12. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

„Hápunkturinn þarf að vera á réttum stað“ talað við Hjálmar Freysteinsson

„Ég er fæddur og uppalinn í Vagnbrekku í Mývatnssveit. Í því samfélagi er mikil vísnahefð og margir forfeður mínir og skyldmenni hagyrðingar. Ég lærði mikið af vísum og kvæðum bæði heima og í skólanum og það þjálfaði brageyrað í æsku. En menn voru samt ekki endilega að flíka kveðskap sínum og fóru vel með það,” segir Hjálmar Freysteinsson heimilislæknir á Akureyri sem nýverið gaf út vísnabókina Lán í óláni sem hefur að geyma kveðskap hans frá liðnum árum og áratugum.

u09
„Þetta er tilraun til að gera tilveruna
agnarlítið skemmtilegri,” segir Hjálmar
Freysteinsson um vísnagerð sína.


Hjálmar er með þekktari hagyrðingum landsins og hefur tekið þátt í ýmsum hagyrðingasamkomum og á margar fleygar stökur. Hann kveðst þó ekki hafa byrjað vísnagerðina að ráði fyrr en á menntaskólaárum. „Ef ég setti saman vísur sem krakki eða unglingur þá hef ég gleymt því öllu núna,” segir hann léttur í bragði. En í Menntaskólanum á Akureyri sprakk hagyrðingurinn út og Hjálmar gerði sér lítið fyrir og vann vísnakeppni skólans öll fjögur árin sem hann var þar við nám. „Pétur Pétursson vinur minn og læknir hér á Akureyri segir það hafa verið með skárri hefðum í þeim skóla.”

Í formála að bókinni segir Hjálmar að kveðskapurinn hafi „allur orðið til í þeim eina tilgangi að skemmta sjálfum mér og öðrum. Sumt er reyndar til komið vegna þátttöku í hagyrðingasamkomum, þar sem yrkisefni eru ákveðin af öðrum og oft lagðar fyrir hinar furðulegustu spurningar. Stærsti hlutinn er þó það sem kallað hefur verið tækifærisvísur, vísur tengdar atburðum og umræðuefnum í samfélaginu. Oftar en ekki er reynt að  benda á spaugilegan flöt málanna og gera þannig tilveruna agnarlítið skemmtilegri.”

Og þá liggur beint við að spyrja hvort alvarlegri ljóðagerð hafi ekki slæðst með á stundum.

„Það er voðalega lítið. Ég hef aðeins reynt að gera söngtexta en alvarlega ljóðagerð hef ég alveg látið öðrum eftir.“

Hann segir að sér hafi komið á óvart hversu mikill áhugi er fyrir vísnagerð. „Þetta lifir góðu lífi með þjóðinni og til eru í dag kornungir hagyrðingar sem eiga framtíðina fyrir sér. Tækifærisvísur eru hluti af alþýðumenningu þessa lands og eru oftar en ekki eins konar brandari um einhvern tiltekinn atburð eða einstakling. Til þess að vísa sé vel heppnuð þarf hápunkturinn að vera á réttum stað, í lok vísunnar. Ég byrja því oftast á seinni partinum og prjóna síðan framan við. En það er álitamál hvort það þjóni tilgangi að gefa út slíkan kveðskap þar sem tilefnið gleymist yfirleitt fljótt. Vísurnar þurfa því gjarnan inngang eða skýringu þegar frá líður en það má ekki vera í of löngu máli til að bera ekki vísuna ofurliði.“

Hagyrðingar landsins hafa tekið tæknina í þjónustu sína og eiga sér svæði á netinu sem kallast Leirnetið. „Þar eiga hagyrðingar samfélag og kveðast á og setja inn vísur og vísuparta. Þannig er maður í sambandi við hagyrðinga alls staðar á landinu hvenær sem manni dettur í hug.”

Við ljúkum þessu spjalli við hagyrðinginn snjalla Hjálmar Freysteinsson með vísu er hann orti vorið 2003 eftir tveggja vikna dvöl á sælueyjunni Krít.

Ögn ég vitkast við það hlýt,
er víða um heiminn fer ég.
Eftir að ég kom frá Krít

krítískari er ég.Þetta vefsvæði byggir á Eplica