12. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Greiningar fyrr og nú

Nú á vordögum gaf ég út bókina Hetjur og hugarvíl sem fjallar um geðgreiningar í Íslendingasögum. Þessi bók er öðrum þræði hugsuð sem ádeila á greiningaræði nútímageðlækninga þar sem hægt er að finna nafn og sjúkdómsnúmer bæði á raunverulega sjúkdóma og atferli sem forfeðurnir töldu fullkomlega eðlilegt.

Síðustu vikur hef ég fylgt bókinni eftir með uppistandi í Landnámssetrinu í Borgarnesi þar sem ég fjalla um geðveiki og greiningarviðmið í Egilssögu við góðar undirtektir.

u07
Óttar í uppistandsstellingum á sýningu sinni á Söguloftinu í Landnámssetrinu.
Sýningin fékk fjórar stjörnur í DV hjá Jóni Viðari Jónssyni, einum strangasta
leikdómara landsins. Fyrirhugaðar eru fleiri sýningar eftir jól.
Mynd: Jóhann Páll Valdimarsson.

Margir eru þeir sem vilja fá geðgreiningu og engar refjar. Þetta sannreyndi ég þegar ég vann á göngudeild geðdeildar. Um tíma var eitt helsta meðferðarúrræði bráðamóttökunnar að senda fólk í svokölluð greiningarviðtöl. Sumum fannst það jafngilda úrlausn að standa í langri greiningarbiðröð.

Þeir fáu sem voru metnir alheilbrigðir í þessu ferli urðu fyrir miklum vonbrigðum. Þetta átti sérstaklega vel við um þá sem komu til að fá ADHD-greiningu. Þeir brugðust venjulega reiðir við og sögðust mundu leita réttar sins (til að fá greiningu) annars staðar.

Margir leituðu til deildarinnar vegna alls konar tilvistarvanda, ástarsorgar, hjónabandsvanda, kvíða, síþreytu, almennrar óhamingju og vansældar, prófkvíða, svefnleysis, heilsukvíða, námserfiðleika, tölvugláps, mótlætis eða áfalla.

En hver svo sem einkennin voru fengu þau flest hver nýtt nafn og númer í heimi geðlækninga.

Einn sjúklinga minna sagði einu sinni að góð greining væri gulli betri og til margra hluta nytsamleg. Nýlega lofuðu okurlánafyrirtækin að afskrifa allar skuldir hjá geðsjúkum. Mikill fjöldi fyrrverandi og núverandi sjúklinga hefur haft samband og beðið um töfravottorð til að galdra burt slíka skuldsetningu.

Geðgreining er á stundum eins og kærleikurinn; hún fyrirgefur allt, trúir öllu, breiðir yfir allt, umber allt og fellur aldrei úr gildi.

Á Íslandi eru 17.000 manns á örorku. Það lætur nærri að geðgreining komi við sögu hjá 11-12.000 manns af þeim hópi. Þegar sölutölur geðlyfja eru skoðaðar má ætla að 50-60.000 manns séu með einhverja slíka greiningu í sjúrnalakerfum spítalanna, heilsugæslunnar og sjálfstætt starfandi lækna. Þetta er stór hópur og margir hafa fengið geðgreiningu vegna einhverra tilfinningalegra vandamála og eðlilegra geðshræringa.

Læknar koma til móts við kröfur sjúklinga sinna í nýjum heimi þar sem heilbrigðið er einfaldlega leiðinlegt og óspennandi. Kannski má segja að verið sé að skrifa Íslandssöguna upp á nýtt með nýjum greiningum og persónusögu fólks með geðlyfjum.

Þegar greiningakerfi geðlækninga er beitt á hetjur Íslendingasagna blasa við brenglaðar manneskjur. Ég fann marga sem falla undir greiningarskilmerki persónuleikaraskana og má þar frægastar telja «borderline» kvenskörunga eins og  Hallgerði Langbrók, Guðrúnu Ósvífursdóttur og Bergþóru Skarphéðinsdóttur. Margar karlhetjur eru illa haldnar af sjálfhverfum narsissisma eins og Gunnar á Hlíðarenda, Kári Sölmundarson, Gunnlaugur ormstunga o.fl. Aðrir eru siðblindir eins og Grettir Ásmundsson, Skarphéðinn Njálsson, Mörður Valgarðsson og Gísli Súrsson.

Rauður þráður Njálssögu eru átök tveggja borderline kvenna, Hallgerðar og Bergþóru. Þær eru sveiflóttar í lund, öfundsjúkar, afbrýðisamar, hégómlegar og barnalegar. Þegar þeim lendir saman er fjandinn laus eins og gerist á geðdeildum þegar tvær konur með þessa röskun lenda inni samtímis. Þær stöllur linna ekki látum fyrr en bæði Fljótshlíðin og Landeyjarnar eru blóði drifnar.

Hjónaband þeirra Gunnars og Hallgerðar á Hlíðarenda er eins og martröð hvers hjónabandsráðgjafa. Fjölskyldan er klofin í einingar sem berast á banaspjótum. Rannveig móðir Gunnars leggur sitt að mörkum með því að standa með syni sínum í blíðu og stríðu og hata tengdadóttur sína.

Á Bergþórshvoli söfnuðu Njáll og Bergþóra í kringum sig öllum sínum börnum og tengdabörnum og komu í veg fyrir að nokkur flytti að heiman. Andrúmsloftið einkenndist af spennu, flokkadráttum, öfundsýki og vænisýki. Skarphéðinn og Bergþóra sverjast í bandalag gegn Njáli og skjólstæðingum hans. Brennan sjálf er eins og katharsis að gömlum sið þar sem borinn er eldur að þessu pestarbæli samsæra og illmælgis.

Meira að segja ofbeldismaðurinn og sykkópatinn Skarphéðinn er látinn deyja eins og dýrlingur kaþólsku kirkjunnar eins og hann hafi fengið syndaaflausn á banastundinni fyrir öll sín glæpaverk.

Egill Skallagrímsson er eins og gangandi handbók í geðgreiningum en saga hans er talin skráð af Snorra Sturlusyni. Kannski var Egill maðurinn sem Snorri vildi alltaf vera, gott skáld og siðblindur sigurvegari sem konur stjórnuðu ekki. En aldrei hefði hvarflað að Snorra að skilgreina Egil frænda sinn sem geðveikan.

Menn báru harm sinn í hljóði enda til lítils að kvarta. Þegar höfundur Grettissögu lýsir erfiðum draumförum og ofskynjunum sem tengjast augum Gláms hafði enginn heyrt talað um áfallastreituröskun.

Menn gátu ekki gert út á Tryggingastofnun ríkisins eða félagsmálastofnun. Sögurnar hafa sinn gang og hetjurnar lifa með allar sínar raskanir og láta þær stjórna lífi sínu til góðra verka og slæmra. En mestu skiptir að menn bera ábyrgð á eigin lífi og gerðum og mæta örlögum sínum möglunarlaust.

Fornmenn litu á áföll, sorg og dauða sem eðlilegan hluta af lífinu sjálfu og létu sig heiður og sæmd mestu skipta. Nútímamenn telja á hinn bóginn að lífið eigi að vera fyrirsjáanlegt og áfallalaust. Allir eiga rétt á eilífri æsku og stöðugri hamingju. En tilveran hagar sér sjaldnast samkvæmt þessum óraunhæfu hugmyndum heldur býður upp á ósigra og vonbrigði. Þeir sem búast við því að allt gangi alltaf snurðulaust fyrir sig verða fyrir miklum vonbrigðum. Menn komast að raun um að áföll eru sársaukafull og raska heimsmyndinni. Þeim mun óviðbúnari sem menn eru mótlætinu, þeim mun meiri verður sársaukinn.

Þetta er ástæðan fyrir því að nútímamenn sem lenda í einhverjum mótbyr í lífsins ólgusjó fá greininguna áfallastreituröskun, hvort heldur þeir misstu köttinn sinn, hjólinu var stolið, jólabjórinn uppseldur eða kærastan fór með öðrum manni. Þetta skýrir þá kröfu þjóðarinnar að áfallahjálparteymi sé alltaf reiðubúið þegar eitthvað óvænt gerist. Menn hafa glatað hæfileikanum til að vinna úr eða sætta sig við áföll en finna sér blóraböggul í hverju máli.

Þetta allt er tímanna tákn. Geðlæknar hafa lifibrauð sitt af að sinna eðlilegum tilvistarvandamálum venjulegs fólks og gefa þeim nafn og númer. Greiningin firrir fólk ábyrgð á eigin lífi enda er allt mótlæti einhverjum að kenna. Menn treysta ekki lengur á eigin getu til að leysa málin heldur krefjast þess að einhver opinber aðili geri það.

Nútímamaðurinn samþykkir ekki forsendur lífsins sjálfs heldur treystir því að tæknin muni færa honum eilífa hamingju. Hetjur fornaldar sættu sig við tilveruna eins og hún var, enda áttu þeir engan annan kost.

Þegar Íslendingasögur okkar tíma verða skráðar eftir 7-800 ár verður engin Hallgerður til að skrifa um. Hún fékk geðgreiningu í barnæsku og var sett á geðlyf sem gerðu hana bæði kyndaufa, feita og flata. Þegar hún hitti Gunnar sinn á Þingvöllum hafði hvorugt áhuga á hinu svo að engin saga varð til.

Þegar Grettir kom heim að Bjargi til að falast eftir því að fá Illuga bróður sinn með sér til Drangeyjar, sagði Ásdís móðir þeirra að það kæmi ekki til greina. „Ég er hætt að vera meðvirk með þér og þínum glæpum, Grettir, enda búinn að vera á Alanonfundum á Blönduósi í allan vetur!” Þetta varð til þess að Grettir fór einn í Drangey en Illugi fór í Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki á tölvubraut.Þetta vefsvæði byggir á Eplica