01. tbl. 101. árg. 2015
Umræða og fréttir
Starfsmenn Læknablaðsins
Lesendur Læknablaðsins þekkja blaðið vel en ef til vill minna til fólksins sem sér um að koma því út um hver mánaðamót. Fastir starfsmenn blaðsins eru fjórir, Védís Skarphéðinsdóttir ritstjórnarfulltrúi í fullu starfi og Hávar Sigurjónsson blaðamaður og ljósmyndari, Sævar Guðbjörnsson umbrotsmaður og Sigdís Þóra Sigþórsdóttir ritari og auglýsingastjóri, sem öll eru í hálfu starfi. Í þessu blaði kynnumst við þeim ögn nánar. Í ljós kemur að þau eru öll afskaplega virk bæði í starfi og leik og spurning hvort ekki sé tímabært að stofna íþróttadeild Læknablaðsins á þessum tímamótum.
Ellimarkmið að verða góð í golfi
Védís Skarphéðinsdóttir er alin upp á Hornafirði og áður en hún varð ritstjórnarfulltrúi á Læknablaðinu kenndi hún í Versló, las prófarkir á Mogganum og ritstýrði kennslubókum. En hvenær lá leið hennar á Læknablaðið og hvernig atvikaðist það?
,,Ég hóf störf sem ritstjórnarfulltrúi seint á árinu 2001 og hef verið hér óslitið síðan. Tilviljun réð því að ég sótti um starfið, ég var ekki með vinnu, sá starfið auglýst og fékk það. Mér leist strax vel á það. Fyrstu tvær, þrjár vikurnar vann ég með Birnu Þórðardóttur sem hér var fyrir á fleti og lærði mikið af henni. Starfið hefur að mestu leyti verið í föstum skorðum, læknablöð eru í eðli sínu íhaldssamar stofnanir, bundin hefðum og reglum til að standast vísindalegar og alþjóðlegar kröfur. Vísindagreinarnar eru hryggjarstykki blaðsins og það er gaman að taka þátt í að fleyta íslenskum fræðigreinum áfram.“ Ritstjórnarfulltrúi vinnur náið með ritstjórn blaðsins sem er skipuð læknum. Um hendur Védísar fara allar vísindagreinar blaðsins, greinar sem oft vekja athygli annarra fjölmiðla, eins og annað efni blaðsins. ,,Það kitlar dálítið að verða vör við að þegar blaðið kemur út vekur það athygli. Það sem slær í gegn og er mest lesið er ekki alltaf það sem ég á von á en ég finn að alltaf er fylgst með blaðinu innan blaðamannageirans. Læknablaðið er merkilegt að ýmsu leyti, meðal annars umfangi. Við gefum út á þessu ári 700 blaðsíður af efni og fimm fylgirit. Svo erum við í ágætu samstarfi við systurblöðin á Norðurlöndum og það samstarf hefur oft verið mjög náið og starf blaðanna samþætt.
Nú eru að verða ákveðin vatnaskil á 100 ára afmæli blaðsins því Læknafélag Íslands, eigandi og útgefandi blaðsins, er að kaupa okkur inn í gagnagrunn, ScholarOne, og fá aðgang að vefsvæði sem höfundar munu skila efni sínu inn á, í stað þess að senda mér það í tölvupósti eins og lengi hefur verið gert. Þar er allt efni sett inn, bæði texti, myndir og töfluefni. Ef eitthvað er ekki rétt skilgreint blikka aðvörunarljós, og hægt að lagfæra það strax. Þegar ég fer inn á vefsvæðið sé ég hvað er nýtt og þarf að fara í ritrýni, en nú eins og áður er allt efni rýnt blint, það er höfundar vita ekki hverjir rýna og rýnendur ekki hverjir eru höfundar efnisins. Eins og annað í vísindaheiminum er það auðvitað umdeilt hvort þetta vinnulag sé það besta, en þessi aðferð er víðast notuð.
Blaðið hefur vaxið og dafnað að undanförnu en mér finnst samt merkilegt hvað það hefur alltaf frá upphafi verið þróttmikil útgáfa. Tólf tölublöð á ári síðan 1915, þótt stundum sé nokkrum tölublöðum slegið saman. Nú eru auðvitað fleiri læknar starfandi en fyrr, en jafnvel á erfiðum tímum eins og í kreppunni og seinni heimsstyrjöldinni höfðu menn þrek til að gefa blaðið út. Eldri blöðin eru með efni sem við sjáum ekki lengur eins og íslenskum annálum um heilsufar og sjúkratilfelli og þá er ekkert verið að fela hver á í hlut: Jón Jónsson lærbrotnaði og Guðrún Guðmundsdóttir fékk botnlangakast. Umræðan um siðferði í meðferð upplýsinga var öll önnur þá. En þá eins og nú er líka talsvert um að læknar sendi inn sínar hugleiðingar og þær vekja oft athygli. Síðan hefur verið blaðamaður starfandi á blaðinu síðustu 20 árin, sem tekur viðtöl og fjallar um fundi og þess háttar.“
Eitthvað hlýtur að vera minnisstæðara en annað í ritstjórnarfulltrúatíð Védísar? ,,Já, það er ýmislegt, en ég man sérstaklega eftir því þegar blaðið varð gjaldgengt á MEDLINE/PubMed árið 2004. Það var sérstaklega gaman að taka á móti því bréfi. Þetta var langt bréf með löngum orðum, eins og frá tryggingafélagi, en það var stílað á mig og undirritað af PubMed-kontaktinum. Það var mikil spurning hvort innihaldið þýddi já eða nei áður en ég komst að þeirri niðurstöðu að svarið væri jákvætt. Blaðið var orðið nírætt þegar það náði þessum áfanga og þetta var merk stund fyrir íslenskar rannsóknir og skref inn í samfélag þeirra bestu. Svolítið ,,fullorðins“.“
Þótt nóg sé að gera á ritstjórn Læknablaðsins á Védís sér ýmis áhugamál, hún er að fikra sig áfram í skíðaiðkun nú í vetur, syngur í kór, Léttsveit Reykjavíkur. ,,Svo er ég með það ellimarkmið að verða góð í golfi enda hef ég gaman af því að vera úti að leika mér og er algjör ferðasjúklingur“ Og eins og fleiri les hún mikið og þá alls kyns bókmenntir, íslenskar og erlendar, ævisögur og ferðabækur. Bókmenntaáhuginn er engin tilviljun enda er Védís með cand. mag. próf í íslensku frá Háskóla Íslands.
Í mörgum hlutverkum
Hávar Sigurjónsson hefur fengist við blaðamennsku síðan á háskólaárum í Englandi árin 1978-1983. „Ferillinn byrjaði á því að ég skrifaði nokkrar greinar í Þjóðviljann um óeirðir sem brutust út árið 1980 í Manchester þar sem ég bjó.”
Þegar hann kom heim starfaði hann fyrst hjá Feyki á Sauðárkróki á árunum 1984-1985. Síðan þá hefur hann komið víða við í blaðamennsku. Er hann réðst til Læknablaðsins árið 2006 urðu nokkuð skörp skil í blaðamennskuferli hans, því hann kom af Morgunblaðinu, þar sem hann skrifaði um menningarefni. Verkefnin á Læknablaðinu voru allt annars konar. ,,Það er að mörgu leyti þægilegra að fjalla um efni sem tengist ekki því sem ég er að gera annars.
Ég hef alltaf verið að skrifa og þegar ég lít til baka sé ég að ég hef unnið fyrir mér sem skrifari í um þrjátíu ár. Lengi var ég samhliða blaðamennsku lausamaður í leikstjórn en var þó fastráðinn við Þjóðleikhúsið sem leikstjóri og dramatúrg í fimm ár. Undanfarin ár hef ég fengist við leikritaskrif utan vinnu minnar fyrir Læknablaðið. Þetta eru býsna ólíkir heimar og sumt af því sem viðmælendur mínir eru að fást við er mér ansi framandi. Hraðinn er líka annar en á öðrum fréttamiðlum. Það er gerólíkt að skrifa fyrir dagspressu eða tímarit sem kemur út mánaðarlega og er með tiltölulega langan vinnslutíma. Á blaði eins og Læknablaðinu skiptir fyrst og fremst máli að vera upplýsandi. Þegar best tekst til byggja aðrir miðlar fréttir á því efni birtist í Læknablaðinu. Þá er tilganginum náð og sjónarmið læknastéttarinnar komast á framfæri.
Ég verð hreinlega stundum undrandi á því hversu áhugavert mér finnst margt af því sem læknar fást við. Framsetningin skiptir líka máli og ég hef velt því fyrir mér hvort lesendur verði ekki leiðir á mér, af því ég er eini blaðamaðurinn á blaðinu. Þess vegna reyni ég eftir föngum að skrifa ekki alltaf í sama stíl. Ákveð að þetta viðtal ætli ég að skrifa svona og annað öðru vísi svo þetta verði ekki síbylja.“ Þetta hljómar svolítið eins og Hávar sé að skrifa mörg hlutverk í leikverki og hann samsinnir því. ,,Það kom mér á óvart í fyrstu hversu fjölbreyttur hópur læknar eru og í kringum þá er nánast endalaus uppspretta af alls konar efni.“
Lífið utan vinnu er ekki minna púsluspil en að raða saman leikritun, leikhússtarfi og blaðamennsku. ,,Ég stundaði hestamennsku í nokkur ár en hætti vegna aðstöðuleysis og fékk mér hund í staðinn. Hundar eru smærri dýr en hestar og auðveldara að halda þá. Hundaþjálfun er skemmtilegt áhugamál. Svo hef ég, eins og fleiri á ritstjórninni, gaman af alls konar hreyfingu og hef stundað langhlaup í mörg ár. Núverandi ritstjórn Læknablaðsins er reyndar samsett af miklu ofurfólki í langhlaupum. Veiði er enn annað áhugamál mitt, bæði skotveiði og silungsveiði. Hins vegar hef ég aldrei talið það beinlínis til áhugamála að lesa bækur eða fara á leiksýningar. Það er svo sjálfsagt.”
Meiri ábyrgðartilfinningu fylgir minni snjóbrettaiðkun
Sigdís Þóra Sigþórsdóttir er auglýsingastjóri og ritari hjá Læknablaðinu. Hún hóf störf á blaðinu snemma árs 2013. Áður vann hún hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og var þar að vissu leyti í svipuðum verkefnum og á Læknablaðinu. Þegar hún hætti þar fór hún í nám, fyrst í félagsráðgjöf og síðan í félagsfræði og stundar nú nám meðfram vinnunni. Hún tók sér reyndar frí á haustmisseri 2014 til að sinna jólapeysusölu.
,,Þótt ég hafi verið í svipuðu starfi hjá FÍB og hér þá er vinnan á Læknablaðinu að mörgu leyti allt annars konar. Þótt starfið sé talsverð rútína er það engu að síður mjög fjölbreytt. Það má segja að endurtekningin rúlli á mánaðarfresti. Ákveðna tíma mánaðarins er ég að sinna auglýsingum og á öðrum tímabilum frekar öðrum reglubundnum verkefnum, reikningum og fleiri slíkum störfum.
Heimasíðan krefst vinnu jafnt og þétt og mér finnst sú vinna einna skemmtilegust af mínum verkefnum. Það er að mörgu leyti gott að hafa bæði tilbreytinguna og samt að starfið sé í föstum skorðum því þá get ég undirbúið mig vel fyrir hvern hluta mánaðarins og raðað álaginu samkvæmt því.
Þótt vinnan og námið taki mikinn tíma þá hef ég ágætan tíma til að sinna því sem mig langar og þar er fjölskyldan í fyrirrúmi. Ég á tvö börn og okkur fjölskyldunni finnst gaman að ferðast saman, einkum innanlands. Áður var ég mikið á snjóbrettum og fer alltaf af og til á snjóbretti, en eyði minni tíma í það nú en fyrr. Ég hef bæði minni tíma og er orðin aðeins meiri gunga en ég var, ábyrgðartilfinningin segir mér að vera hræddari við að detta af því það getur haft áhrif á fleiri en mig.“
Hætti að lesa greinarnar þegar hann fékk alla kvillana
Sævar Guðbjörnsson útlitsteiknari Læknablaðsins hóf störf við blaðið árið 2000. Upphaflega var hann að leysa Þröst Haraldsson blaðamann og útlitsteiknara blaðsins af, er hann fór í ársleyfi. Sævar var enginn nýgræðingur í blaðamennsku. ,,Ég hef verið í blaðamennsku frá árinu 1977 þegar ég byrjaði að vinna á Þjóðviljanum og hef verið að síðan þá. Ég var í Noregi á blaðamannaháskóla og síðan fjögur ár á Dagbladet. Árið 1985 kom ég heim til Íslands hóf þá starf sem blaðamaður og útlitshönnuður á Þjóðviljanum, Þjóðlífi, Vikunni og víðar. Þegar Þjóðviljinn lagði upp laupana árið 1992 fór ég að vinna sjálfstætt í lausamennsku. Síðan þá hef ég rekið mitt eigið fyrirtæki, Blaðasmiðjuna En það fyrirtæki hefur í yfir 20 ár annast útgáfu á tímaritum og fréttabréf fyrir ýmis félagasamtök og stofnanir. Frá 2007 hef ég verið í föstu hálfu starfi hjá Læknablaðinu, byrjaði reyndar sem verktaki í eitt ár og hef getað unnið við önnur verkefni samhliða því. Það hentar mér ágætlega.
Læknablaðið er allt öðru vísi en önnur blöð sem ég hef unnið við. Umbrot á fræðigreinum er mun vandasamara en gengur og gerist í venjulegri blaðamennsku. Það er mikið um töflur og alls konar efni sem þarf sérstakrar meðhöndlunar við. Áður en ég fór að vinna á Læknablaðinu hafði ég ekki heyrt talað um ritrýndar greinar en ég fór fljótlega að átta mig á því hversu mikið þarf að leggja upp úr að vanda allan frágang við þær, til að mynda að ganga úr skugga um að allar heimildir séu réttar. Það er gaman að kynnast vísindaheiminum, hvernig hann hugsar og hvernig gengið er frá efni sem þaðan kemur. Að öðru leyti er þetta auðvitað hefðbundin blaðamennska og það ríkir sérstaklega góður vinnuandi í húsinu. Ég hef kynnst fullt af skemmtilegu fólki og góðum vinnufélögum, bæði á Læknablaðinu og hjá Læknafélaginu, sem við erum í sambýli við. Það var auðvelt að detta inn í læknakúltúrinn en ég hætti fljótlega að lesa fræðigreinarnar því ég var alltaf kominn með alla kvillana. Maður hlífir sjálfum sér við því.“
Það er líf utan vinnu hjá Sævari eins og öðrum. Hann spilar bridge og badminton við félagana og hefur gaman af útiveru, göngum og skíðaiðkun með fjölskyldunni. Það er þó ekki aðaláhugamálið. ,,Ég smíða mikið og helsta áhugamálið undanfarin ár hefur verið að byggja sveitasetur fyrir fjölskylduna undir Eyjafjöllum.“ Hafa eldgos ekkert truflað hann í því? ,,Þessi tvö gos sem hafa komið þar eru bara lífsreynsla.“