01. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Mannafli og framtíðarhorfur íslenskra röntgenlækna 2010

u09Í Læknablaðinu var nýlega birt áhugaverð grein um menntun og framtíðarhorfur meðal íslenskra skurðlækna1 og vaknaði fljótt sú spurning hvernig þessum málum væri háttað hjá röntgenlæknum. Fróðlegt er að bera saman sérgreinar læknisfræðinnar með tilliti til nýliðunar2 en einnig að velta fyrir sér áhrifum núverandi aðstæðna á Íslandi á nýliðun í ólíkum sérgreinum og almennt á fjölda lækna á Íslandi.



Maríanna Garðarsdóttir

Hópur röntgenlækna er fremur lítill og hafa formlegar upplýsingar um mannafla ekki verið tiltækar aðrar en félagaskrár Félags íslenskra röntgenlækna og munnlegar upplýsingar. Teknar voru saman tölur um alla röntgenlækna sem hafa fullgilt íslenskt lækningaleyfi og sérfræðiviðurkenningu (geislalækningar, geislagreining, mynd- og geislagreining, myndgreining, læknisfræðileg myndgreining) eða eru í sérnámi í greininni hérlendis eða erlendis. Upplýsingar voru fengnar úr félagaskrá Félags íslenskra röntgenlækna og úr læknaskrá landlæknis. Hópurinn var skoðaður með tilliti til aldurssamsetningar og atvinnuþátttöku og reynt að meta nýliðun í stéttinni hér á næstu árum.

Heildarfjöldi var 70 manns og má sjá aldursdreifingu á mynd 1. Níu læknar eru komnir á eftirlaunaaldur (70 ár). Einn þeirra er búsettur erlendis og hefur ekki starfað hér að sérnámi loknu. Tveir eru enn í hlutastarfi. Einn læknir starfar við klíníska lífeðlisfræði og er talinn til sérfræðinga hérlendis. Þrír erlendir læknar sem fengið hafa sérfræðiviðurkenningu hér á landi en aldrei unnið hér svo vitað sé, voru ekki taldir með. Starfandi erlendis töldust þeir sem starfa erlendis hálft árið eða meira, óháð búsetu, og eru ekki komnir á eftirlaunaaldur. Þetta voru alls 20 læknar. Þeir eru flestir í aldurshópnum 30-39 ára (níu) en nokkrir í hópnum 40-49 ára (fjórir) og 50-59 ára (fimm). Af 20 læknum sem starfa erlendis eru sex í sérnámi. Af hinum 14 er starfa erlendis eru flestir eða fimm á aldrinum 50-59 ára og tveir yfir 60 ára. Langflestir íslenskir röntgenlæknar eru á aldrinum 50-59 ára (22) og 60-69 ára (13). Af þessum eru sjö starfandi erlendis. Í aldurshópnum 30-39 ára eru flestir í sérnámi og einnig flestir búsettir erlendis. Þetta er í takt við aðrar greinar þar sem flestir eru í sérnámi á þessum aldri og þá í flestum greinum erlendis lengst af. Í yngsta hópnum, 20-29 ára, eru þrír læknar eða kandídatar sem hafa nýlega hafið eða eru við það að hefja sérnám í myndgreiningu hérlendis.

Á næstu 20 árum hætta að minnsta kosti 35 röntgenlæknar störfum vegna aldurs. Þá er ótalið brottfall af öðrum orsökum. Líklegt má telja að fleiri muni í framtíðinni notfæra sér það að hætta störfum fyrir hefðbundinn eftirlaunaaldur eða að minnka starfshlutfall. Ef gert er ráð fyrir því að allir hætti 70 ára og einn læknir bætist við á hverju ári vegna nýliðunar í stéttinni verða 46 læknar starfandi hérlendis árið 2030 (mynd 2) samanborið við 61 í dag. Þá er gert ráð fyrir að allir sem ljúki sérnámi starfi hér á landi. Þessir 46 fullnægja þannig engan veginn þeirri mannaflaþörf sem er til staðar í dag, hvað sem verður eftir 20 ár. Með hækkandi meðalaldri eykst algengi langvarandi sjúkdóma hratt2 og kröfur til myndgreiningardeilda hvað varðar aðgengi að rannsóknum eykst sífellt, í takt við aukinn tækjabúnað og fleiri rannsóknarmöguleika. Af þeim orsökum er mannaflaþörfin sennilega vanmetin. Útlitið er þó ekki eins svart og spáð var árið 2000.3 Þá stefndi í að raunverulegur fjöldi árið 2012 yrði 24 miðað við starfandi fjölda árið 2000 en miðað við núverandi tölur væri sami fjöldi árið 2012 60 manns og er þá ekki gert ráð fyrir nýliðun. Í nýlegri spá SNAPS (Samnordisk arbetsgrupp for prognos- och specialistutbildning) starfshópsins4 sem skoðar mannaflaþörf út frá hagvexti og mannfjölda er annars vegar gert ráð fyrir offjölgun lækna og hins vegar læknaskorti á Íslandi árið 2015. Þegar tekið er tillit til núverandi efnahagsaðstæðna á Íslandi er sennilegt að hagvöxtur verði ekki sá sem spáð var í þeirri skýrslu og það offramboð á læknum sem þannig var reiknað með síður líklegt. Því má gera því skóna að ástandið verði heldur á hinn veginn, að læknum muni fækka enn frekar hér á landi og þá í öllum sérgreinum, þar sem þær fámennustu eru eins og áður í mestri hættu að verða útundan. Hvað er til ráða?

Þakkir fá Birna Jónsdóttir röntgenlæknir og formaður LÍ fyrir aðgang að upplýsingum um mannafla og Sólveig Jóhannsdóttir hagfræðingur LÍ fyrir aðstoð við efnisöflun.

Heimildir

  1. Guðbjartsson T, Viðarsdóttir H, Magnússon  S. Menntun, starfsvettvangur og framtíðarhorfur á vinnumarkaði íslenskra skurðlækna. Læknablaðið 2010; 96: 603-9.
  2. Heimisdóttir M. Mönnun í lækningum á Íslandi. Læknablaðið 2010; 96: 599.
  3. Hannesson PH. Mannaflaþörf í myndgreiningu á næstu árum. Stefnir í óefni? Læknablaðið 2000; 86: 197-8.
  4. SNAPS Samnordisk Arbetsgrupp för Prognos- och Specialistutbildningsfrågor. Den framtida läkararbetsmarknaden i de nordiska länderna 2010.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica