01. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Læknadagar 2012 veita alþjóðlega símenntunarpunkta - umfangsmesta dagskrá til þessa - Viðtal við Örnu Guðmundsdóttur

Nú á dögunum var sótt um viðurkenningu fyrir Læknadaga 2012 hjá European Accreditation Council for Continuing Medical Education (EACCME) á vegum UEMS í Brussel (www.eaccme.eu)  Sú umsókn hefur nú fengist samþykkt og því munu Læknadagar veita CME-punkta til jafns við alþjóðleg læknaþing sem teljast hluti af símenntun lækna. Alls getur þingið veitt 30 punkta, eða 3 punkta fyrir hvert málþing sem sótt er. Arna Guðmundsdóttir formaður Fræðslustofnunar Læknafélags Íslands sem skipuleggur Læknadaga segir þetta mikilvægan áfanga fyrir íslenska lækna sem starfi margir hverjir í alþjóðlegu umhverfi þar sem gerðar eru kröfur um símenntun. „Í Bandaríkjunum þurfa læknar að endurnýja lækningaleyfi reglulega og sýna fram á símenntun, annars missa þeir leyfið. Víða í Evrópu gilda svipaðar reglur.“

u03-fig1

Þær skipuleggja Læknadagana. Arna Guðmundsdóttir forstöðumaður Fræðslustofnunar lækna
og Margrét Aðalsteinsdóttir skrifstofustjóri Læknafélags Íslands.

Viðhalda réttindum erlendis

„Íslenskir læknar hafa ekki þurft á þessu að halda ef þeir hafa starfað eingöngu hérlendis. Íslenska lækningaleyfið þarf ekki að endurnýja og engar formlegar kröfur eru gerðar um símenntun íslenskra lækna. Þeir hafa hins vegar verið duglegir margir hverjir að sækja sér þekkingu og þjálfun og þá af persónulegum og faglegum áhuga. Nú er starfsumhverfi þeirra orðið alþjóðlegra og þá skiptir máli að þing og námskeið sem læknar sækja veiti CME (Continuous medical education) punkta. Ég fékk margar fyrirspurnir í haust frá íslenskum læknum um hvort Læknadagarnir 2012 myndu veita CME-punkta og óskir um staðfestingu á þátttöku í Læknadögum síðustu ára. Það segir okkur að íslenskir læknar þurfa að geta sýnt fram á símenntun ef þeir ætla að starfa erlendis og sífellt fleiri gera sér grein fyrir mikilvæginu. Margir eru með þessu að viðhalda réttindum sem þeir fengu í sérnámi sínu í öðrum löndum, enda eru íslenskir læknar orðnir mun hreyfanlegri í störfum sínum nú en áður.“

Arna segir heilbrigðisyfirvöld víða í Evrópu og Bandaríkjunum líta á kröfur um símenntun sem aðferð til að tryggja að þeir læknar sem fái lækningaleyfi í sama landi séu með sambærilega þekkingu. „Sjálf grunnmenntunin getur verið misgóð eftir löndum en með kröfum um símenntun eftir alþjóðlegum staðli er hægt að jafna þann mun að einhverju leyti.“

Að sögn Örnu leggur CME viðurkenningin nokkrar skyldur á herðar þátttakendum. „Þeir þurfa að fylla út eyðublað eftir hvert málþing og gefa fyrirlesurum umsögn og fá síðan CME-viðurkenningu í þinglok. Þá þurfa þeir sem halda fyrirlestra að skrifa undir yfirlýsingu um að þeir séu ekki styrktir  af lyfjafyrirtækjum og þeir þurfa að taka fram ef þeir eru hluthafar í slíkum fyrirtækjum. Skipuleggjendur málþinga á læknadögunum þurftu einnig að skila inn dagskrá á bæði íslensku og ensku vegna CME-skráningarinnar.  Við sjáum auk þess fram á að geta í framtíðinni auglýst þingið erlendis og selt inná þann hluta þess sem við veljum að hafa alfarið á ensku.“

Fjölbreytt og yfirgripsmikil dagskrá

Það er nánast orðin árleg klisja að segja að dagskrá Læknadaga hafi aldrei verið jafn fjölbreytt og yfirgripsmikil og í ár. „Það er satt en Læknadagar hafa hreinlega verið að vaxa og stækka ár frá ári og dagskráin fyrir 2012 hefur aldrei verið jafn fjölbreytt og yfirgripsmikil!“ segir Arna. „Áhugi lyfjafyrirtækja og annarra fyrirtækja í heilbrigðis- og lyfjageiranum hefur sjaldan verið jafn mikill og nú fyrir því að fá aðstöðu til kynningar á vörum sínum og starfsemi og það stafar af því að rýmið til þess er svo miklu betra í Hörpu. Þá verða hádegisfundirnir stærri í sniðum þar sem salirnir taka mun fleiri þátttakendur og áhugi fyrir að halda slíka fundi er meiri nú en áður.“ Undanfarin ár hefur ekki verið mikill áhugi hjá lyfjafyrirtækjum að styrkja einstaka hádegisfundi, en nú þegar möguleikinn opnast fyrir fleiri áheyrendur eykst áhuginn á að fá til landsins erlenda fyrirlesara til að halda hádegiserindi eingöngu. Hún nefnir sem dæmi að á mánudeginum muni þekktur danskur sérfræðingur fjalla um nýjungar í sykursýkislækningum. Eflaust mun málþing um transfólk og kynskiptaaðgerðir einnig vekja nokkra athygli. „Í hádeginu á föstudeginum verður fjallað um gerendur og þolendur kynferðisofbeldis. Í þessu samhengi má nefna að við ákváðum að halda efni eins hádegisfundarins opnu eins lengi og mögulegt var með það í huga að þar yrði fjallað um heilbrigðismál sem væri efst á baugi í þjóðfélagsumræðunni þegar Læknadagar færu fram. Málþingið um kynferðisofbeldi varð fyrir valinu að þessu sinni, enda mál sem hefur verið mikið í umræðunni undanfarna mánuði. Að öðru leyti er dagskrá Læknadaga ákveðin með 8 mánaða fyrirvara, það er í maí ár hvert.“

Af nýjungum á Læknadögum 2012 nefnir Arna að mánudagurinn 16. janúar verður þemadagur, helgaður umfjöllun um offitu. Þar verður meðal annars fjallað um hreyfingu sem meðferðarform og er mjög spennandi.

 „Setning Læknadaganna færist til kl. 20 um kvöldið og verður með öðru sniði, þar sem í stað ræðumanns verður Óttar Guðmundsson með atriði þar sem hann mun fjalla um geðsjúkdóma og persónuleikaraskanir í dægurlögum með viðeigandi tóndæmum.“

Dagskráin er síðan þétt skipuð alla daga vikunnar og rétt að benda á að hana má kynna sér ítarlega á vef Læknafélagsins, www.lis.is, en Arna nefnir málþing um lyfjagagnagrunn, D-vítamínskort, einhverfurófið og siðblindu. „Þetta málþing var á dagskrá síðustu Læknadaga en féll niður vegna veikinda aðalfyrirlesarans, prófessors Roberts Hare. Hann kemur núna og þá verður málþingið haldið. Í fyrra var mjög vel sótt málþing um ADHD og rítalínnotkun fullorðinna. Núna verður málþing um ADHD hjá börnum og ungmennum sem eflaust vekur áhuga margra. Heilbrigðiskerfið verður til umfjöllunar á málþingi um heilsugæsluna og þýðingu hennar. Þá verður einnig málþing undir yfirskriftinni Nýliðun og mönnun lækna og er mjög þörf umræða við þær aðstæður sem nú eru.“

Skírskotun þvert á sérgreinar

Arna bendir á að í heildina sé efni málþinganna þess eðlis að líklegt sé að þau hafi breiða skírskotun þvert á sérgreinar. „Þó eru líka á dagskránni sérhæfð málþing um tiltekna þætti afmarkaðrar sérgreinar þannig að hvorttveggja er í boði.“

Læknadagar 2012 eru styrktir af Vistor lyfjafyrirtækinu og segir Arna að fyrra fyrirkomulag með gull, silfur og brons styrktaraðild hafi dottið uppfyrir í kjölfar hrunsins. „Nú tókum við einfaldlega hæsta tilboði og sömdum við einn aðalstyrktaraðila.“

Arna segist vilja hvetja aðra heilbrigðisstarfsmenn til að kaupa sér dagpassa ef þeir telji eitthvað eiga erindi við þá og nefnir sérstaklega þema mánudagsins um offitu. „Þar eru margar stéttir sem koma að meðferðinni og gætu haft gagn af.“ 

Það er vel við hæfi að í lok mánudagsins verður efnt til 5 km hlaups/göngu meðfram Sæbrautinni en það er í þriðja sinn sem Læknahlaup er haldið á Læknadögum. Rétt er að hvetja fólk til að taka með sér viðeigandi fatnað og skóbúnað ef það hyggst taka þátt í hlaupinu. Í hádeginu verður boðið uppá djúpslökun (Yoga Nidra) og þá er gott að hafa með sér dýnu og teppi. Þennan búnað má geyma í bílnum sínum í bílastæðakjallara Hörpu. Um kvöldið verður svo setning Læknadaganna sem fyrr segir. „Þetta verður gert með lifandi flutningi tónlistarmanna og á eftir boðið upp á drykk. Á föstudeginum verður svo hin hefðbundna spekingaglíma á sínum stað, enda nýtur hún alltaf mikilla vinsælda.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica