02. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Sérgrein. Frá formanni Geðlæknafélags Íslands: Skemmtilegustu kollegarnir

Skemmtilegustu kollegarnir

Geðlæknafélag Íslands var stofnað árið 1960, félagar eru rúmlega 80 sérfræðingar og námslæknar hér á landi. Rúmur helmingur starfar á spítala eða öðrum heilbrigðisstofnunum og um þriðjungur á stofu.

Meðferð sjúklinga með geðraskanir hefur undanfarin ár verið að færast frá stofnunum út í samfélagið og leguplássum fækkað mikið frá aldamótum. Áhersla hefur verið lögð á að gera þeim sem eru langveikir kleift að eiga heimili utan stofnana og fá til þess viðeigandi stuðning.

Á Íslandi eru tvær geðdeildir, sú stærri við Landspítalann en einnig er legudeild og göngudeildarþjónusta við Sjúkrahúsið á Akureyri. Á Landspítalanum við Hringbraut er ein bráðageðdeild, og þrjár móttökudeildir með leguplássum, en ein þeirra sérhæfir sig í meðferð einstaklinga með fíkn og alvarlegar geðraskanir. Á Hringbraut er einnig göngudeild og bráðaþjónusta. Á Kleppi eru tvær endurhæfingardeildir. Önnur sinnir fremur langveikum með fjölþættari þarfir. Jafnframt eru á Kleppi öryggisdeild og göngudeild og eina réttargeðdeildin hér á landi, sem áður var á Sogni. Á Hvítabandinu við Skólavörðustíg er dagdeildarmeðferð fyrir fólk með langvinnt þunglyndi og/eða kvíða og persónuleikaraskanir, þar er einnig dagdeild og göngudeild fyrir átröskunarsjúklinga. Samfélagsgeðteymi spítalans hefur aðsetur á Reynimel, og við Laugarásveg er sérhæfð deild fyrir ungt fólk með byrjandi geðrofssjúkdóma. Auk þessara sérhæfðu teyma er einnig starfandi við spítalann teymi sem sinnir greiningu og meðferð á fullorðnum með ADHD og þjónusta fyrir fjölskyldur ungra barna þegar foreldri glímir við geðrænan vanda. Geðlækningar barna og ungmenna undir 18 ára aldri tilheyra barna- og unglingageðdeildinni sem heyrir undir barna- og kvennasvið Landspítala.

Vandamál skjólstæðinga okkar eru oft flókin og krefjast samvinnu við aðrar fagstéttir. Innan heilbrigðiskerfisins starfa geðlæknar gjarnan í teymisvinnu með geðhjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum og iðjuþjálfum.

Geðsjúkdómar eru algengir og eru ein helsta orsök örorku hjá ungu fólki víðast hvar í hinum vestræna heimi. Flestir alvarlegir geðsjúkdómar byrja hjá ungu fólki og því er mikilvægt að sinna þeim hópi vel.

Aðsókn á stofu hjá geðlæknum er mikil hér og oft erfitt að komast að. Hægt er að leggja stund á sérnám í geðlækningum hér á landi.

Það er gaman að geta þess að þegar ég byrjaði að læra geðlækningar árið 1997 hitti ég augnlækni sem spurði mig aftur og aftur hvort ég væri alveg viss um að ég vildi fara út í þetta fag. Ég játti því og spurði hvers vegna hann spyrði svona þráfaldlega. Þá tók hann af sér þykk gleraugun, benti á þau og sagði: „sjáðu þessi... og ég fór í augnlækningar!“ Þetta var fyrir tíma laseraðgerða á augum og það má segja nú til dags að það sjáist ekki alltaf á fólki hvort það sé nærsýnt eða fjærsýnt. Það sést ekki heldur endilega á fólki hvort það þjáist af geðsjúkdómum.

Neikvæðar hugmyndir um geðsjúkdóma hafa fylgt mannkyni gegnum aldirnar, bæði um sjúkdómana sjálfa, þá sem þá bera og fjölskyldur þeirra. Við sem vinnum við geðlækningar fáum okkar skerf og meðferðirnar okkar líka. Það á sérstaklega við um lyfjameðferðina. Með reglulegu millibili kemur upp umræða um að geðlyf virki ekki, eða að þau séu ofnotuð, eða misnotuð. Geðlyfin lúta sömu lögmálum og lyf við öðrum sjúkdómum, eru hvorki betri né verri og aldeilis ekki yfir gagnrýni hafin. En gegndarlaus áróður gegn lyfjameðferð undanfarin ár hefur að mínu mati verið til skaða. Margir finna fyrir vikið til sektarkenndar yfir því að vera á slíkum lyfjum og setja það jafnvel sem markmið að losna við lyfin, ofar því að ná heilsu. Þetta er mér til efs að þekkist í öðrum greinum læknisfræðinnar. Vinnan gegn fordómunum getur einnig verið gefandi á sinn hátt og gefið vind í seglin hjá okkur sem erum svo lánsöm að vinna í þessu áhugaverða fagi. Margir hugrakkir einstaklingar hafa einnig stigið fram og lagt sitt af mörkum í þessari baráttu, og eru slíkar hetjudáðir ómetanlegar í okkar litla samfélagi.

Gagnreyndar meðferðir við geðsjúkdómum eru fleiri en lyfjameðferðir og þar má nefna viðtalsmeðferð af ýmsu tagi. Þá er endurhæfing eftir alvarleg veikindi afar mikilvægur þáttur í bataferlinu. Endurhæfingarúrræði hafa eflst mjög á síðari árum, bæði innan sjúkrastofnana og utan, og batastefnan að festa sig í sessi. Ýmis öflug sjúklingasamtök hafa margt í boði til að styrkja fólk félagslega og virkja. 

Í fagi eins og geðlækningum er jafnvel enn mikilvægara en í öðrum greinum að efla rannsóknir. Á vegum félagsins eru haldin öflug vísindaþing annað hvert ár. Það eru veglegar og skemmtilegar samkomur þar sem dugnaður margra kollega minna fyllir mig bjartsýni.

Í lokin vil ég víkja að viðvörunum augnlæknisins góða. Hugmyndin um að geðlæknar og þar með félagar í Geðlæknafélagi Íslands séu dálítið skrýtnir er ekki ný af nálinni. Þessa hugmynd mætti ef til vill flokka sem fordóma eða fáfræði, en ef vel er að gáð þá er þó kannski sannleikskorn þar falið. Ég leyfi mér að fullyrða að geðlæknar eru með skemmtilegustu kollegum sem maður kynnist og æðsti varnarháttur okkar allra, húmorinn, er í hávegum hafður bæði á okkar fundum og utan þeirra.Þetta vefsvæði byggir á Eplica