01. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Sérgrein. Frá formanni Félags íslenskra endurhæfingarlækna: Endurhæfingarlæknar eru of fáir

Endurhæfingarlækningar eru ung sérgrein innan læknisfræðinnar. Haukur Þórðarson sem síðar varð yfirlæknir á Reykjalundi lauk sérfræðinámi í endurhæfingarlækningum 1962, fyrstur íslenskra lækna. Auk vinnu sinnar á Reykjalundi starfaði hann á Landspítalanum og fyrir Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra.

Tuttugu læknar sem vinna eða hafa unnið við endurhæfingu á Íslandi eru skráðir félagar í Félagi íslenskra endurhæfingarlækna. Fimmtán þeirra eru með sérfræðiréttindi í endurhæfingarlækningum, þar af eru um 10 starfandi.  

Á landinu eru fjórar endurhæfingarstofnanir, Grensásdeild Landspítala, Reykjalundur, Kristnesspítali og HNLFÍ í Hveragerði. Endurhæfingarstarf hófst á Grensásdeild 1973. Þar eru um 20 sólarhringspláss og 30 dagdeildarpláss. Á Grensási fer fram frumendurhæfing, til dæmis eftir heilablóðföll, heilaáverka, mænuskaða, aflimanir og alvarleg veikindi. Flestir sjúklingarnir koma beint frá bráðadeildum spítalans. Reykjalundur var upphaflega stofnsettur af SÍBS sem starfsendurhæfing til þess að koma berklasjúklingum út í lífið eftir langt sjúkdómsferli. Upp úr 1960 var farið að taka við sjúklingum með fjölbreyttari sjúkdómsvanda. Hefur staðurinn smám saman breyst í það endurhæfingarsjúkrahús sem hann er í dag. Á Reykjalundi eru pláss fyrir um 150 sjúklinga. Þar er aðstaða fyrir 18 sjúklinga sem þurfa sólarhringshjúkrun. Starfseminni skiptist í: verkja-, geð-, tauga-, hjarta-, lungna-, gigtar-, næringar- og offitusvið og starfsendurhæfingarsvið. Einstaklingar koma ýmist beint frá sjúkrahúsum eða að heiman. Á Kristnesspítala, endurhæfingardeild Sjúkrahússins á Akureyri, eru pláss fyrir 26 sjúklinga. Á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði fer einnig fram fjölbreytt þverfagleg endurhæfingarstarfsemi.  

Endurhæfing er víðtækt hugtak. Skilgreina þarf vanda hvers og eins út frá þörfum hans og finna út hvers konar endurhæfingarúrræði henta best og þá hvort þörf sé á endurhæfingu utan eða innan stofnunar. Þegar vandinn er meiri og fjölþættari er yfirleitt þörf á þverfaglegri endurhæfingu á endurhæfingardeildum/ -stofnunum með aðkomu margra fagaðila. Auka þarf samvinnu milli endurhæfingarstofnana þannig að einstaklingar fái þá þjónustu sem er mest viðeigandi hverju sinni. Sjúklingar á bráðadeildum byrja venjulega endurhæfingu á sjúkrahúsinu. Þeir komast yfirleitt tiltölulega fljótt á endurhæfingardeild til meðferðar sé þess þörf. Stærra vandamál er hve biðlistar eru langir fyrir þá sem dvelja heima. Oft og tíðum er þar um að ræða einstaklinga með fjölþættan, versnandi sjúkdómsvanda og minnkandi getu. Getur þá skipt máli að grípa fyrr en seinna inn í með viðeigandi endurhæfingu til að viðhalda færni þeirra og auka lífsgæði.

Endurhæfingarlæknar eru of fáir. Meðalaldur þeirra er hár. Innan 10 ára verða margir þeirra hættir. Nýliðun er ekki næg og mjög fáir í sérnámi. Nauðsynlegt er að læknanemar og unglæknar kynnist sérgreininni í námi og starfi. Nokkuð hefur vantað upp á það og skortur verið á deildarlæknum. Viðfangsefni endurhæfingarlækna er að efla líkamlega og andlega getu, auka virkni og þátttöku og þar með lífsgæði. Verkefnin eru fjölbreytt. Þau byggja á heildrænni sýn á einstaklinginn sem hefur tapað færni vegna afleiðinga slysa eða veikinda. Endurhæfingarlæknar þurfa að hafa góða þekkingu á afleiðingum skaða og sjúkdóma til þess að geta leitt þverfaglega teymisvinnu en hún er stór þáttur í starfi þeirra. Í teymisvinnunni leggja ýmsir fagaðilar sitt af mörkum til þess að skjólstæðingur nái sem bestri færni og þátttöku.

Að lokinni endurhæfingu er oft nauðsyn á framhaldsúrræðum sem hæfa hverjum og einum. Þarna er átt við áframhaldandi þjálfun, aðstoð í daglegu lífi, virkni- og vinnuúrræði. Við útskrift af endurhæfingardeildum er búið að kortleggja vinnufærni en því miður er skortur á störfum við hæfi. Flestir geta unnið eitthvað ef þeir fá viðeigandi starf. Nokkuð vantar upp á það í dag að nóg framboð sé á fjölbreyttum vinnuúrræðum fyrir einstaklinga með skerta vinnufærni auk þess sem allt of löng bið er í þau úrræði sem eru til staðar. Má þar nefna verndaða vinnu, atvinnu með stuðningi og fleira. Of fáir nýta sér svokallaða vinnusamninga fyrir öryrkja með aðkomu Tryggingastofnunar. Mikilvægt er að atvinnurekendur komi hér einnig að málum. Með tilkomu Virk starfsendurhæfingarsjóðs hafa möguleikar hvað varðar endurhæfingu til atvinnu breyst til hins betra. Sú starfsemi er hins vegar enn í mótun og mikilvægt að góð samvinna sé milli Virk og aðila sem sinna endurhæfingarþjónustu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica