03. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Heilsufar og lækningar á 19. öld

Nýlega kom út undirstöðuritið Íslenzkir þjóðhættir eftir sr. Jónas á Hrafnagili (1856-1918), ljósprentuð eftir fyrstu útgáfu hennar frá árinu 1934. Jónas var mikilvirkur rithöfundur, þýðandi og kennari, og brautryðjandi í þjóðháttasöfnun. Faðir hann fékkst við læknisstörf og margir afkomendur Jónasar eru læknar. Höfundurinn dregur upp einstaka aldarfarslýsingu á sambúð lands og þjóðar; um daglegt líf, sveitastörf, veðurfar, húsakost og fleira. Hér eru nokkur brot úr kaflanum um heilsufar og lækningar sem er mögnuð lesning og mikil forneskja.

u00-fig1

Ef einhver veiktist snögglega, var ekki annað hendi nær en annað af tvennu: taka sjúklingi blóð eða láta hann svitna duglega. Víðast var til blóðtökumaður í hverri sókn og stundum fleiri en einn, og voru þeir ævinlega til með bíldinn, hvenær sem kallað var, og það þó að blóðtakan ætti alls ekki við eða væri jafnvel banatilræði við sjúklinginn. - Alls mátti taka blóð á 53 stöðum, og átti sinn blóðtökustaðurinn við hvern kvilla. Flestir voru þó blóðtökustaðirnir á höfðinu, olnbogabótinni og innan á skóleistinum. - Ef blóðið gaus mjög ákaft úr beninni, trúði fólk því, að feykilegur vindur væri í blóðinu, og væri lífsnauðsynlegt heilsunnar vegna að hleypa honum út.

Við mæði er ágætt að eta tóulungu. - Gula var læknuð með mörgu móti. Algengasta ráðið hefir verið að éta marflær, soðnar í mjólk, en annars var tíðara að minnsta kosti sunnanlands allt fram undir þetta og er ef til vill enn, að éta þær lifandi, tvær eða þrjár í grautarspæni einu sinni á dag; áttu þær þá að skríða úr maganum út í lifrina og eta það spillta burt. - Við galdri skal maður ganga undir eins út að morgni og kasta af sér vatni og sjúga ögn af því upp í nasir sér; þá grandar manni enginn galdur þann daginn. - Ef allt þrýtur, dugir það í lengstu lög að færa mann konunnar eða barnsföðurinn úr skyrtunni og færa konuna í hana. Þá fæðist barnið fyrirstöðulaust.

Jónas þýddi gamanleikinn Ævintýri á gönguför eftir Hostrup sem sýndur var í Reykjavík 1882. Úr hans penna lifir enn söngtextinn úr leikritinu:  Og ég vil fá mér kærustu sem allra -, allra fyrst,/ en ekki verður gott að finna hana.Þetta vefsvæði byggir á Eplica