11. tbl. 98. árg. 2012
Umræða og fréttir
Frá öldungadeild LÍ. Fyrir 50 árum. Höskuldur Baldursson
Hér er horft frá Kjörvogi, sem er næsti bær við Gjögur, yfir mynni Reykjarfjarðar, inn frá hægri gægist
Veiðileysukambur. Við Veiðileysufjörð standa Byrgisvíkurfjall og Burstafell en Skarfadalur á milli þeirra.
Fjær til hægri sést í Lambatind sem er eftirsóttur af fjallgöngumönnum. Myndina tók Páll Ásmundsson í
Reykjarfirði sumarið 1976.
Hvernig var heilbrigðisþjónustan fyrir 50 árum? Þessi spurning vaknaði, þegar fullyrðingar komu fram í hruninu um að ýmsar efnahagsaðgerðir myndu færa okkur aftur um 50 ár. Þess vegna voru skráð þessi minningabrot frá upphafi starfsferils. Hér birtist hið fyrsta af fáeinum slíkum.
Haustið 1961 hélt ég niður á skrifstofu landlæknis í Arnarhvoli. Ég hafði lokið kandídatsprófi frá læknadeild um vorið og starfað á Landspítalanum síðan. Taldi nú tímabært að ljúka héraðsskyldunni sem var forsenda þess að fá almennt lækningaleyfi. Mér var boðið að verða settur héraðslæknir í Hólmavíkurhéraði og skyldi ég jafnframt gegna störfum í Árnes-(Djúpavíkur)-héraði en þar hafði verið læknislaust í einhver ár, trúlega frá því að síldarævintýrinu norðanlands lauk og starfsemi síldarverksmiðjunnar á Djúpavík lagðist af. Héraðið náði því frá botni Bitrufjarðar í suðri og eins langt norður og byggð hélst, en þá var heilsársbyggð nyrst í Ófeigsfirði. Ég þáði þetta og hóf þar störf strax eftir áramótin 1961-‘62.
Fyrsta beiðni um vitjun barst rétt eftir komu mína. Var þar um að ræða veikan mann á Djúpavík. Þegar hugað var að því hvernig vitja mætti sjúklings blöstu við viss vandkvæði. Vegurinn norður Strandir náði aðeins í norðanverðan Bjarnarfjörð, þannig að Árneshérað var ekki í vegasambandi við Hólmavíkurhérað, hvorki vetur né sumar. Bátarnir á Hólmavík sem réru til fiskjar norður í Húnaflóa höfðu oft bjargað málum, tekið lækninn með og skotið honum á land þar nyrðra. Nú var hins vegar ótíð og ekkert róið. Ég frétti þá að Skjaldbreið, sem ég hafði komið með, væri á leið frá Akureyri suður og myndi vera á Hólmavík kl. 01:30 um nóttina og halda þaðan til Djúpavíkur. Ég greip tækifærið fegins hendi og skaut mér um borð um nóttina. Á þessum tíma var sú regla algild að sjúklingur sem bað um vitjun borgaði ferðakostnað læknis. Þar sem ferðin til Djúpavíkur var áætluð aðeins fjórar klukkustundir kaus ég að kaupa ekki kojupláss en sitja uppi í matsalnum. Þegar út úr Steingrímsfirði kom greip mig þó sjóveikin og þegar stýrimaður kom til að innheimta fargjaldið, lá ég endilangur á bekknum í matsalnum, sagði honum að veskið væri í jakkavasanum sem héngi þarna á stólbakinu, hann yrði bara að bjarga sér sjálfur um fargjaldið, ég treysti mér alls ekki til þess. Þegar Skjaldbreið lagðist við bryggjusporðinn á Djúpavík skreið ungi læknirinn í land og þori ég að fullyrða að hann var þá stundina lasnasti maðurinn í plássinu. Þetta bráði þó fljótt af og gat ég þá farið að sinna þeim störfum sem ég var kallaður til.
Eldfljótt spurðist út að læknirinn væri kominn í héraðið. Frá barnaskólanum á Finnbogastöðum komu skilaboð um að þar ætti eftir að framkvæma árlega skylduskoðun á nemendum en auk þess höfðu fleiri hug á að ná tali af lækninum fyrst hann var kominn í héraðið. Var því haldið með lítilli trillu út Reykjarfjörðinn að Gjögri og var ég þar samferða hinni landsfrægu fréttakonu Morgunblaðsins, Regínu Thorarensen. Ég þáði og hjá henni kaffi á Gjögri meðan ég beið eftir fylgdarmanni sem kom frá Finnbogastöðum með hesta til reiðar. Síðan var riðið yfir hálsinn norður í Trékyllisvík og gat maður riðið hluta leiðar en stundum þurfti að fara af baki og teyma hestana þar sem snjóþungi var mestur. Að lokinni skólaskoðun var gist á Finnbogastöðum. Næsta dag hófst ferð með fylgdarmanni þar sem gengið var á skíðum um sveitina og sjúklinga vitjað. Var þetta bráðskemmtileg ferð þar sem beini var þeginn á bæjum og loks gist þar sem nóttin náði manni. Ekki var um nein alvarleg veikindi að ræða, frekar ýmsir kvillar fólks sem ekki hafði náð til læknis í einhverjar vikur ef ekki mánuði. Að loknum þessum erindum lá leiðin aftur að Finnbogastöðum, þá með hestum að Gjögri og bát til Djúpavíkur. Þar vandaðist málið þar sem ekki var um neinar ferðir að ræða þaðan til Hólmavíkur. Enn voru ógæftir og bátarnir á Hólmavík réru ekki. Þær fregnir bárust að Skjaldbreið sem flutt hafði mig til Djúpavíkur hefði steytt á skeri í Breiðafirði á leið suður og sokkið þar. Sem betur fer varð mannbjörg, en það þýddi að Skjaldbreið mundi ekki koma framar í strandsiglingar. Ákveðið var því að eina leiðin til Hólmavíkur væri einfaldlega að ganga á skíðum yfir Trékyllisheiðina frá Djúpavík niður í botn Steingrímsfjarðar. Ég fékk lánuð skíði og tvo unga pilta til fylgdar. Þeir voru vel kunnugir norðanverðri heiðinni, höfðu þó aldrei farið hana alla niður í Steingrímsfjörð. Það átti þó ekki að koma að sök þar sem samið hafði verið um að tveir menn kæmu sunnan að og ætluðu fylgdarmennirnir að hittast á miðri heiði og sunnanmenn þannig að taka við lækninum í sína umsjá. Lagt var af stað að morgni dags í góðu veðri, norðaustan gjólu og nokkrum skafrenningi og sóttist ferðin vel upp á heiðina með vindinn í bakið. Smám saman herti þó veðrið, þannig að komin var hríðarmugga auk þess sem nokkuð hafði hvesst. Fylgdarmenn réðu nú ráðum sínum, töldu einsýnt að sunnanmenn hefðu snúið við (engir GSM-símar á þeim tíma) og var ákveðið að snúa við til Djúpavíkur. Ferðin sóttist þá hægar á móti hríðinni. Við gengum í röð, ég aftastur og á einum stað missti ég annað skíðið og hljóp á eftir því. Þegar ég hafði náð að festa það á mig aftur voru félagarnir horfnir út í hríðina og brá mér þá allnokkuð. Skíðaslóðin var þó skýr og hraðaði ég mér eftir henni og var manna fegnastur þegar ég sá í bakið á þeim. Ferðin norður af heiðinni tók um fjórum sinnum lengri tíma en ferðin upp á heiðina að morgni hafði tekið. Nú varð einfaldlega að bíða þar til veðri slotaði og á öðrum degi var veður orðið gott og var þá aftur lagt á heiðina Gekk nú allt að óskum, fylgdarmenn hittust á heiðinni og var mér fylgt niður í Steingrímsfjarðarbotn og þar næst fluttur með trillu yfir til Hólmavíkur. Hafði þessi fyrsta vitjun mín í héraði þá alls staðið yfir í 8 daga.