11. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Af vísindaþingi Geðlæknafélags Íslands

Þann 28.-30. september var fjórða Vísindaþing Geðlæknafélags Íslands haldið á Kirkjubæjarklaustri. Þingið var fjölmennt, með yfir 80 virka þátttakendur, auk annarra gesta. Þingið var opið öllum fagstéttum og þarna voru, auk geðlækna, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, iðjuþjálfar, félagsráðgjafar, heimilislæknar, læknanemar, lyfjafræðingar og kynnar, auk fleiri aðila úr röðum fagfólks. 

u09-fig1
Undirbúningsnefnd vísindaþingsins lagði línurnar um stórt og smátt og var klappað lof í lófa eftir afar
vel lukkað þing. Frá vinstri: Sigurður Páll Pálsson, Þórgunnur Ársælsdóttir, Magnús Haraldsson, Halldóra Jónsdóttir formaður nefndarinnar, og Sigurlaug J. Sigurðardóttir ritari, rótari og yfirreddari. Mynd: Engilbert Sigurðsson.

Vísindaþingið hófst á erindum um áhrif kreppunnar á geðheilbrigði. Það sem sló mann er í raun frekar hve lítil þau hafa verið. Þó var skýrt að geðheilsa er nátengd huglægu mati okkar á fjárhagsvandræðum. Rætt var um þunglyndi karla og kvenna og það kom glöggt fram í þeirri umræðu að mikilvægt er að gera sér grein fyrir kynbundnum mun. Annars vegar með tilliti til meðgöngu og ýmiss konar atburða í uppvexti kvenna, en ekki síður samspili þunglyndis við testósterón hjá körlum. Í framhaldi voru skoðuð sjálfsvíg á Íslandi í 99 ár og þróun þeirra á Norðurlöndum. Umræðu um sjálfsvíg lauk á laugardeginum með því að fjalla um sjálfsvíg lækna. Í þessu samhengi kom fram að þó að tíðni þeirra sé ekki sérlega há hérlendis fer hún ekki lækkandi. Umræða var tekin um náin tengsl þunglyndis við sjálfsvíg en ekki síður áfengis, og ljóst að við læknar erum ekki nógu virkir að hjálpa kollegum okkar í þeim vanda.

Þá var mikil umræða um greiningartæki í barnageðlækningum, en þar hafa orðið verulegar framfarir með staðfærslu á stöðluðum viðtölum sem gerir kleift að komast að nákvæmari greiningu. Greiningarvinnan skiptir máli til þess að veita megi góða meðferð. Þá skiptir þetta máli til þess að tryggja að börn fái þjónustu í skóla og félagslegu kerfi. Meðferð athyglisbrests hefur verið hitamál í samfélaginu og er greiningarvinnan mikilvæg í því samhengi. Kynnt var beiting hugrænnar atferlismeðferðar til viðbótar hefðbundinni meðferð og einnig rætt um hópinn sem misnotar lyf sem tengjast meðferðinni, það er methýlfenídat. Ljóst er að við áttum okkur ekki á því hvað það er sem dregur sjúklinginn áfram í fíkn sinni en á þinginu var sýnd ein fyrsta kortlagning á þessum þáttum. Þá var fjallað um hvernig á að draga úr skaða meðal vímuefnaneytanda og einnig hvernig á að draga þann í meðferð sem vantar innsæi og/eða löngun.

Á þinginu var María Sigurjónsdóttir réttargeðlæknir í Noregi sérstakur gestur. Ræddi hún ítarlega þau margþættu atriði er lúta að réttargeðlækningum þar. Meðal annars mun á svokallaðri læknisfræðilegri afstöðu til sakhæfis, það er að greining sé ákvarðandi, ellegar að það sé skertur skilningur á eðli og inntaki verknaðarins vegna sjúkdóms, sem ráði sakhæfi. Ræddi María málin af mikilli nákvæmni og fagmennsku út frá norska kerfinu.

Í framhaldi þessa var rætt um þroskahefta með geðsjúkdóma og meðhöndlun þeirra, en það er ljóst að sá málaflokkur þarf meiri athygli til framtíðar. Einnig var rætt um samfélagsþjónustu og inngrip fyrir þá sem greinast með geðrof og um þann flókna hóp sem er með fíknigreiningar og aðrar geðgreiningar og kynnt ítarlega vinna sem lýtur að meðhöndlun þessa hóps í samræmi við bestu staðla. Þá voru tvö erindi um erfðafræði og kallaði á fjörugar umræður fram eftir kvöldi hvaða leiðir væru bestar, á að nota einföld greiningarkerfi eða ítarleg? Fjallað var um erfðir og samspil við augnhreyfingar hjá geðklofasjúklingum. Í því samhengi voru mjög áhugaverðar vangaveltur um tengsl við lesblindu og annarra sértækra námsörðugleika við truflun í fylgnihreyfingum augna. Meðferðarheldni sjúklinga með geðklofa, geðhvörf og átraskanir var á dagskrá, ljóst er að við sem sinnum sjúkum þurfum að beina sjónum okkar að því sem bætir meðferðarheldni og jafnframt að því sem veldur lélegri meðferðarheldni.

Eins og á öllum góðum ráðstefnum um góðar geðlækningar í dag var fjallað lofsamlega um hugræna atferlismeðferð undir lok fundar og lýstu fylgjendur hennar því yfir að hún sé flestra meina bót í þunglyndi og kvíða. Niðurstaða mín af vísindaþinginu er þó að við verðum að keppast við að bjóða upp á fjölbreytta meðferð fyrir geðsjúka og leita nýrra því núverandi meðferðir eru enn ekki nógu góðar. Í þinglok skemmtu þinggestir sér inn í vetrarnóttina á Klaustri þar sem þingið var túlkað af Óttari Guðmundssyni og hljómsveit.

 Aðeins ein sjúkrasaga var sögð sem ritstjóri vill að sé endurflutt en hún sagði frá ölvuðum manni sem lögreglan flutti til blóðsýnatöku í héraðinu. Læknir og lögreglan þekktu manninn vel og spurðu: “Af hverju varstu að aka ölvaður?“ Svarið var skýrt: „Ég varð að sitja, ég var of fullur til að ganga.“ Við læknar lærum á endanum mest af sjúklingum okkar!

Næsta Vísindaþing verður eftir tvö ár, en við sem sóttum þetta þing þökkum Halldóru Jónsdóttur, Magnúsi Haraldssyni, Sigurði Páli Pálssyni, Þórgunni Ársælsdóttur og Sigurlaugu J. Sigurðardóttur fyrir að hafa undirbúið gott vísindaþing.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica