05. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Feitir á hvíta tjaldinu

Tímabil þöglu myndanna á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar var gullöld feitra leikara. En offita var ekki síður ógn við heilsu fólks þá en nú og margir af vinsælustu leikurum tímabilsins létust langt um aldur fram úr sjúkdómum tengdum offitu. Stephan Rössner prófessor emeritus við Karolinska institutet velti þessu fyrir sér í fróðlegri grein sem birtist í sænska læknablaðinu í febrúar síðastliðnum. Hér birtist hún nokkuð stytt og endursögð.


Líkamar kvikmyndastjarnanna í dag verða sífellt ólíkari því sem gerist meðal almennings. Í Bandaríkjunum eru um 75% þjóðarinnar of þungir en aðeins 2% leikara kljást við sama vanda. Leikarar eru mikilvægar fyrirmyndir. Þeir úða í sig ruslfæði á hvíta tjaldinu en þyngjast ekki. Hinn almenni borgari sem gúffar í sig drasli yfir sjónvarpinu eða í kvikmyndahúsinu áttar sig ekki á því að leikararnir klára aldrei skammtinn.

Ofþyngd sést ekki nema hjá einstaka leikara í kvikmyndum nútímans en lystarstol, sérstaklega hjá ungum konum, er miklu algengara fyrirbæri. Danski rithöfundurinn og stjarnan Karen Blixen orðaði þetta svona: Kona getur aldrei verið nógu horuð.

Við upphaf kvikmyndaaldarinnar voru feitir leikarar í miklu uppáhaldi áhorfenda. Viðkvæðið var að feitir menn væru fyndnir, sérstaklega ef þeir væru að borða spaghetti! Þrátt fyrir þetta höfðu tryggingafélögin gert sér grein fyrir áhættuþáttum offitu strax á þriðja áratugnum og settu fyrirvara í líftryggingarsamninga. Leikarinn Roscoe – Fatty – Arbuckle byggði allan sinn feril á gríðarlegri ofþyngd, en hann var 175 kg og hélt því statt og stöðugt fram að hann hefði glansað í gegnum allar heilsufarskoðanir sem tryggingafélagið fór fram á. Hann náði 46 ára aldri. Undir lok ferils síns léttist Arbuckle um ein 36 kg vegna breytts mataræðis í kjölfar alvarlegrar sýkingar en þá var útbúinn sérstakur búningur fyrir hann svo ekki sæist að hann hefði grennst.

Oliver Hardy sem varð þekktur sem feiti karlinn í tvíeykinu Gög og Gokke eða Steini og Olli var í rauninni tilbúningur framleiðandans King-Bee. Hann bauð Hardy 2 dollara fyrir hvert pund sem hann gat bætt á sig og 250 dollara bónus ef Hardy þyngdist um 50 pund. Þetta tókst og Hardy varð heimsþekktur fyrir vikið.

Í byrjun 20. aldar var þyngdarstuðullinn BMI nánast óþekkt hugtak þó belgíski stjarnfræðingurinn Quetelet hefði skilgreint hann 75 árum fyrr. Í Bandaríkjunum var þó víða hægt að stíga á vigt í almenningsrýmum og lesa úr töflu hver væri kjörþyngd miðað við hæð. Sérstakir áhættuþættir vegna kviðfitu voru þó  óþekktir á þeim tíma.

Hollywood framleiddi í stórum stíl gamanmyndir sem gengu undir heitinu Ton of Fun series. Þar mátti sjá þrjá ofur feita karlmenn, alla þyngri en 174 kg, kútveltast hver um annan, brjóta húsgögn, troða sig út af mat og kasta honum í allar áttir. Offitan var skilyrði þess að þeir héldu vinnunni og flestir þeirra sáu sjálfir um áhættuatriðin. En tíðarandinn breyttist og svo fór að enginn vildi sjá þessar myndir.

Á netinu er hægt að finna lista yfir of feita leikara frá þessum tíma og flestir voru þeir Bandaríkjamenn. Fæstir þeirra náðu því að verða 50 ára gamlir. Gegn áhættuþáttum offitunnar, háum blóðþrýstingi, sykursýki og hárri blóðfitu var ekkert annað í boði þá frekar en nú, en að léttast og temja sér heilbrigðari lífsstíl.

Þrír grannir og liðugir leikarar komu fram á þriðja áratugnum og urðu í öllum skilningi langlífari en feitu félagar þeirra á hvíta tjaldinu. Þetta voru Charlie Chaplin, Buster Keaton og Harold Lloyd.

Feitir leikarar og skemmtikraftar njóta vafasamra vinsælda í heiminum í dag. Flestir þeirra eiga í baráttu við ofþyngdina og hafa sumir gert hana opinbera. Oprah Winfrey er goðsögn í skemmtanaiðnaðinum og er sögð valdameiri en flestir. Hún hefur í gegnum tíðina farið upp og niður í líkamsþyngd (á þriggja ára tímabili rokkaði hún á milli 66 og 108 kg). Hún hefur reynt alla hugsanlega matar- og megrunarkúra og oft gert það fyrir opnum tjöldum í sjónvarpsþáttum sínum. Niðurstaða hennar eftir ótal slíkar tilraunir var einföld; borða minna og hreyfa sig meira.

Robert de Niro er þekktur fyrir að undirbúa sig vandlega fyrir hvert hlutverk og hefur bætt á sig þyngd til að falla betur að hlutverkum. Fyrir hlutverk í Raging Bull og Al Capone fór hann yfir 30 í líkamsþyngdarstuðli en léttist jafnharðan aftur þegar tökum lauk.

Leikarinn Forest Whitaker lenti í annars konar vanda við tökur á stríðsmyndinni Platoon. Hann var ráðinn í hlutverk Big Harold vegna þess hversu feitur hann var en tökurnar reyndust svo líkamlega krefjandi að hann hríðhoraðist. Leikstjórinn, Oliver Stone, gerði athugasemd við þetta og krafðist þess að Whitaker bætti á sig kílóunum að nýju.

Marlon Brando var ein skærasta stjarna Hollywood upp úr miðri síðustu öld. Hann fitnaði gríðarlega í lok ferils síns og sagt er að við tökur á Apocalypse Now hafi hann bannað að líkami hann sæist allur. Í myndinni sést hann aðeins sitjandi og efri hluti líkamans er sýnilegur. Brando varð engu að síður 95 ára gamall rétt eins og hinn stórvaxni Ernest Borgnine.

Fleiri leikarar í ofþyngd eru komnir á efri ár: Gérard Depardieu, Dan Aykryod, Alec Baldwin, John Goodman og Roseanne Barr en James Gandolfini úr Soprano lést um aldur fram, 52 ára.

Mörg fleiri dæmi mætti tína til um feita leikara sem andast hafa á miðjum aldri eða fyrr, en lystarstol hefur ekki síður tekið sinn toll af einstaklingum í kastljósinu. Þekktust þeirra er eflaust Twiggy sem kom fram á sjöunda áratugnum og samstundis varð drengjalegur líkamsvöxtur fyrirmynd ungra kvenna í stað hinna mjúku bogadregnu lína sem Marilyn Monroe er þekktust fyrir. Twiggy lifði þó af eigið útlit sem ekki verður sagt um margar af yngri sýningarstúlkum sem fylgdu í fótspor hennar. Mörg dapurleg dæmi eru um dauðsföll ungra stúlkna af völdum lystarstols í tískusýningarheiminum og hefur það haft áhrif bæði til góðs og ills. Erfitt er að ímynda sér hvað sé aðlaðandi við líkama sem eru svo greinilega vannærðir og margar konur í tísku- og afþreyingariðnaði hafa tjáð sig um reynslu sína af lystarstoli. Það má reyndar setja spurningamerki við hvort slíkar umræður hafi styrkt hugmyndir almennings um hvernig heilbrigður líkami á að líta út.

Við erum sannarlega betur upplýst í dag en þegar feitu leikararnir veltust um hvíta tjaldið í árdaga kvikmyndanna. Við vitum að offita er áhættuþáttur fyrir nokkrum algengustu lífsstílssjúkdómunum. Það er kannski einföldun en hér á við hin tímalausa ráðlegging að hóf er í öllu best.

Rössner S. Fet i buken – stor på duken. Stumfilmstiden var en guldålder för feta aktörer. Läkartidningen 2015;  112: 412-4.

HS þýddi ur sænsku

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica