06. tbl. 97. árg. 2011

Ritstjórnargrein

Uppskerum eins og við sáum

Kristín Ingólfsdóttir höfundur er prófessor við lyfjafræðideild og rektor Háskóla Íslands

doi: 10.17992/lbl.2011.06.375

Árið 2006 kynnti Háskóli Íslands langtímamarkmið um afburðaárangur í menntun og vísindum. Leiðarljós var sú uppbygging sem átt hafði sér stað frá stofnun skólans og framtíðarsýn um mikilvægi öflugs háskóla til að stuðla að verðmætasköpun, hagsæld og heilbrigðu samfélagi. Fyrsta skref var að setja stefnu til fimm ára með ýtarlegri aðgerðaáætlun um hvað þyrfti að gera til að komast áleiðis. Nú á aldarafmælisári skólans, þegar ljóst er að langflestum áfangamarkmiðum sem sett voru fyrir fimm árum hefur verið náð, hefur Háskóli Íslands ítrekað langtímamarkmið sitt og sett stefnu til næstu fimm ára, til ársins 2016. 

Starfsfólk og stúdentar heilbrigðisvísindasviðs1 Háskóla Íslands hafa með metnaði sínum, staðfestu og óþrjótandi vinnuframlagi lagt verulega af mörkum til að skólinn næði markmiðum sínum, þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Þannig hefur fjöldi birtinga vísindagreina í kröfuhörðustu alþjóðlegu tímaritum og fjöldi tilvitnana tvöfaldast á fimm árum, hvoru tveggja staðfest af alþjóðlegum gagnagrunnum. Doktorsnemum í heilbrigðisvísindum hefur fjölgað verulega og fjármagn úr erlendum samkeppnissjóðum þrefaldast. Þessi víðtæki árangur hefur náðst með gjöfulu samstarfi við fjölmargar innlendar og erlendar vísindastofnanir og fyrirtæki. Árangurinn skilar íslensku atvinnulífi betur menntuðu fólki og eykur virðingu Háskóla Íslands á alþjóðavettvangi og gerir hann eftirsóttan til samstarfs. 

Háskóli Íslands og Landspítali hafa um árabil átt nána samvinnu sem miðar að því að efla kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindagreinum og bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur. Með því að sameina krafta hafa þessar stofnanir átt mikilvægan þátt í að skapa hér afbragðsgóða heilbrigðisþjónustu og skapað einn öflugasta þekkingarklasann í íslensku vísindasamfélagi. Nemendur í heilbrigðisvísindagreinum hafa fengið inngöngu til framhaldsnáms í bestu og kröfuhörðustu háskóla heims. Þeir hafa almennt staðið sig mjög vel, vakið athygli og oft fengið tilboð um starf að námi loknu. Sendinefndir frá virtum háskóla- og spítalastofnunum hafa heimsótt Landspítala og Háskóla Íslands og óskað eftir samstarfi, bæði í kennslu og rannsóknum. Þetta eru allt góðar vísbendingar um gæði náms í heilbrigðisvísindum.

Eitt stærsta samstarfsverkefni Landspítala og Háskóla Íslands um þessar mundir er bygging nýs háskólasjúkrahúss og húsnæðis fyrir heilbrigðisvísindadeildir skólans. Þetta mun gjörbreyta aðstæðum á spítalanum og háskóladeildunum til hins betra og leiða til nánari samþættingar í starfi spítala og skóla. Þetta gerir einnig fært að tengja betur saman starf heilbrigðisvísindadeilda skólans sem eru nú með starfsemi á mörgum stöðum. 

Ef litið er 100 ár aftur í tímann, sést hvað framtíðarsýn, stórhugur og einbeittur vilji geta kallað fram. Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911 við afar þröngar aðstæður í samfélaginu. Í fyrstu voru fjórar deildir starfræktar við skólann; guðfræðideild, læknadeild, lagadeild og heimspekideild. Fyrsta haustið innrituðust 45 stúdentar, þar af ein kona, Kristín Ólafsdóttir, sem átti eftir að útskrifast sem læknir, fyrst kvenna. Háskóli Íslands er afar þakklátur íslenskum læknum fyrir að hafa gefið skólanum málverk af Kristínu til minningar um frumkvöðul og afrekskonu. Margt hefur breyst frá því Kristín innritaðist í Háskóla Íslands. Stúdentar eru nú 14.000 og konur eru í meirihluta á öllum námsstigum, þar á meðal í doktorsnámi. Deildir skólans eru orðnar 25 talsins og skólinn hefur þróast í að vera alþjóðlegur rannsóknarháskóli.

Íslendingar hafa náð mikilvægum árangri í uppbyggingu heilbrigðiskerfis og vísindaþekkingar sem er bakhjarl þess. Um fátt ríkir meiri sátt í samfélaginu en mikilvægi heilbrigðiskerfisins og þess að það þjóni samfélaginu öllu. Því er brýnt að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur og halda sókninni áfram. Sum viðfangsefnin eru þekkt, svo sem krabbamein, lífsstílssjúkdómar, öldrunarþjónusta, lyfjaónæmi, geðsjúkdómar og fleira. En við verðum einnig að byggja upp heilbrigðismenntakerfi sem gerir fært að fást við ný og óþekkt viðfangsefni. Umfram allt verðum við að leggja sérstaka áherslu á að styðja við afreksfólk á sviði vísinda. Hver einasta íslensk fjölskylda nýtur þjónustu heilbrigðiskerfisins. Við viljum að þessi þjónusta sé framúrskarandi. Það verður hún ef stjórnvöld og þeir sem bera ábyrgð á menntun, vísindum og þjónustu heilbrigðiskerfisins sameinast um skýra framtíðarsýn og ásetning um uppbyggingu af metnaði.

Heimild

  1. Ingólfsdóttir K. Nýtt heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og háskólasjúkrahúsið Landspítali. Læknablaðið 2008; 94: 657.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica