02. tbl. 101. árg. 2015

Ritstjórnargrein

Betri hagur - bætt heilbrigði

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra

doi: 10.17992/lbl.2015.02.09

Með yfirlýsingu þeirri sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar, Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands undirrituðu fyrir skömmu var rammaður inn eindreginn vilji stjórnvalda til að efla heilbrigðiskerfið. Þar er lögð áhersla á mikilvægi heilbrigðiskerfisins og vilja hlutaðeigandi til að styrkja það og bæta. Hér er því um tímamót að ræða. Með erfiða kjaradeilu að baki kjósa nú þeir sem áður tókust hart á, að deila sameiginlegri framtíðarsýn. Þessi sýn lýtur ekki eingöngu að stöðu þeirra sem komu að kjarasamningum eða yfirlýsingunni. Hún varðar einnig almenning í landinu sem trúir og treystir á að þeir sem stýra heilbrigðismálum þjóðarinnar geri það í eins mikilli sátt og samvinnu og unnt er. Það er skylda okkar allra sem fara með þennan mikilvæga málaflokk.  

Í störfum mínum sem heilbrigðisráðherra hef ég sannfærst um að ein stærsta áskorunin sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir á komandi árum sé að tryggja og auka samkeppnishæfni íslenska heilbrigðiskerfisins. Við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að íslenskir heilbrigðisstarfsmenn eru eftirsóttir í öðrum löndum. Þar skipta launakjör auðvitað miklu en ekki síður sá aðbúnaður og sú aðstaða sem boðið er upp á. Við stöndum því ekki aðeins frammi fyrir miklum fjárfestingum í innviðum heldur ekki síður í þeim mikla mannauði sem er innan heilbrigðiskerfisins, meðal annars í þeim tilgangi hafa framlög í vísinda- og rannsóknarsjóði verið stóraukin.

Meðal helstu áhersluatriða ríkisstjórnar-innar er bygging nýs Landspítala og mark-viss endurnýjun tækjabúnaðar í heilbrigðiskerfinu í samræmi við tækjakaupaáætlun sem kynnt var haustið 2013, en hvoru tveggja er ætlað að bæta starfsaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks og þjónustu við almenning. Auknu fjármagni hefur verið veitt til heilbrigðismála og breytingar gerðar í þeim tilgangi að auka skilvirkni. Um leið er stefnt að aukinni samvinnu heilbrigðisstofnana og markvissari verkaskiptingu, auk þess sem íslenska heilbrigðiskerfið á að verða samkeppnishæft við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.

Aukin fjárframlög á fjárlögum endurspegla þær áherslur í heilbrigðismálum sem ég hef boðað og falla undir verkefni áætlunarinnar Betri heilbrigðisþjónusta. Efling heilsugæslunnar er eitt okkar helsta forgangsmál og við sjáum nú raunaukningu á framlagi til heilsugæslu og sjúkraflutninga. Þessari aukningu verður varið til verkefna eins og fjölgunar á sérnámsstöðum í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun, verkefni um miðlæga símaráðgjöf um heilbrigðisþjónustu á landsvísu og innleiðingu þjónustustýringar í heilbrigðiskerfinu, svo fátt eitt sé nefnt.

Sameining heilbrigðisstofnana var eitt verkefna áætlunarinnar um Betri heilbrigðisþjónustu. Þar hef ég lagt áherslu á að ljúka því verkefni sem hófst fyrir löngu, að sameina stjórnun stofnana þannig að sama skipulag gildi um stjórnun heilbrigðisþjónustu í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Sú vinna gengur vel. 

Heilbrigðisþjónusta á Íslandi hefur lengi staðið framarlega í samanburði við önnur lönd og árangur á mörgum sviðum verið með því besta sem þekkist. Ungbarnadauði hefur árum saman verið lægstur hér í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir og fáar þjóðir eru langlífari en Íslendingar. Hvort tveggja segir mikið um heilsu og velferð þjóða.

Almennur og greiður aðgangur að heilbrigðisþjónustu er eitt af meginmarkmiðum íslenska heilbrigðiskerfisins. Allir landsmenn eiga sama rétt til heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðiskerfið er að langstærstum hluta fjármagnað af hinu opinbera en sjúklingar greiða þó ákveðinn hluta með notendagjöldum.

Heilsufar landsmanna hefur áhrif á flesta þætti samfélags okkar. Heilbrigði er mikilvægt fyrir menntun, samfélags- og atvinnuþátttöku, efnahagslega þróun og samfélagið í heild. Heilbrigðismál eru mál ólíkra geira samfélagsins og varða allt stjórnkerfið og þar með öll ráðuneyti og sveitarfélög. Því er mikilvægt að í allri stefnumótun, bæði opinberra aðila og annarra, sé hugað að lýðheilsu. Ábyrgð einstaklinga á eigin heilbrigði þarf að fara saman við ábyrgð stjórnvalda og stofnana samfélagsins sem með stefnu sinni, ákvörðunum og aðgerðum geta haft mikil áhrif á vilja, getu og aðstæður fólks til að lifa heilsusamlegu lífi á öllum aldursskeiðum. Gott heilsufar er ekki aðeins mikilvægt fyrir vellíðan fólks, heldur er það jafnframt þýðingarmikið fyrir sérhvert þjóðfélag og efnahag þess.

Miklar áskoranir bíða okkar. Öldrun þjóðarinnar er staðreynd sem ætti ekki að koma neinum á óvart. Breytingin er óumflýjanleg og okkur ber að búa í haginn þannig að samfélagið geti tekist á við breytta aldurssamsetningu og það sem henni fylgir. Sú vinna á að miða að því að styrkja stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði, hvort sem litið er til lýðheilsu þjóðarinnar eða helstu mælikvarða sem fela í sér mat á gæðum, öryggi, skilvirkni og hagkvæmni heilbrigðiskerfisins, svo sem varðandi aðgengi, meðferðarárangur, lyfjanotkun, réttindi sjúklinga og allt það er lýtur að heilbrigði landsmanna.

Hér sem annars staðar mun hnattvæðing, lýðþróun og efnahaglegur óstöðugleiki auka álag á heilbrigðisþjónustuna. Af því leiðir að öll svið samfélagsins verða að takast sameiginlega á við þau viðfangsefni sem við blasa, okkur öllum til hagsbótar og velsældar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica