01. tbl. 97. árg. 2011
Umræða og fréttir
Í upphafi skyldi endirinn skoða – um húðflúr
Fáum blandast hugur um að húðflúrun hafi færst í vöxt á undanförnum árum. Ekki liggur þó fyrir beinhörð tölfræði um efnið en þó fer aukningin tæpast á milli mála og sérstaklega meðal ungs fólks. Tískusveiflu vilja sumir kalla þetta, sem gæti bent til þess að ef sveiflan rénar vilji margir losna við skreytingarnar af kroppnum. Það gæti reynst þrautin þyngri samkvæmt þeim upplýsingum sem Læknablaðið hefur aflað.
Þrátt fyrir miklar framfarir í leisertækni og lýtalækningum almennt er mjög erfitt að fjarlægja
húðflúr svo vel sé og árangurinn er sjaldnast ásættanlegur, segir Rafn Ragnarsson lýtalæknir.
Minnihluti upplýstur um smithættu
Á vef landlæknisembættisins er bent á smit- og sýkingarhættu sem alltaf er til staðar við húðflúrun eða líkamsgötun, en að sögn Árnýjar Sigurðardóttur hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar hafa ekki komið upp tilfelli sýkinga eða smits vegna húðflúrunar hérlendis um langt skeið. Húðflúrunarstofur eru starfsleyfisskyldar og segir Árný að eftirlit með þeim sé í fullu samræmi við heilbrigðisreglugerð og samstarf við stofurnar sé mjög gott. „Það sem helst var kvartað yfir var ef unglingar undir 18 ára aldri voru að láta húðflúra sig án leyfis foreldra en upp komu dæmi um að skrifleg leyfi foreldra höfðu verið fölsuð. Nú neita húðflúrarar yfirleitt að húðflúra yngri en 18 ára nema þeir komi í fylgd foreldra eða forráðamanna.“
Á vef landlæknis eru nefndir þrír alvarlegir smitsjúkdómar sem vitað er að geta smitast við húðflúrun sem og aðra líkamsgötun. Þeir eru lifrarbólga C og B og alnæmi. Á vefnum segir að staðfest dæmi séu um slík smit við húðflúrun og smithættan talin svipuð og þegar heilbrigðisstarfsfólk stingur sig á óhreinum áhöldum við störf sín.
„Af 100 heilbrigðisstarfsmönnum sem meiða sig á nálum eða álíka áhöldum sem vitað er að hafi komist í snertingu við blóð eða líkamsvessa sýkta af lifrarbólguveiru B má reikna með að 19 til 30 smitist af lifrarbólguveiru B. Við sömu aðstæður, þar sem um er að ræða lifrarbólguveiru C, gætu þrír til tíu smitast og ef um alnæmisveiru er að ræða má búast við að færri en einn af 300 smitist,“ segir á heimasíðu landlæknis.
Í marsmánuði 2008 lagði fyrirtækið Rannsóknir og greining spurningar um húðflúr og líkamsgötun fyrir unglinga í öllum grunnskólum landsins eftir að Umhverfisstofnun, landlæknisembættið og Heilbrigðiseftirlitið sýndu því áhuga að fá upplýsingar um málefnið. Jón Sigfússon framkvæmdastjóri Rannsókna og greiningar varð góðfúslega við þeirri beiðni Læknablaðsins að fá að birta hluta af niðurstöðunum.
„Rannsóknin var lögð fyrir árið 2008 meðal um 85% nemenda á landinu öllu. Áhugavert er að 378 nemendur í 8., 9. og 10. bekk segjast vera með húðflúr og 1004 með pinna eða hringi annars staðar en í eyrum. Þá hefur mikill meirihluti unglinga fengið leyfi fyrir aðgerðinni fyrirfram en minnihluti hefur hugsað út í smithættu eða fengið leiðbeiningar um smithættu,“ segir Jón Sigfússon um niðurstöðurnar.
Ekki hefur verið kannað hérlendis hversu margir af þeim sem fengið hafa húðflúr sjá eftir því og vilja láta fjarlægja það. Samkvæmt niðurstöðum könnunar í Bandaríkjunum (2008) sjá um 16% þeirra sem fengið hafa húðflúr eftir því og vildu gjarnan losna við það.1 Helstu ástæður þess að svarendur vildu losna við húðflúrið var að þeir höfðu látið húðflúra sig á ungum aldri og innan við tíu árum síðar hafði líf þeirra breyst svo húðflúrið var orðið þeim til trafala. Nýtt starf, maki eða barneignir voru meðal ástæðna sem nefndar voru.
Kostnaðurinn við að fjarlægja húðflúr getur reynst umtalsverður, að ekki sé sagt mjög mikill. Látum nægja að segja að húðflúrið þarf ekki að vera mjög stórt til að kostnaðurinn hlaupi á hundruðum fremur en tugum þúsunda og þarf varla að taka fram að Sjúkratryggingar Íslands taka ekki þátt í kostnaði við að fjarlægja húðflúr.
Jón Þrándur Steinsson sérfræðingur í húðsjúkdómum og einn af eigendum Húðlæknastöðvarinnar, svaraði fyrirspurn Læknablaðsins um hvort þeir fjarlægðu húðflúr með leisergeislum með þeim orðum að tæki til þess væri ekki til á Íslandi. „Við erum vel búnir leiserum á Húðlæknastöðinni en við meðhöndlun ekki húðflúr. Við erum ekki með nógu góðan leiser í það og svoleiðis tæki er ekki til á Íslandi. Það þarf þá að kaupa sérstakan leiser fyrir það en við höfum metið það svo að hann myndi tæplega standa undir sér, því svona tæki eru rándýr bæði í innkaupum og rekstri. Við höfum þó oft íhugað það.“
Svar Jóns Þrándar bendir til þess að nokkur eftirspurn sé eftir því að fá húðflúr fjarlægð.
Útkoman veldur oft vonbrigðum
Til að ná varanlegri litun undir húð er litarefni sprautað með nál í átfrumur leðurhúðarinnar. Þegar fjarlægja á húðflúr með leisergeisla er geislanum beint að frumunum með litnum, bylgjulengdin stillt miðað við litinn og frumunum sundrað þannig að heilbrigðar frumur myndist í staðinn.
Rafn Ragnarsson lýtalæknir segir að það sé algengur misskilningur að halda að hægt sé að fjarlægja húðflúr með auðveldum og einföldum hætti. „Það er algerlega ábyrgðarlaus staðhæfing. Þrátt fyrir miklar framfarir í leisertækni og lýtalækningum almennt þá er mjög erfitt að fjarlægja húðflúr svo vel sé og árangurinn er sjaldnast nógu góður. Eftir standa ör og húðbreytingar sem einstaklingurinn er yfirleitt ekki sáttur við þó segja megi að búið sé að fjarlægja húðflúrið sjálft. Væntingar fólks til þessarar tækni eru yfirleitt ekki í neinu samræmi við raunveruleikann, útkoman veldur oft vonbrigðum og það er því mjög mikilvægt að gera fólki, sérstaklega ungu fólki, skýra grein fyrir því að húðflúrun er varanleg aðgerð.“
Rafn rifjar upp atvik þar sem til hans hafi komið maður í örvinglan og sagst vera að ganga upp að altarinu með sinni heittelskuðu og húðflúrið með nafni gömlu kærustunnar yrði bara að hverfa. „Og brúðkaupið var daginn eftir! Þetta er reyndar ekki eina dæmið um að fólk hafi séð eftir því að láta húðflúra sig og lent í vandræðum síðar á lífsleiðinni útaf óviðeigandi húðflúri.“
Ása Atladóttir deildarstjóri hjá landlækni segir að eflaust skorti talsvert á að ungu fólki sé gerð nægilega góð grein fyrir því að erfitt sé að fjarlægja húðflúr og að smithætta sé alltaf fyrir hendi.
„Það liggja heldur ekki fyrir neinar rannsóknir á því hvort litarefnin sem notuð eru við húðflúr séu algerlega skaðlaus en ofnæmisviðbrögð við ákveðnum litum eru þekkt. Á vegum Evrópusambandsins var sett á laggirnar rannsóknarnefnd árið 2003 sem átti að kanna þetta mál en mér vitanlega hefur hún ekki skilað neinum niðurstöðum. Persónulega finnst mér undarlegt að fólk vilji láta sprauta litarefnum undir húð sína án þess að hafa í höndunum fullkomnar upplýsingar um efnin,“ segir Ása.
Þekkt er að einstaklingar sýni ofnæmisviðbrögð við húðflúrun og eru ákveðnir litir meiri ofnæmisvaldar en aðrir. Er spurning hvort ekki væri skynsamlegt að einstaklingur tæki einhvers konar ofnæmispróf áður en ráðist er í viðamikla húðflúrun. Afleiðingar ofnæmis fyrir húðlitum geta verið bæði slæmar og langvarandi.
„Ég hef séð slæm tilfelli um sýkingar og afleiðingar af bæði ofnæmi og óþoli fyrir litaeefnunum. Óþol fyrir tilteknum litarefnum getur valdið óþægindum lengi því það tekur líkamann mjög langan tíma að losa sig við efnið,“ segir Rafn Ragnarsson.
Skrumkenndar upplýsingar
Rafn segir að í upphafi þegar byrjað var að fjarlægja húðflúr með leisergeisla hafi geislinn ekki verið með stillanlega bylgjulengd þannig að hann brenndi yfirhúðina og olli sýnilegum skemmdum í leðurhúðinni. Eftir urðu ljót ör sem ekki var auðvelt að laga. „Vissulega hefur leisertækninni farið fram en engu að síður er alltaf verið að ganga á húðina, eyða hárum, svita- og fitukirtlum svo hún er mun verri en áður. Þar sem liturinn liggur mjög djúpt er hægt að skera þetta burtu og græða á nýja húð eins og eftir brunasár, en ummerkin sjást alltaf greinilega, auk þess sem einnig verður sýnilegur „gluggi á þeim stað þar sem ágræðsluhúðin var tekin. Það er hægt að slípa, hefla, skera og brenna burt húðflúr en allt skilur þetta eftir ör. Ég held að ég tali fyrir fleiri lýtalækna en einungis sjálfan mig þegar ég segi að helst vilji maður ekki gera þetta því árangurinn er einfaldlega ekki nógu góður.“
Undir þetta tekur Jens Kjartansson klínískur prófessor í lýtalækningum og segir árangurinn af því að fjarlægja húðflúr, hvort heldur er með leisergeisla eða aðgerð, tæpast nokkurn tíma vera ásættanlegan. Það er helst þegar húðflúrið er svo smátt að hægt er að skera það burt og sauma saman sárið. Það er reyndar fátítt að fólk sé með svo lítil húðflúr að slík aðgerð komi að gagni.
Í ljósi þessa vekur athygli að þegar leitað er upplýsinga á vefsíðunni doktor.is kemur eftirfarandi svar upp við spurningunni um hvort hægt sé að fjarlægja húðflúr með leisergeislum. Svarið er komið nokkuð til ára sinna, dagsett 1. janúar 1999 og því eru rétt tólf ár síðan færslan átti sér stað. Undir svarið skrifar Sólveig Magnúsdóttir læknir.
„Það er rétt að í dag er hægt að fjarlægja húðflúr með leisergeislum. Til eru nokkrar tegundir leisergeisla, en þeir sem mest eru notaðir til að fjarlægja húðflúr eru svokallaðir Q-switced lazers og skilja þeir ekki eftir sig nein ör. Af þeim eru til nokkrar tegundir og er Ruby ein þeirra, Nd:Yag er önnur. Meðferð með Ruby Lazer hentar ágætlega til að fjarlægja húðflúr sérstaklega ef húð er ljós. Á einstaklingum með dökka húð er betra að fjarlægja húðflúr með Nd:Yag lazer, því minni líkur eru á að það svæði sem meðhöndlað er missi húðlit og verði ljósara en aðliggjandi svæði. Þess vegna er einnig mikilvægt að húðin sé ekki sólbrún þegar farið er í meðferð.“
Þetta er langt í frá eina svarið þessa efnis á netinu því segja má að allir geti fundið svar við hæfi ef leitað er. Fjölda greina (auglýsinga) um hversu auðvelt sé að fjarlægja húðflúr er þar að finna en innan um má einnig finna greinar þar sem skýrt er tekið fram að mjög erfitt og kostnaðarsamt geti reynst að fjarlægja húðflúr. Auk leisermeðferða er bent á að hægt sé að láta „raspa“ húðflúrið af og einnig er sagður á markaðnum áburður sem eyði húðflúri hægt og bítandi. Raspið er frumstæð og sársaukafull aðgerð sem skilur eftir sig ljót ör og lagðist nánast af eftir að leisermeðferð kom til sögunnar. Þegar leitað er svara við árangri af notkun áburðarins verða svörin skrumkennd og óljós.
Niðurstaðan virðist nokkuð ótvíræð. Það er vissara að hugsa sig vel um áður en ráðist er í að láta húðflúra sig því það verður ekki fjarlægt svo vel sé og þá með ærnum tilkostnaði.
www.harrisinteractive.com/vault/Harris-Interactive-Poll-Research-Three-in-Ten-Americans-with-a-Tattoo-Say-Having-One-Makes-Them-Feel-Sexier-2008-02.pdf. 21. desember 2010