02. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Hvaða sérgreinar vekja mestan áhuga læknanema?

Að velja sérgrein er ein stærsta ákvörðun semlæknanemar standa frammi fyrir að grunnnámi loknu. Ýmsir þættir hafa áhrif á valið, eins og laun, vinnutími og vaktaálag, nánd við sjúklinga og möguleikar til rannsókna. Einnig má ætla að vinnuumhverfi ogaðstæður hér á landi eigi ríkan þátt í að móta val á sérgrein. Í þessu greinarkorni kynnum við niðurstöður könnunar sem ætlað var að varpa ljósi á hvaða sérgreinar vekja mestan áhuga læknanema hér á landi.


Mynd 1. Áhugi læknanema á sérgreinum í læknisfræði.

Könnun á áhuga læknanema á sérgreinum

Á haustdögum 2013 buðum við læknanemum við Háskóla Íslands að svara könnun um áhuga þeirra á sérgreinum innan læknisfræðinnar. Könnunin var send á netföng 301 læknanema á öllum námsárum og hlekkur á hana birtur í hópi læknanema á samfélagssíðunni Facebook. Könnunin var nafnlaus og aðgengileg í rúma viku. 

Alls bárust svör frá 205 læknanemum, 86 körlum og 119 konum, svarhlutfallið var 68%. Fáir læknanemar höfðu þegar ákveðið hvaða sérgrein þeir ætluðu að velja að grunnnámi loknu, eða aðeins um 13% svarenda. Einn hugði ekki á sérnám í læknisfræði. Læknanemar voru beðnir að velja af lista eina sérgrein sem þeir höfðu mestan áhuga á (mynd 1). Þeir sem völdu lyflækningar eða skurðlækningar voru beðnir um að tilgreina eina undirsérgrein af lista (mynd 2 og mynd 3).


Skurðlækningar vinsælastar

Flestir sögðust myndu velja skurðlækningar, eða rúmur þriðjungur svarenda (mynd 1). Af þeim 71 sem völdu skurðlækningar voru 36 karlar og 35 konur. Af undirsérgreinum skurðlækninga voru almennar skurðlækningar og hjartaskurðlækningar vinsælastar (mynd 2). Val kynjanna á undirsérgreinum var nokkuð líkt. Bæklunarskurðlækningar skáru sig þó úr þar sem 8 karlmenn völdu þá grein en aðeins tvær konur. Konur voru hins vegar í meirihluta þeirra sem völdu heila- og taugaskurðlækningar.


Mynd 2. Áhugi á undirsérgreinum skurðlækninga.
 

Lyflækningar

Á eftir skurðlækningum höfðu flestir læknanemar áhuga á lyflækningum, eða rúmur fimmtungur (mynd 1). Það voru 45 sem völdu greinina, 23 konur og 22 karlar. Hjartalækningar voru vinsælasta undirsérgreinin, tæplega þriðjungur valdi þær (mynd 3). Athygli vekur að afar fáir völdu lungnalækningar, meltingarlækningar ognýrnalækningar. Ekki var teljandi munur á kynjunum í vali á undirsérgreinum að undanteknum krabbameinslækningum, en aðeins konur völdu þá grein.


Mynd 3. Áhugi á undirsérgreinum lyflækninga.
 

Aðrar sérgreinar 

Alls sögðust 35 læknanemar (17%) hafa áhuga á að sérhæfa sig í barnalækningum (mynd 1), tveir þriðju voru konur. Athygli vekur að eingöngu konur völdu geðlækningar og fæðinga- og kvensjúkdómalækningar en aðeins karlar völdu myndgreiningu og svæfinga- og gjörgæslulækningar.

 

Niðurlag 

Undanfarna áratugi hefur hlutur kvenna í læknastétt farið vaxandi og nú eru konur  meirihluti læknanema við læknadeild. Rannsóknir hafa sýnt að val á sérgreinum er að miklu leyti kynbundið. Hér á landi hefur hlutfall kvenna eftir sérgreinum verið svipað og víða erlendis, hæst í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum en lægst í skurðlækningum og bráðalækningum.1

Athygli vekur að í þessari könnun voru konur helmingur þeirra læknanema sem hafði mestan áhuga á skurðlækningum. Þetta er ánægjulegt í ljósi þess að hlutfall kvenna í skurðlækningum á Íslandi er enn afar lágt. Undanfarin ár hafa konur í auknum mæli sótt í skurðlækningar en þær voru um fimmtungur íslenskra skurðlækna í sérnámi árið 2010.2 Því er útlit fyrir að konum í skurðlækningum haldi áfram að fjölga í framtíðinni. 

Þegar könnunin var lögð fyrir, á haustdögum 2013, blasti við afar erfitt ástand á lyflækningasviði þar semmannekla og mikið álag á sérfræðinga var í algleymingi. Erfitt er þó að henda reiður á hvort þessar þrengingar hafi haft áhrif á viðhorf læknanema til sérgreina lyflækninga.

Rétt er að hafa hugfast að fæstir læknanemar höfðu gert upp hug sinn um val á sérgrein í framtíðinni. Því má telja líklegt að áhugasvið þeirra kunni að breytast með breyttu námsumhverfi og áherslum í námi, frá einu námsári til annars. Því er erfitt að spá fyrir um endanlegt val þessa hóps læknanema á sérnámi í framtíðinni.

 

Heimildir

  1. Haraldsson Þ. Norðurevrópskt þing kvenna í læknastétt. Kynjamunur í heilsu helsta umræðuefnið.Læknablaðið 2005; 91: 857-9.
  2. Guðbjartsson T, Viðarsdóttir H, Magnússon S. Menntun, starfsvettvangur og framtíðarhorfur á vinnumarkaði íslenskra skurðlækna. Læknablaðið 2010; 96: 603-9.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica