06. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Aðalfundur Læknafélags Reykjavíkur 2015

Aðalfundur Læknafélags Reykjavíkur var haldinn 18. maí. Á fundinum var kjörinn nýr ritari stjórnar félagsins til tveggja ára, Þórarinn Guðnason, en Sigurður Ólafsson sem verið hafði ritari undanfarin tvö ár gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Fyrir í stjórn voru Arna Guðmundsdóttir formaður, Reynir Arngrímsson varaformaður, Þórdís Anna Oddsdóttir gjaldkeri og Guðmundur Örn Guðmundsson meðstjórnandi. Formaður kynnti skýrslu stjórnar LR fyrir liðið starfsár. Félagsmenn sem greitt höfðu árgjald um áramót voru 751 og 11 félagsmenn létust á starfsárinu og minntist Arna þeirra og vottuðu viðstaddir þessum kollegum virðingu sína. Tveir almennir félagsfundir voru haldnir á starfsárinu og voru vel sóttir. Sá fyrri var haldinn 4. nóvember 2014 þar sem rædd voru tryggingamál lækna. Annar almennur félagsfundur var haldinn 17. mars 2015 þar sem málefni heilsugæslunnar voru rædd, einkum hugsanlegar breytingar á rekstrarformi. Þá ræddi Arna önnur helstu mál starfsársins en kjaramál tóku mikinn tíma. Lagði hún áherslu á að læknar yrðu áfram virkir í þjóðfélagsumræðunni en mikilvægi þess kom glöggt í ljós í kjarabaráttu lækna á liðnu hausti.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica