09. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Skráning ábendinga á áritunarmiða lyfja - upplýsandi öryggisatriði sem ekki skilar sér

Samkvæmt 23. grein reglugerðar nr. 111/2001 um gerð lyfseðla og ávísun lyfja skal útgefandi lyfseðils tilgreina á lyfseðli hvernig, hvenær og við hverju nota á ávísað lyf á þann hátt að auðskilið sé fyrir notanda þess. Í undantekningartilvikum má læknir sleppa að geta við hverju lyf er notað, telji hann það þjóna hagsmunum sjúklings.1 

Rannsóknir hafa sýnt að þekking á eigin heilsufari og lyfjanotkun eykur meðferðarheldni og um leið árangur meðferðar.2,3 Eitt af því sem getur stuðlað að aukinni þekkingu sjúklinga er skráning ábendingar fyrir meðferð á áritunarmiða lyfseðilsskyldra lyfja. Mikilvægi þessa er augljóst á tímum þar sem oft er skipt um sérlyf í samræmi við hagstæðasta verðið hverju sinni. Beinast liggur við að skrá þessar upplýsingar í reitinn „lyf er notað við“ á lyfseðlinum en samkvæmt kynningu velferðarráðuneytisins 2001 á nýrri gerð lyfseðla er reiturinn ætlaður læknum til að skrifa við hverju lyfið er notað til hægðarauka fyrir sjúklinga.4 Þrátt fyrir það skila þessar upplýsingar sér því miður sjaldnast til sjúklinga á rafrænum lyfseðlum þar sem þær færast ekki sjálfkrafa á áritunarmiðann við afgreiðslu lyfseðilsins.

Á mynd 1 má sjá viðmót það sem læknir sér á rafrænum lyfseðli. Líkur eru á því að læknar riti ábendinguna í reitinn „lyf er notað við“ í þeirri góðu trú að þær upplýsingar skili sér til sjúklingsins. Ef þessar upplýsingar eiga örugglega að skila sér þarf læknir að skrá þær í reitinn „notkunarleiðbeiningar”.

u04-fig1
Mynd 1.
Rafrænn lyfseðill eins og
læknirinn sér hann. 


Á mynd 2 sést sami lyfseðill út­prent­aður í apóteki. Eins og sést á myndinni koma ekki fram þær upplýsingar sem skráðar eru í „athugasemdir“ og eru þær aldrei sýnilegar lyfjafræðingum við afgreiðslu lyfseðla sem einnig er bagalegt því fyrir kemur að læknar skrái þar athugasemdir ætlaðar lyfjabúðum. Upplýsingarnar um við hverju lyfið er koma fram, en því miður nýtist það ekki sjúklingnum nema hann fái útprentaðan lyfseðil, sem er sjaldnast.

u04-fig2
Mynd 2.
Útprentað form af rafræna
lyfseðlinum á mynd 1. Auðkenni
apóteksins hafa verið afmáð af
mynd 2 og 3.


Mynd 3 er af áritunarmiða lyfjabúðar fyrir sama lyfseðil. Áritunarmiðinn prentaðist út þegar rafræni lyfseðillinn á mynd 1 var afgreiddur. Eingöngu upplýsingar sem ritaðar eru í reitinn „notkunarleiðbeiningar” færast sjálfkrafa á áritunarmiðann af rafrænum lyfseðli. Eins og sjá má kemur ekki fram við hverju læknirinn segir lyfið eiga að vera, en það er aðeins mögulegt ef starfsfólk lyfjabúða handfærir þær upplýsingar á áritunarmiðann.

u04-fig3
Mynd 3.
Áritunarmiði lyfjabúðar sem
fer á innstu umbúðir lyfs sem sjúklingi
er ætlað. Hér má sjá allar þær upplýsingar
sem færast sjálfkrafa af lyfseðlinum á
mynd 1 og 2 á áritunarmiða lyfjabúðar.


Það að jafn mikilvægar upplýsingar og tilgangur lyfjameðferðar skili sér ekki til sjúklinga er áhyggjuefni, ekki síst þar sem fjöldi rafrænna lyfseðla eykst. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands er hlutfall rafrænna lyfseðla nú komið yfir 50%.5 Og ef svo fer sem horfir má búast við að rafrænir lyfseðlar taki svo til alveg við af pappírslyfseðlum.

En hvað vilja sjúklingar?

Í hérlendri rannsókn sem gerð var 2012 voru 300 manns meðal annars spurðir hvort þeir vildu hafa tilgang lyfjameðferðar skráðan á áritunarmiða lyfseðilsskyldra lyfja.6 Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að langflestir, eða 78% þátttakenda, vildu að tilgangurinn væri skráður á miðann, 7% var sama og 15% vildu það ekki. Þegar þátttakendur sem tóku afstöðu með skráningu tilgangs á áritunarmiða voru spurðir hvers vegna þeir vildu það voru algengustu ástæðurnar sem gefnar voru: til að fá meiri upplýsingar og til að ruglast ekki á lyfjum. Algengustu ástæður þeirra sem tóku afstöðu á móti skráningu á tilgangi lyfjameðferðar á áritunarmiða voru: fylgist vel með og veit sjálf/-ur við hverju lyfin eru og fæ betri útskýringar annars staðar (hjá heilbrigðisstarfsmanni/í fylgiseðli/ á netinu). Athyglisvert var að í þessari rannsókn var einungis einn þátttakandi sem vildi ekki að þessar upplýsingar kæmu fram þar sem þær væru einkamál.6 Það að ábending lyfjameðferðar sé einkamál er vissulega rétt en lausnin gæti hugsanlega verið sú að skrá ekki nákvæma ábendingu á skömmtunarmiðann. Til dæmis mætti skrá „við sýkingu” í „við þvagfærasýkingu”.

Það er til lítils að hafa sérstakan reit fyrir ábendingu lyfsins á rafræna lyfseðlinum þegar það sem er ritað þar skilar sér ekki til sjúklinga. Þetta er brýnt að laga en þangað til bendum við læknum á að skrá ábendingu lyfjameðferðar í reitinn „notkunarleiðbeiningar” til að tryggja að þær upplýsingar skili sér til sjúklinga.

Heimildir

  1. Reglugerð 111/2001 um gerð lyfseðla og ávísun lyfja. Stjórnartíðindi. reglugerd.is/ – ágúst 2012.
  2. McPherson ML, Smith SW, Powers A, Zuckerman IH. Association between diabetes patients' knowledge about medications and their blood glucose control. Res Social Adm Pharm 2008; 4: 37-45.
  3. Al-Qazaz HKh, Sulaiman SA, Hassali MA, Shafie AA, Sundram S, Al-Nuri R, et al. Diabetes knowledge, medication adherence and glycemic control among patients with type 2 diabetes. Int J Clin Pharm. 2011; 33: 1028-35.
  4. Velferðarráðuneytið. Lyfjamál - kynning lyfseðils. velferdarraduneyti.is/ – mars 2012.
  5. Elíasdóttir GB, lyfjadeild Sjúkratrygginga Íslands, tölvupóstur, ágúst 2012.
  6. Henrysdóttir EH. Við hverju er lyfið? Þekking fólks á tilgangi lyfjameðferðar sinnar. Ritgerð til meistaragráðu, lyfjafræðideild Háskóli Íslands 2012, Reykjavík.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica