02. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Læknadagar 2012. Mikil og almenn ánægja

Metþátttaka var á Læknadögum 2012 sem haldnir voru í Hörpu vikuna 16.-20. janúar. Að sögn Örnu Guðmundsdóttur forstöðumanns Fræðslustofnunar lækna hefur það vafalaust ýtt undir áhugann að læknar fá nú alþjóðlega símenntunarpunkta (CME) fyrir þátttökuna. Yfir 1000 manns skráðu sig inn og eru það fleiri en félagar í Læknafélagi Íslands eru og þess má geta að á Læknadögum 2011 var einnig metþátttaka með ríflega 800 manns.

u04-fig1
Læknaneminn Helgi Þór Leifsson og Þóra Elísabet Kristjánsdóttir læknakandídat tóku þátt í
vinnubúðum um fyrstu viðbrögð læknis á slysstað sem fram fór í bílakjallara Hörpu.

Nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa sannaði gildi sitt því það var einróma álit að aldrei hefði farið jafn vel um dagskrána og var því ánægjan fölskvalaus. Dagskráin var glæsileg og höfðu margir á orði að verst væri hvað margt spennandi gerðist samtímis svo enginn vegur væri að komast yfir alla dagskrána; fólk varð einfaldlega að velja og hafna.

Þessi samantekt er sannarlega byggð á því að ekki varð komist yfir nema brot af dagskránni og biðst blaðamaður velvirðingar á því hversu stórt er stiklað en vonandi gefa texti og myndir nokkra hugmynd um fjölbreytni dagskrárinnar.


u04-fig2
Gerður Gröndal, Auður Smith, Guðlaug Sverrisdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir voru á setningu
Læknadaganna.

Offita og dægurlög

Bryddað var upp á þeirri nýjung fyrsta daginn að helga hann allan einu þema, offitu, og var greinilega mikill áhugi fyrir þessu efni og margir heilbrigðisstarfsmenn auk lækna sem tóku þátt. Málþing um hreyfiseðla sem meðferðarform var vel sótt og við hæfi að strax að því loknu tók við Læknahlaupið sem orðið er að föstum lið á dagskrá Læknadaganna. Þátttakan var með minnsta móti í ár og sagði Arna Guðmundsdóttir að fyrir næsta ár yrði að gera ráðstafanir til að breyta því.

Í stað þess að ljúka dagskrá mánudagsins með setningu Læknadaganna eins og áður hefur tíðkast, fór setningin fram um kvöldið og fluttu þau Arna Guðmundsdóttir og Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands stutt ávörp og buðu gesti velkomna. Þá tók Óttar Guðmundsson geðlæknir við keflinu ásamt Jóhönnu Þórhallsdóttur söngkonu og hljómsveit og bauð upp á geðlæknisfræðilega yfirferð um íslenska dægurlagasögu ofanverðrar 20. aldar. Þar stóð fátt fyrir og sýndi Óttar svo ekki varð um villst að geðræn einkenni og fóbíur af flestu tagi birtast skilmerkilega í dægurlagatextum sem hingað til hafa þótt næsta meinlausir og lausir við dýpri merkingu. Allt var þetta þó til gamans gert og vakti verðskuldaða kátínu.


u04-fig3

Páll Torfi Önundarson blóðmeinafræðingur, Andrea Andrésdóttir og Michael Clausen barnalæknar.

Rafræna sjúkraskrá umfram allt

Næsti viðkomustaður var hádegisfundur á miðvikudeginum sem settur var á dagskrána með stuttum fyrirvara og var yfirskrift hans Ambulant aðgerðir – ábyrgðarhlutur. Þarna var efnið gripið beint út úr heitasta umfjöllunarefni fjölmiðla undangengna daga, gallaðir brjóstapúðar. Jón Snædal formaður siðfræðiráðs Læknafélags Íslands fór yfir helstu siðareglur lækna, bæði þær er Læknafélag Íslands hefur sett sér og einnig þær er alþjóðafélag lækna, WMA, hefur sæst á. Hann benti meðal annars á að aðrir hagsmunir en læknisfræðilegir megi aldrei grafa undan ákvörðunum læknis um meðferð sjúklings. Geir Gunnlaugsson landlæknir lagði ríka áherslu á ótvíræða skyldu allra sjálfstætt starfandi lækna til að skila skýrslum til landlæknisembættisins og vísaði til laga frá árinu 2007 þess efnis. Um þetta spunnust nokkrar umræður um trúnað lækna við skjólstæðinga sína.

Öldungadeild Læknafélagsins átti sterka innkomu síðari hluta dagsins með fjölbreyttu málþingi undir yfirskriftinni Fórur öldungadeildar, list og fræði. Þar var blandað saman á skemmtilegan hátt upplestri á kveðskap lækna, myndlist þeirra af ýmsu tagi og fræðilegum fyrirlestri um helstu nýjungar í öldrunarlækningum. Óttar Guðmundsson sýndi svo á skemmtilegan hátt hvernig einstaklingurinn og sérgreinin veljast saman  í læknisfræðinni.

u04-fig8

Valgarður Egilsson las úr ljóðum sínum á málþingi öldungadeildar lækna.

Á málþingi fimmtudagsins um þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu lagði Elínborg Bárðardóttir heimilislæknir ofuráherslu á mikilvægi upplýsinga og góðs flæðis þeirra á milli hinna ólíku hluta heilbrigðiskerfisins. „Rafræn sjúkraskrá, rafræn sjúkraskrá, rafræn sjúkraskrá, rafræn sjúkraskrá!“ mátti lesa á einni glæru hennar. Hún sagði tilgang þjónustustýringar með tilvísanakerfi vera að koma í veg fyrir vanlækningar, sem og oflækningar, jafnframt því að draga úr kostnaði. Elínborg rakti fyrri tilraunir yfirvalda til að koma á tilvísanakerfi með litlum árangri og kvaðst ekki telja að tilvísanakerfi væri raunhæf bót á vandanum í dag. „Við viljum rétta þjónustu, á réttum stað, á réttum tíma og á réttu verði.“

Siðblindir í samfélaginu

Það var ljóst á föstudagsmorgninum að mikill áhugi var fyrir fyrirlestri um siðblindu sem kanadíski sálfræðingurinn og rannsóknarlögreglumaðurinn Matthew Logan hélt. Meðal þess sem kom fram í máli hans var að siðblindir einstaklingar eru ábyrgir fyrir allt að helmingi ofbeldisglæpa sem framdir eru, en eru þó aðeins 5% af heildarfjölda þeirra sem fremja glæpi. Barnaníðingar og nauðgarar væru yfirleitt siðblindir. Hann kvaðst enga trú hafa á meðferð fullorðinna siðblindingja, eina ráðið væri að loka þá inni. Ef til væri meðferð við siðblindu væri hún ekki komin fram ennþá. „Einn af hverjum 100 í samfélaginu er siðblindur og þeir smjúga um samfélagið eins og fiskar í vatni. Sumir þeirra stjórna stórum fyrirtækjum og hafa komið sér vel fyrir.“

Í beinu framhaldi af umfjöllun um siðblindu var hádegisfundur um kynferðisofbeldi á Íslandi. Jón Friðrik Sigurðsson prófessor í sálfræði sagði frá rannsóknum sínum á þolendum og gerendum í kynferðisbrotamálum hér á landi. „Í 99% þeirra tilvika er koma til kasta lögreglu eru gerendur karlar. Í spurningakönnunum koma konur til sögunnar sem gerendur og það segir okkur að þær séu mun síður kærðar fyrir kynferðisbrot. Í flestum rannsóknum eru á milli 20-30% þeirra er komast undir mannahendur fyrir kynferðisbrot unglingar undir 18 ára aldri. Allt að helmingur þeirra sem kemst undir mannahendur byrjaði að stunda iðju sína sem börn eða unglingar.“

Jón Friðrik sagði að rannsókn á íslenskum föngum frá árinu 2000 sýndi að barnaníðingar væru yfirleitt eldri en þeir sem brytu gegn fullorðnum, þeir þekktu fórnarlambið mun betur, þeir væru viljugri til að játa brot sín fyrir dómi og segðust mun síður hafa verið undir áhrifum áfengis. „Það segir okkur að glæpurinn gerist oft að mjög yfirlögðu ráði.“

Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur fjallaði um áfallastreituröskun þolenda og sagði lykilatriði í meðferð þolenda vera að komast að rót vandans og vinna með hann. „Ef aðeins er unnið með einkennin af áfallinu er sífellt verið að slökkva elda en ekki komast að orsökinni.“

u04-fig4

Óttar Guðmundsson fór yfir íslenska dægurlagatexta með augum
geðlæknisins.

u04-fig7

Jóhanna Þórhallsdóttir söngkona tók brot úr fjölmörgum dægurlögum
síðustu aldar.

Mönnunarvandinn

Eftir hádegið var tekinn púlsinn á umræðum um nýliðun og viðhald mannafla lækna þar sem Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands flutti framsögu og á eftir honum ræddi Gunnlaugur Sigurjónsson um mönnunarvanda heilsugæslunnar. Sjónarmið Þorbjörns koma fram í viðtali við hann annars staðar í blaðinu og í síðasta tölublaði var ítarlega vitnað í erindi Gunnlaugs um sama efni er hann flutti á félagsfundi Læknafélags Reykjavíkur í desember. Margrét Ólafía Tómasdóttir og Ásta Dögg Jónasdóttir settu skilmerkilega fram sjónarmið sín í tveimur erindum um viðhorf sérnámslækna í heimilislækningum og lyflækningum. Kom skýrt fram í máli Margrétar hversu vel og faglega er staðið að framhaldsnámi í heimilislækningum og skóinn kreppir hvað helst í launamálum og aðstöðu sérnámslækna til að ánægjan sé fullkomin.

u04-fig5

Margrét Ólafía Tómasdóttir á málþingi um mönnun og nýliðun.

Runólfur Pálsson nýrnalæknir hafði síðan skelegga framsögu um framhaldsmenntun í læknisfræði á Landspítalanum sem leið til að efla nýliðun lækna og sagði meðal annars að mannekla og aukið álag á sérfræðinga spítalans hefði komið niður á handleiðslu þeirra með sérnámslæknum sem væri svo nauðsynleg ef námið ætti að nýtast sem skyldi. „Í þessu samhengi verður einnig að ræða sérstöðu okkar hér á Íslandi þar sem smæðin gerir það verkum að alltaf mun vanta stóran hóp sérnámslækna við störf á Landspítala þar sem þeir þurfa að sækja menntun sína erlendis. Við þurfum einnig að ræða um starfsþróun sérfræðinganna okkar. Það er ekki eðlilegt að sérfræðingur með 30 ára starfsreynslu sé enn að sinna sömu verkefnum og hann gerði þegar hann hóf störf á spítalanum.“

Spekingaglíman var svo á sínum stað í lok föstudags en á laugardagskvöldið var slegið upp veislu með vel heppnaðri árshátíð Læknafélags Reykjavíkur á Hótel Íslandi.

 

u04-fig6
Björn Árdal og Magnús Ólason glaðbeittir á svip.

 

u04-fig9

Setning Læknadaga í Silfurbergi kl. 20 á mánudagskvöldi var vel sótt þó tímasetning og fyrirkomulag
væri annað en áður.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica