05. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Ólíkt fólk en með svipaða eiginleika, rætt við íþróttafólkið og læknanemana Helgu Margréti Þorsteinsdóttur og Gísla Þór Axelsson

Helga Margrét Þorsteinsdóttir er ein af okkar þekktustu frjálsíþróttakonum, keppti í sjöþraut með gríðarlega góðum árangri og náði efstu sætum á heimslista unglinga og ungmenna í greininni á árunum 2008-2012. Þrálát meiðsli settu alvarlegt strik í reikninginn og keppnisferlinum lauk endanlega árið 2012. Hún beindi þá keppnisskapinu í aðra átt og skellti sér í inntökuprófið í læknisfræðinni síðastliðið vor og segir það hafa verið svipað og að keppa í sjöþraut. Ekki var svo að spyrja að árangrinum.


 
Gísli Þór Axelsson er Selfyssingur og  vakti snemma athygli fyrir mikla námshæfileika. Hann lauk grunnskólanámi á 9 árum og stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi á þremur og hálfu ári og var dúx í sínum útskriftarhópi. Hann er því tvítugur á þessu ári og greinilega ekki síðri keppnismaður en Helga Margrét þó yfirbragðið sé rólegt og yfirvegað.Læknablaðið brá undir sig betri fætinum og leitaði uppi tvo læknanema á fyrsta ári og forvitnaðist um hvað hefði ráðið því að læknanámið varð fyrir valinu og hvort það hefði staðið undir væntingum til þessa.

Helga Margrét: Ég er ekki ein af þeim sem ætlaði sér að verða læknir alveg frá því ég var krakki. Mér datt það aldrei í hug. Það var ekki fyrr en ég var komin í Menntaskólann við Hamrahlíð og við fórum í kynningu í læknadeildina að einn læknirinn þar hafði mörg orð um að læknisfræði væri mjög langt og erfitt nám og alls ekki fyrir alla. Þessi ræða var í rauninni mjög fráhrindandi en virkaði alveg þveröfugt á mig. Ég tók þessu sem persónulegri áskorun og fannst þetta mjög spennandi, bæði námið sjálft og síðan að vinna við fagið. Það fyndna er að það voru alla vega þrír í hópnum sem eru nú í læknisfræðinni. Kannski var þetta úthugsað.

Gísli Þór: Ég hafði alltaf mikinn áhuga á líffræði og mannslíkamanum og það kom eiginlega ekkert annað til greina en að fara í læknisfræði. Áhuginn kviknaði af náminu og ég fékk mikla hvatningu heima en það eru engir læknar í fjölskyldunni. Löngunin til að verða læknir er kannski sambland af því að vilja hjálpa öðrum og vera svolítið stjórnsamur og svo er þetta gríðarlegur áhugi á náttúrufræði og líffræði mannslíkamans.

Helga Margrét: Á þessum tíma tók ég íþróttirnar fram yfir allt annað og nám í læknisfræði kom ekki greina. Eftir menntaskólann fór ég í eitt ár til Svíþjóðar til að æfa og keppa í sjöþraut. Ég kom svo heim og fór í næringarfræði í HÍ og var á fullu í íþróttum samhliða. Eftir tvö ár var áhuginn farinn að dvína enda ég var að lenda í síendurteknum meiðslum. Í janúar í fyrra ákvað ég svo að fara í inntökuprófið í læknisfræðinni um vorið.

Gísli Þór: Áhugamálin snúast helst um íþróttir en ég stunda þær þó stopult þar sem námið hefur algjöran forgang. Annars er ég bara frekar rólegur og hef gaman af að lesa bækur um alls kyns efni ef tími gefst til.

Helga Margrét: Inntökuprófið var mjög skemmtilegt og fyrir mig var það eiginlega alveg eins og sjöþrautarkeppni. Prófið er tveir dagar og skiptist í 6 hluta. Reynslan úr sjöþrautinni kom sér mjög vel. Ef manni gekk vel í einni grein fylgdi það manni yfir í næstu en ef það gekk ekki vel var bara að hrista það af sér og koma ferskur í næstu grein. Fyrir mig var inntökuprófið eins og að keppa í 6 greinum. Ég er alveg viss um að þessi hugsunarháttur nýttist mér vel og tímapunkturinn var alveg réttur. Ég var búin að fá nóg af álaginu sem fylgdi því að vera atvinnumaður í íþróttum og langvarandi meiðsli gerðu mér erfitt fyrir. Ég var með brjósklos sem lagaðist ekki og þegar maður getur ekki æft og keppt með líkamann í lagi dvínar gleðin og áhuginn smám saman.

Gísli Þór: Ég útskrifaðist úr fjölbrautaskólanum um jólin 2013 og nýtti tímann fram á vorið til að undirbúa mig fyrir inntökuprófið í fyrravor. Reyndar með vinnu en það kom ekki að sök. Prófið sjálft var eins og ég bjóst við, enda búinn að fara í gegnum sýnishorn af eldri prófum og fara á námskeiðið Inntökupróf.is þar sem farið er yfir allt það helsta sem tekið er fyrir í prófinu. Það var mjög gagnlegt. Hugmyndin að baki inntökuprófinu er mjög góð að mínu mati, miklu betri en klausus, þar sem þú eyðir ekki heilli önn upp á von og óvon um að komast áfram.

Helga Margrét: Ég æfði alltof mikið og skemmdi jafnvel fyrir mér með ofþjálfun. Ég er gríðarleg keppnismanneskja og geng stundum of nærri mér og það á ekki síður við í náminu. Ég er nú samt að vona að ég hafi lært af þessari reynslu og geti stundum staðið upp frá lestrinum og sagt: Nú læri ég ekki meira í kvöld! Það hefur ekki gengið neitt voðalega vel fram að þessu en ég vona að lesi ekki yfir mig eins og ég æfði yfir mig. Það væri nú ekki gaman að brenna út sem læknanemi!

Gísli Þór: Mér finnst ég sjá svipaða eiginleika hjá öðrum sem eru í árganginum. Kannski veljast þannig einstaklingar í greinina en þetta er þó ólíkt fólk að mörgu öðru leyti. Þetta er mjög skemmtilegur hópur og það kom mér eiginlega á óvart hvað félagslífið er öflugt í deildinni.

Helga Margrét: Það nýttist mér gríðarlega vel að hafa lokið við tvö ár í næringarfræði. Námið í lífeðlisfræðinni skilaði mér í gegnum inntökuprófið og tveggja ára reynsla af háskólanámi er ómetanleg.

Gísli Þór: Námið sjálft hefur verið mjög skemmtilegt í vetur en ég vissi nokkurn veginn að hverju ég gengi þar sem ég þekki nokkra sem komnir eru á annað og þriðja ár. Kennslan er góð og almennt er haldið vel utan um námið af hálfu deildarinnar. Þetta fyrsta ár byrjar á upprifjun af eðlis- og efnafræði en stærsti kúrsinn er anatómían og síðan er kúrs í frumulíffræði. Enn er spítalinn frekar fjarlægur en þó fengum við stutta kynningu á klínísku starfi. Í vetur hefur námið verið einstaklingsmiðað og prófað í lok hverrar lotu.

Helga Margrét: Ég er gríðarlega ánægð og þakklát fyrir tímann sem ég lagði í íþróttirnar. Ég ferðaðist um allan heim, kynntist fullt af frábæru fólki og lærði heilmargt um sjálfa mig og veröldina. Sjöþraut er mjög erfið keppnisgrein en þetta var eina greinin sem mig langaði að stunda. Ég vildi ekki fara að æfa og keppa í einni grein, og draga þannig úr álaginu. Það var annaðhvort sjöþrautin eða ekkert fyrir mig. Í dag fer ég helst ekki inn í frjálsíþróttahöll, mér finnst best að vera alveg laus frá þessu og stunda mína hreyfingu á allt öðrum forsendum. Ég hreyfi mig á hverjum degi, sú þörf hverfur ekki, enda algjörlega nauðsynlegt að vega á móti þessum löngu setum sem námið útheimtir. En þarna þarf ég líka að passa mig því mér finnst svo gaman að æfa að ég hef tilhneigingu til að fara fyrr á fætur til að ná tveimur tímum í hreyfingu áður en skólinn byrjar. Ég á erfitt með að stilla mig og verð að minna mig á að ég er ekki lengur atvinnumaður í íþróttum og þarf ekki að æfa 2-4 tíma á dag. En þetta er ekkert alvarlegt vandamál og ég er meðvituð um þetta. Ég held reyndar að það séu margir í læknanáminu líkir mér að þessu leyti. Þetta er ósérhlífið fólk og ekki með neitt væl.

Gísli Þór: Það er alltof snemmt að svara því hvaða sérgrein ég gæti hugsað mér að læra. Ég held að maður eigi eftir að skipta nokkrum sinnum um skoðun í gegnum námið, enda fáum við nasasjón af helstu sérgreinunum þegar komið er út í klíníkina og rétt að halda opnum huga gagnvart því öllu.

Helga Margrét: Námið í vetur hefur verið mjög skemmtilegt. Fjölbreytt og það hefur komið mér ánægjulega á óvart hvað vel er haldið utan um námið. Allt er á hreinu og skipulagið alveg pottþétt. Kennararnir eru frábærir og bekkurinn er mjög samheldinn. Þetta gæti ekki verið betra. Inntökuprófið er miklu betra fyrirkomulag en klausus því þegar námið byrjar eru allir komnir inn og engin samkeppni innan hópsins um að komast í gegn í lok fyrstu annarinnar. Það eru allir samtaka um að klára þetta og verða læknar vorið 2020.Þetta vefsvæði byggir á Eplica