03. tbl. 101. árg. 2015

Fræðigrein

Algengi og margbreytileiki andlegs ofbeldis og reynsla af vanrækslu í æsku á Íslandi

Prevalence and diversity of emotional abuse and neglect in childhood in Iceland

doi: 10.17992/lbl.2015.03.19

Inngangur: Uppeldisaðferðir foreldra sem fela í sér ofbeldi geta haft skaðleg áhrif á heilaþroska barna og heilsu þeirra og hegðun til lengri eða skemmri tíma. Umfang og margbreytileiki ofbeldisins er mikilvægur áhrifaþáttur og vanræksla er ein alvarlegasta birtingarmynd þess. Markmið rannsóknarinnar er að skoða algengi og umfang andlegs ofbeldis og vanrækslu sem fullorðnir Íslendingar segja að þeir hafi reynslu af í æsku og hvernig hún hefði áhrif á mat þeirra á uppeldi sínu.

Efniviður og aðferðir: Slembiúrtak einstaklinga 18 ára og eldri úr Þjóðskrá Íslands. Viðmælendur voru beðnir um að meta uppeldi sitt og svara spurningum um reynslu af 8 mismunandi formum andlegs ofbeldis og reynslu af vanrækslu í æsku.

Niðurstöður: Af 966 viðmælendum svöruðu 663 (69%) að þeir hefðu reynslu af einu eða fleiri af 8 formum andlegs ofbeldis. Þeir sem voru yngri en 30 ára voru 2,9 sinnum líklegri til að segja frá slíkri reynslu borið saman við þá sem voru eldri (95% CI 1,9-4,3). Meiri líkur voru á því að viðkomandi teldi uppeldi sitt slæmt eða ásættanlegt borið saman við gott eftir því sem svör um reynslu af andlegu ofbeldi voru fjölbreyttari (p<0,0001) og umfangsmeiri (p<0,0001). Samtals 105 (11%) töldu sig hafa verið van-ræktir í æsku. Marktækt fleiri karlar en konur höfðu reynslu af andlegu ofbeldi (p=0,0020) en konur af vanrækslu (p=0,0440).

Ályktun: Rúmlega 2/3 af fullorðnum Íslendingum segja frá reynslu af einu eða fleiri af 8 formum andlegs ofbeldis í æsku og rúmlega 1/10 af vanrækslu. Uppeldisaðferðum má breyta, meðal annars með fræðslu, félagslegum stuðningi og lagasetningu.

Inngangur

Foreldrar hafa það hlutverk að veita börnum sínum gott uppeldi, vernda þau og veita þeim leiðsögn. Hvað telst gott uppeldi er breytilegt og það sama á við um réttmæta ögun sem einkennist gjarnan af umbun og refsingum.1 Rannsóknir sýna að harkalegar uppeldisaðferðir foreldra eða ábyrgra forsjármanna og erfiðar félagslegar aðstæður geta haft neikvæð áhrif á heilaþroska barna.2-4 Ofbeldi gegn börnum, sérstaklega þegar það er fjölþætt og viðvarandi, hefur margvísleg önnur neikvæð áhrif á heilsu og hegðun í æsku og á fullorðinsárum og getur leitt til ótímabærra dauðsfalla.5-11 Harkalegar skammir og svívirðingar geta jafnvel haft neikvæð áhrif á heilaþroska barna.12 Þær geta leitt til aukinnar árásargirni, afbrotahegðunar, erfiðleika í samskiptum og þunglyndis, sérstaklega á unglingsárum.13 Þá sýna rannsóknir að sjálfsmat fullorðinna og barna á gæðum uppeldis foreldra sinna gefur vísbendingar um tengsl geðræns vanda og uppeldisaðferða.14,15

Algengt er að flokka ofbeldi gegn börnum í 5 tegundir, það er andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi, það að börn verði vitni að ofbeldi heima fyrir og vanrækslu.16 Andlegt ofbeldi og vanræksla eiga það sameiginlegt að vera lítt rannsakaðar tegundir ofbeldis og á skilgreiningarvandi þátt í því.17-19 Fleiri en eitt heiti eru notuð fyrir andlegt ofbeldi, svo sem sálfræðilegt og tilfinningalegt ofbeldi.6,17 Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (WHO) felur andlegt ofbeldi bæði í sér einstaka atburði og endurtekið mynstur samskipta. Það felur meðal annars í sér að barn sé niðurlægt, hrætt, því hótað, mismunað, hæðst að því, það sé kyrrsett eða beitt öðrum formum höfnunar eða fjandsamlegrar meðferðar af hálfu forsjáraðila og án þess að fela í sér líkamlegt ofbeldi.20 Vanræksla er skilgreind af WHO sem bæði einstakur eða endurtekinn atburður þegar foreldri eða annar fjölskyldumeðlimur lætur vera að sinna þroska og velferð barns, óháð aðstæðum hvað varðar líkamlega og andlega heilsu, næringu, húsaskjól, öryggi og menntun þess.20 Þá hafa mismunandi form vanrækslu verið tilgreind, þar á meðal líkamleg, tilfinningaleg og menntunarleg vanræksla og vanræksla vegna umsjónar og eftirlits.19,21

Áætlað er að um það bil tíunda hvert barn verði fyrir andlegu ofbeldi eða sé vanrækt í hátekjuríkjum.16 Algengi andlegs ofbeldis er þó mjög breytilegt eftir rannsóknum (frá 0,07% til 93%). Oftast er enginn afgerandi kynjamunur en þó hafa einstaka rannsóknir fundið að stúlkur verða oftar fyrir andlegu ofbeldi en drengir.22 Þær fáu rannsóknir sem gerðar hafa verið á algengi vanrækslu einkennast af mismunandi aðferðafræði og skilgreiningum. Við safngreiningu rannsókna (meta analysis review) var niðurstaðan að 16,3% barna hefðu orðið fyrir líkamlegri vanrækslu og 18,4% fyrir tilfinningalegri vanrækslu og var kynjamunur ekki marktækur.19

Erlendis er vanræksla algengasta tegund ofbeldis sem tilkynnt er til barnaverndaryfirvalda.18,19 Á Íslandi er oftast tilkynnt um vanrækslu við umsjón og eftirlit barna, fylgt eftir af tilkynningum um líkamlegt og andlegt ofbeldi.21,23 Nýlega voru birtar niðurstöður um algengi líkamlegs ofbeldis gegn börnum á Íslandi.24 Hér verða kynntar niðurstöður, byggðar á sama úrtaki úr þjóðskrá, um algengi andlegs ofbeldis og vanrækslu og áhrif þess á mat á gæðum uppeldis.

Efniviður og aðferðir

Spyrlar á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands hringdu í 1500 manna slembiúrtak 18 ára og eldri úr þjóðskrá á tímabilinu 19. október til 10. nóvember 2010.24 Alls tóku 977 þátt í könnuninni (65,1%) en hún var hluti af svokölluðum spurningavagni Félagsvísindastofnunar.

Fyrst var spurt hvort viðmælandi hefði fengið gott, ásættanlegt eða slæmt uppeldi. Þá fylgdu spurningar um reynslu af 6 formum líkamlegs ofbeldis (24) og 8 formum andlegs ofbeldis (tafla I). Þau form andlegs ofbeldis sem spurt var um falla undir alþjóðlegar skilgreiningar hugtaksins20 eða komu fram í eigindlegri rannsókn.25 Í hverri spurningu gat viðmælandinn valið á milli 5 valkosta, það er aldrei, einu sinni, nokkrum sinnum, oft eða mjög oft, og voru svörunum gefin stig eftir umfangi reynslunnar (0 til 4). Spurt var um geranda, það er hvort faðir, móðir eða einhver annar forsjáraðili hafi beitt ofbeldinu. Að lokum voru viðmælendur spurðir: „Upplifðir þú einhvern tíma þá tilfinningu þegar þú varst barn að þú værir vanrækt(ur) af foreldrum þínum eða forráðamönnum?“ með svarmöguleikunum eða nei. Ef svarið var var gefinn kostur á því að lýsa vanrækslunni nánar.

Meðalaldur viðmælenda var 46,3 ár (miðgildi 46,0; spönn 18-94). Elsti viðmælandinn var fæddur árið 1916 og þeir yngstu árið 1992. Bakgrunni viðmælenda hafa áður verið verið gerð skil,24 en hann endurspeglar íslenska þjóð hvað varðar kyn, hjúskaparstöðu, búsetu, menntun og tekjur. Svarhlutfall í aldurshópnum 60 ára og eldri var þó heldur lægra en í hinum aldurshópunum (61% borið saman við 65-67% í öðrum aldurshópum).

Við tölfræðilega úrvinnslu var notast við SPSS (v20,0 fyrir Windows) og JMP v6 fyrir Macintosh. Lýsandi tölfræði var notuð og marktektarprófið kí-kvaðrat notað til að meta hvort tölfræðilega marktækur munur (p<0,05) væri á hlutföllum mismunandi hópa. Línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að meta áhrif bakgrunnsbreyta. Líkindahlutfall (OR) var reiknað með lógistískri aðhvarfsgreiningu með 95% öryggisbili (CI).

Rannsóknin var tilkynnt til Persónuverndar. Ekki er um persónugreinanleg gögn að ræða og vilji til að svara spurningunum var tekinn sem upplýst samþykki um þátttöku.

 Niðurstöður

Svör um reynslu af andlegu ofbeldi

Af 977 einstaklingum sem tóku þátt í rannsókninni svöruðu 11 (1%) spurningu um reynslu af andlegu ofbeldi annaðhvort „veit það ekki“ eða neituðu að svara. Af 966 viðmælendum gáfu 663 (69%) upp að þeir hefðu að minnsta kosti einu sinni verið beittir einu eða fleiri af 8 tilgreindum formum andlegs ofbeldis. Af þeim sögðust 247 (37%) hafa reynslu af einu formi, 304 (46%) af 2-3 formum og 112 (17%) af 4-8 formum andlegs ofbeldis, þar af 7 þeirra af 7-8 formum slíks ofbeldis.

Enginn marktækur munur var á bakgrunni viðmælenda sem sögðu að þeir hefðu reynslu af andlegu ofbeldi og þeirra sem sögðu ekki frá slíkri reynslu, nema hvað varðar aldur (tafla II) og kyn. Meðalaldur þeirra sem gáfu upp reynslu af andlegu ofbeldi var 42,8 ár (miðgildi 42) en 53,9 ár (miðgildi 55) hjá þeim sem sögðust ekki hafa slíka reynslu (p=0,0001). Rúmlega 4/5 þeirra sem voru yngri en 30 ára sögðust hafa reynslu af andlegu ofbeldi borið saman við rétt um 2/5 þeirra sem voru 70 ára og eldri. Þeir sem voru yngri en 30 ára voru 2,9 sinnum líklegri til að gefa upp að þeir hefðu verið beittir andlegu ofbeldi borið saman við þá sem voru eldri (95% CI 1,9-4,3).

Sérstaklega var spurt um 8 form andlegs ofbeldis (tafla III). Algengasta svarið var að hafa verið hræddur með einhverju (32%), til dæmis með Grýlu eða lögreglu. Yngri viðmælendur gáfu upp meiri reynslu en þeir eldri af því að hafa verið hræddir (p<0,0001), kyrrsettir (p<0,0001), sviptir fríðindum (p<0,0001) eða verið hótað að fjarverandi foreldri/forsjáraðila yrði sagt frá ósæmilegri hegðun (p=0,0065). Ekki var tölfræðilega marktækur munur á aldri og svörum um aðra reynslu viðmælenda.

Karlar voru 1,5 sinnum líklegri til að segja frá reynslu af einu eða fleiri formum andlegs ofbeldis í æsku borið saman við konur (95% CI=1,2-2,0), en tölfræðilega marktækur munur var á svörum þeirra (mynd 1). Þannig voru konur líklegri til að segja frá reynslu af tveimur af 8 formum andlegs ofbeldis og karlar af þremur, en ekki var marktækur kynjamunur á þremur formum.

Meintir gerendur andlegs ofbeldis voru bæði mæður og feður (n=259) eða eingöngu móðir (n=244) eða faðir (n=74). Aðrir meintir gerendur voru ættingjar, til dæmis afi, amma eða fósturforeldri (-móðir/-faðir) og í einstaka tilvikum aðrir ásamt öðru hvoru foreldrinu. Ekki var tölfræðilega marktækur munur á reynslu kynja af andlegu ofbeldi hvort sem meintur gerandi var eingöngu móðir eða faðir (OR=1,4; 95% CI 0,9-1,4).

Samtals 368 (56%) af þeim sem sögðu að þeir hefðu reynslu af andlegu ofbeldi upplýstu einnig um líkamlegt ofbeldi. Þeir sem höfðu verið beittir andlegu ofbeldi voru 2,8 sinnum líklegri til að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi (95% CI 2,1-3,8) borið saman við þá sem sögðu ekki frá slíkri reynslu.


Vanræksla

Af 977 einstaklingum sem tóku þátt í rannsókninni töldu 105 (11%) sig hafa verið vanrækta í æsku en 6 svöruðu „veit það ekki“ og 15 vildu ekki svara spurningunni. Enginn tölfræðilega marktækur munur (p=0,5695) var á aldri þeirra sem töldu sig hafa verið vanræktir og þeirra sem töldu sig ekki hafa verið vanræktir (tafla IV). Meðalaldur þeirra sem sögðu að þeir hefðu verið vanræktir var 45,3 ár (miðgildi 47; spönn 18-83). Konur voru 1,5 sinnum líklegri til að telja sig hafa verið vanræktar í æsku borið saman við karla (95% CI 1,0-2,3). Enginn tölfræðilega marktækur munur var á uppgefinni reynslu af vanrækslu í æsku og öðrum bakgrunnsbreytum. Þeir sem töldu sig hafa verið vanræktir í æsku voru 4,4 sinnum líklegri til að hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi en þeir sem töldu sig ekki hafa verið vanræktir (95% CI 2,3-8,3). Marktækur munur var á svörum um reynslu þeirra af öllum formum andlegs ofbeldis borið saman við þá sem töldu sig ekki hafa verið vanrækta. Sterkast var sambandið við upplifun svaranda á því að hafa verið hafnað (OR 12,6; 95% CI 7,8-20,8) og hafa verið mismunað (OR 9,8; 95% CI 6,2-15,7). Ellefu (11%) af þeim sem upplifðu vanrækslu í æsku töldu sig ekki hafa neina reynslu af andlegu ofbeldi en 5 þeirra sögðust hafa verið beittir líkamlegu ofbeldi.

Lýsingar á vanrækslu fjölluðu um foreldra og forsjáraðila sem voru veikir, drykkfelldir, mikið fjarverandi eða fráskildir og lítil tengsl við föður. Viðmælendur lýstu ennfremur mikilli ábyrgð í æsku og skorti á daglegri umönnun og stuðningi við nám.

 

Mat á gæðum uppeldis

Af 963 viðmælendum sem lögðu mat á uppeldi sitt töldu 807 (84%) að það hefði verið gott, 139 (14%) ásættanlegt og 17 (2%) slæmt. Eftir því sem viðmælendur gáfu upp fjölbreyttari reynslu af andlegu ofbeldi, þeim mun meiri líkur voru á því að þeir teldu uppeldi sitt slæmt eða ásættanlegt borið saman við gott (mynd 2a). Viðmælendur sem gáfu upp reynslu af fjórum eða fleiri formum andlegs ofbeldis voru 6,2 sinnum líklegri til að meta uppeldi sitt sem ásættanlegt eða slæmt borið saman við þá sem sögðu ekki frá slíkri reynslu eða reynslu af 1-3 formum andlegs ofbeldis (95% CI 4,0-9,2).

Umfang uppgefinnar reynslu af andlegu ofbeldi var metið á grunni samlagningar stiga sem svörum viðmælenda voru gefin fyrir hvert hinna 8 forma andlegs ofbeldis (mynd 2b). Meðaltal stiga var 3,4 (miðgildi 2; spönn 0-32) og voru viðmælendur sem fengu fjögur stig eða meira 3,4 sinnum líklegri til að meta uppeldi sitt sem ásættanlegt eða slæmt borið saman við þá sem fengu 0-3 stig (95% CI 2,4-4,8). Tölfræðilega marktækur munur var á mati viðmælenda á gæðum uppeldis síns og umfangi uppgefinnar reynslu þeirra af öllum formum andlegs ofbeldis sem voru til skoðunar, að kyrrsetningu undanskilinni. Enginn munur var á bakgrunni þátttakenda hvort sem þeir höfðu enga reynslu af andlegu ofbeldi (0 stig) eða mikla reynslu (11 stig eða meira), nema hvað yngri þátttakendur sögðu frá umfangsmeiri og fjölbreyttari reynslu en þeir eldri (p=0,0001).

Af þeim 103 sem upplifðu vanrækslu í æsku og svöruðu spurningu um gæði uppeldis, töldu 12 (12%) að uppeldi þeirra hefði verið slæmt og 42 (41%) ásættanlegt. Þeir sem upplifðu vanrækslu í æsku voru 8,5 sinnum líklegri til að telja sig hafa fengið slæmt eða ásættanlegt uppeldi borið saman við þá sem töldu sig ekki hafa verið vanrækta (95% CI 5,5-13,3). Þeir voru einnig líklegri til að segja frá reynslu af umfangsmeiri og fjölbreyttari formum ofbeldis en þeir sem höfðu enga slíka reynslu (p=0,0001).

Mat á gæðum uppeldis var háð aldri viðmælanda (p=0,0282). Yngstu og elstu viðmælendurnir voru líklegri til að telja uppeldi sitt gott borið saman við þá sem voru á aldrinum 30-69 ára (p=0,0013).

Samtals 271 (28%) viðmælandi taldi sig eingöngu hafa reynslu af andlegu ofbeldi en 202 (21%) hvorki af líkamlegu né andlegu ofbeldi eða vanrækslu. Ekki var tölfræðilega marktækur munur á mati uppeldis þessara tveggja hópa viðmælenda (p=0,6416). Þeir sem gáfu upp að hafa eingöngu reynslu af andlegu ofbeldi voru 1,2 sinnum líklegri til að meta uppeldi sitt ásættanlegt eða slæmt borið saman við þá sem sögðu ekki frá slíkri reynslu, en munurinn var ekki tölfræðilega marktækur (95% CI 0,6-2,4).

Við aðhvarfsgreiningu án leiðréttingar voru 3,6 (95% CI 2,2-6,0) sinnum meiri líkindi til að þeir sem höfðu orðið fyrir andlegu ofbeldi mætu uppeldi sitt sem ásættanlegt eða slæmt borið saman við þá sem sögðu ekki frá slíkri reynslu. Með leiðréttingu fyrir aldri, kyni og svörum um reynslu af líkamlegu ofbeldi sáust þessi tengsl áfram (OR 3,8; 95% CI 2,2-6,4).

Umræða

Hér eru kynntar niðurstöður rannsóknar um svör fullorðinna Íslendinga um reynslu sína af andlegu ofbeldi og vanrækslu í æsku og mat þeirra á gæðum uppeldis síns. Tæplega 70% allra viðmælenda sögðu frá reynslu af einu eða fleiri af 8 tilgreindum formum andlegs ofbeldis. Eftir því sem reynslan var sögð fjölbreyttari jukust líkur á því að viðmælandinn mæti gæði uppeldis síns sem slæmt eða ásættanlegt fremur en gott. Upplýsingar um aukið umfang reynslu af slíku ofbeldi leiddi einnig til sömu niðurstöðu, að kyrrsetningu undanskilinni. Rúmlega einn af hverjum 10 viðmælendum taldi sig hafa upplifað vanrækslu í æsku og voru þeir marktækt líklegri til að segja frá reynslu af andlegu og líkamlegu ofbeldi borið saman við þá sem ekki töldu sig hafa verið vanrækta í æsku.

Viðmælendur voru beðnir um að rifja upp liðna atburði og því er hætta á gleymsku eða misminni. Rannsóknir sýna þó að upplýsingar sem fást með slíkum hætti eru nokkuð áreiðanlegar og endurspegla reynslu viðkomandi, nema hvað minningar eru stundum vantaldar.17,26 Því er ekki útilokað að algengi andlegs ofbeldis sé hærra í raun en niðurstöður okkar benda til. Hafa ber þó í huga að spurt var um hvort foreldrar eða aðrir forsjáraðilar hefðu beitt viðkomandi einu eða fleiri af 8 tilgreindum formum andlegs ofbeldis en ætla má að það hafi minnt viðmælendur á tiltekin atvik í æsku.

Hvað telst gott uppeldi er breytilegt og það sama á við um réttmæta ögun. Því geta skilin á milli refsinga og ofbeldis stundum verið óljós í hugum fólks. Í þessari rannsókn var stuðst við alþjóðlegar skilgreiningar á andlegu ofbeldi20 og niðurstöður eigindlegrar rannsóknar hér á landi25 og leitað upplýsinga um reynslu viðmælenda af mismunandi birtingarmyndum þess. Huglægt mat þeirra hefur því áhrif á svörin. Það vekur þó athygli að eftir því sem viðmælendur gefa upp fjölbreyttari og umfangsmeiri reynslu, þeim mun verr meta þeir uppeldi sitt og er það í samræmi við aðrar rannsóknir.14,15 Algengi vanrækslu í þessari rannsókn er svipað og áætlað hefur verið fyrir hátekjuríki16 og lýsingar viðmælenda á henni eru í góðu samræmi við skilgreiningu WHO á hugtakinu.20 Þetta bendir til þess að þær niðurstöður sem hér eru kynntar endurspegli algengi og umfang andlegs ofbeldis gegn börnum og vanrækslu hér á landi.

Það er umhugsunarefni að þeir sem voru yngri en 30 ára voru nær þrisvar sinnum líklegri til að segja frá reynslu af andlegu ofbeldi en þeir sem voru eldri. Yngri viðmælendur sögðu frá meiri reynslu af því að vera hræddir, kyrrsettir, sviptir fríðindum eða verið hótað að fjarverandi foreldri yrði sagt frá ósæmilegri hegðun borið saman við eldri viðmælendur. Enginn marktækur munur var aftur á móti á aldri og svörum viðmælenda um reynslu af háði, hótun, höfnun eða mismunun. Þetta má skýra með breyttum hugmyndum um hvað sé ofbeldi og hvað sé refsing en einnig gleymsku þeirra sem eldri eru. Eins er mögulegt að yngri viðmælendur hafi í reynd oftar verið beittir uppeldisaðferðum sem falla undir andlegt ofbeldi en þeir sem eldri eru, sem er andstætt þróun líkamlegs ofbeldis gegn börnum.24 Hugsanlega endurspegla þessar niðurstöður einnig breyttar áherslur í uppeldi. Eftir að efasemdir um ágæti líkamlegra refsinga breiddust út um og eftir 1970 urðu uppeldisaðferðir sem fela í sér kyrrsetningu barns og sviptingu fríðinda vinsælar,27 en hafa ber í huga að þær geta falið í sér andlegt ofbeldi gagnvart barni.

Rannsóknir sýna venjulega ekki kynjamun hvað varðar reynslu af andlegu ofbeldi en einstaka rannsóknir hafa sýnt að stúlkur verða frekar fyrir slíku ofbeldi.22 Í þessari rannsókn reyndust -karlar marktækt líklegri til að segja frá andlegu ofbeldi í æsku en uppgefin reynsla kynjanna af mismunandi formum var ekki sú sama (mynd 1). Engar rannsóknir fundust sem skoða kynjamun gerenda andlegs ofbeldis en í þessari rannsókn var ekki tölfræðilega marktækur munur á því hvort meintur gerandi væri móðir eða faðir.

Frásögn af reynslu af öllum formum andlegs ofbeldis var tölfræðilega marktæk við upplifun af vanrækslu. Þeir sem sögðu frá vanrækslu voru nær 13 sinnum líklegri til að segja frá höfnun í æsku og nær 10 sinnum líklegri til að finnast að þeim hafi verið mismunað í systkinahópi borið saman við aðra viðmælendur. Þetta er í samræmi við rannsóknir sem sýna að í meira en helmingi tilfella á sér stað annað ofbeldi samhliða vanrækslu, og þá oftast andlegt ofbeldi.18,19

Viðmælandur sem töldu sig hafa verið vanræktir í æsku voru 8,5 sinnum líklegri til að telja sig hafa fengið slæmt eða ásættanlegt uppeldi borið saman við þá sem töldu sig ekki hafa upplifað vanrækslu. Sterk tengsl eru milli mats viðmælenda á gæðum uppeldis í æsku og uppgefinni reynslu þeirra af andlegu ofbeldi. Líkindi á því að viðmælendur mætu uppeldi sitt sem ásættanlegt eða slæmt jukust eftir því sem reynsla þeirra var fjölbreyttari af mismunandi formum og umfangi andlegs ofbeldis (mynd 2). Þó sú rannsókn sem hér er kynnt geti ekki lagt mat á áhrif uppgefinnar reynslu af ofbeldi á heilsu og líðan þátttakenda, sýna niðurstöður rannsókna að neikvæð áhrif ofbeldis á heilsu og hegðun þolenda er í beinu sambandi við umfang ofbeldis sem þeir verða fyrir.8,9,29 Vert er að hafa í huga að einstaka atburður hefur venjulega ekki afgerandi áhrif á þroska barns og framtíð þess og því er mikilvægt að skoða einnig félagslegar aðstæður þess.15

Uppeldisaðferðir geta haft skaðleg áhrif á heilsu í æsku og fram á fullorðinsár (2,3,7–16,29) en þeim má breyta, meðal annars með fræðslu, félagslegum stuðningi og lagasetningu.16,20 Mikilvægt er að vernda börn fyrir neikvæðum áhrifum uppeldisaðferða sem fela í sér ofbeldi, þar með talið andlegt ofbeldi og vanrækslu. Snemmtæk íhlutun, sem felur meðal annars í sér almenna foreldrafræðslu og stuðning við fjölskyldur, vinnur gegn neikvæðum afleiðingum óhagstæðra uppeldisskilyrða barna og er þjóðhagslega hagkvæm.30 Mæðravernd og ung- og smábarnavernd í heilsugæslu og mismunandi skólastig geta verið heppilegur vettvangur fyrir slíka fræðslu og aðgerðir til að verja börn gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Mikilvægt er að hafa samráð við börn og unglinga í slíkri vinnu.

Þakkir

Þakkir fá þátttakendur sem deildu reynslu sinni um uppeldi sitt og reynslu af andlegu ofbeldi og vanrækslu, Björg Helgadóttir og Stefán Hrafn Jónsson fyrir aðstoð við tölfræðilega úrvinnslu, og Jónína Margrét Guðnadóttir og Sigríður Egilsdóttir fyrir yfirlestur og málfræðilega ráðgjöf.

Heimildir

  1. Einarsdóttir J, Ólafsdóttir STh, Gunnlaugsson G. Heimilisofbeldi gegn börnum á Íslandi: Höggva-hýða-hirta-hæða-hóta-hafna-hrista-hræða. Miðstöð heilsuverndar barna og Umboðsmaður barna, Reykjavík 2004.
  2. Belsky J, de Haan M. Annual Research Review: Parenting and children's brain development: the end of the beginning. J Child Psychol Psychiatry 2011; 52: 409-28.
  3. Euser AS, Evans BE, Greaves-Lord K, Huizink AC, Franken IHA. Parental rearing behavior prospectively predicts adolescents' risky decision-making and feedback-related electrical brain activity. Dev Sci 2013; 16: 409-27.
  4. Hanson JL, Hair N, Shen DG, Shi F, Gilmore JH, Wolfe BL, et al. Family poverty affects the rate of human infant brain growth. PloS One 2013; 8: e80954.
  5. Felitti MD, Anda RF, Nordenberg D, Williamson DF, Spitz AM, Edwards V, et al. Relationship of childhood abuse and household dysfunction to many of the leading causes of death in adults: The Adverse Childhood Experiences (ACE) Study. Am J Prev Med 1998; 14: 245-58.
  6. Garbarino J. The Emotionally Battered Child. In: C Henry Kempe: A 50 Year Legacy to the Field of Child Abuse and Neglect. Krugman RD and Korbin JE. (eds.). Springer 2013: 57-61.
  7. Gould F, Clarke J, Heim C, Harvey PD, Majer M, Nemeroff CB. The effects of child abuse and neglect on cognitive functioning in adulthood. J Psychiatr Res 2012; 46: 500-6.
  8. Leeb RT, Lewis T, Zolotor AJ. A review of physical and mental health consequences of child abuse and neglect and implications for practice. Am J Lifestyle Med 2011; 5: 454-68.
  9. Norman RE, Byambaa M, De R, Butchart A, Scott J, Vos T. The long-term health consequences of child physical abuse, emotional abuse, and neglect: a systematic review and meta-analysis. PLoS Med 2012; 9: e1001349.
  10. Hoeve M, Dubas JS, Gerris JRM, van der Laan PH, Smeenk W. Maternal and paternal parenting styles: Unique and combined links to adolescent and early adult delinquency. J Adolesc 2011; 34: 813-27.
  11. Schimmenti A, Bifulco A. Linking lack of care in childhood to anxiety disorders in emerging adulthood: the role of attachment styles. Child Adolesc Ment Health 2015; 20: 41-8.
  12. Tomoda A, Sheu Y-S, Rabi K, Suzuki H, Navalta CP, Polcari A, et al. Exposure to parental verbal abuse is associated with increased gray matter volume in superior temporal gyrus. NeuroImage 2011; 54: S280-S286.
  13. Wang M-T, Kenny S. Longitudinal links between fathers' and mothers' harsh verbal discipline and adolescents' conduct problems and depressive symptoms. Child Dev 2014; 85: 908-23.
  14. Lennertz L, Grabe HJ, Ruhrmann S, Rampacher F, Vogeley A, Schulze-Rauschenbach S, et al. Perceived parental rearing in subjects with obsessive–compulsive disorder and their siblings. Acta Psychiatr Scand 2010; 121: 280-8.
  15. Young R, Lennie S, Minnis H. Children's perceptions of parental emotional neglect and control and psychopathology. J Child Psychol Psychiatry 2011; 52: 889-97.
  16. Gilbert R, Widom CS, Browne K, Fergusson D, Webb E, Janson S. Burden and consequences of child maltreatment in high-income countries. Lancet 2009; 373: 68-81.
  17. Baker AJL. Adult recall of childhood psychological maltreatment: Definitional strategies and challenges. Child Youth Serv Rev 2009; 31: 703-14.
  18. Mennen FE, Kim K, Sang J, Trickett PK. Child neglect: Definition and identification of youth's experiences in official reports of maltreatment. Child Abuse Negl 2010; 34: 647-58.
  19. Stoltenborgh M, Bakermans-Kranenburg MJ, van IJzen-doorn MH. The neglect of child neglect: a meta-analytic review of the prevalence of neglect. Soc Psychiatry Psychiatr Epidemiol 2013; 48: 345-55.
  20. Butchart A, Harvey AP, Mian M, Furniss T. Preventing child maltreatment: a guide to taking action and generating evidence. WHO, Genf 2006.
  21. Arnardóttir L. Réttindi barna á Íslandi: Ofbeldi og forvarnir. Unicef, Reykjavík 2013.
  22. Stoltenborgh M, Bakermans-Kranenburg MJ, Alink LRA, van IJzendoorn MH. The universality of childhood em-otional abuse: a meta-analysis of worldwide prevalence. J Aggress Maltreatment Trauma 2012; 21: 870-90.
  23. Barnaverndarstofa. Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu árin 2012 og 2013. Barnaverndarstofa, Reykjavík 2014: 15.
  24. Gunnlaugsson G, Einarsdóttir J. Reynsla fullorðinna Íslendinga af líkamlegum refsingum og ofbeldi í æsku. Læknablaðið 2013; 99: 235-9.
  25. Gunnlaugsson G, Einarsdóttir J. Að hemja hundrað flær á hörðu skinni … Ofbeldi og refsingar barna. In: Jóhannesson GÞ, Björnsdóttir H, (Eds). Þjóðarspegillinn 2010. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 2010: 51-8.
  26. Hardt J, Rutter M. Validity of adult retrospective reports of adverse childhood experiences: review of the evidence. J Child Psychol Psychiatry 2004; 45: 260-73.
  27. Taylor TK, Biglan A. Behavioral family interventions for improving child-rearing: A review of the literature for clinicians and policy makers. Clin Child Fam Psychol Rev 1998; 1: 41-60.
  28. Blanchflower DG, Oswald AJ. Well-being over time in Britain and the USA. J Public Econ 2004; 88: 1359-86.
  29. Annerbäck E-M, Sahlqvist L, Svedin CG, Wingren G, Gustafsson PA. Child physical abuse and concurrence of other types of child abuse in Sweden—Associations with health and risk behaviors. Child Abuse Negl 2012; 36: 585-95.
  30. Heckman JJ. Giving kids a fair chance. Mit Press, Cambridge MA 2013.  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica