05. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Um lækna og fjölmiðla - málþing LÍ á Formannafundi

Föstudaginn 17. apríl var haldinn Formannafundur hjá Læknafélagi Íslands að fornum sið. Forsvarsmenn undirdeilda félagsins koma þá saman og skeggræða stöðu hverrar einingar og farið er yfir ársreikning síðasta árs og spáð í yfirstandandi fjárhagsár. Þarna var gerð grein fyrir Læknablaðinu, Fjölskyldu- og styrktarsjóði, Orlofssjóði, Fræðslustofnun, erlendu samstarfi og landsbyggðarfélögum.


Anna Gunnarsdóttir barnaskurðlæknir, formaður Læknaráðs Landspítala, Kristján Guðmundsson
háls-, nef- og eyrnalæknir, formaður samninganefndar LR, Hörður Alfreðsson skurðlæknir, fulltrúi
öldunga, og Engilbert Sigurðsson geðlæknir, ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins, hlýða á
Þorbjörn Jónsson formann LÍ.


Eftir þessa greinargerð var haldið málþing um lækna og fjölmiðla. Fyrsti maður á dagskrá var Hjalti Már Björnsson bráðalæknir. Hann tók ágæt dæmi úr dagblöðum frá því um 1950 þar sem sagðar eru fréttir af slysförum og allir nafngreindir sem koma við sögu. Sumpart er þessi staða komin upp aftur í nútímanum, aðgangur fjölmiðla að trúnaðarupplýsingum um sjúklinga er að aukast. Á bráðadeild er bannað að taka upp samtal og taka myndir – en þrátt fyrir það er þetta gert. Bæði sjúklingar og starfsfólk geta tekið upp hvaðeina sem ber við á deildinni og það síðan ratað í fjölmiðla þótt það hafi ef til vill ekki verið meiningin. Skráningarmál um sjúklinga eru í skötulíki á Íslandi, og nýr raunveruleiki er sá að sjúklingur hefur aðgang að sjúkraskrá sinni og getur deilt henni til dæmis með fjölmiðlum, og innihaldið er þá komið á forsíðu áður en við er litið. Eina ráðið til að verjast þessu er að tryggja að greinargerð í sjúkraskrá sé vönduð af hálfu læknis, þá eru mun minni líkur á að kæruefnin verði mörg. Öll vinna þarf að vera skotheld og standast skoðun á youtubeeftir korter. Það þarf að ítreka fyrir starfsfólki, sjúklingum og aðstandendum að allt sem gerist í vinnunni á spítalanum er trúnaðarmál.

Hjalti bendir á FOAMED – free open access medication info – sem er nútíminn. Þarna inni á netinu eru opin og óþvinguð samtöl milli lækna um fagleg álitamál sem hafa leitt fram góðar lausnir. Þetta er mun betra en tímarit, bækur eða ráðstefnur sem allt tekur lengri skref og meiri tíma. Netið er heitasti staðurinn, og podcast, vefsíður, blogg og til dæmis íslensk facebook-síða lækna hefur stórbætt upplýsingaflæði milli þeirra.

Hjalti telur að ritrýni einsog hún hefur tíðkast sé að verða úrelt, núorðið sé skynsamlegra að birta grein, jafnvel með 100 athugasemdum lesenda ef með þarf. Opið ritrýnakerfi er líka að ryðja sér til rúms. Hann nefnir sem dæmi DSI – um svæfingu bráðveikra, en þeir verkferlar eru að breytast vegna samtala lækna á netinu um þetta efni og vissulega er þetta merkileg þróun. Persónulegur árangur, laun og hagsmunir koma þá hvergi við sögu þessa kerfis.


Hjalti Már Björnsson og Anna Sigrún Baldursdóttir á málþinginu um lækna og fjölmiðla.


Anna Sigrún Baldursdóttir er aðstoðarmaður forstjóra Landspítala. Hún útmálaði af festu hvernig sett hefur verið í reglur skipun í samskiptateymi og viðbragðsteymi þegar eitthvað kemur uppá á spítalanum og tala þarf við fjölmiðla – í því seinna er forstjóri og það skipar lið í samskiptateymið sem talar við fjölmiðla. Spítalinn er búinn að eyða tíma og orku í þessar pælingar, þar eru aldrei haldnir blaðamannafundir en þeim mun oftar sendar út fréttatilkynningar þar sem spítalinn leggur línurnar, bæði í innihaldi og orðalagi. Þetta er góð leið í flóknum málum. Anna mælir með því að ef menn standa frammi fyrir flóknum málum sé alltaf umsvifalaust kallað eftir ytri hjálp hjá almannatengli. Hún ítrekar að fyrsta boðorð í öllum viðkvæmum málum sé að segja alltaf satt, bjóða samtal, biðja afsökunar og taka ábyrgð. Hún sýnir aðgerðaáætlun Landspítala vegna ebóla, og fundargestir fyllast aðdáun því planið virðist vera alhliða, vel skilgreint og æft, og hvergi lausir endar.

Teitur Guðmundsson – framkvæmdastjóri Heilsuverndar – lýsti hvernig honum hefur gengið að tala til almennings, og hvað hann hefur haft að leiðarljósi. Hann hefur útdeilt fræðslu og upplýsingum og verið í sjónvarpi, útvarpi og skrifaði pistla í Fréttablaðið, aðalatriðið er að hafa boðskapinn allan á mannamáli.


Björn Gunnarsson á Akranesi sem er í stjórn LÍ reynir að hafa hemil á fundargestum. Í pallborðinu
eru Hjalti Már Björnsson, Anna Sigrún Baldursdóttir, Teitur Guðmundsson og Gunnar Steinn Pálsson.


Gunnar Steinn Pálsson var síðastur á dagskrá og ræddi aðkomu sína að LÍ haustið 2014 þegar verkfall var yfirvofandi. Hann fór fögrum orðum um skrifstofu LÍ og starfsfólk og Þorbjörn Jónsson formaður væri toppurinn þar á, yfirvegaður, kurteis og þolinmóður. Fjölmiðlar voru spenntir, langaði í verkfall og almenningur og fjölmiðlar stóðu með læknum, það var auðfundið. Læknafélagið hafði aldrei áhrif á fréttir, sendi ekkert frá sér nema fréttatilkynningar, stýrði engu segir Gunnar Steinn. En auðvitað skrifuðu læknar sjálfir í blöðin þessa mánuði og það varð æ meira stress eftir því sem á haustið leið. Um miðjan desember var staðan orðin brothætt og stjórnvöld farin að titra. Öryggi sjúklingi í hættu, nefnt var að læknar vildu 50% launahækkun og vonleysi fólks var auðheyrt. Samninganefnd LÍ haggaðist aldrei, það var magnað. Fjölmiðlar fengu aldrei á tilfinninguna að það væri verið að nota þá, þeir þurftu alltaf að dæla uppúr Þorbirni, hann lét aldrei móðan mása. Það fyrsta sem hann sagði eftir undirritun var að þeir lægst launuðu fengju 20% hækkun, og það varð aðalatriði. Stuðningur almennings var knúinn áfram af ótta, enginn vill að heilbrigðiskerfið liðist í sundur. Þetta var fyrsta verkfall í syrpu sem framundan er nú, og enginn leiður á þessu. Í lokin  sýndu læknar rosa samstöðu, það voru haldnir stórir fundir og almenn ánægja var mikil.


Reynir Arngrímsson erfðafræðingur, Guðmundur Björnsson endurhæfingarlæknir og Jörundur
Kristinsson heimilislæknir voru nokkuð hugsi yfir ýmsu sem fram kom á þinginu.


Af þessu ber að draga nokkra lærdóma: sýna hæversku, ekki nýta fjölmiðla, hana-slagur skilar engu, virðing lækna er fjöregg þeirra,  – almannatengslafulltrúi er alltaf með sama meðalið handa kúnnanum sínum: eina róandi sprautu, ekkert annað. Það er úthald sem skiptir öllu máli í þessu. Aukaverkanir nýrra samninga er að taka meiri ábyrgð og vera sýnilegri. Nú verður læknum kannski kennt um launaskrið, þeir eiga að taka þátt í samfélagsumræðunni, þess er vænst að þeir tjái sig.

Lokaorð Gunnars Steins vörðuðu framtíðina: Næstu samningslotur lækna verða í sviðsljósi, og þá má sjálfstraust lækna ekki ofrísa eða kæruleysi taka yfir, það þurfa allir læknar gæta að tungutaki sínu á samskiptamiðlum. Læknafélagið stendur föstum fótum og heiðarleiki og auðmýkt eru besta veganestið.


Í pallborðsumræðu þátttakenda og samtali þeirra við fundargesti kom fram að verkfallið og sigling LÍ gegnum það skapaði mikla virðingu félagsmanna fyrir því, menn voru glaðir að tilheyra þessum hópi. Það er viðkvæmt ástand þegar útí svona sjó er komið einsog verkfall, og þá ber að halda ró sinni, ákefð stuðningsmanna getur orðið hættulegri en öflugur andstæðingur.

Ungt fólk er komið til starfa í heilbrigðiskerfinu, þeirra líf fer fram á öðrum og nýrri miðlum en eldri kollega, snap-chat, twitter, facebook, instagram, og það fer fram linnulaust, allan sólarhringinn. Landspítali er með í farvatninu reglur um upptöku, myndbirtingu og þess háttar innan spítalans, bæði fyrir sjúklinga og aðstandendur og starfsfólk. Það þyrfti annað málþing fyrir alla siðfræðina í kringum þetta, hvað má og hvað má ekki.

Björn Gunnarsson svæfingalæknir á Akranesi stýrði málþinginu af prúðmennsku og þótt of fáir væru viðstaddir var ávinningur þeirra þeim mun meiri.Þetta vefsvæði byggir á Eplica