúklinga, endurlífgun og meðferð við lífslok og umönnun sjúklinga með langvinna sjúkdóma.“

Inga Sif segir að mestur hluti faglegrar og klínískrar kennslu fari fram við umönnun sjúklinga á vinnutíma og byggir námið á vinnutengdri reynslu á kandídatsárinu. „Lykilatriði er handleiðsla kandídata og formleg matsblöð sem meta kunnáttu, fagmennsku, skipulagsfærni og þekkingu. Einnig 360 gráðu mat sem skoðar samskiptafærni og teymisvinnufærni. Fyrst um sinn verða ný matsblöð fyrir vinnutengda starfsþætti kandídata sem fylgja nýrri marklýsingu aðeins notuð á lyflækningasviði en vonandi víðar á næstu árum,“ segir Inga Sif.

Hún segir að lokum að formlegir móttökudagar verði fyrir kandídata ár hvert í júní og september þar sem þeir fái ítarlega kynningu á starfsemi spítalans og vinnuumhverfi sínu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica