11. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Flestir geta játað falskt. Viðtal við Gísla Guðjónsson, réttarsálfræðing

Gísli H. Guðjónsson prófessor við sálfræðideild King´s College í London er einn helsti sérfræðingur heimsins á sviði réttarsálfræði. Hann hefur verið í fararbroddi við rannsóknir á áreiðanleika játninga sakborninga í þekktum alvarlegum glæpamálum þar sem ákært hefur verið fyrir nauðganir, morð og hryðjuverk. Rannsóknir hans og vitnisburður hafa orðið til þess að dómum hefur verið hnekkt, lífstíðarfangar sýknaðir og aftökum aflýst. Rannsóknir Gísla á þessu sviði hafa gerbreytt yfirheyrsluaðferðum lögregluyfirvalda í Bretlandi og víðar og haft afgerandi áhrif á afstöðu dómara og dómskerfis til áreiðanleika játninga með tilliti til þeirra aðferða sem beitt er við að ná þeim fram.

u06-fig1
„Einstaklingar með góða greind og heilbrigðir á geði geta játað falskt
ef þeir eru viðkvæmir og þola illa gæsluvarðhald eða stöðugar
yfirheyrslur,“ segir Gísli H. Guðjónsson réttarsálfræðingur.

Gísli hlaut nýverið CBE-orðu Bretadrottningar (Commander of the British Empire) en hann er fyrsti klíníski sálfræðingurinn sem hlotnast sá heiður. Hann hefur jafnframt hlotið Professional Practice Board Lifetime Achievement Award (2010), viðurkenningu frá breska sálfræðingafélaginu, og er heiðursdoktor (2001) við læknadeild Háskóla Íslands fyrir rannsóknir sínar á sviði klínískrar sálfræði og geðlækninga.

Lykill að óáreiðanlegri játningu

Læknablaðiðræddi við Gísla um áreiðanleika játninga sem fengnar eru fram með yfirheyrslum á sakborningum sem hafðir eru í gæsluvarðhaldi og einangrun og hversu mikil áhrif yfirheyrsluaðferðir geta haft til að knýja fram falskar játningar. Gísli hefur einnig rannsakað áreiðanleika og gildi framburðar vitna og fórnarlamba með tilliti til aðferða og aðstæðna við yfirheyrslur og skýrslutökur. Auk samtals við Gísla er stuðst við tvær greinar sem hann hefur birt nýlega.

Ástæða þess að Gísli er í sviðsljósinu á Íslandi þessar vikurnar er að sjálfsögðu sú að innanríkisráðherra hefur skipað rannsóknarnefnd í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Gísli segir algjörlega ótímabært fyrir sig að koma með einhverjar yfirlýsingar um það mál á þessu stigi; þar þurfi að rannsaka alla málavexti vandlega áður en kveðið er upp úr með hvort sakborningar hafi játað á sig falskar sakir eða ekki. Það mál verður því ekki til umræðu í samtali okkar en reynsla Gísla af upptöku gamalla sakamála er athyglisverð og eflaust má draga ályktanir af því.

„Það kemur fyrir að mál eru tekin upp þó orðin séu 40-50 ára gömul, svo Guðmundar- og Geirfinnsmálið er ekkert einsdæmi hvað það varðar. Ég hef unnið að málum sem orðin eru á milli 30-50 ára gömul og í sumum tilfellum eru sakborningar látnir. Þegar svona gömul mál eru tekin upp í Bretlandi er það falið nefnd sem nefnist Criminal Cases Review Commission og ég hef unnið með henni að rannsókn margra mála. Það fyrsta sem maður skoðar eru kringumstæður málsins. Hvað varð til þess að sakborningar voru upphaflega handteknir? Voru þeir settir í gæsluvarðhald og/eða einangrun? Hversu lengi var þeim haldið þannig? Í Bretlandi er ekki hægt að halda neinum í gæsluvarðhaldi nema í sjö daga (grunuðum hryðjuverkamönnum má þó halda í allt að 30 daga). Að halda sakborningi í gæsluvarðhaldi og einangrun í eitt til tvö ár er mjög óvenjulegt miðað við önnur lönd og eykur verulega áhættuna á fölskum játningum.“

Í annarri greininni af tveimur eftir Gísla sem stuðst er við í þessu viðtali segir orðrétt:

„Það er skoðun undirritaðs, sem tók umtalsverðan þátt í rannsókn 28 af málunum í Bretlandi (sem hæstiréttur tók upp aftur og hnekkti) og hefur rannsakað öll málin ítarlega, þar á meðal þau þar sem framganga lögreglu var óviðeigandi, að lykillinn að óáreiðanlegri játningu hafi verið getuleysi sakbornings til að standast álag vegna gæsluvarðhalds og framgangs lögreglunnar.“1

Gísli rifjar upp mál sem hann rannsakaði í Noregi þar sem ungur maður hafði játað á sig morð en aðstæður gáfu tilefni til að ætla að hann hefði játað falskt. „Honum hafði verið haldið í gæsluvarðhaldi í mánuð og verið yfirheyrður mjög oft og lengi. Norskir dómstólar voru tregir til að taka niðurstöðu mína trúanlega um að pilturinn hefði játað falskt, en kviðdómur hnekkti dómnum eftir að ég gaf vitnisburð og hann var látinn laus.  Málið var rannsakað að nýju og leiddi DNA-rannsókn að lokum í ljós að hann er saklaus. Þetta eina mál gerbreytti afstöðu norska réttarkerfisins til falskra játninga og norska lögreglan tók upp nýja yfirheyrslutækni (PEACE-líkanið).“

Tvær þekktar yfirheyrsluaðferðir

Þegar skoðað er hvernig yfirheyrslur hafa farið fram er litið til þess hversu langar þær voru, hvort sakborningur fékk að sofa á milli, hvernig spurningum var hagað og hvort yfirheyrslan var tekin upp á segulband eða myndband. Í gömlum málum er upptökum ekki til að dreifa og einu heimildirnar um yfirheyrslur eru skýrslur lögreglunnar. „Það var gríðarleg framför þegar lögreglu var gert skylt að taka upp á segulband allar yfirheyrslur og viðtöl hér í Bretlandi uppúr 1986. Þetta gerbreytti öllu varðandi yfirheyrslur, tók af allan vafa um hvað var sagt í yfirheyrslum, hvernig spurningar voru orðaðar og það sem skiptir ekki minna máli, hvernig lögregla og sakborningar höguðu sér.“

Gísli segir að stórt framfaraskref hafi verið stigið árið 1992 í Bretlandi þegar hið svokallaða PEACE-líkan var innleitt við yfirheyrslur og lögreglumenn fengu formlega þjálfun í yfirheyrslutækni. „PEACE-líkanið byggist á því að spurningar séu ekki leiðandi, það má ekki hóta, þvinga, lofa eða ljúga að sakborningi til að fá fram játningu og tilgangurinn er fyrst og fremst sá að draga úr líkum á falskri játningu.“

Í grein um yfirheyrslur sakborninga og falskar játningar2 eru bornar saman tvær yfirheyrsluaðferðir, annars vegar  sú sem Bandaríkjamenn nota (Reid-aðferðin) og hins vegar PEACE-módelið sem Bretar og fleiri þjóðir hafa tekið upp. „Reid-aðferðin er vinsælasta og mest notaða yfirheyrsluaðferð bandarísku lögreglunnar. Markmið hennar er í rauninni ekki að komast að sannleikanum eða uppgötva staðreyndir, heldur að knýja fram játningu. Henni má skipta í þrjú meginþrep: 1. Gæsluvarðhald og einangrun þar sem markmiðið er að auka kvíða og óöryggi sakbornings og veikja viðnámsþrótt hans. 2. Gengið er út frá sekt sakbornings og honum sýndar meintar sannanir um glæpinn sem geta verið falsaðar eða sannar, neitun á sekt er hafnað jafnvel þó sönn sé og hamrað á afleiðingum þess að neita sök. 3. Reynt er að vinna traust og trúnað sakbornings og bjóða upp á afsakanir fyrir glæpnum, að um slys hafi verið að ræða eða fórnarlambið hafi einfaldlega átt þetta skilið.“

Höfundar Reid-aðferðarinnar segja að játningahlutfallið sem fæst með henni sé mjög hátt (80%), en á undanförnum árum hafa komið fram mörg dæmi um falskar játningar þar sem þessari aðferð hefur verið beitt, og þar sem DNA-rannsóknir hafa sýnt með afgerandi hætti fram á sakleysi sakborninga þrátt fyrir játningu þeirra. Frá 1989 hefur verið sýnt fram á sakleysi yfir 240 dæmdra einstaklinga í Bandaríkjunum með DNA-rannsókn. Gísli segir að líklega sé þessi málafjöldi þó aðeins toppurinn á ísjakanum en þrátt fyrir það hafi bandarísk lögregluyfirvöld ekki viljað láta af notkun Reid-aðferðarinnar. Annar galli við rannsóknaraðferðir bandarískrar lögreglu er að rannsókn lýkur ávallt þegar játning liggur fyrir og oft er ekki gengið úr skugga um áreiðanleika játningarinnar. „Það er margt sem bendir til þess að Reid-aðferðin ýti undir falskar játningar,“ segir Gísli en bætir við að nú hilli loks undir breytingar í bandaríska réttarkerfinu en það hafi tekið langan tíma og gengið mjög hægt.

PEACE-módelið leggur áherslu á sanngirni, hreinskilni, gagnsemi, áreiðanleika og staðreyndaöflun, fremur en að sækjast eingöngu eftir játningu. Forðast er að nota leiðandi spurningar, beita sakborning þrýstingi eða hafa á hann sálfræðileg áhrif. Gagnstætt því sem tíðkast í Bandaríkjunum, leyfist breskum lögreglumönnum ekki að ljúga að sakborningum eða leggja fyrir þá fölsuð sönnunargögn í þeim tilgangi að ná fram játningu. „Rannsóknir skortir ennþá svo hægt sé að gera samanburð á því að hvaða marki Reid-aðferðin eða PEACE-líkanið draga fram falskar játningar. Á hinn bóginn er almennt álitið að PEACE-líkanið dragi síður fram falskar játningar,“ segir Gísli.

u06-fig2
Gísli H. Guðjónsson réttarsálfræðingur hlaut CBE-orðu bresku krúnunnar
þann 4. október síðastliðinn og er hann fyrsti starfandi sálfræðingurinn í
Bretlandi til að hljóta þann heiður.

Tveir flokkar játninga

Innan réttarsálfræðinnar er fölskum játningum skipt í í tvo meginflokka, sjálfviljugar eða fengnar fram af lögreglu. Sjálfviljugar játningar stafa yfirleitt af athyglisþörf sakbornings, löngun til að verða þekktur, löngun til að vernda hinn raunverulega glæpamann, eða undirliggjandi geðveilu sem birtist í þörf fyrir refsingu, hefnd eða getuleysi til að greina á milli veruleika og ímyndunar. Játningar sem lögreglan hefur knúið fram skiptast í tvo flokka. Annars vegar uppgjöf sakbornings og hins vegar sannfæringu um sekt. Í fyrra tilfellinu gefst sakborningur upp og játar á sig glæpinn til að losna úr kringumstæðum, til dæmis gæsluvarðhaldi, einangrun og/eða linnulausum yfirheyrslum. Sannfæring sakbornings um sekt lýsir sér í því að hann sannfærist smám saman um sekt sína við yfirheyrslur og af framlögðum sönnunargögnum (fölskum eða sönnum), jafnvel þó hann geti með engu móti munað eftir því að hafa framið glæpinn.

Gísli segir að lengst af hafi menn talið að enginn myndi játa á sig glæp sem hann hefði ekki framið nema hann væri mjög illa gefinn og/eða geðveikur. „Rannsóknir okkar á fölskum játningum hafa sýnt fram á að þetta stenst alls ekki; einstaklingar með góða greind og heilbrigðir á geði hafa játað falskt ef þeir eru viðkvæmir og þola illa gæsluvarðhald eða stöðugar yfirheyrslur. Rannsóknir okkar á Íslandi og í Evrópu hafa einnig sýnt að unglingar og ungt fólk (14-18 ára) er líklegra til að játa falskt vegna þess hversu illa þau þoldu yfirheyrslurnar eða eru að hylma yfir með öðrum. Algengt er að þeir taki á sig sök fyrir aðra en einnig játuðu þau falskt til að sleppa sem fyrst úr haldi lögreglunnar. Það þarf því að huga sérstaklega vel að áreiðanleika játninga þegar ungt fólk á í hlut,“ segir Gísli.

Mál fjórmenninganna frá Guildford og sexmenninganna frá Birmingham eru meðal frægustu sakamála síðustu aldar í Bretlandi. Allir játuðu sakborningar á sig sök og fengu þunga dóma, en rannsókn Gísla leiddi í ljós að játningar þeirra voru óáreiðanlegar og við endurupptöku málanna var dómunum hnekkt og allir sakborningar sýknaðir. „Það sem er mikilvægt að hafa í huga við mál þar sem sakborningar eru fleiri en einn, er að engin játning er óháð annarri. Svona mál geta verið mjög flókin en það getur líka verið einfalt að átta sig á því hvernig falskar játningar hafa verið fengnar fram.“

Við rannsókn sakamála skiptir framburður vitna oft höfuðmáli og Gísli segir mikilvægt að ganga úr skugga um trúverðugleika vitnisburðar þar sem grunur leikur á falskri játningu. „Við höfum mörg dæmi um að lögreglan hafi sannfært óöruggt vitni um að sakborningur hafi verið til staðar og „sök“ verið sönnuð með leiðandi spurningum. Það er hægt að rugla vitni í ríminu, sérstaklega ef minni þess er ekki því betra. Það þarf að standa vel að yfirheyrslum á vitnum og þolendum ekki síður en sakborningum.“  Hann segist hafa vissu fyrir því að á Íslandi hafi yfirheyrslutækni rannsóknarlögreglumanna farið mjög fram. „Hins vegar vitum við af rannsóknum okkar að því meira álag sem er á lögreglunni, því meira álag leggur lögreglan á hinn grunaða. Áherslan á að knýja fram játningu sakbornings verður óeðlilega mikil við slíkar kringumstæður og tilhneiging er til að loka málinu um leið og játningin liggur fyrir. Það þarf alltaf að rannsaka gildi játningar til hlítar,“ segir Gísli H. Guðjónsson réttarsálfræðingur.

Heimildir 

  1. Guðjónsson GH. Psychological vulnerabilities during  police interviews. Why are they important. Legal and Criminological Psychology 2010; 15: 161-75. 
  2. Guðjónsson GH, Pearse J. Suspect Interviews and False Confessions. aps, Association for Psychological Science 2011; 20: 33-7.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica