05. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Hinar mörgu hliðar Megasar - Óttar Guðmundsson hefur kynnst þeim flestum

„Megas er einn af merkustu listamönnum okkar kynslóðar og stendur hiklaust undir nafngiftinni þjóðskáld,“ segir Óttar Guðmundsson geðlæknir og rithöfundur sem sendi á dögunum frá sér bókina (Esensis tesensis tera)- Viðrini veit ég mig vera. Megas og dauðasyndirnar. Eins og titillinn bendir til er umfjöllunarefnið meistari Megas og listsköpun hans og tilefnið er að skáldið stendur á sjötugu á þessu ári. Bókaútgáfan Skrudda gefur út.


Bókin um Megas er þriðja bókin á jafnmörgum árum sem Óttar Guðmundsson geðlæknir sendir frá
sér. Hvernig finnur hann tíma til þess arna? „Ég á ekki snjallsíma, er ekki á feisbúkk, spila ekki golf og
er alltaf edrú. Þá hefur maður tíma til alls!“


Þeir Óttar og Magnús Þór Jónsson eru frændur og í frændgarði þeirra er að finna margt skáldið, svo sem Halldór Laxness og Böðvar Guðmundsson. Móðir Megasar var skáldkonan Þórunn Elva Magnúsdóttir.

„Ég vissi mjög snemma af skyldleikanum á milli okkar. Faðir minn Guðmundur  Sigurðsson og Þórunn Elva voru þremenningar og þess vegna fylgdist ég strax með Magnúsi frá því að hann fór að vekja athygli í Menntaskólanum í Reykjavík. Það fór fljótlega ýmsum sögum af honum fyrir sukk og en hann hvarf mér svo sjónum þegar hann flutti til Oslóar með þáverandi konu sinni og ég til Svíþjóðar,“ segir Óttar í upphafi samtals okkar.

Leiðir þeirra lágu saman nokkrum árum síðar í Lundi í Svíþjóð þar sem Óttar stundaði framhaldsnám í geðlækningum og Íslendingafélagið fékk Megas til að troða upp. „Ég hlakkaði mjög til þessa viðburðar en það voru vonbrigði þar sem Megas var mjög drukkinn og frammistaðan eftir því. Eftir að ég flutti heim höfum við átt samleið löngum stundum og vinátta okkar dýpkað með árunum.“

Ekki ævisaga skálds

Óttar byggir bók sína þannig upp að hann rekur feril Megasar frá einni plötu til þeirrar næstu. Hann lýsir tilurð hverrar plötu, hverjir voru helstu áhrifavaldar skáldsins á þeim tíma og síðan er texta hvers lags gerð nokkur skil. Hann lýsir viðtökum hverrar plötu, vitnar í gagnrýni og umfjöllun og einnig eru birtir stuttir kaflar úr viðtölum við Megas sem birst hafa í gegnum tíðina.

„Megas á mjög stóran þátt í því hvernig þessi bók lítur út. Hann vildi ekki láta skrifa um sig ævisögu og hann vildi ekki að þetta væri viðtalsbók. Þess vegna er einkalífi hans ekki gerð nein skil í þessari bók nema að því leyti sem atburðir í einkalífi hans snerta beinlínis tilurð verka hans. Bókin er að nokkru leyti byggð á samtölum okkar Megasar og margt af því sem sagt er um verkin hans er frá honum sjálfum komið enda enginn annar til frásagnar um það.“

Fyrsta plata Megasar kom út árið 1972 og í allt eru útgefnar plötur Megasar til dagsins í dag yfir 20. Fyrsta platan var tekin upp við frumstæð skilyrði í Osló og það var Íslendinganýlendan þar í borg ásamt honum sjálfum sem kostaði útgáfuna. Reynt var eftir föngum að stilla kostnaði í hóf og það má glöggt heyra á plötunni.

„Það var í rauninni hálfgert kraftaverk að þessi plata skyldi verða að veruleika því engum hafði í rauninni dottið í hug að hægt væri að gefa út tónlist Megasar. Hann var svo allt öðruvísi í sinni tónlistarsköpun og ljóðagerð en þekktist á þeim tíma. Platan var gefin út í 600 eintökum og vakti strax mikla athygli og margir þeirra sem heyrðu hana  áttuðu sig á því að hér væri kominn fram listamaður sem væri algjörlega einstakur. Þegar ég heyrði þessa plötu varð ég Megasaraðdáandi fyrir lífstíð,“ segir Óttar.

 

Aldrei fyrirsjáanlegur

Óttar segir að Megas hafi sjaldnast fylgt einhverri hugsjón eða stefnu, pólitískri eða listrænni, í sinni sköpun. „Hann gerir nákvæmlega það sem honum dettur í hug. Hann er aldrei fyrirsjáanlegur og það hafði meðal annars þau áhrif að vinstri menn sem réðu lögum og lofum í menningarpólitíkinni á sjöunda og áttunda áratugnum tóku honum alltaf með fyrirvara og afneituðu honum nánast þegar leið á. Hann hefur reglulega hlaupið útundan sér og þess vegna naut hann aldrei stuðnings vinstrisinnaðra pólitíkusa. Ég rek þetta í bókinni og meðal annars voru bræðurnir Jón Múli og Jónas Árnasynir mjög neikvæðir gagnvart honum og Jónas semur leikritið Valmúinn springur út á nóttinni (1975) þar sem ein persónan er greinilega skrumskæling á persónu Megasar. Þessi afstaða er gegnumgangandi þegar ferill Megasar er skoðaður og það er ekkert launungarmál að Vinstri grænir voru þeir einu sem settu sig upp á móti því að Megas yrði settur á heiðurslaun listamanna árið 2000. Á hinn bóginn eru það vinstrisinnaðir menntamenn sem eru hans dyggustu aðdáendur í gegnum tíðina en með árunum hefur fylgi hans orðið nokkuð þverpólitískt. Einn mesti og besti stuðningsmaður hans í íslensku samfélagi hefur alltaf verið Davíð Oddsson. Megas var gerður að borgarlistamanni í borgarstjóratíð Davíðs og það var einnig fyrir stuðning Davíðs að hann var settur á heiðurslaun Alþingis.“

Óttar lýsir því vel hversu erfitt gagnrýnendur tónlistar og bókmennta áttu með að skilgreina listsköpun Megasar. Það hefur reyndar breyst á síðustu árum og eitt helsta slagorð í samtímalist er „samruni listgreinanna“ og þar standast fáir Megasi snúning.

„Lengi vel litu bókmenntapáfarnir ekki á texta Megasar sem þann merka skáldskap sem hann raunverulega er og það voru poppskríbentar dagblaðanna sem fjölluðu um plöturnar hans. En þeir botnuðu sjaldnast í textunum. Hann var of mikill poppari fyrir skáldin og of mikið skáld fyrir popparana. Menn vissu hreinlega ekki hvar þeir áttu að staðsetja hann á litrófi listanna.

Gegnumgangandi frasi í dómum um plöturnar að textarnir séu „pottþéttir að vanda“ sem segir auðvitað ekki neitt. Oft og tíðum eru textar Megasar óskiljanlegir og hann hefur sjálfur sagt að hann botnaði ekkert í sumum þeirra og hann verði óskiljanlegri með árunum og komi sjálfum sér á óvart. Stundum er hlutverk textans að mynda eins konar abstrakt heild orða og tóna og ástæðulaust að leita efnislegrar merkingar textans. Á hinn bóginn eru mörg ljóðanna auðskiljanleg og auðlærð og hafa orðið fjölmörgum tilefni til ívitnunar við ýmis tækifæri. Það er til marks um alþýðuhylli skáldsins.“  


Manna fróðastur um Hallgrím Pétursson

Óttar slær þann varnagla strax í upphafi bókarinnar að henni sé ekki ætlað að vera fræðileg úttekt á listsköpun Megasar. „Ég er hvorki bókmenntafræðingur né tónlistarmaður og hef því ekkert annað viðmið en mínar tilfinningar og smekk. Sumir söngvar Megasar hafa algjörlega sungið sig inn í sál mína en aðrir hafa ekki náð til mín. Það er til marks um hversu fjölbreyttur söngvaheimur Megasar er, enda hefur hann sýnt og sannað að hann er jafnvígur á rokk, popp og ballöður í tónlistinni. Hann hefur starfað með mörgum af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar og þeim ber öllum saman um að Megas sé mjög vandvirkur tónlistarmaður og taki tónlist sína alvarlega.“

Það kemur sterkt fram í bókinni að Megas er gríðarlega vel lesinn og  vel að sér um bókmenntir, sögu, heimspeki og tónlist. Óttar heldur því ákveðið fram að fáir taki Megasi fram í þekkingu á skáldskap Hallgríms Péturssonar og skilningur hans á Passíusálmunum sé einstakur. Óttar bætir því við að þar sem Megas hafi ekki próf upp á vasann í bókmenntafræði hafi aldrei verið leitað til hans í umfjöllun um skáldskap Hallgríms. „Þetta er birtingarmynd þess hvernig akademían hefur gert útaf við alþýðuvísindi og alþýðumenningu þjóðarinnar þar sem enginn má hafa skoðun á sögunni eða bókmenntunum nema hann hafi lokið doktorsprófi í greininni. Alþýðumaður eins og ég má ekki hafa skoðun á Íslendingasögunum og alþýðumaður eins og Megas er ekki marktækur þegar kemur að Passíusálmunum. Þetta er afskaplega dapurleg þróun.“

Hallgrímur Pétursson er tvímælalaust það skáld sem hefur haft mest áhrif á skáldskap Megasar að sögn Óttars. „Mörg kvæða Megasar eru bókstaflega ort í anda Hallgríms og stundum finnst manni að þeir renni saman í einn mann. Ég velti því talsvert fyrir mér hversu andlega skyldir þeir eru og hversu margt er líkt með þeim þegar grannt er skoðað. Samfélagið fordæmdi Hallgrím og ekki hefur Megas alveg verið laus við fordæmingu og umtal af ýmsu tagi.“

 

Aldrei skeytt um afleiðingar eða áhrif

Neysla Megasar á lyfjum og áfengi hefur verið lýðum ljós um áratugaskeið og þá varð ekki síður fréttnæmt er hann sneri við blaðinu og snerti ekki vímuefni um 12 ára skeið frá 1979-1991. Þegar því lauk gaf hann AA-samtökunum og edrúpáfum langt nef og gaf meira segja út plötu er bar þann ögrandi titil Til hamingju með fallið. Margir áttu erfitt með að kyngja slíkri kaldhæðni.

„Megas hefur í þessum skilningi verið sinn versti óvinur. Hann hefur í rauninni aldrei skeytt neitt um afleiðingar eða áhrif gjörða sinna eða listsköpunar. Oft og tíðum hefur fólk átt erfitt með greina þarna á milli og lesið persónu hans að ósekju úr skáldskap hans. Hann hefur því verið ásakaður um að taka málstað vændiskaupenda, nauðgara og barnaníðinga þegar hann hefur ort kvæði í orðastað slíkra einstaklinga án þess að taka afstöðu sjálfur til athæfis þeirra. Þetta hafa auðvitað margir rithöfundar gert án þess að nokkrum detti í hug að þeir séu að lýsa eigin skoðunum eða reynslu en Megas hefur mátt þola slíkar ásakanir.“

Stormasamt líf Megasar og á köflum óreglusamt heyrir sögunni til nú þegar skáldið stendur á sjötugu og þjóðin hefur endanlega tekið það í sátt. „Síðasta þjóðskáldið“ sagði einn gagnrýnandi í lofsamlegum dómi um heildarljóðasafn Megasar er kom út hjá Forlaginu 2012.  

Svona farast Óttari orð um sess Megasar í dag:.

Lífið gengur sinn vanagang. Plötur hans og Senuþjófanna ganga vel og seljast ágætlega. Engir textar hafa vakið einhverja stórhneykslun eða umtal. Margir þeirra eru reyndar torskildir en það breytir engu um söluna. Hann fær heiðurslaun listamanna, býr í búnkernum og er duglegur að skrifa. Friður ríkir um skáldið og fáir hnýta í það fúkyrðum lengur. Megas er kominn upp á nýjan stall þar sem hann nýtur mikillar virðingar og þjóðin búin að fyrirgefa honum gamlar ávirðingar.  Enginn veltir því lengur fyrir sér hvort hann drekki bjór á börunum eða ekki. Ungir tónlistarmenn sækjast eftir því að fá að spila með Megasi og kynnast honum.

Kvæðabókin var ein sigurganga eins og síðustu Passíusálmatónleikar í Grafarvogskirkju. Skáldið ber sig vel og nýtur lífsins í eigin upphæðum. Allir þekkja Megas og flestir bera virðingu fyrir honum og verkum hans. Með árunum hafa allir helstu eiginleikar hans komið æ betur í ljós.

Hann er fastur fyrir, ósveigjanlegur, sérvitur, ótrúlega minnugur (kann allan sinn kveðskap utan að) hlýr og hjálpfús en líka hégómlegur og viðkvæmur.

Óttar dregur enga dul á að að Megas hafi verið kröfuharður og á köflum erfiður í samstarfi þeirra um bókina en segir það einfaldlega til marks um margbrotinn persónuleika skáldsins. Í lokaorðum bókarinnar segir Óttar:  

Við Megas höfum verið vinir um árabil og leiðir okkar hafa víða legið saman. Það er erfitt að gera þessari vináttu einhver skil í bók sem þessari. Megas er í raun margir ólíkir menn sem ég hef fengið að kynnast. Sumir eru þægilegir og vinfastir í samskiptum en aðrir erfiðari og enn aðrir gjörsamlega óþolandi. En það er sama hvernig þessir menn eru, allir eru þeir hluti af þeirri merkilegu heild sem Megas er. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast svo mörgum hliðum á Megasi . . .Þetta vefsvæði byggir á Eplica