11. tbl. 98. árg. 2012
Umræða og fréttir
Viðvörun til ungra lækna
Því miður hefur ætíð borið nokkuð á því að ungir íslenskir læknar leiti vestur um haf, nánar tiltekið til Bandaríkja Norður-Ameríku, til sérnáms í læknisfræði. Þeim fer þó sem betur fer fækkandi með bættu gáfnafari stéttarinnar. Bandaríkjamenn eru til dæmis svo vitlausir að þeir viðurkenna ekki íslenskt læknispróf, sem er kandídatspróf. Þeir þvinga íslenska lækna til að taka bandarískt læknispróf í tveimur hlutum og síðar lækningaleyfispróf og jafnvel tvö sérfræðingspróf ofan á það. Fjögur próf ofan á hið íslenska kandídatspróf. Sveiattan. Það er augljóslega meira vit að fara annað. Samt voru síðasta vor enn einu sinni nokkrir læknar lokkaðir til Bandaríkjanna með þessum niðurlægjandi hætti og fóru meðal annars á staði eins og Duke University og Brigham and Women´s Hospital, sem er eitt af kennslusjúkrahúsum Harvard-háskóla. Maður efast um greind, allavega dómgreind, þessara lækna. Sá, sem þetta ritar, þekkir líka íslenska lækna sem urðu þeirrar ógæfu aðnjótandi að nema við University of Wisconsin í Madison, Uconn, University of Rochester, Yale, Massachussett´s General Hos-pital (Harvard), University of Washington í Seattle, Emory, Case Western Reserve og svo mætti nokkuð lengi telja, en allt eru þetta afar lítilsigldir staðir.
Þessu verður bara að linna. Læknadeildin og Læknafélagið verða að grípa í taumana.
Auðvitað er allt þetta vesturheimska fólk að fá undirmálsmenntun. Þeir verða annars flokks læknar. Þessir læknar eru í besta falli hæfir til að stunda klínísk störf og það er ekki mikils virði eins og allir vita. Það vita líka allir að ef þessir læknar hafa í framhaldi af sérnámi sínu komið nálægt vísindastarfi á þessum hörmulegu sérnámsstöðum, þá eru þau vísindi lítils virði af því þeim lýkur ekki með Ph.D-gráðu ofan á MD-gráðuna, sem er bara aum bandarísk doktorsgráða. Enda fá bandarískir læknar helst ekki Nóbelsverðlaun eins og allir vita. Og aldrei með MD-gráðu eingöngu. Nýjungar koma sjaldan frá Bandaríkjunum og rit þaðan eru lítt lesin.
Eðlilega hefur Læknafélag Íslands séð til þess að nám þessara vesturheimsku lækna sé metið til lægri launa í kjarasamningi sjúkrahúslækna. Þannig er ákvæði í kjarasamningi frá 2002, grein 3.2.1.4, sem segir: „Læknir með sérfræðileyfi, sem lokið hefur doktorsprófi eða jafngildu prófi að mati læknadeildar Háskóla Íslands, skal fá sérstakt 3% álag á lfl. 300 4. þrep.“ Auðvitað skiptir það engu máli þótt Læknadeild hafi úrskurðað að viðkomandi læknir án Ph.D hafi sannarlega jafngilda eða margfalda vísindalega hæfni á við doktorspróf. Læknafélagið hefur ítrekað réttmæti þessarar mismununar lækna með kjarasamningi frá 14.9. 2011 þar sem gildi ákvæðisins var ítrekað með frekari launahækkun, það er „... læknir (áður með sérfræðileyfi, nú með lækningaleyfi), sem lokið hefur doktorsprófi eða jafngildu prófi að mati læknadeildar Háskóla Íslands, skal fá sérstakt 4% álag af lfl 300 4. þrepi til 31. ágúst 2001 en 5% álag af 4. þrepi þess launaflokks sem hann er í frá 1. september 2011“. Mér finnst að komugjöld til sérfræðilækna ættu að taka mið af þessu líka, þótt Sjúkratryggingar hafi ekki fattað það.
Í ljósi þess að um undirmálsmenntun er að ræða í Vesturheimi að mati Læknafélags Íslands, tel ég að læknadeild og sér í lagi Læknafélag Íslands (sem hefur úrskurðað bandarískt menntaða lækna minna virði en aðra lækna) eigi að vara ungt fólk við vesturför. Eða alla vega að vara hina vesturheimsku annars flokks lækna við því að koma aftur til baka til Íslands. It ain´t worth it.